Huglægt mat eða fagleg úttekt?

Ráðgjafafyrirtæki Mosfellsbæjar hefur skilað inn umhverfismati áætlana vegna deiliskipulags við lagningu Helgafellsvegar. Eins og gert er ráð fyrir í reglum um slíkt mat, þá er viðleitni í skýrslunni að gera skipulagðan samanburð valkosta. Varmársamtökin bentu bæjaryfirvöldum á að aldrei hafi verið gerður slíkur samanburður og að fagleg úttekt væri forsenda þess að almenningur gæti myndað sér skoðun á málinu. Hún væri jafnframt forsenda þess að efla íbúalýðræði og aðkomu almennings að skipulagsmálum. Eftir lestur þessarar skýrslu vakna spurningar um sjálfstæði ráðgjafafyrirtækisins í málinu. Til dæmis er ekkert tekið til umfjöllunar mikilvægi þess að í ört vaxandi bæjarfélagi sé haldið eftir útivistar- og verndarsvæði, með öllum þeim jákvæðu perlum sem liggja upp með Varmá. Hesthúsahverfi og reiðleiðum, íþrótta- og skólasvæði, lista- og menningarstarfi, heilsueflingu og endurhæfingu. Mikilvægi og gildi þess að hafa svigrúm til vaxtar og eflingar "Varmárdals" sem hjarta og lífæð Mosfellsbæjar. 

Margt bendir til að fyrirtækið hafi verið hliðhollt húsbónda sínum í meðhöndlun gagna og að stigagjöfin sem notuð er í skýrslunni sé byggð á röngum forsendum varðandi tvær helstu tillögurnar sem eru í umræðunni, það er fyrirliggjandi tillögur bæjaryfirvalda um Helgafellsveg og tillögur Varmársamtakanna um mislæg gatnamót í jaðri byggðar. Á fundi með ráðgjafarfyrirtækinu ítrekuðu Varmársamtökin að þverun Varmár við Álanes væri ekki hluti af tillögum samtakanna, heldur væri gert ráð fyrir safngötu á aðalskipulagi og jafnframt í þriðja áfanga deiliskipulags Helgafellsbygginga og svari bæjaryfirvalda. Tókum sérstaklega fram að samtökin hafa óskað eftir því að þessi tenging væri tekin út. Útskýrðum að okkar tillögur gengju eingöngu út á að mislæg gatnamót í jaðri byggðar, ofan og norðan núverandi Helgafellshverfis kæmu í stað tengibrautar um Álafosskvos. Þrátt fyrir þetta setur ráðgjafafyrirtækið þverun Varmár við Álanes á reikning Varmársamtakanna sem að leiðir til alvarlegrar villu í samanburði á umhverfisáhrifum tillagnana tveggja. Þarna tekur fyrirtækið upp sama tón og fulltrúar bæjaryfirvalda um að nota útúrsnúning um þverun Varmár við Álanes sem forsendu í samanburði. Það er alvarlegt mál í ljósi þess að þeim hafði verið gerð grein fyrir inntaki tillagna samtakanna.

halfsannleikurÞað sem meira er að fyrirtækið virðist kaupa þá túlkun bæjaryfirvalda að deiliskipulag Helgafellsvegar snúist um "500 m vegarspotta". Að skipulagstillagan endi í tvöföldu hringtorgi við Vesturlandsveg er ekki í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og markmið Vegagerðar um að leggja af hringtorg. Samkvæmt heimildum er ráðgert að það muni gerast fyrr en síðar og segjast fulltrúar vegagerðar líta á slíkt hringtorg með aðliggjandi brekkum báðum megin við, sem ófullnægjandi bráðabirgðalausn. Því verðum við að vera með varanlega lausn á teikniborðinu en segja ekki hálfsannleika til að fegra málið í skipulagsferlinu. Samkvæmt aðalskipulagi á tengibrautin að koma undir Vesturlandsveg og liggja nálægt íþrótta- og skólasvæði, loka af göngustíg og reiðgötu, setja eitt sögufrægasta hús bæjarins upp á umferðareyju og gera miðbæinn að rússíbana bílaumferðar. Jafnframt er nauðsynlegt að bera þessa tvo möguleika saman með tilliti til þess að mislæg gatnamót séu komin á Hafravatnsveg (Reykjaveg) eins og ráðgert er í fyrirliggjandi skipulagstillögum.

Uppsetning skýrslunnar er vönduð, ártöl, dagsetningar og sögulegt yfirlit er allt til fyrirmyndar. Stigagjöf í samanburði er að nokkru í anda þess sem Varmársamtökin höfðu óskað þegar þau fóru fram á að gerð yrði  fagleg úttekt á valkostum. Í slíkum samanburði er þó nauðsynlegt að grunnforsendurnar séu réttar. Eins og ég hef rakið hér að ofan þá er það ekki raunin. Þrátt fyrir góða umgjörð og uppsetningu, þá er inntakið og niðurstaðan ómarktæk. Þó Varmársamtökin fagni þessum áfanga sem náðst hefur að fá þessa vinnu fram og er að hluta til vegna okkar vinnu, þá hlítur það að vera markmið samtakanna að sýna fram á veikleika þessarar skýrslu og ekki síður hvernig er hægt að gera betur. Almenningur á það skilið að rétt sé farið með og að unnið sé á faglegum forsendum. Í skýrslunni er engin ný vitneskja, engar rannsóknir eða útreikningar, heldur er hún huglægt mat á villandi forsendum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband