Nýbúar, vesalingar og börn taka strætó

Jeppinn minn þykir ekki merkilegur pappír í flóru fjórhjólatrukka. Hann stendur sig þó þokkalega, en líkt og aðrir bílar þarf hann viðhald og á verkstæði af og til. Ein slík bæjarreisa á verkstæði var í dag. Ég spyr mennina í afgreiðslunni hvort þeir viti hvar sé styst að ná í strætó niður í bæ og hvað þeir séu númer. Eldri maðurinn glottir og það pískrar í honum. Lætur vita með líkamlegu táknmáli að þetta sé ekki góð spurning í mekka bílamenningar. Sá yngri segir að hann hafi nú ekki tekið strætó síðan hann var sextán ára. Eftir smá vandræðalega þögn, segir yngri maðurinn í léttari tón og með von í röddinni að viðeigandi lausn væri fundin; "Viltu ekki bara að ég hringi á leigubíl". Ég jánka því. Auðvitað var best að hann hringdi á leigubíl.

Leigubílstjórinn talar um hvað það séu margir farnir að hjóla um borgina og finnst það greinilega jákvætt og nefnir það sem eðlilega sjálfsbjargarviðleitni á tímum hækkandi orkuverðs. Ég er búin að vera þátttakandi í hjólað í vinnuna átakinu sem var að ljúka. Þar eru allir að hrósa hver öðrum. Sannfærðir um að hjólreiðar séu merki hreysti og dugnaðar. Ótrúlegt að mér hafi dottið í hug að fara í strætó í dag. Hann er náttúrulega bara fyrir þá sem eru of latir til að hjóla, nýbúa, vesalinga og börn sem geta ekki rekið eigin bíl. Aðalmálið er að senda réttu skilaboðin með farskjótanum, sem maður velur sér. Jeppa eða leigubíl. Fara svo á tyllidögum vel hjálmaður í réttu útivistarmerkjunum, á hjólinu í vinnuna. Þá er allt eins og það á að vera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það þarf eitthvað að laga þarna.

Sigurjón Þórðarson, 24.5.2008 kl. 01:15

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Já, Sigurjón kúltúrinn okkar virðist líta niður á að menn taki strætó og jafnvel líka gangandi í vegfarendur. Ég hef ekki fundið fyrir svona erlendis að það sé einhver lágstéttarstemming yfir því að nota almenningssamgöngur. Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.5.2008 kl. 08:12

3 Smámynd: Ásgeir Eiríksson

Ég hef langa og mikla reynslu af því hver vandi almenningssamgangna er: viðhorfið. Það birtist í hnotskurn í frásögn þinni, ágæti (fyrrverandi) granni. Í þjónustumælingum Strætó kemur á daginn að 80 - 85% viðskiptavinanna eru ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustuna. Það sem þarf að laga Sigurjón, er viðhorfið, ekki síst frá kjörnum fulltrúum sem bera samfélagslega ábyrgð á að þessum málaflokki sé sómasamlega sinnt.

Ásgeir Eiríksson, 24.5.2008 kl. 08:29

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Ásgeir. Gott að fá innlegg byggt á tveggja kynslóða reynslu í forystu fyrir strætó. Það þarf viðhorfsbreytingu, þannig að það verði hip og kúl fyrir alla að nýta þennan ferðamáta. Bið að heils þínum, mbk,  G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.5.2008 kl. 14:00

5 Smámynd: kiza

Ég hjóla nú í vinnuna á hverjum einasta degi, hvort sem um átak er að ræða en ekki...en á móti kemur sú staðreynd að ég hef aldrei tekið bílpróf, hehe 

En það er nú ekkert allt of vel tekið á móti manni á götunum (á ákveðnum tímum sérstaklega), bílstjórar eru ekkert að hægja á sér áður en þeir bruna oní poll og skvetta á mann eða njörva manni út í kant þegar maður er bara að reyna að taka þátt í umferðinni á sinn hátt.  Svo eru nú því miður svo margar götur svo hrikalega illa farnar af umferð og lélegri viðgerð að maður er dauðhræddur um að rústa dekkjunum á þessu....

Mætti alveg íhuga að úthluta okkur hjólafólkinu okkar eigin akrein eða a.m.k. hafa uppi skilti sem biðja bílstjóra um að sýna okkur smá virðingu og almenna kurteisi. 

- Jóna Svanlaug. 

kiza, 24.5.2008 kl. 15:31

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Það er algjörlega mitt val að taka strætó en þótt ég finni alls ekki fyrir fyrirlitningu vegna þess þá veit ég að mörgum finnst þetta mjög hallærislegur lífsmáti. Miklu flottara að vera á bíl, vera frjáls ... Ég er ekki á sama máli!

Þegar Skagastrætó kom til sögunnar breytti það óskaplega miklu og varð til þess að ég flutti á æskuslóðirnar aftur. Í fyrstu ferð í bæinn á morgnana þarf hvorki meira né minna en tvær rútur til að flytja fólkið, alla vega yfir vetrartímann.

Guðríður Haraldsdóttir, 24.5.2008 kl. 16:52

7 Smámynd: Sigrún Óskars

Það er rétt að viðhorfið gagnvart strætó þarf að breytast. Ég tók alltaf strætó þar til í haust s.l. að þeir breyttu áætluninni og ég gat ekki verið mætt nógu snemma í vinnuna - þurfti að kaupa annan bíl á heimilið. Tungumálið í strætó var austantjalds - ein og einn íslendingur.

Það þarf að merkja strætókerfið betur, ferðamaðurinn sem tekur strætó veit ekki að Hlemmur er Hlemmur því það stendur hvergi og bílstjórinn segir honum það ekki (enda tala bílstjórarnir hvorki íslensku né ensku). Í útlöndum veistu alltaf svona sirka hvar þú ert - allt er merkt. Svo er alltof dýrt að taka strætó.

Sigrún Óskars, 24.5.2008 kl. 23:00

8 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

keyri ekki.....nota strætó mikið...með pólverjum, h-eldri borgurum, geðsjúkum og svo unglingum.

Hólmdís Hjartardóttir, 26.5.2008 kl. 03:50

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir athugasemdir. Ef til vill væri hægt að fara í vinnustaðakeppni, hver fer oftast í strætó!!! Veglegir vinnningar!!! -Breyta ímyndinni.

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.5.2008 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband