Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Humarsúpa og hálsbólga

 Humarsúpa

Mín reynsla af kvefpestum er sú að þær fæ ég ekki nema eftir nokkura daga leti. Að lokinni stífri líkamlegri keyrslu í leiðsögn og skipulagningu gönguferða á fjöllum hafði ég í vikunni tekið tvo daga í hlutlausum gír, lesa blöðin og leggja mig, fara á fætur og leggja mig aftur. Slíkt háttalag boðaði ekki gott, því ég var tveimur dögum síðar komin með einhverja kvefpest, hálsbólgu og óáran í kroppinn. Eins og oft gerist líka á önninni í kennslu að þá pikka ég helst upp pestir í miðannarleyfi, jóla- eða páskafríi.

Ég er áhugamaður um samspil sálar og líkama. Finnst það hart ef ég þarf að taka upp það viðmið að hætta slökun með öllu. Trúlega er betra að minnka ofurkeyrsluna og taka reglulegar slökun. Til dæmis að hlýða bara reglum almættisins um að halda hvíldardaginn heilagan. Ætli þa geti ekkið verið þrungið visku, með tilliti til starfsemi ónæmiskerfisins að slappa af á sjö daga fresti. Gera eitthvað allt annað og losa sálartetrið undan hversdagslegum kröfum og tímaleysi.

Af einhverjum ástæðum hafa verkaskipti á heimili hér við kvöldmáltíðir þróast þannig að húsfreyjan eldar en húsbóndinn vaskar upp. Hún hittir síðan iðulega á fólk sem verið hefur með mér í gönguferðum til fjalla og fær frásagnir af tilþrifum mínum í eldamennsku fjarri mannabyggðum. Nú er hún í dag búin að vera með pestina og er raddlaus. Ég ákvað því að útbúa humarsúpu, við góðar undirtektir. Við fengum okkur hvítvín frá Chile, sem heitir Montes Alpha (Chardonnay).

Já, alveg rétt það er sunnudagur á morgun, en ég sem ætlaði að klára að skrifa líffræðibókina, svo hún verði tilbúin í fjölföldun á mánudag. Svo þyrfti ég að vinna aðeins í garðskálanum sem við erum að lagfæra og ... og.... og...


Flotta Framsóknarstelpan

Marsibil Sæmundardóttir varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins vill ekki gera flokkinn að steingeldum borgaralegum flokki, sem hefur það vesæla hlutverk að lina þrautir Sjálfstæðisflokksins. Hún reddar deginum hjá mér. Lætur ekki Geir og Guðna stjórna sér.

Óðagotið hjá Óskari í stólana virðist af sama meiði og var hjá Ólafi F á sínum tíma. Að stilla ekki strengi með varamanni sínum. Þetta fer ekki vel af stað. Framsóknarflokkurinn klofinn í afstöðu til samstarfsins.

Auk þess á hið stóra uppgjör um leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borginni eftir að fara fram. Þar bíða þrír í rásmarkinu Júlíus, Hanna Birna og Gísli Marteinn, sem sestur er á skólabekk til að styrkja stöðu sína. Það styttist í kosningar og sumir eru að falla á tíma.

Ég spái því að þegar hálft ár verður í kosningar og fylgið við D-lista hefur lítið vænkast að þá fari að koma krafan um að stilla upp sterkum utanaðkomandi leiðtoga. Sennilega fær þó Björn Bjarnason ekki annað tækifæri.


mbl.is Geir ræddi við formann Framsóknarflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit Óskar ekki sinn næturstað?

Athygliverð var áhersla Óskars Bergssonar í fjölmiðlum í morgun, að hann hefði ekki tekið þátt í neinum viðræðum um nýjan meirihluta. Hann virðist því ekki vita að hann sé að verða formaður borgarráðs.

Persónulega finnst mér að hafa eigi það viðmið í pólitík sem og öðru að segja sannleikann, allann sannleikann og ekkert nema sannleikann.

Það eru allir búnir að fá nóg af undirferli og refskák


mbl.is Fullyrt að samstarfi hafi verið slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapallinn lagður

Plott- og klækjameistarar íhaldsins spinna nú sinn vef þannig að þeir komist í borgarstjórastólinn á næstu dögum. Líkt og við myndun núverandi ríkisstjórnar þegar Framsókn var haldið volgri um framhald á sama tíma og rætt var við aðra um nýja ríkisstjórn.

Auðveldast er að setja Ólafi F þá afarkosti að hann fari frá en styðji áfram meirihlutann. Á meðan hann íhugar stöðuna eru þreifingar við bakland Framsóknarflokksins um samstarf. Halda stjórn á atburðarásinni og öllum möguleikum opnum. Kippa þeim í sæng, sem gefur bestu kjörin.

Það er vonandi að allt gangi upp. Að Ólafur skynji að hann eigi engra kosta völ annarra en vera stilltur eða að Óskar hlíði baklandinu og verði tilkippilegur. En hvað gerist ef Ólafur verður fúll á móti og Óskar er ekki fús í að draga flokkinn upp úr holunni?


mbl.is Borgarfulltrúar segja fátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttueðli bjarnarins

Áhugaverð tíðindi eru í alþjóðamálum og berast úr austri af stríðsátökum Rússlands og Georgíu. Sjálfsöryggi Rússa í áranna rás hefur verið tengt stríðsrekstri. Eftir að Sovétríkin hrundu þá tapaði hin rússneska þjóðarsál orkunni og innviðirnir lömuðust. Undir stjórn Pútíns fór efnahagur að vænkast og gangverk allt fór af stað að nýju. Þar á meðal herinn.

Þeir vakna nú af doðanum og skynja þá staðreynd að Evrópusambandið og Nató eru komin upp að túnfæti allt í kring. Síðan er það spurning hvað þeir þora að ganga langt í að vinna gegn þeirri þróun. Mikilvægt er að alþjóðasamfélagið bregðist hratt við og sendi Rússum skýr skilaboð þess efnis að það sé ekki skynsamlegt fyrir þá að sýna hramminn.

Júlíus Sigurþórsson skrifar lengri og ítarlegri pælingu um þetta mál en ég er fær um, þó mér þyki spennandi að fylgjast með hvernig það þróast á næstu vikum.


mbl.is Bandaríkin styðja Georgíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin leið fær fyrir íhaldið

Eina leiðin til að mynda starfhæfan meirihluta í Reykjavík væri samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. En miðað við skoðanakannanir stefnir í auðvelda siglingu í nýjan meirihluta Samfylkingar og Vinstri grænna eftir næstu kosningar.

Hinsvegar er staðan það alvarleg í borgarmálum að réttast væri að láta af öllum flokkadráttum og mynda stjórn allra flokka fram að næstu kosningum. Eðlilegast hefði verið að boða til kosninga til að fá endurnýjað umboð og skýrari línur.

Vandræðagangur íhalds og örflokkanna tveggja er að koma þeim dýpra og dýpra. Mikilvægt er að Óskar Bergsson, sem ég þekki af góðu einu haldi ró sinni og láti ekki stundarhagsmuni og stóla draga sig inn í meirihlutasamstarf, sem haldreipi hins örvæntingarfulla stjórnmálaflokks.


mbl.is Vilja breytingar á meirihlutasamstarfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ellen og Eiríkur

EricEllen

Eric Clapton mætti með öfluga og þétta hljómsveit í Egilshöllina í gærkvöldi. Flott hljómsveit, gítarleikurinn snilld, frábær trommu- og píanóleikur. En samt náði hann ekki að hrista svo upp í minni sálarkytru að tónleikarnir gæfu sterka upplifun. Fannst hann ekki leggja sig fram við að ná góðum tengslum við salinn. Clapton var bara í vinnunni og á leiðinni á nýjan stað næsta dag.

Ánægjulegt var að heyra í Ellen Kristjáns sem hitaði upp með hljómsveit sem var að mestu skipuð meðlimum úr eigin fjölskyldu. Eiginmaður, bróðir og dætur. Öll lögin voru frumsamin og með enskum textum. Þar var hið þekkta og hugljúfa englalag, en líka nýir verðandi smellir eins og Sweetheart í kántrístíl og svo var líka eitt skemmtilegt blúsað lag "you are moving out, while I´m moving on".

Helsti galli á tónleikahaldinu var óbærilegur hiti. Það var merkilegt að þessi mikli hiti var strax í byrjun þegar húsið var opnað. Var þetta af ásettu ráði til að auka sölu á bjór, víni og vatni? Vatnið var ekki gefins, kostaði 300 kr. Mjög langar biðraðir mynduðust við vökvasöluna.


"500 m vegarspottinn"

Flestir Íslendingar vita af umræðunni um tengibraut um Álafosskvos. Stundum gæti maður haldið að fátt hafi verið áður til tíðinda úr Mosfellssveitinni. Jú, það vita líka margir af Nóbelnum. Sigrún Pálsdóttir skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag þar sem að hún er að lýsa yfir stuðningi við ákvörðun umhverfisráðherra að virkjanaframkvæmdir fari í heildstætt umhverfismat.

Í greininni notar hún máli sínu til stuðnings reynsluna úr Mosfellsbæ þar sem Varmársamtökin fóru fram á faglega úttekt á valmöguleikum og að heildaráhrif tengibrautar yrðu metin. Við fögnuðum því þegar bæjaryfirvöld voru skikkuð í að láta verkið í umhverfismat áætlana. Vonbrigðin urðu hinsvegar veruleg þegar ráðgjafafyrirtækið keypti skýringar bæjaryfirvalda þess efnis að málið snérist eingöngu um 500 m vegakafla en ekki heildarsýnina.

Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar skrifaði; "Ég vona satt að segja að 500 metra vegakaflinn í Mosfellsbæ verði viðmið Össurar og Samfylkingarinnar í umhverfismálum næstu fjögur árin". Margt bendir til að nú hafi honum orðið að ósk sinni með úrskurði ráðherra.

Herdís Sigurjónsdóttir lýsti því yfir að umræðan væri á villigötum; "Varmársamtökin fóru að mótmæla 500 m löngum tengivegi sem leggja á fyrir ofan Álafosskvosina sem verið hafði á skipulagi í áratugi". Jafnframt dregur hún í efa að tengibrautin sé að hafa áhrif af því að hún liggi ekki um Álafosskvosina.

Vonandi hjálpar úrskurður ráðherra til að skipulagsmál og áhrif framkvæmda séu skoðuð í heildstæðu ljósi og að ekki þurfi að takast á um einföldustu merkingu orða.  


Samfylkingin kjölfestan

Samkvæmt skoðanakönnun Capacent á fylgi flokka í Reykjavík þá mælist Samfylkingin nú með 47,8% fylgi. Tæplega helmingur Reykvíkinga styður flokkinn. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi valið borgarstjóraefni sitt þá virðist það ekki hjálpa flokknum enda er hann og verður út sína valdatíð í gíslingu eins manns.

Smáflokkarnir sem hafa verið að selja völd sín til hægri og vinstri mælast vart með fylgi. Ánægjulegt er að sjá að Vinstri grænir mælast með yfir 20% fylgi og eru ekki langt frá fylgi Sjálfstæðisflokksins. Því bendir allt til þess að sterk tveggja flokka borgarstjórn verði eftir næstu kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn er að eyðast á eldi glundroðans.


Snjór er stundarfyrirbæri

vatnajokulsthodgardur_2

Snjór er í eðli sínu stundarfyrirbæri sem kemur og fer eftir hitastigi. Það er því hæpið að tala um verndun hans eða nýta ytri mörk jökuls á tilteknum tíma sem landamerki í þjóðlendulínu.

Helgi Björnsson jöklafræðingur hefur haldið því fram að skriðjöklar og sá hluti Vatnajökuls sem nær yfir í Lón verði horfinn á næstu 30 árum. Með því verður vatnasvið Jökulsár í Lóni orðið jökullaust.

Af þeirri ástæðu og fleiri er eðlilegt að virðing sé borin fyrir mörkum Stafafells í Lóni sem byggja á fornri hefð um vatnaskil og ár sem meginviðmið. Slík nálgun fylgir venjum og gefur rökrétta heild.

StafafellLögmenn og verndarsinnar hafa farið offari með reglustikuna og dregið ný mörk byggð á snjóalögum eða fornbókmenntum, legu jökuls og lýsingum Landnámu.

Friðland, þjóðlenda, einkaafréttur, eignarland sem eru afleiðingar af reitaskiptingu ríkisins verða hverful stundarfyrirbæri eins og snjórinn. Stafafell í Lóni er afmörkuð heild út frá sterkum landfræðilegum og sögulegum forsendum.


mbl.is Langjökull horfinn eftir öld?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband