Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hjólastólarallý

Grjót&malbik

TorfærustóllVerið er að byggja upp malbikað ferlíki á bökkum Varmár sem heitir í skipulagi göngustígur, en í útfærslu minnir miklu frekar á lagningu akvegar. Uppbyggður allt að fjórum metrum og þriggja metra breiður. Þessi ofvaxni stígur mun eyðileggja landslag og upplifun á því litla belti sem haldið hefur verið eftir upp með Varmá. Sá eini sem stigið hefur fram til varnar þessari framkvæmd á því sem heitir göngustígur á aðalskipulagi, en í útværslu er miklu frekar braut, er Karl Tómasson. Forystumaður vinstri grænna telur að fórna megi náttúruvernd vegna þeirrar röksemdar að tryggja þurfi aðgengi fatlaðra.

Stóll2Veit ekki hvort að breyta eigi ímynd Mosfellsbæjar frá því að vera "sveit í borg" í það að vera með bestu hjólastólabraut landsins. Held að það sé ekki hægt að láta þessa hagsmuni koma niður á öðrum gæðum og þeirri mjóu ræmu sem tekin er frá undir hverfisvernd. Ég tel að eldri malarstígarnir upp með Varmá hafi verið mjög vinsælir, en þeir voru að stórum hluta byggðir upp af umhverfissamtökunum Mosa fyrir rúmum áratug. Nú eru það ekki umhverfisaðilar sem hafa mótandi áhrif, heldur verktakar sem eiga mikið af trukkum og gröfum. Menn sem vilja láta verkin tala innan verndarsvæðisins.

Stóll4Ef málið snýst um aðgengi fatlaðra og að það sé erfitt að koma hefðbundnum hjólastólum með mjög litlum dekkjum eða rafskutlum eftir þeim stígum sem látnir hafa verið laga sig að landslagi og hafa náttúrulegt undirlag, þá hefði verið skynsamlegra að kaupa nokkra hjólastóla hannaða til aksturs utanvega- eða utanmalbiks. Leitaði að gamni mínu á netinu og töluvert er um hönnun og lausnir á þessu sviði. Það geta ekki verið mannréttindi fatlaðra að láta eyðileggja verndarsvæði. Mun ódýrari og eðlilegri lausn er að samfélagið taki þátt í að styðja kaup eða leigu á þeim farartækjum sem duga.


Vatnið er grunnurinn

VatnMosi

Ef maður vill tæma hugann og upplifa hreinleika þá er fátt sem laðar betur fram þá tilfinningu en að hlusta á rennandi vatn. Mín fjallalind er Víðidalsá í Lóni, sem mér finnst öllum öðrum tærari. Þar hef ég oft fengið mér sundsprett með göngufélögum á sumrin ef það er sól og hlýtt í lofti. Áin er köld, að koma úr snjósköflum í nokkurra hundruð metra fjarlægð.

Mestu verðmæti okkar hér á landi er hið tæra vatn, þó að okkur finnist stundum óþarflega mikið af því falla af himnum ofan. Til forna skiptu menn grunneiningum heimsins í eld, loft, mold og vatn. Það er mikill sannleikur í því enn í dag. Það er eitthvað sérstakt við alla þessa fjölbreytni vatnsins. Við áttum á tímabili tvo Kanarífugla og þeir fóru alltaf að syngja þegar skrúfað var frá vatni eða að rigndi á þakið.

Vatn er einn besti svaladrykkurinn. Mikilvægt er að í skólum og fjölmennum vinnustöðum sé gott aðgengi að vatnshönum. Það er samt líkt og með margt annað að neysla vatns þarf að byggja á réttri vitund um þorsta. Þannig hefur komið í ljós að það skilar engum ávinningi að þamba einhverja 1-2 aukalítra á dag til að hreinsa líkama eða heilsueflingar. Allt hefur sitt jafnvægi.

 

VatnKlaki


Hversu hátt hlutfall vill Dag B.?

Skoðanakannanir hafa sýnt að um 70% aðspurða vildi að Dagur B. Eggertsson héldi áfram sem borgarstjóri, en ekki er spurt um stuðning við hann í þessari könnun. Hún sýnir hinsvegar tæplega 50% fylgi við Samfylkinguna og mikilvægt að halda þessu svona fram yfir kosningar. VG og Samfylking ættu vel að geta haldið þannig á spilunum að tveggja flokka meirihluti þeirra væri traustur.
mbl.is Flestir vilja Hönnu Birnu sem borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsuefling og umhverfismál

Framhaldsskólar hafa fengið svigrúm til að móta eigin áherslur með uppbyggingu brauta og sérhæfingu. Slíkt svigrúm mun aukast með nýjum lögum um framhaldsskóla. Ég hef í allmörg ár talað og skrifað fyrir því að nýr framhaldsskóli Mosfellsbæjar leggji áherslu á heilsueflingu og umhverfismál. Reykjalundur hefur gefið sinn jákvæða tón endurhæfingar og heilsueflingar inn í bæjarfélagið síðustu áratugi. Mosfellingar hafa valið sér búsetu til að njóta tengsla við náttúruna. Áherslan væri því á innra og ytra umhverfi einstaklingsins. Hvað þarf til að viðhalda og styrkja jafnvægi í líkamanum og í náttúrunni. Hvort sem það verður FM (Fjölbrautaskóli Mosfellsbæjar) eða MM (Menntaskóli Mosfellsbæjar) gæti hann orðið þekkingarmiðstöð um þá þætti sem efla einstaklinginn og bæta umhverfið.

                                      Til hamingju ráðherra, bæjarstjóri og aðrir!


mbl.is Framhaldsskóli í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagning stígs fyrir fatlaða

Göngustígur fyrir fatlaða


"Eigum við möguleika?"

EurovisionNú eru Laugardagslög búin að damla lungað úr vetrinum. Verð að viðurkenna að það setti að mér aulahroll undir síðasta þætti. Hinir og þessir spekingar höfðu tekið þátt í spurningakeppni um hversu mörg stig hinar og þessar þjóðir gáfu hinum og þessum lögum, þetta eða hitt árið. Síðan kom þessi yfirþýrmandi spurning til spekingana; "Teljið þið að við eigum möguleika í ár". Vonandi fer að koma niðurstaða í þessu ansi langdregna forvali, þannig að hægt sé að vera með magasín og tónlistarþætti sem fá tilvist á eigin forsendum.

Útspil Þorsteins

Þorseinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins setur fram nokkur spil sem að hann kallar "Ný markmið" í leiðara Fréttablaðsins í dag. Þau eru í stuttu máli:
1) Undirbúa íslenskt efnahagslíf þannig að þjóðin geti eftir þrjú ár tekið ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu.
2) Nýtt hlutverk fyrir Seðlabanka þ.s. hann geti ekki gengt hlutverki sínu á íslenskum fjármálamarkaði af því að íslenskt efnahagslíf mótist mest af erlendum og alþjóðlegum kröftum.
3) Ríkisstjórnin ræður för í fjárfestingum í orkunýtingu og verður að tryggja verðmætasköpun til að viðhalda myndarskap í rekstri velferðarsamfélagsins.
Þorstinn PálssonÞetta eru áhugaverðir punktar til umræðu. Stjórnarflokkarnir ættu að geta náð saman um að stefna að því að taka til í efnahagsmálum á þann veg sem eru skilyrtar forsendur þess að hægt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðild yrði þó ætíð háð vilja þjóðarinnar. Á þessum nótum, um forgang tiltektar sem forsendu Evrópuumræðu, talar Bjarni Benediktsson þingmaður og formaður fjárlaganefndar. Sú staðreynd að við erum orðin hluti af alþjóðlegum fjármálamarkaði krefst nýrra markmiða og trúlega nýs gjaldmiðils.
Að lokum má áætla að það verði of hröð niðursveifla ef ekkert er aðhafst á sviði orkufreks iðnaðar. Því gæti staðan verið þannig að "síðasta álverið" eigi að rísa á Bakka við Húsavík. Með því eflist landsbyggðin og leitað verði allra leiða til að auka raforku í dreifikerfinu með sem allra minnstu inngripi í náttúruna. Það er ekki pláss fyrir bæði álver í Helguvík og Húsavík. Hvorki með tilliti til losunarheimilda Kyotó né skynseminnar að setja fleiri egg í sömu körfuna. Við erum að snúa frá lausnum sem felast í stóriðju, en ef það er snögghætt á því sviði, þá gæti líka verið snöggkælt.

Annars er hér áhugaverð sagnfræðileg skáldsaga eftir Hallgrím Helgason um stefnuna á þjóðarskútunni fyrir þá sem vilja fá þetta á léttari nótum.


Mannréttindi fatlaðra

Stígur við Gamla ÁlafosshúsiðKarl Tómasson forseti bæjarstjórnar heldur því fram að groddaleg lagning göngustígs meðfram Varmá og Álafossi sé gert í þágu fatlaðra og til að tryggja réttindi þeirra. Spurningin sem vaknar er hvort það sé verjandi að gjörbreyta ásýnd hverfisverndarbeltis og efast ég um að fatlaðir eða ófatlaðir geti notið náttúru sem að er búið að malbika yfir.

Satt best að segja hélt ég að vinna Varmársamtakanna hefði þó skilað þeim árangri að staðið yrði betur og á yfirvegaðri máta að framkvæmdum á þessu viðkvæma svæði. Því belti sem liggur í gegnum bæinn og samkvæmt skipulagi skal halda eftir ósnortnu af Varmársvæðinu.

Stígur við ÁlafossÞað er ekki nóg með að Helgafellsbrautin fari nálægt Varmá og þrengi að Álafosskvosinni. Hinn þriggja metra breiði stígur mun kóróna sköpunarverkið. Útmá stærstan hluta af því grasbelti sem eftir er og gerbreyta allri ásýnd landsins með jarðvegsskiptum og undirbyggingu sem að er allt að fjögurra metra há.

Stígur meðfram VarmáÞað sem meira er að þessi framkvæmd hefur ekki verið rædd, hvorki á opinn hátt inn í nefndum eða meðal íbúa. Veit ekki hvort hún var rædd við félög fatlaðra og að fyrir liggi að þeir hafi gert kröfu um slíkan gjörning.

Hér koma nokkrar myndir í viðbót

 


Grænt malbik?

GöngustígurHópur náttúruverndarfólks gekk að Reykjum, Reykjalundi, göngustíg með Varmá og niður í Álafosskvos í dag. Það rigndi hressilega á hópinn, en skemmtileg stop voru gerð á leiðinni og endað á frábærri fiskisúpu í Kvosinni. Út um glugga á Álafossi blasa ekki lengur við grasigrónar lendur Helgafells. Búið að keyra þúsundum rúmmetra af gróðurmold í burtu og í staðinn hafa komið aðrar þúsundir rúmmetra af möl og grjóti. Baráttan um legu Helgafellsbrautar er töpuð. Svöðusárið blasir við. Mikilvægt er að heimila ekki frekari byggð í jaðrinum til að hægt sé að leiðrétta síðar fyrir þann níðingshátt sem nú hefur gengið fram.

Eitt var þó nýtt á þessari göngu sem ég hafði ekki gert mér fyllilega grein fyrir áður. Það var algjörlega ofvaxinn framkvæmd við göngustíg meðfram Varmá á vegum verktakans. Enn og aftur hefur ekkert verið um hana fjallað í nefndum, né að hún hafi fengið eitthvert mat á umhverfisáhrifum. Hér er þó um gríðarlega umfangsmikið inngrip að að ræða. Stefnt er að breiðum malbikuðum göngustíg sem meðal annars mun liggja mefram barmi Álafoss. Sögutákni bæjarfélagsins í Varmá. Þetta er svona einhver "supersize" gjörningur. Byrjað er á að flytja moldina burt og grjót og möl sem undirlag. Síðan á að malbika yfir allt saman. Göngustígurinn sem fyrir er upp með Varmá hefði átt að geta verið fyrirmynd, þar sem fín möl er notuð. Jafnvel hefðu þeir getað farið upp í Hamrahlíðarskóg og séð hversu hlýlegir og skemmtilegir stígarnir þar eru með viðarspæni.

Grjót&malbikÞetta á trúlega að vera einkamál verktaka og bæjaryfirvalda. Löngu um þetta samið á einhverjum lokuðum fundum. En það er vonandi að þeir máli malbik göngustígsins grænt, svo allir flokkar geti haldið því fram að áherslur þeirra hafi komist til skila í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Meðfylgjandi myndir sýna annarsvegar breidd og undirlag hins nýja göngustígar Helgafellsmegin við Varmá og hinsvegar eldri stígurinn hinum megin, sem leyft er að laga sig að náttúrunni. 


Eitur eða unaður

Sykur eða glúkósi er aðgengilegasti orkugjafinn. Blóðsykur er einn aðalþáttur efnaskipta og er einn af áhrifaþáttum um svengd. Þar að auki er næmi á sætt bragð fremst á tungunni, þannig að þegar maðurinn rekur tungu í matvæli er mikilvægt að greina þau sem hafa sætt bragð.

Unnin sykurEn Adam og Eva voru ekki lengi í Paradís. Þannig geta flestar nautnir orðið að fíkn. Unnin sykur er hrá orka án næringarefna. Því er ráðlagt að neysla hans fari ekki fram yfir 10% af heildarorku. Hinsvegar sækist hin streitutengda óreiða hversdagsins eftir sykrinum, hinum aðgengilega orkugjafa.

Margir halda því fram að sykurfíkn sé vandamál sem þurfi að bregðast við. Ein birting fíknar er að nota efni til að hafa áhrif á líðan og tilfinningar. Allir þekkja það hversu örgeðja börn eru eftir að hafa fengið sælgæti. Sykurneysla hefur einnig slík áhrif á fullorðna þó að þeir geti betur temprað viðbrögðin.

Streituhormónið kortisól innleiðir pirring og vanlíðan og það kallar einnig á sykur. Meiri sykur í bland við meiri óreiðu og spennu. Þannig getur þróast vítahringur fíknar sem að er áhrifavaldur í þróun offitu. Því er slökun og kyrrð hugans tengd því að taka eftir bragði, upplifa og njóta á meðan stress einkennist af lítilli vitund og sækni í orkurík matvæli.

SmoothieLitið hefur verið til þess sem jákvæðrar breytingar á neysluvenjum barna og ungmenna að þau hafi aukið neyslu á mjólkurvörum. En var það áhugi á meira kalki eða hollum próteinum sem kallaði fram þessa auknu neyslu? Nei, hún náðist með því að breyta mjólkurvörum í sælgæti. Skyr.is eða hvað það helst heitir er með miklu magni af viðbættum sykri. Reyndar má það segja í heild um íslenska matargerð, að honum er víða laumað inn.

Nú höfum við fjölskyldan keypt okkur blandara og þar fara nú ofan í ber, ávextir, grænmeti og óunnar mjólkurvörur. Hver hágæða "smoothies" þykknidrykkur er galdraður fram. Það að prófa sig áfram með bragð og samsetningar eflir næmni og vitund. Maður nærir líkama og sál. Gerir sér eitthvað gott á skapandi hátt.

Með þessum hætti er hægt að gera kolvetnaneysluna að hollustu og unaði, í stað þess að vera óvirkur viðtakandi á matvælum með miklu innihaldi af unnum sykri, sem gefur skyndiorku en litla næringu. Það er í raun skondið að helstu "menningarstaðir" hvers hverfis í borginni skuli vera sjoppurnar. Afhverju ekki að setja upp staði sem bjóða upp á holla kolvetnaneyslu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband