STAFAFELL; Saga, náttúra, útivist

stafalogo

Nú á sunnudagskvöld verð ég með kynningar- og myndakvöld undir heitinu STAFAFELL; Saga, náttúra, útivist. Þar mun ég kynna "landið hennar mömmu", Stafafell í Lóni, sem að er ein af stærri jörðum landsins. Síðustu tuttugu árin hef ég gengið slóðir forfeðra, skipulagt og leiðsagt göngufólki í styttri og lengri gönguferðum. Á Stafafelli var kirkjustaður og prestsetur í gegnum aldirnar. Erfið jörð segir í vísitasíum biskupa. Á sama tíma og Sigfús Jónsson hljóp uppi kindur inn í Víðidal var séra Jón Jónsson að skrifa mikið fræðirit Vikingasögu um herferðir norrænna manna heima á prestsetrinu. Sveitin, Lón, var sú fjölmennasta í Austur-Skaftafellssýslu. Tuttugu manns voru með fasta búsetu á prestsetrinu, þrjár hjáleigur skammt undan og fjallabúskapur á nokkrum stöðum.

KollumuliÁrið 1907 er samþykkt á Alþingi heimild til sölu á kirkjujörðum og jörðin seld með gögnum öllum og gæðum 1913. Matsmenn gæta hagsmuna ríkisins og salan staðfest af ráðherra. Ekkert er talað um veikari eignarrétt inn til landsins. Það kom því verulega á óvart að annar ráðherra skyldi gera kröfu í meira en helming jarðarinnar með tilkomu þjóðlendulaga. Tryggvi Gunnarsson núverandi umboðsmaður Alþingis og þáverandi lögmaður og höfundur þjóðlendulaga sagði að það væri útilokað að kröfur yrðu gerðar inn á þinglýst eignarlönd. Þjóðlendulögunum væri ætlað að skera úr um afrétti eða almenninga og einskis manns lönd. Útfærslan varð allt önnur. Nú hefur ríkinu tekist með Hæstaréttar úrskurði að ná undir sig um tvö hundruð ferkílómetrum þessa lands, sm það hafði áður selt og afsalað öllum réttindum yfir. Þeim úrskurði hefur nú verið vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Stafafell er landfræðilega skýrt afmörkuð eining af vatnaskilum, ám og fjallatindum. Að stórum hluta eru merki jarðarinnar inn til landsins einnig hreppa og sýslumörk. Út af landi liggur eyjan Vigur sem gaf af sér hlunnindi í dún og sel. Fyrir miðri sveit er Bæjarós en Jökulsá í Lóni hafði áður víðtækt frelsi um láglendið en hefur nú verið römmuð inn í einn farveg með varnargörðum og vegagerð. Í Lóni millilenda um 70% af álftastofninum að vori og hausti á leið sinni til Skotlands og meginlandsins. Af þessum slóðum er hvað styst vegalengd til meginlandsins fyrir farfuglana. Á vetrum geta verið hundruðir hreindýra á sandinum og láglendi. Svífa fjaðurmögnuð yfir girðingar og ná miklum hraða. Í Jökulsá gengur silungur, sem hefur án efa verið búbót fyrir fjallabúskap til að þrauka af veturinn. Stafell gefur einstakt og fjölbreytilegt þversnið af náttúru landsins. Gróðurlausir sandar og melar, víðáttumiklar mýrar með tjörnum, birkivaxnir hvammar og skógar með bómskrúði í botni, líparítskriður í öllum litatónum og hallandi basalthraunlög, hrikaleg gil og gljúfur, upp af þeim tilkomumiklir tindar, jöklar og grýttir melar sem liggja að vatnaskilum og kallast á austfirsku "hraun".

EskifellHlutverk staðarins sem kirkjustaður og prestsetur, ásamt staðsetningu jarðarinnar við torfæruna Jökulsá og í forgrunni hins mikla fjallasals gerði bæinn að miðstöð samskipta og leiðsagnar. Þar var símstöð og póstdreifing. Brú var byggð fyrir bíla á Jökulsá 1952 og gangandi umferð í Kollumúla 1953. Árið 1976 ákveða landeigendur að friðlýsa hluta jarðarinnar, en það er ekki fyrr en 1997 að unnin er heildarstefnumörkun fyrir jörðina í útivistar- og ferðamálum. Þá er ákveðið að göngubrú komi við Eskifell, ásamt því að helstu tjald- og skálasvæði verði í Eskifelli og Kollumúla. Þjónustumiðstöð verði í byggð sakmmt fr´þjóðvegi. Unnið hefur verið að uppbyggingu samkvæmt þessu plani. Göngubrú, 95 metra löng hengibrú, var byggð árið 2004 og nú í sumar verður vígður nýr skáli við Eskifell. Sagt er að "stafur" merki á Austurlandi, "fjalllendi sem skagar fram á milli dala". Segja má að að þjónustumiðstöð í byggð, skálar í Eskifelli og Kollumúla verði vitar á leið ferðafólks um stafina þrjá sem mynda jörðina og göngubrýrnar tvær gera jörðina að samfelldu útivistar- og verndarsvæði.

Með hugmyndum sem fylgja lögum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem samþykkt voru á nýloknu þingi er ráð gert að yfirtaka land sem tilheyrt hefur Stafafelli í 1000 ár. Landeigendur voru ekki afhuga viðræðum um að Stafafell gengdi veigamiklu hlutverki sem ein af meginstoðum þjóðgarðsins og að þjónustumiðstöð yrði í Lóni. Hinsvegar í endanlegri tillögugerð bendir margt til þess að undirbúningur að stofnun þjóðgarðsins hafi verið rekin áfram á öðrum forsendum en útivistarmöguleikum eða náttúruverndargildi einstakra svæði. Ekki er minnst einu orði í umfangsmikilli greinargerð um stofnun þjóðgarðsins á Stafafell í Lóni. Það er þakklætið fyrir vilja landeigenda um friðlýsingu hluta jarðarinnar frá 1976. Meginmarkmið virðist vera að landið sem þjóðgarðinum tilheyri verði nógu stórt (sbr. stærsti þjóðgarður í Evrópu) og að hann dragi nógu marga ferðamennn til landsins. Meiri áhersla er á gjaldeyristekjur af þjóðgarðinum, heldur en að útskýra hvaða sögulegar og náttúrufarslegar heildir er verið að varðveita.

Sókn er besta vörnin segir einhvers staðar og því munu landeigendur halda áfram að byggja upp jörðina sem útivistar- og verndarsvæði. Að halda sjálfstæði sínu og verjast ágangi og ásælni ríkisins. Stefnt er að stofnun Hollvinasamtaka Stafafells (VIST) sem mynda bakland í þeirri baráttu að tryggja að jörðin haldist sem söguleg, landfræðileg og útivistarleg eining. Jafnframt verður leitað eftir stuðningi fjársterkra aðila sem kæmu að uppbyggingu þjónustumiðstöðvar. Nú þegar, liggur fyrir frumhugmynd að uppbyggingu vandaðra tjaldstæða og sérstæðrar þjónustumiðstöðvar. Gert er ráð fyrir að meginþjónustuhús verði gert úr náttúruefnum, einkum gabbró og líbaríti og lögun þess minni á vörðu. Það er viðeigandi að tákn Stafafells; Útivistar- og verndarsvæðis (STAFAFELL; Park of recreation and conservation) sé álft og hreindýr, sem vísa til hálendis og láglendis, ásamt því að skírskota til jafnvægis í lífríkinu.

Allir eru velkomnir á kynningar- og myndakvöldið. Kynntar verða einnig gönguferðir sumarsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband