Einmenningskjördæmi

KosningarMargir eru hugsi eftir atburði síðustu daga í pólitíkinni. Flokkafyrirkomulagið og endalaus hrossakaup við smáflokka hafa gefið af sér stjórnarkreppu. Tvær um það bil jafnstórar fylkingar eru strand upp á skeri. Því væri hugsanlega nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking öxluðu ábyrgð og töluðu sig í átt að starfandi borgarstjórn. Að segja svona er mér þvert um geð því að ég hef viljað láta þessa tvo flokka gegna hlutverki andstæðra póla. Sitt hvor aðaltakkinn sem kjósendur hafa til að óska eftir breytingum. 

Hvernig er hægt að gera úrbætur á fyrirkomulagi lýðræðisins þannig að það séu kjósendur sem velja stjórn hverju sinni og við losnum út úr þessari kaupsýslu með völd eftir kosningar? Það verður að gera eitthvað svo fólk missi ekki áhuga á að vera virkir þátttakendur í mótun samfélagsins. Ein leið sem tryggja myndi verulegar úrbætur á kerfi okkar er að flokkar gefi yfirlýsingar fyrirfram um samstarfsaðila. Með þessu væri hægt að koma í veg fyrir að Framsókn, Frjálslyndir eða aðrir smáflokkar hefðu öll völd að lokinni kosninganótt. En sennilega er klisjan um að "allir gangi óbundnir til kosninga" orðin það lífseig að það þyrfti að gera eitthvað róttækara.

Mikið hefur verið rætt um það að gera landið að einu kjördæmi muni tryggja heilbrigðara lýðræði, þar sem einn maður er eitt atkvæði. Hinsvegar hef ég mikið verið að spá í það síðustu ár hvernig sé hægt að kjósa ríkisstjórnir og þá líka borgarstjórnir eða sveitarstjórnir. Hvernig geta kjósendur náð fram afgerandi skilaboðum um breytingar. Víða er kosningafyrirkomulagið fólgið í að kosinn er fulltrúi svæðis með einmenningskjördæmum. Slíkt fyrirkomulag útrýmir smáflokkum og skilaboð kjósenda um breytingar koma oft fram með skýrari hætti. 

Slíkt fyrirkomulag hefur mikla kosti og þegar ég leitaði á netinu fann ég akkúrat grein eftir Jón Steinsson hagfræðing sem rökstyður þessa kosti mjög vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þessu kom ég á framfæri fyrir rúmu ári. Hér er ég að reyna að sameina þá kosti að kjósa bæði fólk og flokka. Jafnvel fólk án flokka.

http://www.haukurn.blog.is/blog/haukurn/entry/98203/ 

Haukur Nikulásson, 23.1.2008 kl. 16:19

2 identicon

Ég er búinn að vera að flytja áróður fyrir einmenningskjördæmum í rúmlega 10 ár. Landið sem eitt kjördæmi gerir það að verkum að vald flokkanna yfir því hverjir fara á þing verður nánast algjört þar sem engar reglur eru til um hvernig raða skal á framboðslista. Eftir það er nánast tilgangslaust að kjósa nema rétt til að ákvarða um einhver örfá sæti til eða frá. Með því að gera landið að einu kjördæmi er verið að ræna þjóðina öllum möguleika á að hafa áhrif. Kosningar verða einungis fíflalegt formsatriði.

Það sem þarf að gera er að gera er að setja upp einmenningskjördæmi, eitt fyrir hvern þingmann, má t.d. skipta landinu eftir íbúafjölda til að tryggja sem jafnasta atkvæðadreifingu. Síðan þarf að taka upp raunverulega þrískiptingu valds, kjósa sérstaklega um ríkisstjórn þar sem ráðherrar mega ekki sitja á þingi. Slík kosning gæti verið í "einu kjördæmi". Að lokum þarf kljúfa skipan dómara frá bæði þingi og ríkisstjórn á einhvern hátt þannig að enginn aðilinn sé öðrum háður. Ekki eins og þessi sirkus sem ríkir í dag þar sem löggjafarvald og framkvæmdarvald er á sömu hendinni og framkvæmdavaldið skipar síðan dómsvaldið eftir eigin geðþótta.

Gulli (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 22:22

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Haukur ég las færsluna þina og þar eru margir áhugaverðir punktar. Er þetta með valið á fólki og flokkum ekki svolítið flókið í útfærslu.

Einfaldast væri að skikka flokka til að gefa upp samstarfsaðila. Eða hreinlega siðferðilegar hefðir og heilindi, eins og í öðrum löndum, kjósa borgaralega flokka eða vinstri flokka. Þá væri ljóst að siðferðileg heilindi myndu til dæmis gera ráð fyrir því að VG og Samfylking vinni saman og Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir. Einnig að auka vægi útstrikana og möguleika kjósenda til endurröðunar á lista, þannig að hægt sé að velja röð einstaklinga.

Nafni, góð hugleiðing. Sammála þér að ef landið yrði gert að einu kjördæmi, þá bíður það heim hættunni á að mest yrði um þreytta flokksjálka, sem eru komnir með mestan samanlagðan fundartíma af nefnda- miðstjórna- og landsfundasetum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 23.1.2008 kl. 23:29

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Einmenningskjördæmi eru vond að því leyti að þú færð ekki að kjósa þá manneskju á þing sem þú nákvæmlega vilt. Það er gallinn við einmenningskjördæmi.

Mín tillaga gengur út á að kjósa rafrænt og þá með aðstoð auðkennislykils. Þú veljir ákveðinn fjölda frambjóðenda og þannig er prófkjórsvitleysunni eytt. Það er hins vegar ekkert sem hindrar að fólk geti ekki kosið á sama einfalda háttinn og fyrr þ.e. bara flokk. Það fólk verður þá að sætta sig við að þeir sem nenna að raða niður röðinni á hverjum flokki ráði meira um einstaklingana.

Við getum ekki lokað augum fyrir því að fólk geti ekki hlaupist undan flokksmerkjum. Stjórnendur flokka hafa jú gerst sekir um nægilega miklar dellur til að þingmenn eigi ekki að fylgja slíkum foringjum í blindni. Það nægir að benda á t.d. aðgerðarleysi þingmanna Framsóknar- og Sjálfstæðismanna þegar ákveðinn var stuðningur við stríðsrekstur í Írak, eftirlaunafrumvarpið, fjölmiðlafrumvarpið og fleiri mál sem eru heimskulegri en tárum taki.  

Haukur Nikulásson, 25.1.2008 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband