Er Pakistan tilbúið fyrir lýðræði?

Telja má víst að morðið á Benazir Bhutto muni valda mikilli ólgu í Pakistan og í raun eyðileggja kosningar sem ætlað er að fara fram í byrjun nýs árs. Ekki er ólíklegt að gripið verði til aðgerða af hálfu stjórnvalda í ætt við herlög sem að takmarka enn og aftur mannréttindi einstaklinga.

Skoli-_april_07_2 

Samkennari síðustu ár hefur verið pakistani að nafni Maxwell Ditta. Sérlega þægilegur maður og vel gefinn. Vegna þeirra tengsla ákvað Borgarholtsskóli á tíu ára afmæli sínu að byggja barnaskóla í Jarawala í samvinnu við ABC barnahjálp. Myndin er af skólanum og nemendum þegar starfsemi var komin í gang síðastliðið vor.

Síðustu misserin hef ég haft tækifæri til að ræða við hann um stjórnmálaástandið í heimalandi hans. Meðal annars um kröfu Vesturlanda að koma á lýðræði í landinu. Efaðist hann um að pakistanar væru tilbúnir til að innleiða lýðræði. Hann taldi Musharraf hafa komið ýmsu góðu til leiðar og hann taldi hann lengi vel besta kostinn.

Skoli_April_07 

Hann áleit að ákveðnir grunnþættir eins og menntun þyrftu að vera til staðar, til að lýðræðið næði að þróast. En nú bar svo við fyrir þessar kosningar að menntamenn í landinu hafa snúist gegn Musharraf. Háværustu andstæðingar hans hafa verið lögfræðingar sem mótmæla afskiptum hans af dómskerfinu. 

Maxwell taldi að nauðsynlegt hefði verið fyrir komandi kosningar að fá sterkan þriðja aðila í framboð sem að ætti ekki þá vafasömu fortíð sem tengja mætti bæði við feril Bhutto og Musharraf. Það er erfitt fyrir Vesturlandabúa að skilja afhverju hin vel menntaða og sjarmerandi kona sem Benazir Bhutto var, naut ekki meiri lýðhylli og tækifæra. 


mbl.is Óljóst hvernig dauða Bhutto bar að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Því miður held ég að þeir hafi bara ákveðið að hafa einhverskonar platlýðræði svo að landið yrði ekki að Afghanistan 2. Það er alveg vitað að Bandaríkjamenn hótuðu því 2001 ef þeir myndu ekki vinna með þeim. Leiðtogum landsins finnst þeir örugglega vera fastir á milli fjölda strauma, en það er samt engin afsökun.

Geiri (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 16:35

2 identicon

En reyndar held ég að þú sért að misskilja þetta eitthvað...

Hún var vinsælasti stjórnmálamaður í Pakistan og ég held að þjóðin hefði alveg verið tilbúin í meiri breytingar með hana í forystu. 

Geiri (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 16:39

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það getur verið rétt að áhrif Bhutto hefðu verið góð á þróun lýðræðis. Hinsvegar tilheyrði hún yfirstétt í hugum pakistana, alvarlegum spillingarmálum sem reyndar voru meira tengd manni hennar. Því var hún umdeild. Musharraf hefur líka tapað tiltrú eftir að hafa rekið dómara og skipa velvildarmenn sína í staðinn og draga það úr hömlu að segja af sér sem yfirmaður hersins. Þannig að það var slæmt fyrir lýðræðið að hafa ekki einhvern flekklausan sterkan aðila í framboði. Nú hefur kostunum enn fækkað og hætta er á að það ýti undir áhrif öfgasinna.

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.12.2007 kl. 21:30

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Pakistan er eitt margra vonlausra gerviríkja sem Bretar bjuggu til með reglustriku þegar heimsveldi þeirra hrundi eftir seinni heimsstyrjöldina. Þetta er allt eftir gamalkunnugu módeli - að deila og drottna. Bandarískir lærisveinar síkópata í London hafa síðan haldið áfram þessarri gjaldþrota stefnu hér og þar og þóst koma af fjöllum í hverri krísunni af annarri.

Baldur Fjölnisson, 28.12.2007 kl. 00:32

5 Smámynd: Karl Jónsson

Ég var staddur í Amsterdam á ráðstefnu um miðjan nóvember. LEigubílstjórinn minn frá flugvellinum og inn í borgina var Pakistani. Hann var skrafhreyfinn mjög og við fórum að spjalla. Mér fannst áhugavert að kanna hug hans til stjórnmálaástandsins í heimalandi hans og spurði hann því út í það. Hann var ákafur fylgismaður Musharrafs af þeirri einföldu ástæðu að hann vildi ekki fá spillta stjórnmálamenn eins og Sharif eða Bhutto til valda. Ferill þeirra í heimalandinu væri einkennandi af spillingu sagði þessi ágæti leigubílstjóri. Hann hafði einnig trú á því að neyðarlögin sem sett voru í landinu hefðu verið sett af góðum hug og til þess að tryggja að lýðræðislegar kosningar gætu farið fram.

Hann sagði einnig að tal Bhuttos um lýðræði væri til þess eins að sækja stuðning út í hinn vestræna heim, en væri í raun ein af aðferðum hennar til að komast til valda og tryggja sínu fólki háar stöður og aðgang að auðæfum.

Bhutto virtist í augum okkar á vesturlöndum vera hinn frelsandi engill í stjórnmálum Pakistans þegar hún kom til baka, en skv því sem þessi maður sagði, var það ekki vilji þorra landsmanna að koma henni til valda.

Karl Jónsson, 28.12.2007 kl. 07:42

6 identicon

Góðan daginn.

Ekki hef ég nú yfirgripsmikla þekkingu á pakistönskum stjórnmálum en hef þó fylgst ágætlega með fréttum þaðan að austan síðustu árin. Af þeim fréttum hefur mátt draga eftirfarandi lærdóm að mínu mati.

Gífurleg átök eru milli þeirra sem stofna vilja til hreins íslamsks ríkis undir sharia lögum og svo þeirra sem vilja blanda saman hefðbundnum íslömskum gildum við nútíma lagabókstaf og lýðræði. Mikill meirihluti er fyrir síðari leiðinni.

Musharraf og núverandi stjórnvöld með herinn í fararbroddi hafa verið að reyna að feta einhvern milliveg, leið sem hingað til hefur að mestu gefist þokkalega, þ.e. ríkið hefur hangið saman á málamiðlunum. Í þessu hálfgerða tómarúmi hefur öfgamönnum tekist að ná yfirhöndinni víða, þó sérstaklega meðal fátækra og oft illa menntaðra íbúa afskekktari svæða. Bhutto virðist hafa eftir langa fjarveru vanmetið alvarleika ástandsins og talið að einfaldur fagurgali eða popúlismi ásamt því að benda fingri á núverandi stjórnvöld sem "vandamál" Pakistans, nægði til að fólk hópaðist til fylgis við hennar skoðanir og  brautin væri greið fyrir úrbætur. Þetta varð hennar svana söngur.

Sjálfsagt liggja þræðir öfgamanna inn í raðir hers og lögreglu en ljóst er á atburðum undangenginna ára að enginn í stjórnsýslu Pakistans er óhultur, hvorki Musharraf sjálfur, ráðherrar, herforingjar eða lögreglumenn. Umsátrið um rauðu moskuna fyrir nokkrum mánuðum átti að vera viðvörun til öfgasinnaðra íslamista um að þolinmæðin væri á þrotum hjá hernum en niðurstaðan virðist hafa orðið þver öfug, öfgaliðið fékk jafnvel enn meira fylgi meðal almennings.

Nú er spurning hvort dauði Bhutto vekur fólk í Pakistan til vitundar um að vandamál landsins er ekki einn maður, þ.e Perez Musharraf, heldur vaxandi öfgahyggja sem fengið hefur að grassera í skjóli afbakaðra trúarbragða síðustu misserin. Ef almenningur í Pakistan snýst nú gegn öfgamönnum er góð von um að betri tíð sé framundan, en ef niðurstaðan verður að Musharraf segir af sér og öfgahyggja nær yfirhöndinni þá er ekki von á góðu í framtíðinni.  

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 10:01

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir góðar athugasemdir. Það virðist að almenningur í Pakistan hafi ekki verið hrifinn af Bhutto, þó hún nyti mikilla vinsælda á Vesturlöndum. Musharraf hefur haft stuðning heima fyrir, en hefur gert ýmis alvarleg mistök og skapað sér óvinsældir meðal mikilvægra hópa innanlands. Hugsanlegt er að öfgahópar græði á þessu tómarúmi og reyndar margt sem bendir til að þeir hafi það markmið í sjálfu sér að skapa sem mestan glundroða. Það er því spurning hvernig þjóðir heims geti veitt þróunaraðstoð í átt til lýðræðis án þess að taka ábyrgðina frá þeim sem byggja landið.

Gunnlaugur B Ólafsson, 28.12.2007 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband