Jarðvegur lífsgilda eða hamfara

Í rúmt ár hef ég verið varaformaður Varmársamtakanna. Megináherslur þeirra eru á umhverfi og íbúalýðræði. Aldeilis mikilvægir og merkilegir málaflokkar. Fyrir um tveimur árum síðan stóð ég fyrir undirskriftasöfnun er tengdist uppbyggingu á sundaðstöðu Mosfellsbæjar. Sjálfstæðisflokkurinn hafði ákveðið að hætta við uppbyggingu glæsilegrar laugar á Varmársvæðinu og farið´út í að skipuleggja aðallaug bæjarins á vestursvæði. Um það bil helmingur bæjarbúa skrifaði undir áskorun þess efnis að fyrst yrði farið í uppbyggingu að Varmá og þar yrði aðallaug bæjarins, enda væri hún miðlægt og hefði samlegðaráhrif við aðra aðstöðu til útivistar og íþrótta. Bæjarstjórn gat ekki tekið tillit til þessarar bónar og enn finnst mér að málið hafi bara snúist um stolt Sjálfstæðisflokksins að frmkvæma ekki glæsilegar tillögur fyrri meirihluta um sundlaugaraðstöðu að Varmá. Þarna vaknaði áhugi minn á íbúalýðræði.

100_0896Um nokkurra áratuga skeið hef ég unnið að´málefnum útivistar og heilsueflingar. Ég er úr sveit og allt frá bernsku hefur stór hluti af tilverunni snúist um að hlaupa á fell og fjöll. Það er sagt að sveitamenn sem leggja mikið upp úr tengslum við náttúruna setjist að í Mosfellsbæ. Við kaupum okkur raðhús í Mosfellsbæ og byrjum að rækta garðinn og höfum frá upphafi tengsl við Álafosskvos. Nýtum möguleika bæjarins til vaxtar og lífsfyllingar. Fór nokkru síðar að vinna á Reykjalundi og kynntist þeim jákvæða og góða uppbyggingaranda sem þar ríkir. Keypti hlut í hesthúsi og hef notið einstakra göngustíga og reiðstíga bæjarfélagsins. Eins og gengur með foreldri þá eru tengsl við Varmárskóla og íþróttamiðstöðina. Fljótlega fór ég að nota fellin  í nágrenni bæjarins sem minn líkamsræktarsal. Eitt vorið vann ég að því í samvinnu við garðyrkjustjóra Mosfellsbæjar að merkja hringleiðir upp á fellin. Varmársvæðið með sínum perlum til útivistar og mannræktar er eins og stilkur á fjögurra laufa smára sem myndaður er af fellunum. Mín ósk var að vegur þessa útivistar- og verndarsvæðis yrði sem mestur.

Mosfellsbær byggist hratt upp og grænu svæðunum fækkar. Nýlega er búið að selja verktökum Sólvallatúnið, sem er framan við stofugluggann. Þannig að eftir nokkur ár tapa ég því frelsi að geta pissað út í garði og horft á stjörnurnar. Þeim mun verðmætara er að halda eftir útivistar- og verndarbelti upp með Varmá. Jafnframt er mikilvægt að til séu aðilar í bæjarfélaginu sem gæti hagsmuna hins almenna íbúa sem sest hefur hér að á síðastliðnum árum undir formerkjunum "sveit í borg" sem að er útgangspunktur í aðalskipulagi bæjarins. Skipulagslög, náttúruverndarlög og upplýsingalög vernda aðkomu og rétt einstaklinga að mótun síns umhverfis og skipulags. Það er hluti af lífsfyllingu að vera þátttakandi. En því fylgir ábyrgð. Að markmiðið sé að leita bestu lausna og að það sem sagt er og gert hafi það markmið að efla og styrkja samfélagið.

Gærdagurinn var með þeim erfiðari. Hafði fengið hálsbólgu daginn áður og það var seinasti dagurinn til að skila inn einkunum nemenda í Borgarholtsskóla. Upp úr klukkan tíu er hringt í mig frá blaðamanni Morgunblaðsins vegna skemmdarverka á vinnuvélum í Helgafellhverfi. Blaðamaður segir mér að framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis tali um milljónatjón og segir að ég með minni framgöngu og Varmársamtökin séu ábyrg. Þurfti að bæta því inn í dagsverkið að standa þokkalega uppréttur í fjölmiðlum og svara þessum ærumeiðandi aðdróttunum og alvarlegri ásökunum á persónu heldur en þekkst hefur í óupplýstu lögreglumáli. Ekki virðast lögregluyfirvöld tengja málið meira við mína persónu en svo að ég hef ekki fengið hringingu eða beðin um að koma í viðtal. Hinsvegar hef ég ekki náð í þann sem rannsakar málið. Nú stend ég frammi fyrir því hvort ég eigi að nýta mér aðstoð lögfræðinga og fá þessi ummæli framkvæmdastjórans dæmd ómerk. Ég hef í raun ekki tíma eða fjármagn til að standa í slíku.

Þrátt fyrir yfirlýsingar verktakans um 2-3 daga tafir var allt á fullu í að aka burt mold og keyra inn möl og grjóti inn í kvosina, bæði í gærkvöldi og í dag uppstigningardag. Meira að segja er búið að leggja hliðarveg sem stefnir beint að Varmá. Allt þetta inngrip er talið leyfilegt á þeim forsendum að þeir hafa upp á vasann tölvupóst frá tækni- og umhverfissviði bæjarins að Mosfellsbær geri ekki athugasemdir við þessa "lagnavinnu". Ekkert deiliskupulag er í gildi. Það var afturkallað. Það sem er nokkuð sérstakt í þessari pípulögn er að ofan á hana er lagður fimm metra malarpúði sem er margvaltaður. Ég fór upp á hól ofan við gömlu Álafossverksmiðjuna og tók myndir í morgun, ég var nokkrum metrum frá Varmá sem að lítur hverfisvernd. Þar hótaði mér og ógnaði framkvæmdastjóri verktakans. Sá sami og vígreifur ásakaði mig persónulega um milljónatjón í gær í fjölmiðlum, hafa farið hamförum og hvatt til skemmdarverka. Undir þessar ásakanir hefur verið tekið af fulltrúum meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Það finnst mér alvarlegt að taka undir ásakanir á persónu með þessum hætti. Það hvarflar að manni að í Mosfellsbæ ríki verktakalýðræði. Mig langar að finna leiðir til að við getum komist sæmilega frá þeim vaxtarverkjum sem Mosfellsbær gengur í gegnum þessa dagana, en vona allavega að ekki sé nauðsynlegt að hræða mig frá mínum lífsgildum og vilja til þáttöku í mótun samfélagsins. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Þetta er því miður svona þar sem íhaldi fer með völd almannahagsmunir og skoðanir eru fótum troðnir og engan vegin hlustað á vilja fólksins.Held að þið bræður kannist svolítið vel við það.Þar á ég við þjóðlendumálin.Leiðréttu mig ef ég fer með einhverjar fleipur þarna.

Hallgrímur Guðmundsson, 17.5.2007 kl. 18:57

2 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Jæja Gunnlaugur  nú stefnir í að þinn flokkur skelli sér bara í samsteypustjórn með þessum ólýðræðislega Sjálfstæðisflokki. Vona samt að þér sé ekki of þungt um hjarta vegna þeirra frétta

Guðmundur H. Bragason, 17.5.2007 kl. 20:21

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Halli, þú ferð alveg rétt með. Við höfum víða merki um þessi ofríkis og valdastjórnmál. Þjóðlendumálin eru auðvitað spes. Að flokkur sem segist hlynntur einkaeign gangi harðast fram í þessu nútíma landnámi ríkisins. Meira að segja að taka jarðir sem ríkið hafði áður selt.

Guðmundur, hún var bara sú eina sæta á ballinu, en hún hefur gott bein í nefinu og ég treysti því að hún einnleiði eðlisbreytingu á stjórnarfarinu í landinu. Hrafn á Hallormsstað var einu sinni spurður að því hvort það samræmdist að hann sem Rússakomm væri í Framsóknarflokknum. Hann sagði, snöggur til; "Hvar á trúboðinn að vera nema mitt á meðal heiðingjanna?"

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.5.2007 kl. 22:00

4 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Ertu viss um að hún sé ekki akkurat sú næst sætasta en gerir sama gagn

Guðmundur H. Bragason, 17.5.2007 kl. 22:57

5 identicon

Eftir atburðarrás undanfarinna skrifa , sér í lagi þau rætnu orð sem Gunnlaugur B. Ólafsson hefur látið falla um eiginmann minn, Karl Tómasson, get ég ekki lengur staðið hjá og orða bundist.

Ég hef  fylgst með umræðunni sem  átt hefur sér stað varðandi skipulagsmál hér í Mosfellsbæ og margumrædda tengibraut sem fyrirhuguð er fyrir ofan Álafosskvosina. Það hefur ekki farið fram hjá mér að allt frá því að Karl tók við embætti forseta bæjarstjórnar hafa illar raddir farið á kreik og ótrúleg illgirni og hatur beinst að honum.

Það var reyndar búið að vara mig við því af fólki sem vel þekkir til að ég þyrfti að taka á honum stóra mínum og brynja mig gagnvart persónum sem aldrei kæmu til með að láta hann í friði, sama hvaða málefni væru til umræðu. Það eitt að maður kemst til valda hefur alltaf þau áhrif að ákveðnir menn, eða persónur, geta ekki unnt því sökum þess að það sjálft  hefur ekki náð þeim markmiðum sem það óskaði sér.

Oft á tíðum er þetta sjálfumglatt fólk sem reynir allt hvað af tekur  að koma sér á framfæri en á ekki erindi sem erfiði sökum aðferðarfræðinnar sem það notar.

Líney Ólafsdóttir .

Líney Ólafsdóttir. (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 00:56

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæl Líney

Finnst þú gætir beint athyglinni annað en að mér og minni persónu til að breytt verði um aðferðafræði í umræðu um skipulagsmál. Hef aldrei farið inn á persónu eiginmanns þíns í mínum skrifum. Hinsvegar lét hann standa í tvær vikur inn á sínu vefsvæði stórkarlaleg skrif gegn mér og útúrsnúning á grein í Mosfelling. Bætti svo í fyrradag enn um betur með að gera enn eitt innleggið um mína persónu og finna út úr því stórt samsæri. Þá fyrst fannst mér mælirinn fullur. Ráðlegg þér að byrja á því að fá mann þinn til að eyða þessum færslum, hafa hugrekki til að ræða málin af skynsemi, á opinn og heiðarlegan hátt.

Þó ég hafi síðustu daga í fjölmiðlum orðið fyrir alvarlegri ásökunum í óupplýstu lögreglumáli heldur en dæmi eru um síðari misserin, hef ég ekki séð ástæðu til að opinbera mitt tilfinningalíf eða áhrif þess á fjölskylduna. En undir þessar dylgjur hafa fulltrúar úr meirihluta bæjarstjórnar tekið í viðtölum og skrifum. Hef boðið Karli bæði í síma og netskrifum að funda með honum um leiðir til að lyfta umræðunni á hærra plan. Það hefur hann ekki þegið, en notað ómerkilegustu atriði til að vega að mér úr launsátri. Að blanda fjölskyldu minni inn í þessa umræðu sem snýst um þróun byggðar og samfélags hefur mér ekki dottið í hug og þykir í raun ósmekkleg aðferðafræði. 

           Óska fjölskyldu þinni og mannlífi öllu í Mosfellsbæ alls hins besta,

Gunnlaugur B Ólafsson, 19.5.2007 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband