Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ein 16" pizza á 6000 kr

Pizza_hutFór með frænku minni eftir landsfund á Pizza Hut í Smáralindinni. Verð að viðurkenna að það jaðraði við að ég þyrfti áfallahjálp þegar ég sá reikninginn. Hafði búist við að ein flatbaka með kóladrykk fengist fyrir um þrjú þúsund krónur en þá var heildarverðið rúmar sex þúsund.

Þegar ég spurði piltinn á kassanum hvort að þetta væri rétt þá sagði hann brosmildur að þeir væru dýrastir á markaðnum, ef það er borðað á staðnum, en til að vera samkeppnishæfir þá væri álíka verð og hjá öðrum pizzastöðum eða um tvö þúsund krónur þegar að hún er send eða tekin.

Samkvæmt þessu hefði ég getað fengið sömu pizzuna fjögur þúsund krónum ódýrari ef ég hefði borðað hana við bekk eða borð á opna svæðinu í Smáralind utan veitingastaðarins. Ma... ma.. maður áttar sig ekki alveg á þessu ...!!


Besta sultan 2008

SólberNú er uppskerutími ársins. Töðugjöld og kjötkveðjuhátíðir. Margir fara í berjamó og mæta búralegir með feng sinn og setja afraksturinn í pottana. Sumir eru heimakærir og klassískir og láta duga að gera rabbabarasultu. Aðrir leggja örlítið meira á sig og tína rifsberin af runnunum áður en fuglarnir eru búnir að éta þau. Sólberjarunnar eru líka að verða algengir í görðum. Nú, svo eru þeir sem leggja á sig helgarferðir og fylla skottið af bláberjum og krækiberjum.

RifsberTil að fá umræður um sultugerð set ég inn þessa færslu. Það er áhugavert að heyra af tilþrifum og afbrigðum í þessari iðju sem að er í hámarki um þessar mundir. Ráðleggingar um bestu berjasvæðin, góðar uppskriftir og notkunarmöguleika. Til dæmis finnst mér persónulega að sólber passi best með hreindýrakjöti. En rabbabarasulta er auðvitað best með lambalærinu, brúnuðu kartöflunum og ORA baununum.

KrækiberHér til hliðar hef ég sett upp skoðanakönnun um uppáhaldssultuna. Sú sem nær flestum stigum verður valin besta sultan árið 2008. Það er um að gera að hafa gaman af þessu. Líka hefði mátt segja hér "vinsælasta" sultan en það er bara miklu svalara að tala um þá "bestu".

Set hér myndir af pottunum hjá mér í fyrrakvöld þar sem ég var að sjóða niður sólber, rifsber og krækiber. 


Besta vínið

Besta víniðÁ kynningarviku í Vínbúðinni í fyrra voru vín frá Chile. Þar kippti ég með einni flösku af rauðvíni sem nefnist TRIO. Þar er vísað til þess að notað eru þrjár gerðir af þrúgum merlot, carmenere og cabernet sauvignon. Fórum síðan nýlega í boði konu minnar á vínsmökkunarnámskeið sem haldið var af Tómstundaskóla Mosfellsbæjar þ.s. Dominique í Vínskólanum var með sérlega skemmtilegt og fræðandi námskeið.

Á námskeiðinu smökkuðum við á fjöldanum öllum af vínum og það var satt að segja erfitt að skirpa út úr sér sumum af dýrari sortunum, eins og átti að gera. Ég ákvað að fara nú út í Vínbúð aftur og finna þetta draumavín frá Chile. Við fengum okkur þetta síðan eitt kvöldið og ég sannfærðist um að þessi tegund er mitt uppáhald. Vínið fær fjórar og hálfa stjörnu af fimm hjá einhverju frönsku matsfyrirtæki. Frakkarnir eru auðvitað það þjóðræknir að þeir hafa ekki þorað að gefa fullt hús og tapa viðskiptum.

Getið þið mælt með einhverju hágæða rauðvíni?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband