Endurnýjun & tækifæri í Mosfellsbæ

 

Framboð Samfylkingarinnar er helsti möguleiki kjósenda í Mosfellsbæ til að eiga trúverðugan valkost í kosningum til sveitarstjórnar á komandi vori. Stundum segjum við að það sé „sami rassinn undir öllum þessum pólitíkusum“ eða að við séum orðin leið á flokkapólitík og að við viljum geta valið fólk en ekki flokka. En líkt og það er mikilvægt fyrir okkur, hvert og eitt, að hafa gildi og inntak í  lífi okkar þá þurfa framboð að hafa slíkt hið sama. Jafnaðarstefnan er alþjóðleg. Á ensku er vísað til hennar undir kjörorðunum „social“ og „democratic“. Kjörorðin eru frelsi, jafnrétti og kærleikur (bræðralag). Okkar ágæti Mosfellsbær þarf ekkert fremur en að á næsta kjörtímabili verði bæjarstjórn með samfélagslegar og lýðræðislegar áherslur.

Sveitarstjórnarkosningar 2010 ganga út á að hafa hugrekki í víðtæka endurnýjun og að nýta tækifærið til nauðsynlegra breytinga. Í Mosfellsbæ hefur Sjálfstæðisflokkurinn ríghaldið um stjórnartaumana um langt skeið. Það hefur verið margt líkt með langri setu flokksins í ríkisstjórn og pólitískri  útfærslu flokksins hér í sveitastjórn. Áherslan á flokkinn og foringjann hefur spillt fyrir lýðræðinu. Hindrað að fólkið hafi eðlilega aðkomu að ákvarðanatöku og sé mótandi um eigið umhverfi. Dæmi – meira en helmingur bæjarbúa undirritaði óskir um að helsta sundlaug bæjarins yrði að Varmá í góðum tengslum við önnur íþróttamannvirki, náttúru og útivistarsvæði. Ekki hlustað.

Trukkur, möl, malbik

Stór hluti bæjarbúa vildi standa vörð um kjörorðin „sveit í borg“ og að viðhalda góðum tengslum við náttúruna, vernda Álafosskvos, þrengja ekki að hesthúsahverfi og skólasamfélagi. Ekki hlustað. Nú ætlar sitjandi meirihluti að láta kirkju og menningarhús vera helsta stef í miðbæjarskipulagi. Eftir að hafa hugsað þetta mál ítarlega þá vil ég ekki ganga svona langt í að rugla saman trúfélagi og veraldlegu valdi. Niðurstaða mín er að falleg kirkja sómi sér ein og sér á svæðinu þar sem að Bæjarleikhúsið er nú staðsett. Það er mín áhersla að bæjarbúar fái að kjósa um þessa möguleika  í opinni kosningu.

Löng stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins slævir og deyfir innviði mannlífsins. Verktakalýðræðið og græðgivæðingin voru áberandi einkenni síðasta kjörtímabils. Mikið var stærilætið yfir uppganginum í bæjarfélaginu. Trukkarnir sem voru að keyra moldinni burt af ræktunarlandi sveitarinnar áttu að vera því til sönnunar. Mölin, malbikið og steypan urðu tákn framfara á kostnað menningarverðmæta, sögu og útivistar. Eitt helsta tákn Mosfellsbæjar Álafoss er nú umvafin malarhrúgum sem áttu að verða malbikaður göngustígur. Enginn ber ábyrgð. Við þurfum að gera það upp hvort að sú leið sem að Sjálfstæðisflokkurinn fór í skipulagsmálum að úthluta ábyrgð á þróun stórra byggingarsvæða til verktaka var skynsamleg leið. Þessi leið varð hornsteinn núverandi meirihlutasamstarfs.

Það er ekki tilviljun að samstarf Vinstri grænna og samningar við verktaka um uppbyggingu í Helgafellslandi eru undirritaðir á sama tíma. Með þeim gjörningi var í reynd ákveðið að færa skipulagsvald til verktaka út í bæ og lögvarinn réttur almennings tengdur stefnumótun og þróun eigin umhverfis varð algjör sýndarmennska. Í Krikahverfinu er fylgt þeirri stefnu að úthluta lóðum í eigu bæjarfélagsins og það er mín skoðun að slíkt hafi reynst mun heppilegra fyrirkomulag. Það er til íhugunar að á þeim tíma sem að okkur var sagt að "góðæri" væri í landinu fór stærstur hluti hins mikla peningaflæðis í steinsteypu. Það er líka athyglivert að einmitt á þessu tímaskeiði reis hátt hlutfall af ljótustu húsum borgarinnar. Ferkantaðir og karakterlausir kassar urðu helstu afurðir græðgi og hroka.

RósirBræður og systur! „Grípið geirann í hönd“ og tökum þátt. Gangið í Samfylkinguna í Mosfellsbæ fyrir 16. Janúar til þátttöku í lokuðu prófkjöri flokksins í Mosfellsbæ þann 30. janúar. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í forystusæti (1-3). Ákvörðun um þetta prófkjör er fyrsta skrefið í þá átt að jafnaðarstefnan verði aflvaki mannlífs og farvegur lýðræðis í bænum. Látum þetta verkefni heppnast og leggjum áherslu á að opna félagið og fjölgun félaga. Það eru einungis nokkrir dagar sem bæjarbúar hafa til þess að skrá sig til leiks. „Vertu til, er vorið kallar á þig, vertu til að leggja hönd á plóg. Komdu út, því að sólskinið vill sjá þig, sveifla haka, og rækta nýjan skóg“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband