Nornaveiðar

Björgvin G. Sigurðsson fær á sig gusu frá Agnesi Bragadóttur og Björgólfi Guðmundssyni í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Viðskiptaráðherra hefur með háttvísi hvatt fjármálamenn til að selja eignir erlendis og koma með fjármagn til landsins til að taka þátt í því uppbyggingarstarfi sem framundan er í fjármálakerfinu. Hann hefur sérstaklega og réttilega bent á Björgólfsfeðga í tengslum við gífurlegar ábyrgðir vegna svonefndra IceSave reikninga.

Agnes segir; "... hvað finnst mönnum um það að ráðherra bankamála virðist með orðum sínum og æði í fjölmiðlum vera farinn að ganga út frá því sem gefnu að fyrrum eigendur og stjórnendur viðskiptabankanna þriggja séu bara ótíndir glæpamenn sem hann ætlar að hirða allar eignir af?! Hefur ráðherrann enga dómgreind?" Þarna virðist hinn oft á tíðum ferski blaðamaður hafa misst sig í því að verja auðmennina og reynir nornaveiðar á vettvangi stjórnmála. Það má víst ekki enn styggja eða stíga á tærnar á þeim sem voru hálfguðir hér á landi fyrir um mánuði síðan.

Björgólfur er á svipuðu róli í viðtali við Agnesi þar sem hann talar til viðskiptaráðherra; "Það er mikilvægt fyrir mann í hans stöðu að gæta tungu sinnar og vera varfærinn og samkvæmur sjálfum sér í öllum sínum gjörðum... Það er líka mikilvægt að menn notfæri sér ekki í fjölmiðlum jafn grafalvarlegt mál í pólitískum tilgangi". Í ljósi samsetningar og hruns á þeirri spilaborg sem Björgólfur Guðmundsson tilheyrði þá fer honum ekki að áminna um varfærni. Áhættusækni varð honum að falli í Hafskipsmálinu og slíkt endurtekur sig í umsvifum tengdum Landsbankanum.

Á meðan Björgólfsfeðgar tjá ekki vilja sinn í að selja t.d. fótboltafélag í Englandi eða síma í Búlgaríu til að borga skuldir vegna persónulegra umsvifa í IceSave þá eiga þeir ekki mína samúð. Á meðan að þeir sjá ekki að þeir hafi gert mistök og farið offari eiga þeir ekki mína samúð. Á meðan viðskiptaráðherra talar því máli að þessir aðilar eigi að bera ábyrgð á gjörðum sínum sýnir hann mikla dómgreind og varfærni. Hann stendur varðstöðu fyrir almenning í landinu. Að við séum ekki að ósekju látin greiða fyrir veisluhöld og timburmenn stóreignamanna.

Birgir Ármannsson alþingismaður ver nýlega stóreignamennina undir formerkjum eignarréttar og það virðist Morgunblaðið gera í sunnudagsblaðinu. Þarna liggur skoðanamunur og eðlismunur. Ef hægt er að sækja tap sem myndast við hrun viðskiptaveldis í vasa skattgreiðenda og skuldsetja þjóðina, þá hlítur að vera eðlileg krafa að fyrst sé gengið á eigur þeirra sem voru aðalleikarar og veisluhaldarar. Það eru ekki nornaveiðar heldur sanngirnismál. Ef þeir bregðast ekki við kurteislegri hvatningu þarf að skoða leiðir til að frysta eignir og lagasetningu sem hæfir eðli máls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög góður pistill. Þakka þér. Nú virðast málin vera að komast á eitthvað "einvígisstig" milli auðmanna og stjórnmálamanna þar sem hver keppist við að kenna hinum um. Áróðursmaskínur komnar í fullan gang. Í framhaldinu skiptist þjóðin í fylkingar eftir því "með hverjum það heldur".

Tókstu eftir að ummæli BG "það er mikilvægt fyrir mann í hans stöðu að gæta tungu sinnar...o.s.frv..."  var svar hans við spurningunni "Hvað um þá kröfu Bj. G. Sig. að þið feðgar...seljið allar eigur ykkar erlendis og komið með fjármagnið....."

sigurvin (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 22:36

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hver á moggann?

Hrönn Sigurðardóttir, 26.10.2008 kl. 22:40

3 identicon

Góður pistill og ég er sammála þér.

http://okurvextir.blogspot.com

Rósa (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 23:14

4 identicon

kj

Sæll,Ekki ætla ég að afsaka Agnesi í þessu máli enda ekki sérlega burðugur blaðamaður (alltof x-d og DO lituð).En það er svo augljóst mál hvað hann Björgvin G. Sigurðsson og fleiri stjórnmálamenn (sem bera mesta ábyrgð) eru að gera - þeir eru að beina sjónum fjölmiðla að útrásarvíkingunum og "óreiðumönnumum" og draga þar með athyglina frá augljósum mistökum sínum. Því miður fellur þú í þessa gildru hér, eins og svo margir aðrir. t.d. segir þú... En hvaða dómgreind og varfærni sýndi Björgvin sem viðskiptaráðherra í aðhaldi við fjármálastofnanir landsins (gegnum FME). Stóð hann varðstöðu um almenning í landinu þar? Fann hann lausn á Icesave málinu í tíma áður en allt hrundi? Nei. Afhverju krafðist hann ekki í tíma t.d. trygginga frá LAIS inní SÍ vegna Icesave, uppá ef þessar ábyrgðir myndu falla á þjóðina? Það er alveg ljóst að þessir svokölluðu auðmenn bera siðferðislega ábyrgð en ekki má gleyma því að þeir tóku ákvarðanir sem voru í samræmi við regluverkið og leyfi SÍ og FME. Svo það er augljóst mál hverjir bera hina endanlegu ábyrgð gagnvart þjóðinni - það hljóta jú að vera hinir kjörnu fulltrúar þjóðarinnar. Við skulum ekki falla öll í gildruna sem  stjórnmálamenn setja, þ.e. að dreifa athyglinni frá þeirra mistökum. p.s. hvaða eignir eiga þessi auðmenn að koma með heim. Haldið þið að þessar eignir séu ekki veðsettar einhverjum bönkum? Það er nú líklegt að það hvíli lán á þessum eignum. Ef þær eru svo seldar í dag (eignir tengdar íslendum fara aðeins í dag á útsöluverði) þá er líklegt að það söluverði cover-i í besta falli endurgreiðslu á áhvílandi lánum. Hvaða pening (eigið fé) eiga þá auðmenn að koma með heim?

Hannes (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 23:24

5 identicon

Björgvin og hans fólk var búið að vinna að því að breyta Icesave í dótturfélag.
Sú vinna var vel á veg komin en það tókst bara ekki að klára málið.
Ég tel að hann eigi ekki sök í þessu máli - þvert á móti.

Berglind (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 23:32

6 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Góður pistill, þakka þér fyrir.

Agnes skrifar oft hressa pistla og veit stundum sínu viti.

En þetta var hálfgerður horssaskítur í henni út í Björgvin. Hann hefur staðið sig frábærlega vel í umróti síðustu vikna. Hvort honum hafi orðið á í eftirlitshlutverkinu veit ég ekkert um. Það kemur í ljós þegar allt þetta dapurlega mál verður skoðað - Því það verur að rannsaka ofan í kjölin.- Annars fæst aldrei friður með þessari þjóð.

Jón Ragnar Björnsson, 26.10.2008 kl. 23:40

7 Smámynd: Leifur H

Stjórnmálamaður eins og Björgvin G. Sigurðsson hefur alltaf sjálfan sig og sinn flokk í fyrsta sæti í öllu sem hann segir og gerir. Björgvin kemur vel fyrir í fjölmiðlum, ekki vantar það, en hann hefur hingað til ekki verið krafinn um skýringar á því hvers vegna eftirlitskerfið sem hann ber ábyrgð á lét málin þróast svona langt. Þegar Björgvin talar um að eigendur bankanna - og þá væntanlega allir eigendur - leggi fram eignir sínar til að bæta skaðann, þá er hann að beina athyglinni frá því að stjórnvöld sviku Íslendinga illilega með því að tryggja ekki öryggi í fjármálakerfinu.

Pistillinn á vefsíðu Björgvins, sem hann er núna búinn að loka, þar sem hann lofar og prísar útrásarfyrirtækin, er frá því í ágúst síðastliðnum. Og í september var hann á fundi með fjármálaráðherra Bretlands og sagði að allt væri í stakasta lagi. Þegar hann fer svo að tala um ábyrgð útrásarfyrirtækjanna, þá er hann bara að beina athyglinni frá því að sjálfur stendur hann í djúpum skít.

Leifur H, 26.10.2008 kl. 23:54

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góð færsla.

Hannes: Frysting eigna auðmanna og tafarlaus rannsókn á hverju fylgiskjali þeirra hefði átt að framkvæma fyrir löngu síðan. Þá hefði það komið í ljós hvort þeir ættu einhverjar eignir.

Ráðlausir og dáðlausir stjórnmálamenn okkar hafa því miður ekki stigið þetta nauðsynlega skref.

Theódór Norðkvist, 27.10.2008 kl. 00:18

9 identicon

72. gr stjórnarskrár.

"Eignarrétturinn er friðhelgur.Engan má skilda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi full verð fyrir".

Gunnlaugur B. þú ættir að halda þig við skrif um málefni, sem þú hefur lágmarksþekkingu á. Björgólfur Thor seldi Búlgarska símafyrirtækið á síðasta ári með um $1 milljarðs hagnaði.

Þú fellur fyrir smjörklípu Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra, sem mærði útrásina í ágúst 2008, fullyrti á fundi með Alister Darling 2. september 2008 að íslensku bankarnir stæðu vel.

Eftir að norski olíusjóðurinn felldi íslensku bankana í verði í feb. 2006 með skortstöðu, þá kom fram að bankarnir væru vaxnir seðlabankanum yfir höfuð, en Halldór Asgrímsson utanríksráðherra sagði að skuldlaus seðlabankinn gæti stutt íslensku bankana með lántökum allt að 1000 milljörðum ISK/$16 milljörðum.

Björgvin G. Sigurðsson hefur sofið á vaktinni og nú eru stjórnvöld í vandræðum með lántökur af 1/3 þeirrar upphæðar, sem Halldór Asgríms nefndi fyrir 2 1/2 ári.

'Oskar litli (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 04:47

10 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góð viðbrögð og umræða. Takk fyrir það. Já, nú eiga allir að vera vandvirkir og aðgætnir í umgengni við útrásarliðið. Mér var ekki boðið í neitt einasta kampavíns- eða kokteilboð á vegum bankana, fékk aldrei boðsmiða á fótboltaleik í London eða annað bruðl sem var hluti af veislunni, þá neita ég að gerast ábyrgur fyrir IceSave reikningum. 

Samkvæmt Frjálsri verslun í fyrra var eignarhaldið á Morgunblaðinu með þessum hætti;

Útgáfufélagið Valtýr hf., (félag í eigu fjölskyldu Huldu Valtýsdóttur), á 20,3%, Ólafsfell ehf. á 16,8% (Björgólfur Guðmundsson) , Forsíða ehf. 16,7% (Ólafur Jóhann), MGM ehf. 16,7% (Straumur Burðarás), Björn Hallgrímsson ehf. 16,7% (fyrir eigendum þess fer Kristinn Björnsson) og Garðar Gíslason ehf. 12,7% (Halldór Halldórsson og fjölskylda).

Björgólfur er því einn af stærstu eigendum blaðsins með sín beinu óbeinu eignatengsl. Myndin sem dregin er upp af honum um eðli bankakreppunnar er einföld. Hún er ríkisstjórninni að kenna. Við vorum góðu gæjarnir sem tryggðum fjárstreymi til landsins og héldum uppi "góðærinu".

Hvatvíslegar og órökstuddar fullyrðingar Agnesar Bragadóttur um dómgreind viðskiptaráðherra er aumt yfirklór til að beina athyglinni að öðru en ábyrgð þessara manna. Fyrir utan áhættusækni útrásaraðila, þá voru það Seðlabankinn og fjármálaeftirlitið sem brugðust sem eftirlitsstofnanir.

Það var ekki nokkur stjórnmálamaður sem talaði á þeim nótum að íslenskir bankar væru veikburða enda höfðu ekki komið viðvörunarmerki um slíkt. Hinsvegar má halda því fram að alþingi og ríkisstjórnir hafi sofið á verðinum við einkavæðingu bankana að tryggja ekki einhverjar girðingar á skuldbindingar íslenskra banka erlendis. Þar trúi ég að ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé mikil. Björgólfsfeðgar voru flokknum þóknanlegir.

Það er eðlileg krafa að frysta eignir þessara einstaklinga og tryggja að þær séu nýttar til að borga Ice Save skuldir, áður en slíkum skuldum er velt yfir á þjóðina.

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.10.2008 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband