Valdablæti og látalæti

Geir H

Það varðar þjóðarhag að skilja sálarlíf Sjálfstæðismanna eins mikið og þeir hafa verið til vandræða með stólahrókeringum í borginni síðustu misserin. Svo virðist sem Hanna Birna borgarstjóri ætli að prófa nýja og mýkri ímynd fyrir flokkinn. Hún segir; "Þessi átakamiðuðu stjórnmál, sem allt of lengi hafa einkennt íslenska pólitík, ættu að vera tækifæri fyrir okkur að endurskoða þá menningu sem oft einkennir stjórnmálin".

Á öðrum stað talar hún um framtíð flugvallarins og lýsir þeirri skoðun sinni að flugvöllurinn þurfi að víkja af þessu verðmæta byggingarlandi fyrir borgina. Þetta er konan sem lét það ganga yfir sig síðustu rúma tvö hundruð dagana að þora ekki að viðra þessa skoðun opinberlega og allt að því gangast undir stefnu Ólafs F um áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýrinni.

Vandamál Sjálfstæðisflokksins er skortur á lýðræðisvitund. Að leita eftir og hlusta eftir viðhorfum fólks. Láta hagsmuni er lúta að mikilleika og völdum flokksins víkja fyrir heilbrigðri skynsemi og heilindum. Við sáum þetta birtast með sjúklegum hætti í skipulagningu hátíðahalda vegna Hannesar Hafstein. Þar sem flokkurinn reyndi að eigna sér hann með öllu og jafnvel að boða til funda um hátíðahöldin meðan forseti landsins var erlendis.

Dagbókarfærslur Matthíasar Jóhannesen hafa fengið mikla athygli síðustu dagana og flestir túlka þær þannig að þeim sé ætlað að koma höggi á tiltekna vinstri menn, meðal annars Ólaf Ragnar Grímsson forseta. Mun áhugaverðara finnst mér að sjá hvernig forystumenn Sjálfstæðisflokksins og miskunnarlaus fjármálaöfl áttu greiðan aðgang að ritstjórum og ritstjórn Morgunblaðsins. Í dagbókunum er persóna og samviska Matthíasar að birtast af fullum heilindum, þó auðvitað hafi hann sína pólitísku sýn sem staðsetur hann í litrófi stjórnmálanna.

Matthías skrifar um viðleitni blaðsins til að rjúfa tengslin við Sjálfstæðisflokkinn; "Það er líka rétt að fyrir sveitastjórnarkosningar 1994 birti Morgunblaðið ávarp frá Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins, meðal aðsendra greina, en ekki á sérstökum stað á útsíðum eins og áður, þótt blaðið hafi lýst yfir stuðningi við stjórnmálastefnu Sjálfstæðisflokksins í forystugreinum. Ég held Davíð hafi aldrei fyrirgefið þessa ákvörðun. Eftir langt samtal okkar í Stjórnarráðinu rétti hann mér greinina og ætlaðist áreiðanlega til að hún yrði birt að venju á útsíðu, en ég tók þá ákvörðun að setja hana inní blað sem aðsenda grein og ber mesta ábyrgð á því".

Matthías og Styrmir eru hættir sem ritstjórar og ljóðskáldið virðist telja að blaðið standi undir nafni sem blað allra landsmanna fremur en flokksmálgagn. Augu og eyru hafa því verið opin fyrir því hvernig ný ristjórn fjallar um borgarmálin, sem verið hafa samfelldur harmleikur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ritstjórnargreinarnar hafa haldið sér við fulla flokkshollystu. Í forystugrein í dag um Hönnu Birnu hrekkur Mogginn í gamla hlutverkið að mæra og upphefja mikilfengleika forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Hrósar sérstaklega áformaðri viðleitni hennar að hafa nánara samstarf  og samráð við minnihlutann í borgarmálum.

Í forystugreininni segir; "Svona hafa ekki margir forystumenn í stjórnmálum talað". Þessi hugtök og áherslur hafa þó verið áherslur Ingibjargar Sólrúnar. Um nauðsyn breytingar á þeim kúltúr sem ríkir í íslenskum stjórnmálum. Þetta var inntak Borgarnesræðunnar, ásamt lýsingu á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áranna rás umgengist valdið. Það er lofsvert hjá Hönnu Birnu að leita eftir samstarfi og opinni umræðu. En afhverju gerir hún það fyrst núna, en ekki strax fyrsta eða annað skiptið þegar flokkurinn myndaði meirihluta? Mogginn, sem flokkslega óháð dagblað hefði átt að benda á þá stöðu í stjórnmálum að Samfylkingin er í mestum takt við væntingar borgarbúa og hefur þá lýðræðisvitund sem einkenna þarf nútímalegt stjórnmálaafl.

Nú hefur flokkurinn uppgötvað að hann þarf að efla tengslin við kjósendur. Hanna Birna ætlar að innleiða "metnaðarfulla fjölskyldustefnu". Í þeim anda er nýji borgarstjórinn ekki sýndur á mynd með guðfeðrum sínum Guðna og Geir, heldur í faðmi eigin fjölskyldu. Vonandi eru þetta ekki látalæti eftir að vera komin í þrönga stöðu. Vonandi á að hlusta eftir þeim málum sem brenna á fólki. Rækta sitt hlutverk sem fulltrúar fólks, en ganga ekki fram af yfirlæti og rembingi sem hinir útvöldu. Þar fannst mér Geir H. Haarde flaska inn á gamaldags flokks og fálkaímynd í viðtali í Markaði Fréttablaðsins, þar sem honum er stillt upp við hlið málverks af föllnum foringja.

Að vitna í Bjarna Ben eða Ólaf Thors þykir flott í Valhöll en ekki meðal almennings, að formaðurinn sé á mynd með málverk af Bjarna Ben eða Ólafi Thors í baksýn þykir flott í Valhöll en ekki meðal almennings. Ein helsta málpípa íhaldsmanna í bloggheimum var búin að stilla Jóni Sigurðssyni, Hannesi Hafstein, Jóni Þorlákssyni, Ólafi Thors, Bjarna Benediktssyni og Davíð Oddssyni öllum í eina röð í hausmynd á síðu sinni. Reyndar hrundi heimsóknartíðni í framhaldi og hann er nú búin að fjarlægja alla karllurkana úr toppstykkinu. Geir Haarde og aðrir Sjálfstæðismenn verða að láta af þessu valdablæti sínu. Að vinna verk sín út frá öðru en mikilfengleika flokksins. Vera auðmjúkir og kumpánlegir fulltrúar fólks. Vonandi sjáum við næst mynd af formanninum í barnahópi á leiksóla. Það væri miklu flottara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband