Þjóðgarðurinn Hafnarnesi

Í miðhálendisskipulagi og þingsályktunartillögu um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er gert ráð fyrir að þjónustumiðstöð við ferðamenn verði að Stafafelli í Lóni. Markmið náttúruverndar er að varðveita landfræðilegar og sögulegar heildir. Hinn forni kirkjustaður með sitt víðáttumikla fjalllendi sem afmarkast af jökulám og vatnaskilum uppfyllir öll skilyrði til að verða eitt af helstu útivistarsvæðum landsins. Þar að auki hefur það verið skipulagt sem griðland göngumannsins með tjald- og skálasvæðum, göngubrúm og stígum.

VatnaGardurÞað var því eðlilegt að óskað væri eftir viðræðum við þinglýsta lögaðila hins 400 ferkílómetra lands, sem ríkið sannarlega seldi árið 1913 um möguleika á að Stafafell í Lóni yrði innan hins ótrúlega víðáttumikla þjóðgarðs sem áformaður var umhverfis Vatnajökul. Einn útgangspunktur í undirbúningnum var og er að ríkið áformar ekki að kaupa nein lönd. Því hlítur það að vera eðlilegt að landeigendur geri engu að síður kröfu um að hafa ávinning af samningi um að láta sitt land inn í þjóðgarðinn.

Í því ljósi settu landeigendur fram þrjú skilyrði fyrir þátttöku í frekari viðræðum við ríkið fyrir um tveimur árum. 1. Ein af fimm aðalþjónustumiðstöðvum (gestastofum) Vatnajökulsþjóðgarðs yrði byggð á Stafafelli. 2. Landeigendur héldu öllum tekjum af ferðaþjónustu á svæðinu og 3. Verðgildi jarðarinnar yrði ekki skert með hugsanlegum samningi. Þessi skilyrði fékk ráðuneytisstjóri í vegarnesti inn í ráð og nefndir sem voru að fjalla um þetta mál.

Aldrei kom neitt formlegt svar við þessu eða að farið væri í neinar alvöru viðræður á þessum forsendum. Áhugaleysið eða sinnuleysið gagnvart þessari sögulegu, landfræðilegu og útivistarlegu einingu kom vel fram í stórri skýrslu um Vatnajökulsþjóðgarð sem birt var á síðasta ári. Þar er ekki minnst einu einasta orði á Stafafell í Lóni, þó hundruðir af minni spámönnum allt í kringum jökulinn væru nefndir til sögunnar. Einhverra hluta vegna hafði mikilvægi þessa svæðis ekki ratað inn á síður þessarar skýrslu. Sveitarfélagið hefur heldur ekki dregið fram sérstöðu þess og mikilvægi.

119-1997_IMGNáttúruverndar- og ráðuneytismenn lögðu áherslu á mikilvægi þessa svæðis og vilja sinn til að byggja eina af þessum meginstöðvum í Lóni. Meðal annars var sú hugmynd viðruð að Stafafall frá fjöru til fjalls myndaði einn af þremur fótum þjóðgarðsins ásamt Skaftafelli að viðbættum Skeiðarársandi og Jökulsárgljúfrum alla leið til sjávar að norðan. Ráðuneytismenn viðurkenndu þó að mikill þrýstingur væri frá sveitarstjórn Hornafjarðar að fá meginstöð eða gestastofu staðsetta á Höfn.

Nýlega, þann 10. nóvember á afmæli Kirkjubæjarstofu kemur það fram í máli Þórðar H. Ólafssonar starfsmanns stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs að samkomulag hafi náðst um að staðsetja gestastofu í landi Hafnarnes en það er í eigu sveitarfélagsins. Jafnframt tekur hann fram að stefnt sé að samningi við ferðafélagsdeild um landvarðamiðstöð í Kollumúla, sem þá væntanlega verður útibú frá gestastofunni á Höfn.

Atvinnuhagsmunir sjávarþorps virðast því hafa orðið ofan á, en ekki forsendur þeirra sem koma til að njóta náttúrunnar. Þurfa upplýsingar og þjónustu við upphaf útivistar og gönguferða. Umhverfisráðuneytið hafði lýst því yfir að það kæmi ekki til greina að staðsetja gestastofuna á Höfn. En nú er henni ætlaður staður skammt innan við pípuhliðið, þar sem gera má ráð fyrir að verði hugsanlegt byggingarland Hafnar. Áherslan er á þjónustu við bílaumferð en ekki göngufólk.

HornVegur

 

 

 

 

 

 

 

Það sem gerir málið enn pínlegra fyrir umhverfisráðuneytið og náttúruverndaráherslur er að áformin ganga út á að velja henni stað miðað við að hún verði rétt hjá leið 3 af þremur möguleikum við breytingar á legu þjóðvegar eitt um Hornafjörð. Vegagerðin mælir með leið 1 vegna þess að hún hafi minnst umhverfisrask í för með sér, en leið 3 hefur mest umhverfisáhrif og mun valda verulegu raski á leirum í firðinum. En mikið skal gert til að hugmyndin um aukna atvinnu á Höfn og að tryggja bílarennslið að geststofunni.

Það er álit landeigenda Stafafells í Lóni að þetta bendi til að áherslur útivistar og náttúruverndar ráði ekki för við undirbúning Vatnajökulsþjóðgarðs. Þeir sjá auk þess engan ávinning miðað við núverandi forsendur af þátttöku í þessu ferli og hafa ákveðið að slita öllum viðræðum við ríkið um þetta mál. Þeir munu halda áfram að vinna þeirri hugmynd brautargengi að þarna verði einkarekið útivistarsvæði og leita eftir samstarfi við fjárfesta um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar í hinni fögru sveit.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum þá gengur ríkinu treglega að ná samningum við landeigendur um að láta land til þjóðgarðsins. Enda verður það að segjast eins og er að ekki er gert ráð fyrir því að þeir gegni neinu hlutverki í öllum þeim stjórnum, nefndum og ráðum sem skipaðar hafa verið til að fara með stjórnsýslu í þjóðgarðinum. Ég tel það vera brýnt fyrir landeigendur sem eiga land umhverfis jökulinn og áætlað er að taka inn í þjóðgarðinn að sameina áherslur sínar og hagsmunagæslu.

Myndirnar sýna staðsetningu gestastofa og landvarðamiðstöðva, þegar enn var gert ráð fyrir að þjónustumiðstöðin verði á Stafafelli í Lóni, göngubrú sem vígð var 2003 og gerði land Stafafells að samfelldu útivistarsvæði og neðst eru sýndar þrjár möglegar útfærslur á tilfærslu hringvegar við Hornafjörð og gestastofa áætluð við Hafnarnes, hjá þeirri leið sem hefur hinar alvarlegu afleiðingar á fjörðinn og leirurnar. Hefði ekki bara verið betra fyrir Hafnarmenn að leggja áherslu á menningu, veitingahús, sundlaug og  konur með hatta, frekar en að ræna atvinnutækifærum frá sveitunum, sem felast í uppbyggingu náttúrutengdrar ferðaþjónustu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Mig langar að byrja á því að fá að flissa yfir athugasemd þinni um konur með hatta. Tek fram að ég setti á mig varalit áður

Að öðru leyti er ég fullkomlega sammála þér um að þarna virðast, eins og oft áður, undarleg sjónarmið ráða för!! Af hverju skyldu landeigendur láta land af hendi inn í þjóðgarðinn?

Ég hélt að markmið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs væri að hlúa að þeirri tegund ferðamanna, hvort sem það eru þaulvanir göngugarpar eða hinir sem vilja hvíla sig í stórbrotinni náttúru frá erli dagsins!!

Hefurðu rætt þetta við Óla Björns? Mér sýnist hann vera að brillera í afréttarmálum fyrir bændur?

Hrönn Sigurðardóttir, 14.11.2007 kl. 14:09

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Auðvitað þarf að vera sjarmi og elegans í þéttbýlinu, en náttúra og sveitasæla við gestastofur og þjónustumiðstöðvar.

Nú þarf að leita eftir fjársterkum aðilum til að standa að stofnun einkarekins útivistarsvæðis.

Gera ekki væntingar til þessa ferils eða að gangast undir allar þær nefndir og ráð semnú vilja drottna yfir stórum hluta landsins undir merkjum Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ég er búin að fara með slurk af bekkjarfélögum okkar í gönguferðir þarna. Þórir. Kalla, Óla, Eydísi, Jón. Eymundur og Ragnheiður borguðu staðfestingargjald í fyrra, en eru ekki enn farin.

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.11.2007 kl. 20:01

3 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þetta er athyglisverð lesning. Hvað sem líður umferðarmiðstöð á Höfn þá þarf að koma  náttúru- og gestastofa að Stafafelli.  Ekki spurning. Fallega teiknað  hús með kortum, ljósmyndum, sögulegum, nátturulegum og menningarlegum upplýsingum auk kaffistofu.  Ekki spurning.  kv.  B

Baldur Kristjánsson, 14.11.2007 kl. 20:22

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Skálar, göngubrýr, tjaldstæði, stígar eru í baklandinu og geta tekið á móti miklum fjölda ferðamanna. Það eru nefnilega ekki nema um 5 svæði á landinu þar sem fólk getur arkað til fjalla og verið að fara milli staða og út frá skálum í viku til tíu daga og hvern dag að upplifa nýtt svæði og ný ævintýri.

Það vantar bara punktinn yfir i-ið, vandaðan front í byggð, geststofu með upplýsingum og veitingaaðstöðu. Ég var í viðræðum við Sigríði Sigþórsdóttur arkitekt sem mikið hefur notað náttúruefni við hönnun húsa (Bláa Lónið). Hugmyndin var að byggja þjónustumiðstöð úr gabbrói með ýmiskonar áferð og alla tóna líparítsins mulda í gólfefni. En bara eniga, meniga, mig vantar ....

Það er mikið af skjölum sem til eru bæði á Héraðsskjalasafninu á Höfn og þjóðskjalasafni og tengjast Stafafelli. Töluvert er einnig af gömlum munum og myndum. Jafnframt er áhugavert að gera grein fyrir nýtingu jarðarinnar, hjáleigum, vinnufólki, smalamennskum, engjaslætti og öðru sem felst í einum árhring viðfangsefna fólksins sem nýtti jörðina. Á meðan séra Jón var að semja Vikingasögu, umfangsmikið heimildarit um herferðir víkinga þá var Sigfús Jónsson að hlaupa uppi kindur í Víðidal.

Baldur, stefnum á að fá okkur kaffibolla, vonandi innan ekki of langs tíma, í fögru sköpunarverki Guðs og manna að Stafafelli

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.11.2007 kl. 22:34

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Líst vel á það!  kv.  B

Baldur Kristjánsson, 15.11.2007 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband