Að friða snjó

Ég hef aldrei skilið útfærslur og verndarhugsun Vatnajökulsþjóðgarðs. Megináhersla er á hversu svæðið sé stórt. Við stofnun var stemming samfélagsins sú að allt íslenskt væri mest og best. Við urðum að geta flaggað því að hér væri stærsti þjóðgarður í Evrópu.

Ábending Helga Hallgrímssonar um meginþunga á ferðamennsku en ekki náttúruvernd er bæði þörf og brýn. Áherslur hafa verið á ferðamennsku og gildi þjóðgarðs sem aðdráttarafls í markaðssetningu. Úttekt á mikilvægi og sérkennum svæða með tilliti til náttúruverndar hefur verið aukaatriði.

Sagt er að þetta sé allt jafnáhugavert. Ferðaþjónustuaðilar frá Ásbyrgi, út á Seyðisfjörð og að Kirkjubæjarklaustri eiga bara að mæra eitthvert samsafn af snjó, Vatnajökul, daginn inn og út. Þeir séu hluti af einhverju neti og þar með þjóðgarðinum mikla.

Áherslan á ferðaþjónustuna undir merkjum Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið kynnt þannig að í hinum nýstofnaða garði muni heimamenn hafa miklu meiri áhrif, en áður hefur þekkst. En í raun verður það þannig að áherslur á inntak náttúruverndar veikist og breytist í froðusnakk.

Þannig mun hugtakið Vatnajökulsþjóðgarður ekki hafa neina merkingu út frá náttúrufarslegum forsendum nema þá að upp á hásléttunni hefur safnast snjór og út frá jöklinum renna ár með vatnasvið til allra átta. Þjóðgarðurinn er illa afmarkaður landfræðilega.

Fyrir rúmum þrjátíu árum gengust landeigendur Stafafells í Lóni inn á að friðlýsa hluta jarðarinnar sem að síðan var farið að kalla Lónsöræfi. Það hugtak varð að mörgu leyti ofnotað og merkingarlaust líkt og ég trúi að verði með Vatnajökulsþjóðgarð.

Stundum hefur hugtakið Lónsöræfi verið notað yfir allt svæðið sem gengið er á leið úr Snæfelli eða sveitina alla milli Eystra- og Vestra-Horns. Þetta hefur stuðlað að því að gömul örnefni sem notuð hafa verið í árhundruð víkja eins og Stafafell, Kollumúli og Eskifell.

Í Austur-Skaftafellssýslu eru það "fjögur fell" sem ættu að veljast út sem verndar- og útivistarsvæði. Þau eru Skaftafell, Kálfafell, Hoffell og Stafafell. Í þeim tilfellum sem ríkið er ekki eigandi lands þarf að semja við landeigendur um að taka að sér náttúruvernd.

Stafafell í Lóni er sögulega, landfræðilega og útivistarlega vel afmörkuð eining. Vatnaskil og jökulár mynda heild sem að hefur meira náttúruverndargildi heldur en flest önnur. Þessi sérstaða hefur glatast í Vatnajökulsumræðunni.

Náttúrufræðingar, sögumenn og útivistarfólk ég treysti á ykkar liðsinni að draga fram þessa sérstöðu svo við þurfum ekki að eyða orku í merkingarlaust ferðalag sem drifið var af stað vegna samviskubits stjórnvalda í stóriðjumálum.StafafellKort


mbl.is Ótakmarkað aðgengi varhugavert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er ekki bara verið að friða snjó.. því í framtíðinni þá er hugsanlegt að nýta orkuna sem er undir Vatnajökli og þá koma friðunaraðgerðir í dag í góðar þarfir..

Óskar Þorkelsson, 25.1.2009 kl. 12:17

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Þegar byrjað var að ræða Vatnajökulsþjóðgarð, héldu margir að hann mundi ná frá jökulsporði til sjávar  bæði í austri og vestri.

Vegna þess að jarðir innan garðsins eru sundurskornar er vandfarið með ákvarðanatökur varðandi umferð um garðinn.

Klúður að hafa ekki allt svæðið innan garðsins. Hvorki landeigendur né þjóðgarðsstjórn getur tekið ákvarðanir af neinu viti.

Þórbergur Torfason, 25.1.2009 kl. 12:38

3 identicon

Þetta er mjög þörf umræða Gunnlaugur. Nýsjálendingar eru búnir að innleiða þá stefnu að setja hagsmuni náttúruverndar ofar hagsmunum sem snúa að nýtingu svæða, s.s. ferðaþjónustu. Einar Sæmundsen upplýsingafulltrúi þjóðgarðs á Þingvöllum hefur verið að halda fyrirlestra um þessi mál. Sumir vilja reyndar tala um náttúruvernd sem nýtingu. Ég tel hins vegar ákveðna hættu í því fólgna að leggja hagsmuni náttúruverndar og nýtingar á náttúrunni að jöfnu. Verndin þarf að mínu viti að hafa mesta vægið - óháð nýtingu.

Sigrún P (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 15:14

4 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Ég tel ábendingar Helga Hallgrímssonar eðlilegar og góðra gjalda verðar. Ætlaði mér að fylgjast með ráðstefnunni á Egilsstöðum en komst ekki þangað í tæka tíð sökum seinkunar í flugi. Get því ekki lagt dóm á það sem þar kom fram í einstökum atriðum.

Hafa ber í huga að vinna að verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn er á byrjunarstigi en að henni eiga margir að koma í samræmi við lög og reglur um þjóðgarðinn. Gert hefur verið ráð fyrir að tillögur að slíkri áætlun liggi fyrir á næsta ári og fyrst þá er kominn grunnur til að leggja mat á skipulag þjóðgarðsins og verndaráherslur.

Í máli þínu Gunnlaugur finnst mér gæta í senn misskilnings og fordóma varðandi þjóðgarðsstofnunina svo og um inntak og eðli þjóðgarðsins. Ég hvet þig til að líta málið jákvæðum augum og stuðla að því að friðland á Lónsöræfum tengist þjóðgarðinum í framtíðinni. Brýnt er að náttúruvernd svæðisins alls njóti forgangs jafnframt því sem fólki verði gert kleift að njóta svæðisins í samræmi við verndarskipulag hans sem verið er að leggja drög að og sem fylgja þarf eftir með reglubundinni vöktun. Í Vatnajökulsþjóðgarði felast tækifæri sem hlúa þarf að og fylgja ber eftir til að tryggja að þau verði að veruleika.

Hjörleifur Guttormsson, 25.1.2009 kl. 21:57

5 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Ég gekk með þér um Lónsöræfi eða hluta þess svæðis og ég tel að það sé dæmigert svæði til að friðlýsa og auðvita þarf að stjórna átroðningi í öllum þjóðgörðum og öllu friðlandi það er brjálæði að haf þessi svæði opin og án aðgangs ef fjölga á ferðamönnum eins og sumir vilja.Vatnajökulsþjóðgarður verðu með tíð og tíma mjög verðmætur ef hlýnun verður eins og nú er þá verður jökullinn mun minni en nú er og þá kemur ýmislegt í ljós sem gaman verður að fylgjast með og þá er gott að hafa friðun þannig að það verði ekki skemmt.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 25.1.2009 kl. 22:34

6 identicon

Hvar kemst ég í tillögur Helga Hallgrímssonar? Hef misst af umræðu um þennan fund.

Sigrun P (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 00:02

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er mín trú að ég hafi viðhorf sem hvorki eru misskilningur né fordómar, kæri frændi. Þau eru byggð á reynslu, því ég hef verið nálægt púlsi þessarar umræðu í þrjátíu ár. Hef kauplaust setið tuga funda um friðlýsingu hluta jarðarinnar meðan flestir fulltrúar ríkisins voru launaðir. Ítrekað var fundað um endurskoðun friðlýsingar án þess að neitt kæmi út úr því og í framhaldi sögðu landeigendur upp friðlýsingunni í þeirri von að rætt væri við þá af meiri alvöru.

Hef nú verið boðaður á allnokkra fundi út af Vatnajökulsþjóðgarði og enn og aftur kemur lítið út úr þessu. Í þetta fer tími og án launagreiðslna. Þar ofan á vill ríkið að landeigendur "afsali" sér jörðinni án þess að nokkuð sé borgað fyrir snúðinn. Það er gert í framhaldi af því að hluti jarðar sem seld hafði verið af ríkinu var dæmd þjóðlenda (reyndar einkaafréttur) en það mál er nú hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.

Í allri kynningu hins opinbera á svæðinu sem var friðlýst er kerfisbundið hættt að kenna landið við Stafafell, sem að er þó bæði hin landfræðilega og sögulega heild. Á upplýsingaskilti á Jökulsársandi yfir friðlandið er hvergi Stafafell nefnt til sögunnar, skýrslur fyrir stofnun Vatnajökulsþjóðs nefna hvergi Stafafell, umhverfisráðuneyti sendi í haust út hugmyndir um að friðlýsa Austurskóga og þar er hvergi minnst á Stafafell sem hina landfræðilegu og sögulegu einingu sem þeir eru innan.

Hinsvegar er endurtekið reynt að spyrða þá við nýirðið Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessu er reynt að kljúfa jörðina og söguna í nýjar áður óþekktar einingar. Þannig tel ég að sú velvild Sigurðar Jónssonar afa míns að heimila friðlýsingu hluta jarðarinnar undir heitinu Lónsöræfi hafi verið launuð með þjóðlendudómnum. Hið nýja heiti sem kom með friðlýsingu vísar til öræfa og sú afmörkun gefur dómurum tilefni til að halda að einhver afréttur eða sérsvæði sé til staðar.

Landeigendur hafa skipulagt jörðina sem útivistar- og verndarsvæði. Með uppsögn á friðlýsingu þá er það skoðun mín að Lónsöræfi séu ekki til nema þá svona óljóst hugtak um eitthvað fjalllendi upp af Lóni. Á meðan ríkið heldur áfram viðleitni að glefsa út úr þessu bitana hér og þar á mismunandi forsendum þá finnst mér landeigendur verði að kynna eigin framtíðarsýn, sem vandað hefur verið til með stefnumótun. 

Síðastliðin tvö ár hef ég farið á Vestnorden ferðakaupstefnuna og kynnt svæðið undir heitinu STAFAFELL - Náttúrugarður. Síðastliðin tvö ár hef ég fylgt gönguhópum byrjun á Stafafelli og gengið úr byggð í fimm daga. Áður var mest ekið í Kollumúla og gengið þaðan. Nú byrja ég með hópa í kirkjunni sem að er nafli ríkulegrar sögu, fylgi slóðum eftir fólk og fénað inn með Jökulsá, tvær nætur í Eskifelli og tvær nætur í Kollumúla.

Þannig kynni ég Stafafell sem hina sögulegu og landfræðilegu einingu frá fjöru að vatnaskilum, er býður upp einstakt og fjölbreytilegt þversnið af íslenskri náttúru. Þar hefur áin meitlað til bergið í milljónir ára og fólk gengið til fjalla síðustu þúsund ár. Þannig að mér líður sem ég sé innan um nokkuð varanleg verðmæti, óháð einstaka pappírum eða gjörningum ríkisins.

 

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.1.2009 kl. 00:04

8 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Sæll félagi Gunnlaugur!

Með fyrirsögninni, Að friða snjó, finnst mér þú gera lítið úr náttúruperlunni Vatnajökli og jöklum almennt. Jöklar geyma sögu landsins. Þeir geyma upplýsingar um veðurfar fyrr á öldum, bæði hitafar og úrkomu, auk þess sem þeir geyma upplýsingar um eldgos fyrri alda.  Því þarf að efla rannsóknir á jöklum landsins. Náttúruvernd er partur af því ferli.

Á vefnum new7wonders.com er kosning um nýjustu sjö undur veraldar. Vatnajökull er eini fulltrúi Íslendinga  á listanum.  Því ber okkur siðferðileg skylda á því að hugsa vel um þessa perlu okkar sem við höfum ekki uppgötvað.

Meira síðar.

Sigurpáll Ingibergsson, 26.1.2009 kl. 00:12

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Fyrirsögnin er vissulega gerð til að skapa viðbrögð og umræðu. Eins og þú þekkir þá hafa Hafnarmenn verið með megináherslu á jökulinn og þá sérstaklega að nýta hann fyrir allskyns útivistar sem að hefur ekkert með náttúruvernd að gera. Þar ber sérstaklega að nefna jeppa- og snjósleðaferðir. Þeir hafa haft mikinn áhuga á að fá þjóðgarðsstimpil á jökulinn til að auðvelda markaðssetningu á hinum vélvædda massatúrisma.

Stafafell sem útivistarsvæði nýtur ekki góðs af slíkum áherslum. Þar er áhersla á jarðfræði, vistfræði, lengri gönguferðir, sem að gæti sameiginlega flokkast undir slow travel en á Höfn hefur áherslan verið á adventure tours (prófaðu bara að leita á netinu þá sérðu þessar kick áherslur). Þetta á allt ágætlega saman sem fjölbreytilegir möguleikar fyrir ferðamenn en það er athyglivert að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs styður frekar við hinn vélvædda massatúrisma heldur en friðsæl tengsl einstaklinga við náttúruna. Þar erum við farin að nálgast punkt Helga Hallgrímssonar inn í umræðuna.

stafalogo 

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.1.2009 kl. 00:58

10 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég held við verðum að reyna að auglýsa Vatnajökulsþjóðgarð sem góðan kost fyrir hvers kyns ferðafólk. Bæði náttúruunnendur og náttúrufræðinga og hverskyns fræðinga auðvitað. Dæmi eins og Jöklaferðir eru komin til að vera og svo er bara að bæta í og fjölga enn möguleikum.

Gönguferðir frá Stafafelli hafa fengið mjög góða dóma og um að gera að byggja ofan á það. Ég hef mestar áhyggjur af að vegna þess hvernig jörðum bænda er skipt innan þjóðgarðs og utan, verði aldrei almennilegur friður.

Þórbergur Torfason, 26.1.2009 kl. 01:08

11 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég sat einn fund með ráðuneytisstjóra umhverfisr. Það var hvorki fróðlegt né skemmtilegt spjall. Allir hlutir mjög óljósir og hálfgerður hótunartónn í skilaboðunum sem hann kom með.

Þórbergur Torfason, 26.1.2009 kl. 01:09

12 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þórbergur það er alls ekki ætlun mín að tala gegn ævintýrum og jöklaferðum sem einum af tónum ferðamennskunnar. En ég tel að áherslur á náttúruna og fræðslu séu að veikjast.  Auk þess er verið að auka flækjustig í þessu öllu. Við vorum með friðlýst svæði sem var lítið sinnt, en nú á að reyna að innlima það inn í enn stærri einingu sem ég er ekki sannfærður um að verði vel sinnt. Það væri fróðlegt að sjá hvernig niðurskurður fjárlega kemur niður á framkvæmdum í Vatnajökulsþjóðgarði. 

Tek heilshugar undir með þér að þessar þverlínur þjóðgarðs sem kljúfa jarðir í búta eru mjög óæskilegar. Stjórnsýslan gerir ekki ráð fyrir þvi að landeigendur séu í svæðisráðum eða neinu. Þannig er kné látið fylgja kviði eftir hina miklu aðför sem var gerð að jörðunum undir merkjum óbyggðanefndar. Því er skynsamlegast að leysa úr þessu flækjustigi með því að snúa hjóli tímans aftur um ein fimmtíu ár, hafa þetta þannig að umsýslan sé eingöngu á hendi eigenda landsins. Það gerist ekkert slæmt við það nema síður væri.

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.1.2009 kl. 09:58

13 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Á vef umhverfisráðuneytis er sagt frá Vatnajökulsþjóðgarði á Umhverfisþingi 2007.

http://www.umhverfisraduneyti.is/vatnajokull/frettur/nr/1145

Þar er lýst markmiði að tryggja að nýting svæðisins til útivistar og ferðamennsku verði sjálfbær og að aðdráttarafl svæðisins minnki ekki til lengri tíma litið.

Auk þess mun þjóðgarðurinn halda úti markvissri fræðslu um náttúru svæðisins fyrir alla þá sem heimsækja þjóðgarðinn og þannig leggja sitt að mörkum til umhverfisfræðslu og styðja við sjálfbæra þróun almennt.

Það er eins og Helga finnist að þessum markmiðum hafi ekki verið náð.

Sigurpáll Ingibergsson, 26.1.2009 kl. 23:07

14 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er svo auðvelt að setja fögur markmið á blað en ennþá auðveldara fyrir ríkið að svíkja það. Þegar samið var um friðlýsingu Lónsöræfa þá var því heitið að byggja upp tjaldstæði, stíga, salernisaðstöðu, viðhald á vörðum og sitthvað en á því bar svo engin ábyrgð og fátt gerðist fyrir atbeina hins opinbera. Auðvelt svar frá náttúruverndaryfirvöldum - það er ekki til fjármagn. Það gengur ekki fyrir einstaklinga að svara með þessum hætti ef þeir eru krafðir um efndir uppáskrifaðra samninga.

Annars óska ég þessu öllu góðs framgangs, en hef tekið þá stefnu að treysta ekki á þetta. Vil að STAFAFELL geti staðið sem eining með sína sögu, náttúru og útivist og hægt verði að stöðva öfl sem vinna gegn þeirri framtíðarsýn.

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.1.2009 kl. 23:33

15 Smámynd: Alli

Sæll Gunnlaugur.

Ég held að hugmyndin að Vatnajökulsþjóðgarði sé góð að því leyti að það hafi mikið auglýsingagildi úti í heimi að auglýsa stærsta þjóðgarð í Evrópu. Að mínu mati getur land í einkaeigu vel rúmast innan þjóðgarðsins.

Það sem helst hefur unnið á móti þjóðgarðinum í seinni tíð er ótrúleg valdnýðsla umhverfisráðherrans Þórunnar Sveinbjarnadóttur, sem ákvað að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins skildi vera á höfuðborgarsvæðinu en ekki á Hornafirði, eins og alltaf hafði þó verið gengið út frá.

Aðalsteinn Aðalsteinsson

Alli, 29.1.2009 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband