Hann Kalli

Uppgötvaði að Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ hafði tileinkað mér  blogg á síðu sinni. Fagna því hreint og innilega að vera komin í gott samband við hann og vonast eftir að við getum náð að tala okkur saman inn í Fagurt Ísland og Græna framtíð. Set hér inn hluta af því sem ég beindi til forsetans.

Hafði farið á mis við þann heiður sem þú sýnir mér og mínum skoðunum með því að tileinka þeim heilt blogg. Takk fyrir það. Finnst hinsvegar miður að þú efist um einlægni mína og heilindi í starfi fyrir Varmársamtökin. Finnst líka miður að þú takir undir þráhyggju Hjördísar Kvaran um að samtökin séu einhverjar búðir gerðar út af Samfylkingu og Framsóknarflokki. Í þessari færslu þinni ertu bæði að halla réttu máli og gera lítið úr lýðræðislegu og opnu félagsstarfi. Þú varst á stofnfundi samtakanna, þar sem voru um 70-80 manns. Þar gátu allir gefið kost á sér eða verið tilnefndir í stjórn. Fyrst gaf kost á sér Ásta Björg sem er í stjórn sjálfstæðisfélags Mosó. Næst stakk Ragnheiður Ríkharðsdóttir upp á mér í stjórn. Síðan voru kosnar í stjórn Sigrún og Berglind sem höfðu unnið að undirbúningi stofnunar samtakanna.

Eftir stendur að þú, Bryndís og Jóhanna sögðuð í greinum og viðtölum í Sveitunga-blaði VG að það yrði meiriháttar umhverfisslys ef tengibrautin yrði lögð um Álafosskvos. Varmársamtöki álitu því að VG væri þeirra helsti samstarfsaðili í baráttunni, fyrir kosningar. Nú, þú segist hafa verið snöggur að átta þig á því, eftir kosningar, að fyrirhuguð tengibraut væri besti kosturinn fyrir nýja hverfið í Helgafelli. Hefði ekki verið hægðarleikur fyrir ykkur hjá VG að óska eftir fundi með Varmársamtökunum til að fá þau inn á ykkar nýju línu og sýn í málinu? Þó ekki væri nema að fulltrúar ykkar í bæjarstjórn og nefndum hefðu komið á einhvern af þeim opnu og almennu fundum sem Varmársamtökin hafa boðað um þetta mál.

Lopi3Vandinn við VG í Mosó er að þau virðast ekki vera samstíga megintóni í allri stefnumörkun VG á landsvísu. Það að samtökin krefjist þess að þið séuð menn orða ykkar og fylgið yfirlýstri stefnu flokksins verður að teljast eðlilegt. Þú verður að hafa nógu breitt bak í pólitík til að þola það og taka ekki persónulega. Eftirfarandi er úr landsfundarplaggi VG Græn framtíð; "Efling umhverfisráðuneytisins og stofnana á þess vegum þarf að haldast í hendur við nýja og framsýna stefnumörkun og nauðsyn samvinnu við frjáls samtök almennings. Slíkt samstarf grundvallast á Árósarsamningnum sem tryggir almenningi aðgang að upplýsingum, þátttöku í ákvörðunum og réttláta málsmeðferð í öllu er lítur að umhverfismálum".

Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ tapaði kosningunum fyrir rúmum áratug (1994) af því að hann hafði tekið hagsmuni eins verktakafyrirtækis fram yfir allt annað í uppbyggingu bæjarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði bæjarstjórnarkosningunum í fyrra út af óánægju með ólýðræðisleg vinnubrögð við sundlaugarmálið. Um helmingur kosningabærra bæjarbúa hafði skorað á bæjaryfirvöld að setja í forgang uppbyggingu vandaðrar almenningslaugar (inni- útilaug, pottar, rennibrautir) á Varmársvæði, því það hefði margvísleg samlegðaráhrif með göngustígum, útiaðstöðu, íþróttasölum, ásamt því að vera miðlægt í bæjarfélaginu þegar tekið er tillit til nýju hverfanna sem eru að byggjast upp núna.

Það sem er verst, er að þið VG fólk gangið inn í þennan þumbarahátt og þvergirðing í vinnubrögðum. Tortryggja aðila sem vilja hafa meiningar um framvindu bæjarfélagsins, mæta ekki á fundi þar sem þessi mál eru rædd o.s. frv. Það var sannleikskorn í því hjá Jóni Baldvin sem hann sagði í upphafi sinnar ræðu í Þrúðvangi á baráttufundi Varmársamtakanna, með um 130 fundargestum. "Þetta mál snýst fyrst og fremst um mannasiði". Að fólk tali saman skiptist á skoðunum og vinni sig að sátt þegar ágreiningur verður í skipulagsmálum.

Það eru mikil vonbrigði að VG í Mosó skuli ganga hagsmuna fjarmagns og verktaka umfram viðleitni að hlusta og taka tillit til fólksins í bænum og félagasamtaka. Því hlítur það að vera eðlileg fyrirspurn til þín í lokin; Hvernig vilja VG í Mosó útfæra samstarf við "frjáls samtök almennings" í skipulagsmálum? Það þýðir ekki að kokka lengur til grautinn um samsæri og aðför. Þið getið verið leiðarvísirinn hvernig góð samskipti, upplýsingaflæði og heilbrigði í ákvarðanatöku á að vera.

        Með kærri kveðju og ósk um samstarf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband