Stóri E dagurinn

 Evrópumenn

Þetta er vissulega sögulegur dagur. Ljóst er að ríflegur meirihluti á Alþingi styður aðildarviðræður við Evrópusambandið. Nú þarf einungis að stilla saman strengi. Ég er bjartsýnn á framhaldið. Persónulega er ég sammála stjórnarandstöðunni um þörfina á að útlista betur forsendur eða áherslur okkar í viðræðunum. Hinsvegar finnst mér ekki ástæða til að umræðan verði sett inn í einhverja nefndarvinnu og kæfð þar fram á næsta vetur.

Þessi dagur er sögulegur þar sem fyrsta skref er stigið í átt til virkrar þátttöku í samstarfi Evrópuþjóða. Þannig setjum við formlega punkt aftan við tengslin við Bandaríkin var helsti útgangspunktur utanríkisstefnunnar. Samband sem byggði á því að við værum þiggjendur á fjármagn gegn aðstöðu fyrir herinn. Þessi nýi hornsteinn utanríkisstefnu byggir á því að við ætlum að starfa á heilbrigðan hátt með frænd- og vinaþjóðum, lýðræðisríkjum í Evrópu. Við ætlum að gefa og þiggja, vera virk og mótandi meðal annars í sjávarútvegsmálum.

Það kom mér verulega á óvart að sjá hversu mikill vilji er þvert á flokka að hefja viðræður. Þeir sem að eru á móti því að málin séu rædd er sundurleitur hópur án samnefnara. Fólk sem á ekki svör við því hver eigi að vera framtíðarstaða Íslands í samfélagi þjóðanna. Athyglisvert að Steingrímur J Sigfússon virðist ætla að styðja tillögu ríkisstjórnarinnar og þá sennilega drjúgur hluti af þingflokki Vinstri grænna. Hann þarf auðvitað að dansa línudans gagnvart rétttrúnaðarhluta flokksins.

Bjarni Benediktsson stendur frammi fyrir sama vanda. Hann vill ekki fara í sögubækur sem baráttumaður gegn Evrópusamstarfi. Línudansinn sem að hann ætlar að dansa fyrir rétttrúnaðaröflin í sínum flokki er í framsóknartakti. Að leggja megináherslu á að skilgreina forsendur viðræðna. Þorgerður Katrín lýsir afgerandi stuðningi við aðildarviðræður og á svipuðum nótum talar Ragnheiður Ríkharðsdóttir, en hún vill sjá að tillaga ríkisstjórnarinnar verði sameinuð við tillögu stjórnarandstöðunnar.

Það færi vel á því að þingið sýndi sem mestan þroska í vinnubrögðum við vinnslu þessa mikilvæga máls og afgreiddi vel útfærða tillögu sem að víðtæk sátt ætti að nást um. Með minnihlutastjórninni byrjaði nýtt form vinnubragða á Alþingi. Viðleitni til að leita sátta og málamiðlunar. Samfylkingin á að standa sig í því hlutverki að vera kjölfesta lýðræðis og réttlætis. Það væri mikill sigur fyrir flokkinn að ná þessu máli í gegn með góðu samstarfi við breiðan meirihluta úr öllum flokkum. Þar er full ástæða til að nálgast tillögu stjórnarandstöðunnar með opnum huga.

ESBþjóðir


mbl.is „Sögulegur dagur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sorgardagur fyrir Íslensku þjóðina.

Nú er orðið ljóst að nær allir stjórnmálaflokkarnir eru handónýtir til þess að standa vörð um sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar gegn þessu ESB rugli.

Stjórnmálamennirnir fá allir hland fyrir hjartað þegar ESB er annarsvegar og geta ekki einu sinni staðið í lappirnar með samþykktum sinna eigin flokksmanna.

En þetta er ekkert sér Íslenskt, þetta var nákvæmlega svona líka í Noregi á sínum tíma, þar var öll stjórnmálaelítan nánast samdóma í þessu ESB rugli, öll fjölmiðlaelítan, nær allt sérfræðinga- og háskólasamfélagið, öll atvinnurekendasamtökin og öll verkalýðsforystan kyrjuðu í einum ESB kór og sögðu að Noregur yrði einangrað eins og Norður Kórea Norðursins ef ekki yrði gengið í þetta bandalag.

Samt sagði Norska þjóðin NEI við ESB tvisvar sinnum og samt er Noregur ekki orðin að Norður Kóreu Norðursins.

Það sama mun verða hér Íslenska þjóðin mun hafna ESB aðild landsins og það er bara fínt og jafnvel betra fyrir baráttu okkar ESB andstæðinga að við vitum það nú að það er og verður ekkert á stjórnmálaflokkana að treysta í þessum málum.

Við berjumst fyrir frelsi og fullveldi landsins gegn ESB yfirráðum og gegn FLOKKSRÆÐINU, en um leið fyrir raunverulegu og milliliðalausu lýðræði.

                        ÁFRAM - ÍSLAND - EKKERT ESB- RUGL !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 11:33

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Stundum les maður blogg sem innihalda ástæðulausan æsing um ESB málið. Það virðis verulega óþægilg tilfinning fyrir suma, tilhugsunin um að fatrið verði í aðildarviðræður. Við fáum upp á borðið hvað okkur býðst. Þjóðin greiðir athvæði og samþykkir eða fellir aðildarsamning Íslands. Ekkert ólýðræðislegt við þetta ferli. Ástæðulaust að kalla íslenska stjórnmálamenn ónefnum. Milliliðalaust lýðræði er sjarmerandi hugsun og mér finnst megi auka slíkt, enda mikil umræða um það. Ég tel þó að áframhaldandi lýðræðisumbætur geti vel farið saman með hugsanlegri aðild Íslands að ESB. Kannski erum við á hárréttum tímapunkti núna að fara inn, einkum vegna góðra tíðinda af sjávarútvegsmálum þar.

Jón Halldór Guðmundsson, 29.5.2009 kl. 12:21

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þið eru samþykkir að fara inn í hringiðu rugl fyrir næstu aldir en talið alltaf um að við megum ekki taka af ráðin af komandi kynslóða. Að spyrja ESB er sama og að byrja á ferli sem ekki er hægt að bakka úr. Þeir hætta ekki fyrr en þeir hafa náð okkur inn. Við erum andlega aum þjóð og höfum alltaf sagt já við útlendinga.

Valdimar Samúelsson, 29.5.2009 kl. 12:43

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Nafni, þú áttar þig á að Noregur er undantekningin. Flestar þjóðir í Evrópu hafa komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum þeirra séu best tryggðir í samstarfinu.

Forsendur Noregs munu líka breytast þegar grunnurinn veikist undir EES samstarfinu og Norðurlöndin fara í nánari samvinnu um að hafa sameiginleg áhrif innan ESB.

Já, Jón Halldór ég held að þetta sé rett tilfinning. Æskilegar breytingar á lýðræðishefð í landinu, aðildarviðræður við ESB og rétti tíminn til að koma sterk inn í endurskoðun á fiskveiðistefnu sambandsins. Við erum menn sem sjáum möguleika og tækifæri en ekki einvörðungu hindranir og takmarkanir!

Hefur þér ekkert dottið í hug Valdimar að með snarbrenglaðri hegðun okkar á alþjóðavettvangi verði okkur ekkert lengur boðið að vera með. Það er ekkert sjálfgefið að ESB taki við hverjum sem er. Þeir hafa engan áhuga á að "ná okkur inn" til að hafa eitthvað af okkur. Samstarfið snýst um mjög margt annað en peninga og aura. Verum andlega sterk þjóð sem að þorir að vera virk í samfélagi þjóðanna í álfunni.

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.5.2009 kl. 14:49

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Gunnlaugur það hefir engin sagt hvað hag við höfum af þessari vitleysu. Ég vil heldur ekki spyrja því ég hef ekki áhuga á því frekar en að far pranga við bílasölumann þegar ég hef ekkert að gera við fjórða bílinn. Skilur þú við eigum land og haf og fólk jafnvel lofthelgi sem við notum sem lifibrauð. Hvað annað væri hugsanlegt að við vildum. Kannski Aðild og frama fyrir pólitíkusa. Hmmm já nú skil ég. Þetta snýst bara um það. Veistu mér líður illa í fyrsta sinn á allri æfi minni og ég meina það. Það að vita að einhvað fólk með hugsjón geti gefið landi okkar eftir meir en 1000 ára búsetu.

Valdimar Samúelsson, 29.5.2009 kl. 15:54

6 identicon

Loksins, loksins verður íslenska þjóðin fullvalda og gengur í ESB.  Með fullveldisafsli öðlast Ísland frelsi til orða og athafna sem það hafði ekki áður.  ESB er samnefnari alls þess besta sem mannkynið hefur upp á að bjóða og þó víðar væri leitað.  Með ESB aðild fáum við styrk til að takast á við erfiðleika sem okkur væri annars ofviða.  Danir voru hér áður í þessu hlutverki en nú tekur ESB við með Frakka og Þjóðverja í forystu.  Þessar þjóðir ásamt Grikkjum og Rúmenum eru þær þjóðir sem hafa reynst Íslandi best í gegnum árin og það er mikið fagnaðarerindi að fá að vera með þeim í þessu gefandi og lýðræðislega samstarfi sem ESB óneitanlega er. 

Sigurður Ólafsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 16:00

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Hvernig eignuðumst við allt þetta sem þú telur upp Valdimar? Vegna þess að það voru gerðir alþjóðlegir sáttmálar og aðrar þjóðir staðfestu þennan rétt. Það skildi þó ekki vera gott að tryggja stöðu okkar og þessi réttindi með samningum um aðild að Evrópusambandinu. Við erum ekki ein í heiminum og fáum ekki alþjóðlega styrka stöðu með því að láta sem við getum gert allt, vitum allt og getum allt án samstarfs við aðra.

Loksins, loksins Sigurður fær maður bjartsýnan ungan og hraustan íhaldsmann sem áttar sig á því að við þurfum að tryggja varnlega stækkun lögsögu okkar og yfirráðasvæði um alla Evrópu. Evrópusambandið hefur einmitt tamið sér lýðræðisleg vinnubrögð. Í flestum málum er unnið þannig að allar þjóðir séu sammála um að tilteknar reglur eða lög séu öllum til hagsbóta. Ef verulegur ágreiningur er til staðar þá eru lög ekki þvinguð fram. Þá er tiltekið mál sett í hendur hvers ríkis að útfæra. Það er líka merki um lýðræði að allar þjóðir þurfa að samþykkja breytingar. Þannig er með Lisabon sáttmálann. Írland felldi hann, en sér svo í framhaldi að það er að segja sig frá virkni og áhrifum með því. Þess vegna bendir ekkert annað til en að sáttmálinn verði fullgildur fljótlega. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 29.5.2009 kl. 21:26

8 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Gunnlaugur þú ert greinilega að tala sennilega fyrir borgun en ekki frá hjartanu.Í kvöldfréttum var sagt að Baugur og tengd félög hefðu stutt SF landráðaflokinn með rúmlega 40 millum,er kannski tenging á milli 40 milljóna og þessa einharða áhuga á inngöngu í ESB ég spyr bara???Baugur og tengdar verslanir hér á landi eru sennilega um 60-80% af öllum verslunum hér á landi og þeirra mesti gróði væri að komast í ESB geta flutt inn vörur ódýrt og ekki versla við innlendan iðnað og framleiðslu og þar með setja það á hausinn.Þetta er manni farið að gruna án þess að vita,kannski vita einhverjir eitthvað meira hérna á blogginu??Mér finnst nú helvíti hart af þessari aumu ríkisstjórn að ætla að láta okkur borga fyrir fjárglæframennsku þessara manna og líka að koma okkur í ESB galeiðuna.Er ekki nóg komið nú held ég að þjóðin þurfi að taka völdin og koma landinu í lag aftur,það erum við sem getum það en ekki ESB einsog kvislingarnir halda eða reyna að segja þjóðinni það með hvítum lygum.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 29.5.2009 kl. 21:36

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Vá, hvað segirðu Marteinn, allt flæðandi í Baugspeningum og ég hef ekki fengið krónu. Þar að auki er ég svo vitlaus að ég kaupi yfirleitt inn í Krónunni hér í Mosfellsbæ en ekki í Bónus sem er þó hátt í 20% ódýrari að ég held.

Innflutningur á ódýrum landbúnaðarvörum með aðild að ESB er vissulega áhyggjuefni. En það er líka vandamál að við höfum verið að borga fyrir illa rekinn landbúnað með stefnu Framsóknar síðustu áratugina.

Það er hinsvegar að eiga sér stað vakning víða um heim að kaupa vörur sem framleiddar eru í nærumhverfi. Fólk vill meira lífrænt, hollt og "heimaræktað". Þannig væru menn áreiðanlega til í að borga allt að 20% hærra fyrir íslenskar góðar vörur.

Koma landinu í "lag aftur"? Hvenær var það í lagi, meðan við vorum að byggja blokkir upp um alla hóla og álver við hvern fjörð?

Gunnlaugur B Ólafsson, 30.5.2009 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband