Sameinumst um að sameinast

Gamansaman

"Political parties are such a strong dividing force in our society" sagði bandarískur prófessor í stærðfræði sem var með mér í gönguferð fyrir tveim árum. Hann var vottur jehóva. Þessi setning hefur verið mér minnisstæð. Við flokkum hvert annað með tilliti til þess hvort að viðkomandi sé með okkur í liði. Fólk í þessum flokki er svona og öðruvísi í hinum. Að vissu leyti hafa slíkar fullyrðingar sitt gildi. En skila átök flokka árangri? Er æskilegt að hafa sem flesta flokka? Átök milli þeirra eiga að skila nýjum hugmyndum, lýðræðislegum afrakstri sem skilar góðu samfélagi. Síðan skili kosningar okkur besta fólkinu að landstjórninni.

Háværar raddir eru um þörf á nýjum flokkum. Hinir gömlu hafi reynst ónothæfir og sofandi á verðinum. Sjálfstæðir sjálfstæðismenn, evrópusinnaðir sjálfstæðismenn, framsóknarmenn af gamla skólanum og af nýja skólanum, hægri og vinstri kratar, frjálslyndir og þunglyndir, nýtt afl og gamalt afl, lýðræðishreyfing og landshreyfing, borgaralegir og vinstrisinnaðir flokkar. Öllu þessu verður síðan att í hanaslag kosningabaráttu, en kjósendur fá engu ráðið um þá ríkisstjórn sem kæmi upp úr kössunum. Ekki einu sinni möguleika á að raða frambjóðendum á lista í kjörklefanum.

Framagjarnir vilja nýja flokka, en fólkið vill einfaldlega öflugra lýðræði og upplýstari umræðu. Ef til vill er nóg að hafa einn flokk eða engan flokk ef við göngum út frá því að sérhver þingmaður fylgi sannfæringu sinni en láti ekki teyma sig áfram út frá ríkjandi skoðun í flokksbásnum. Þannig er það sérstakt að stærsti flokkurinn geti skipt um skoðun í grundvallarmáli á einum landsfundi. Allir þögðu áður eða melduðu sig á móti Evrópusambandinu, en munu trúlega eftir landsfund annað hvort þegja eða tjá sig hlynnta fullri þátttöku í samvinnu innan Evrópu.

Þó er enn furðulegra að fulltrúar flokks sem krefjast lýðræðis á torgum ástundar það ekki á heimavelli. Gerir kröfu um tvöfalt þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu en bíður ekki félagsmönnum sínum upp á almenna atkvæðagreiðslu um stefnu flokksins. Slíkur flokkur er ekki lýðræðislegur vettvangur umræðu og ákvarðana. Þar er sami andi og var hjá sósíalistum og kommúnistum síðustu aldar. Valdhafarnir mynda feðraveldið sem að miðlar réttu frösunum og einu réttu útgáfu sannleikans. Opnun í átt að almennum áhrifum flokksfélaga og lýðræði eru spor sem vekja óþægilegar minningar. Margrét hlaut kosningu en ekki Steingrímur. 

Samfylkingin er mynduð úr nokkrum flokkum. Fyrst tilheyrði fólk einhverjum armi, en nú hefur hinn almenni kjósandi ekki lengur áhuga á slíkri sorteringu. Satt best að segja ríkir þar sú stemming að fjölbreytileiki í skoðunum sé styrkur fyrir umræðuna og lýðræðið. Vandamál flokksins nú er að þingflokkurinn virðist haldinn ákveðinni meinloku; "we are the chosen ones and you are the frozen ones". Þegar flokkurinn var myndaður möndluðu forystumenn flokkana sem mynduðu Samfylkinguna með alla þætti í því ferli. Svo virðist sem Samfylkingin sé að nokkru leyti ennþá brennd þessu marki þingflokksræðis

Engu að síður er auðveldasta leiðin til að tryggja áhrif almennings fólgin í að ljúka sköpunarferlinu sem fór af stað með myndun Samfylkingar. Það hefur tekist að mörgu leyti mjög vel, en látum ekki flokksforystuna ofdekrast á fílabeini. Nú er kominn tími til að grasrótin taki yfir stefnumótun og krefjist þess að vera virkir þátttakendur. Ráðherrarnir ástunda ekki samræðustjórnmálin, heldur vanvirða þing og þjóð með upplýsingaskorti og baktjaldamakki. Það er enn sannleikur í þeirri visku að átakastjórnmál flokka skila litlum árangri, en fjölbreytileiki í viðhorfum innan lýðræðislegs flokks er efniviður til góðra verka. Það er fátt dýrmætara fyrir flokk, land og þjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Svei mér þá ef við erum bara ekki sammála.

Víðir Benediktsson, 31.12.2008 kl. 08:42

2 identicon

Ég biðst afsökunar á því að fjalla ekki efnislega um pistilinn en vil hvetja bloggara til þess að huga betur að texta sem hann lætur frá sér.

"Political parties are such a strong dividing force in our society" mætti auðveldlega snara á íslensku án þess að nokkuð tapaðist. Er það til of mikils mælst?

"We are the chosen ones and you are the frozen ones" er e.t.v. hnittið á amerísku en missir algjörlega marks í íslenskum texta.

Hvorug settningin bætti þennan pistil á nokkurn hátt, öðru nær. Amerískan er ágæt þar sem hún á heima en í langflestum tilvikum skemmir hún íslenskan texta.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 09:15

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta er góð ábending Guðmundur. Annað er þó raunveruleg tilvitnun í mann og hitt er frekar spurning um rím -chosen / frozen- Það eru langflestir sem skilja ensku og óttast ég ekki heimsútbreiðslu "Amerískunnar". Menn nota oft bókmenntalegar tilvitnanir í texta á íslensku þar sem gert er ráð fyrir að menn séu víðlesnir. Það er engu betra. En takk fyrir tiltalið

Gunnlaugur B Ólafsson, 31.12.2008 kl. 11:31

4 identicon

Þakka góðan pistil.  Gallinn er bara sá að Samfylkingin er bara á nákvæmlega sama plani og aðrir flokkar " lobbyistar ".  Frekar fyndist mér að minka ætti völd stjórnmálaflokka.  Það er hvort sem er ansi mikið í okkar samfélagi sem þeir þurfa ekki að koma nálægt.

itg (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband