Landnáma og landnám ríkisins

Fyrir kosningar töluðu þingmenn og ráðherrar um nauðsyn þess að endurskoða þjóðlendulög og aðferðafræði við meðferð þjóðlendumála. Meðal annars var rætt um að ríkið gerði ekki kröfur inn á þinglýst eignarlönd, sem að sátt hefur ríkt um að tilheyri tilteknum lögaðilum áratugum eða árhundruðum saman. Að landeigendur verði ekki látnir þurfa að sanna eignarrétt sinn allt aftur til landnáms. Einnig í ljósi þess að umfang málsins er margfalt meira í dómstólum heldur en gert var ráð fyrir í upphafi. Það hefur verið staðfest af þingmönnum að þeir álitu að tilgangur laganna væri að skera úr um eignarhald á afréttum og almenningum eða svonefndu einskis manns landi. 

Margt bendir til að þingmenn muni ekki hafa hugrekki til að taka á þessu máli. Þar ræður mestu ákveðin lögfræðingakúltúr sem er ríkjandi í þjóðfélaginu. Málið er orðið það flókið og umfangsmikið að fáir ná að hafa fullan skilning á forsendum þess. Því veltur ábyrgðin yfir á “sérfróða” menn í dómskerfinu. Framkvæmd þjóðlendulaga þróaðist frá markmiðinu um að úrskúrða um einskis manns lönd fyrir Óbyggðanefnd í að ríkið gerir kröfur inn á meginþorra allra jarða landsins, sem eiga eitthvað fjalllendi. Þar að auki er raunin sú að stórum hluta af niðurstöðum Óbyggðanefndar er vísað til æðri dómstiga, sem kallar á umfangsmikið málavafstur fyrir héraðsdómi og hæstarétti. Þessu fylgja gríðarleg útgjöld sem að ríkið hefði getað keypt margan hálendismel fyrir og forðast öll þau leiðindi sem málinu hafa fylgt. 

LandnámaEf við gerum ráð fyrir að út úr öllu málavafstrinu komi einhver sameiginlegur skilningur, þá er rétt að spyrja hvert sé hið einfalda meginþema um mörk eignarlands og þjóðlendna sem lesa má út úr öllu saman. Hæstiréttur virðist fara fram hjá öllum þinglýsingum, nýtingu, sölusamningum og öðru sem styður beinan eignarrétt og lætur spurninguna um landnám hafa mesta vigt. Þar hafa frásagnir Landnámu verið þeirra haldreipi. Það er með ólíkindum að sögusagnir úr fornritum verði meginviðmið við uppkvaðningu dóma á 21. öldinni. Þrjú til fjögur hundruð ára eignar- og nýtingarsaga verður léttvæg í samanburði við frásagnir af landnámi. Það er þó afstaða okkar helstu sérfræðinga í Landnámu s.s. Sveinbjörns Rafnssonar og Einars G. Péturssonar og fleiri að hún sé fyrst og fremst sögusagnir sem voru skrifaðar upp 200 árum eftir landnám. Auk þess tók texti Landnámu breytingum og sagnaritararnir voru á Vesturlandi og Suðurlandi, sem rýrir mjög áreiðanleika frásagna í öðrum landshlutum. 

VíðidalurÍ nýlegri dómum er ekki eingöngu miðað við frásagnir Landnámu, heldur reynt að meta líkindi á að landið hafi verið numið. Tímapunktur og áhugi dómara beinist sem sagt enn að mestu að því hvað gerðist fyrir rúmum þúsund árum, frekar en skjalfestri eignarsögu og nýtingu í fleiri hundruð ár. Í úrskurði Hæstaréttar varðandi Stafafell í Lóni segir; “Staðhættir og fyrirliggjandi heimildir um gróðurfar voru þó ekki talin styðja að stofnað hefði verið til beins eignarréttar á fjalllendinu milli hásléttanna og Vatnajökuls með námi.” Þarna tel ég nú að viðmiðið sé fyrst og fremst sporleti ríflega miðaldra dómara í vettvangsferðum, en þeir fóru aldrei inn á það land sem þeir dæmdu þjóðlendu. Hinsvegar er í fjölda vísitasía tiltekið að Stafafell eigi Kollumúla og Víðidal, sem er meginpartur umrædds svæðis. Auk þess er það athyglisvert að dalir sem skerast þarna langt inn til lands eru ekki nema í um tvö hundruð metra hæð og Víðidalur er gróðursæll dalur.

Eðlilegt er að gera þá væntingu til dóma að þeir stuðli að aukinni sátt. Í sveitum landsins hefur ríkt ákveðinn skilningur í fleiri hundruð ár varðandi eignarrétt á landi, þó landeigendur hafi tekist á um mörk milli jarða, þá hafa í flestum tilfellum myndast meginviðmið sem afmarkast oftar en ekki af ám og vatnaskilum. Staðir eða kirkjujarðir voru oft landmiklar og lönd þeirra hafa myndað sögulegar heildir um langt skeið. Með Þjóðlendulögum og hinum umfangsmikla málarekstri þeim tengdum er verið að innleiða nýja hugsun og forsendur fyrir umfangsmikið endurgjaldslaust eignarnám á landi. Ríkið, Óbyggðanefnd og Hæstiréttur hafa sett öll viðmið um eignarlönd í uppnám sem mun leiða af sér viðvarandi ósætti. Annarsvegar er fleiri hundruð ára eignarsaga, en hinsvegar ævaforn viðmið Landnámu og óljósar forsendur gróðurúttektar til mats á líkindum þess að land hafi verið numið. Þarna hefði Alþingi þurft að koma inn í og færa vægið yfir á sögu eignarhalds og nýtingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband