Í sveitarinnar sælu

"Sveit í borg" eru hinir formlegu vegvísar í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Þorri íbúa hefur valið sér stað vegna góðra tengsla við náttúruna og til að fá notið útivistar af ýmsum toga. Hver og einn hefur sett mælistiku á kosti og galla staðarvalsins. Vægi heilbrigðrar umgjörðar fjölskyldulífs og útivistar hefur verið metið meira en óþægindi vegna fjarlægðar frá margs konar þjónustu.

Fyrir tveimur árum skrifaði ég grein í Morgunblaðið sem hét; "Að vernda og efla ímynd Mosfellsbæjar". Þar hvatti ég til þess að leitað yrði allra leiða til að halda í þennan kjarna í áherslum samfélags og bæjarbrags. Einnig að skoðaðir yrðu allir möguleikar til að afstýra áformum um staðsetningu Helgafellsvegar. Fyrstur til að hringja í mig og hrósa fyrir greinarskrifin var Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar.

Mál þróðust þó ekki þannig að sameinast væri undir áherslum náttúruverndar og útivistar. Gullæði ríkti í landinu og verktakar fóru mikinn. Það var þekkt stærð af langri sögu Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ að hann gengur hart fram til að tryggja hagsmuni verktaka og mætir iðulega athugasemdum og umræðu meðal íbúa af miklu fálæti. Skipulagsáform eru kynnt en ekki rædd. Athugasemdir eru sagðar byggja á misskilningi.

Það kom hinsvegar verulega á óvart að Vinstri grænir sem mynduðu meirihluta með Sjálfstæðisflokknum stilltu sér upp með hagsmunum fjármagns og verktaka. Að þeir eyddu öllu sínu púðri í baráttu gegn opnum umhverfis- og íbúasamtökum, Varmársamtökunum. Höfðu engin spil á hendi í umræðu um náttúruvernd. Talsmaður þeirra festist síðan í pitti sjálfsvorkunar og er þar enn, þó hann gangi samkvæmt viðtali óttalaus innan um skurðgröfur.

Mikið vantar upp á að eðlilegt andrými sé fyrir aðkomu almennings að þróun síns samfélags. Að það sé talið eðlilegt og sjálfsagt að vera virkur og skapandi einstaklingur. Að fulltrúar flokka eða meirihluta séu ekki þeir einu sem að megi hafa orðið. Það hefur verið skoðun mín að það sé að vissu leyti sameiginlegur vandi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna að líta á sig sem fulltrúa sannleikans í mörgum málaflokkum. Hafa lítinn áhuga á að fara leiðir í átt að auknu íbúalýðræði.

Að geta hlustað og tekið tillit er ekki merki veikleika. Að bjóða upp á valmöguleika, umræðu, kosningar er styrkleiki. Mál geta orðið snúnari þegar skipulagsferlið hefst á því að hníta alla hnúta þannig að þjóni verktökum og framkvæmdaaðilum. Fulltrúar umhverfissamtaka voru boðaðir snemma sumars af bæjaryfirvöldum á kynnningarfund vegna fyrirhugaðs Tunguvegar. Þar undirstrikaði skipulagsarkitekt að það væri pólitísk stefnumótun sem ákvarðaði hvort svæði væru tekin frá til útivistar og náttúruverndar, ásamt því hvort umferðarmannvirki væru látin liggja utan slíkra svæða.

Ólafur Arnalds Mosfellingur og forseti umhverfisdeildar Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri skrifar nýlega blaðagrein sem nefnist "Vegur yfir lífsgæðin í Mosfellsbæ". Þar lýsir hann áhyggjum af vegagerð yfir árósasvæðið, sem hann segir verða mikil skipulagsmistök og rangt verðmætamat í nútímalegri skipulagsfræði. Valdimar Kristinsson reiðkennari, járningamaður, tamningamaður og blaðamaður og fleiri hestamenn hafa einnig lýst yfir þungum áhyggjum af fyrirhugaðri tengibraut út frá hagsmunum þeirra og hesthúseigenda.

Margt bendir því til þess að öfl sem vilja tryggja áframhaldandi gæði sveitasælunnar, þurfi að efla sitt samstarf og skerpa samhljóm. Það þarf að beita pólitískum þrýstingi til að tryggja áherslur náttúruverndar og útivistar. Kjörnir fulltrúar þurfa að hafa nógu breitt bak til að mæta slíkum þrýstingi á málefnalegan hátt og rökstyðja eigin framtíðarsýn á þróun bæjarfélagsins. Fyrirhugað er að Varmársamtökin haldi fljótlega opinn borgarafund til að mótmæla áformum um lagningu Tunguvegar.

Glutrum ekki niður ímynd og lífsgæðum Mosfellsbæjar fyrir steinsteypu og gullkálfa!

Skoðanakönnun til hliðar um afstöðu til Tunguvegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband