Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Ömmi og Grímur bara góðir

Í nokkur skipti gagnrýndi ég forystumenn VG á þeim forsendum að allur þeirra framgangur byggði á neikvæðninni einni saman og fátt væri um uppbyggilegar tillögur. Hafði jafnvel áhyggjur af húsmunum í þinghúsinu þegar þeir voru í hvað mestum ham í pontunni.

Nú eru þetta orðnir ábyrgir menn og gerendur. Þeim fara hlutverkin bærilega og er ég ánægður með framgöngu þeirra. Þar vil ég sérstaklega taka fram hversu Ögmundur virðist ætla að vera laginn með niðurskurðarhnífinn.

Guðlaugur Þór kom fram sem valdhafinn, sem starfaði í tilkynningastíl. Þetta sjúkrahús verður lagt niður og öll heilsugæsla fyrir norðan sameinuð o.s.frv. Ögmundur sýnir mannskapnum bara tölurnar sem þarf að ná í niðurskurði og biður um hjálp við að finna réttu leiðirnar.


mbl.is Ræða eftirlaunalögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fingraför Davíðs

Helsti hvatamaður að eftirlaunafrumvarpinu var Davíð Oddsson. Allur þingheimur Sjálfstæðisflokks söng með í þessu stefi græðgisvæðingarinnar og sjálftökunnar úr ríkiskassanum. Það var auðvitað svo hallærislegt í betri partýum bæjarins að vera bara með nokkra hundrað kalla í eftirlaun þegar bankastrákarnir voru að fá milljónir í eftirlaun, starfslokasamninga og bónusa.

Hér sést líka að Sjálfstæðisflokkurinn var sá aðili sem vann harðast gegn leiðréttingu á þessu máli. Setja borða með slaufu á puttann til að muna það fram yfir kosningar.


mbl.is Vilja afnema eftirlaunalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Baldvin ferskur

Útspil Jóns Baldvins um möguleika á framboði til forystu hefur fallið í misjafnan jarðveg. Veikindi formanns og ríkisstjórnarþátttaka hefur hamlað umræðu um nauðsynlegt uppgjör og endurnýjun innan Samfylkingarinnar. Nú er Jón búin að rjúfa þagnarmúrinn og fyrir það á hann þakkir skilið.

Telja verður ólíklegt að Jóni Baldvin takist að afla sér meirihluta fylgis fram að landsfundi. Þó hann sé leiftrandi fjörugur stjórnmálamaður og sé ef til vill á sínu besta þroskaskeiði, þá er hann umdeildur. 

Það verður að takast að "systurflokkarnir" tveir VG og Samfylking séu búnir að fara í gegnum nægjanlega endurnýjun til að gerast kjölfesta íslenskra stjórnmála á komandi árum. Tökum fagnandi krafti Jóns Baldvins og setjum hann í góðan farveg.


Hinn slyngi sláttumaður

Hvítar rósir 

Hið óvænta getur gert mann orðlausan. Svo hefur gilt um mig hér á síðunni síðustu dagana. Tveir samferðamenn dóu óvænt með sólarhrings millibili.

Samkennari við Borgarholtsskóla til margra ára lést af slysförum vegna gassprengingar við þrýstingsprófun á fimmtudag. Hann var góður vinur, traustur og kankvís. Hafði hringt í hann á miðvikudagsmorgun en þá var hann staddur í Varmahlíð. Þar var hann að stússa við flutninga á ræktunarmeri. Hitti hann í hádeginu á fimmtudag og við heilsuðumst með bros á vor. Hann sagði að ferðalagið hefði gengið vel. Nokkrum klukkustundum síðar var hans vegferð lokið og ekki fleiri hrókeringar með góðgæðinga.

Frá því um áramót hef ég haft stóðhest hjá sómamanni í Gusti, Kópavogi. Hef sest niður með honum á kaffistofunni og við höfum rætt um framtíð sveitanna, enda báðir utan af landi. Hvort börn okkar hefðu áhuga á hestum. Hann var stoltur af því að eiga ungan afleggjara sem var líklegur til að koma með honum í hestamennskuna á næstu árum. Á föstudagskvöldið varð hann bráðkvaddur við gegningar í hesthúsinu.

Hugur minn er hjá fjölskyldum þeirra, fullur þakklætis fyrir góð kynni. Slíkir atburðir snúa við hugsanagangi hversdagsleikans. Hann verður grárri. En sólin fer ört hækkandi á himni aftur og það þýðir ekki annað en grípa í tauminn, sækja sér orku, stefna á að fara í vor aukareiðtúr inn í sólarlagið þeim til heiðurs.


Samfylkingin sýni djörfung með persónukjöri

Samkvæmt áliti Eiríks Tómassonar þá mælir ekkert lagalega gegn því að framboð bjóði upp á persónubundið val í komandi Alþingiskosningum. Það hefur verið sannfæring mín að Samfylkingin hafi alla burði til að vera öflugasti vettvangur lýðræðis í landinu.

Flokkurinn hefur ekki náð að stilla upp sterkum frambjóðendum með prófkjörum og aðrir sem fúlir hafa orðið með árangurinn, leitað fyrir sér í öðrum flokkum s.s. Jakob F. Magnússon Valdimar Leó Friðriksson og nú síðast erfðaprinsinn Guðmundur Steingrímsson.

Með einhverju móti verður að tryggja það að hinn almenni flokksfélagi geti haft áhrif á röðun á framboðslista. Fátt er verra en þegar tiltölulega óvirk flokksfélög skipa uppstillinganefnd þar sem þeir stilla helst sjálfum sér í valin sæti.

Það er ekki hægt að una við það lengur að óvissa sé um heilsufarslega burði formanns flokksins til að leiða hann inn í kosningabaráttu. Þarna reynir á að Ingibjörg Sólrún hugsi um alla fleti, eigin velferð, flokks og þjóðar.

Með nýjum formanni eins og t.d. Degi B Eggertssyni, meitlaðri stefnuskrá og persónukjöri, þá gæti flokkurinn átt sviðið. Góð blanda af persónulegum metnaði frambjóðenda að kynna sín stefnumál og styrkja innviði skipskrokksins, félagslegt lýðræði.


Lýðræði eða ættarlaukar

Sjálfstæðisflokkurinn hafði þann möguleika að skapa sér hlýlegri og lýðræðislegri ásjónu. Slíkt hefði náðst með kjöri Þorgerðar Katrínar eða Árna Sigfússonar til formanns.

Hann velur nú að fara í gamla farið. Velja réttu ættarlaukana og viðhalda hefðinni að matreiða sannleikann í bakherbergjum. Koma síðan á landsfund og klappa fyrir formanninum.

Ætli það hafi ekki verið hægt að finna neinn Ólaf Thors sem hefði getað verið fyrst og svo kæmi Bjarni Ben í framhaldi? Það hefði verið svona réttari söguskýring. 


mbl.is Þorgerður Katrín ekki í formannskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðurinn er í ullinni

LopapeysaEftir bankahrun leitar athygli í eldri bjargræði þjóðarinnar. Ein er sú afurð sem vissulega væri hægt að selja í skipsförmum. Það er íslenska lopapeysan í sauðalitum með klassísku mynstri.

Jafnvel mætti framleiða líka fingravetlinga. Ragnhildur amma mín seldi áratugum saman vetlinga með stjörnu í Rammagerðina. Prjónaveldi hennar skapaði henni fjárhagslegt svigrúm.

Hún útbjó stroffið í prjónavél og man að ég hjálpaði henni eitthvað við að græja til vélina þegar sjónin var farin að daprast. Hún sagði í fullri alvöru; "Gulli minn þú ættir að kaupa þér prjónavél".

Henni var annt um efnahag minn og sá þarna leið sem myndi tryggja hann til langrar framtíðar. En á þessum árum var staðan metin þannig að ég myndi ekki skora nein stig með því að segjast eiga prjónavél. En nú stendur mér nok á sama um ímynd karlmennskunnar. Viðurkenni fúslega að ég hef gaman af Mama mia og væri alveg til í að eiga prjónavél í bílskúrnum.

VetlingurA  VetlingurB


Tengsl LÍÚ við Heimssýn

Fátt þykir göfugra þessa dagana en vera hluti grasrótarinnar og laus undan öllu flokksveldi. Eftir allar fyrirhugaðar breytingar með stjórnlagaþingi og persónukjöri í kosningum til Alþingis mun þjóðin geta hlaupið út á gresjuna eins og í dömubindaauglýsingu, berjandi saman pottlokum, syngjandi; "Ég er frjáls eins og fuglinn, flogið næstum ég gæti ...". Engir klækir þ.s. mannanna verk verða fögur og fölskvalaus.

Við Bjarni Harðarson vorum frjálsir á fjöllum síðasta sumar og komumst að þeirri niðurstöðu að við værum sammála um flest ef ekki allt annað en samvinnu Íslands við Evrópusambandið. Nú lætur hann sem óspjölluð mey laus við allt flokksveldi, en ég held á lofti gildum rómantískrar jafnaðarstefnu og vil endilega virkja tækifæri komandi kynslóða og efla frelsið sem liggur í samstarfi fullvalda þjóða í Evrópu.

Seint verður LÍÚ talið til grasrótarhreyfinga eða með göfugar lýðræðislegar áherslur. Ljótasta laumuspil Íslandssögunnar var þegar útvegsmenn komu eignarhaldi á fiskveiðiheimildum inn bakdyramegin með Sjálfstæðisflokknum. Margir telja þann gjörning einnig vera upphaf græðgivæðingarinnar, þar sem markaðs- og peningahyggja fengu ótakmarkað frelsi. Með þeirri hugsun glataðist svo frelsið og allir bátar nú strand upp á skeri.

Baráttusamtök gegn aðild að Evrópusambandinu, Heimssýn, hafa aukið kraft í starfi sínu á síðustu mánuðum. Aukið fjármagn er látið til auglýsinga og fundahalda. Það er því eðlilegt að velt sé upp hvaðan peningarnir komi til aukinnar starfsemi. Í því samhengi lagði ég inn spurningu á síðu félaga Bjarna og fékk svar. Mín skoðun er að betra sé að hlaupa kauplaus undir stjörnubjörtum og bláum himni, heldur en að vera sendimaður hinnar forhertu hagsmunagæslu, LÍÚ.

Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

 

Bjarni er bókhald Heimssýnar opið? Er það rétt að LÍÚ sé aðalstyrktaraðili? Það er bákn sem að elur meira illgresi en flokksveldið allt til samans.

Íhaldið og Framsókn gáfu þeim kvótann, sem var meira og minna glutrað frá sér, með græðgisvæðingunni, til erlendra lánadrottna. Þar þurfti ekki neitt ESB til að við töpuðum umráðarétti yfir fiskveiðiheimildunum.

Þeim tókst það einum og óstuddum, með þjóðrembinginn og neysluhyggjuna að vopni.

Gunnlaugur B Ólafsson, 8.2.2009 kl. 10:25

Smámynd: Bjarni Harðarson

 

Sæll Gunnlaugur. Ég get illa vikist undan að svara spurningum um fjármál Heimssýnar þar sem ég er gjaldkeri. Það rétta í þessu máli er að LÍÚ er meðal styrktaraðila en fráleitt sá eini. Án þess að ég sé búinn að færa reikning síðasta árs þá sýnist mér að styrkur þeirra til okkar nái því ekki að vera þriðjungur af tekjum, kannski fjórðungur. Og heildarvelta samtakanna er samt afar lítil. Mér er til efs að að útgerðarmenn þessa lands láti minna fé til Samfylkingarinnar án þess að það komu þessu máli kannski við. Kær kv. -b.

Bjarni Harðarson, 8.2.2009 kl. 13:57


Muevelo Helgarlagið

Kúmbía er hinn seiðandi dans sem rekja má til þrælahalds og Kólumbíu. Sagt er að hin stuttu hringlaga skref sem eru einkennandi hafi þróast í hlöðunum þegar húsbóndinn var genginn til náða. Þá byrjaði dansinn, en hlekkir fótanna takmörkuðu yfirferð á dansgólfinu.

Daður dansins fólst í því að konurnar veifuðu síðum pilsunum kankvíslega haldandi á kerti, karlarnir dönsuðu til hliðar og aftan við konuna, með aðra hönd aftan við bak, með hatt sem þeir tóku ofa n og settu upp í takt við dömuna. Mennirnir voru oft með rautt klæði sem þeir vöfðu um hálsinn, sveifluðu í hringi fyrir ofan höfuð eða réttu dömunni til að halda á móti sér.

Fram á miðja tuttugustu öld þótti kúmbía grófur dans (vulgar) og væri einungis iðja lægri stéttana. En hann hefur þó ratað inn í kennslu í suðuramerískum dönsum eins og þeir eru kenndir víða um Ameríku og Evrópu. Þar er búið að slípa til lostann inn í okkar virðulega og borgaralega samfélag.

Lagið Muevalo er með hljómsveitinni Super Reyes, sem áður var hluti hljómsveitarinnar Kumbia Kings sem naut mikilla vinsælda. Persónulega hef ég dálæti á tveimur öðrum kúmbía flytjendum; Los Hermonos Flores frá El Salvador og saxafónleikaranum Fito Olivares frá Mexíkó og hljómsveit hans.  

 


Greiðslugeta

Ágætur íslenskur vinur sem lengi hefur verið búsettur í Winnipeg og varð þar efnaður þurfti í einni heimsókn til "Gamla landsins" að leggjast inn á spítala fyrir nokkrum árum. Eftir um vikudvöl kom að útskrift og þá snéri hann sér að glerlúgunni á vaktinni og bað um reikninginn. Hann sá ekki ástæðu til að landar hans væru að borga þessa sjúkrahúsdvöl, því hann hefði vel efni á því sjálfur.

Þessi beiðni sló víst starfsfólk alveg út af laginu enda ekki vant því að fólk vilji borga fyrir slíka þjónustu, enda treyst á almannatryggingar. Indriði H Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri og nýorðinn ráðuneytisstjóri hefur bent á að; "Þó ástandið sé ekki gott í þjóðfélaginu er til fullt af fólki sem er í góðri vinnu eða hefur góð eftirlaun og er ekkert óeðlilegt að leggi meira af mörkum ...".

Skattakerfið er jöfnunartæki í samfélaginu. Almannatryggingar eru öryggisnet til að tryggja öldruðum og öryrkjum framfærslu. En þarf vel efnað fólk á fjárhagslegum stuðningi ríkisins að halda? Á ekki í það minnsta að bjóða þeim að borga reikninginn sem hafa efni og ástæður til að greiða fyrir samfélagslega þjónustu eða að afþakka samfélagslegan stuðning?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband