Aumingja Kjartan Gunnarsson

Ný ríkisstjórn ætlar að losa þjóðina úr fjötrum flokksveldis, endurreisa virðingu Alþingis með því að láta það ekki vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavald, skipuleggja stjórnlagaþing til endurskoðunar á stjórnarskrá landsins og opna á persónukjör í kosningum. Allt þetta og fleira er sett fram til að efla lýðræðið í landinu.

Auk þess er ætlunin að styrkja innviði samfélagsins, eftirlitsstofnanir og ráðuneyti. Þannig hefur Fjármálaeftirlitið nú verið stokkað upp og skipuð þar ný forusta. Beðið er eftir að álíka endurnýjun eigi sér stað í Seðlabankanum. Eins og Gylfi Magnússon hefur réttilega bent á að þá liggur vandi okkar helst í því að eftirlitsstofnanirnar voru í liði með útrásinni og bönkunum.

Kjartan Gunnarsson virðist ekki geta tekið undir neitt af því sem sett hefur verið fram í mótmælum þúsunda síðustu mánuði og birtist nú í útfærslum nýrrar stjórnar til að tryggja heilbrigði og lýðræðislegar áherslur innan stjórnsýslunnar. Hann hefur bara áhyggjur af vini sínum, sem hann virðist halda að eigi að vera miðdepill sólkerfis og samfélags um ókomin ár.

Vinaböndin sem tryggt hafa fríðindi og störf eru nú að gefa sig. Þeir voru fjórir mest áberandi einstaklingar að innleiða sérgæsku Sjálfstæðisflokks inn í okkar samfélag; Kjartan Gunnarsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Davíð Oddsson. Allir þessir boðberar Thatcherismans, nema Kjartan Gunnarsson, nýttu flokkinn til að koma sér í opinberar stöður.

Þessir menn héldu því fram í orði að það væri fátt ömurlegra en vera ríkisstarfsmaður, áskrifandi að laununum sínum, í stað þess að vera í einkageiranum og þurfa að standa og falla með eigin rekstri. Þessi einstaklingshyggja í atvinnulífinu umbreyttist síðan í einkavinavæðingu, þar sem flokksskírteini voru notuð til að raða fólki á jötuna. Þetta þolir alveg smá tiltekt.


mbl.is Pólitískar hreinsanir og ofsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Halldórsson

"Höfundur leiðir mannrækt í Mosfellsbæ og útivist að Stafafelli í Lóni. Vinnur við kennslu, að sameiningu sálar og líkama og síðast en ekki síst að efla frelsi, jafnrétti og kærleika í mannlífinu."

Þegar maður sér svona auglýsingu, þar sem lýst er sjálfum sér; eru sjálfsögð viðbrögð "Ahh! Intressant!  Svona góðir menn ennþá til!?"  En!, eins og oft í lífinu fær maður svo að sjá "pródúkt" auglýsendanna og þá er nú fljótur að fara glansinn og maður súnkar í öxlum og muldrar oní barminn "Einn lygarinn enn!"

Halldór Halldórsson, 6.2.2009 kl. 09:26

2 identicon

Kjartan ætti nú bara að fá sér stærri og sterkari gleraugu ofan á risastórt nefið

Stefán (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 10:06

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Gamla góða þöggunarleiðin Halldór. Hjólað í þá á persónulegu nótunum sem að eru talsmenn opins og lýðræðislegs samfélags og vilja brjóta upp sérgæsku flokksveldisins. Þú ert væntanlega hlynntur vinnubrögðum Toyota umboðsins, sem rak bifvélavirkjann sem þorði að blogga um ósamræmi í kaupum á lúxusbifreið fyrir forstjóra á sama tíma og boðað var niðurskurður á launum til starfsmanna?

En ef þú vilt snúa umræðunni og fara að ræða eitthvað mína persónu, eðliseiginleika eða líðan þá get ég bara hitt á þig. En svona almennt er ég bæði sáttur og stoltur af mínum markmiðum og viðhorfum. Áherslur mannræktar eiga svo sannarlega erindi við okkur á hinu Nýja Íslandi. Sendi þér knús og kærleika og vona að þér líði sem best innra með þér og vona að þú eigir yndislegan dag. Esjan er svo flott núna, akkúrat núna.

Gunnlaugur B Ólafsson, 6.2.2009 kl. 10:14

4 identicon

Þetta er gott innlegg hjá þér Gunnlaugur, ég er hjartanlega sammála þér.

Ég er sérstaklega ánægð með það hvernig þú svara Þessum Halldóri.  Haltu áfram á þinni braut.  Ég les þig alltaf.

svanhildur (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 11:19

5 Smámynd: Kári Sölmundarson

Ég er nú ekki svo viss um að "Ný ríkisstjórn ætlar að losa þjóðina úr fjötrum flokksveldis", það er meira verið að skipta um fjötra.

Kári Sölmundarson, 6.2.2009 kl. 12:20

6 identicon

Sæll Gunnlaugur!

Ég er svo sammála. þjóðin var að biðja um tiltekt en aumingja sjálfstæðismennirnir eru orðnir svo mikil fórnarlömb. Nú bíta þeir frá sér og er alveg sama hvort þeir ljúga eða rægja. Reyna að telja fólki trú um að ríkisstjórnin hafi ekki stuðnings meirihlutans. En þar skjátlast þeim. það er sárt að geta ekki hagað sé eins og sá sem valdið hefur eftir allan þennan tíma. Þeir ættu að fá sér áfallahjálp og koma svo í mannræktarnámskeið hjá þér:-)

Ólöf Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 12:43

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Góður Kári......

Gunnlaugur minn, Það er plagsiður vinstri manna, að hefja sinn feril með Hreinsunum.

Rlistinn, Vinstri stjórnin síðari með Denna &co og svo mun einnig hjá mörgum ,,nýjum" sveitastjórnum.

Við vitum þetta allt saman og erum þessu vanir.

Þið aftur á móti eruð EKKI vanir, að heyra í okkur um þetta, heldur ljúgið þið til um hreinsanir á Útvarpinu og svoleiðis.  (Palli Útvarpsstjóri Er Krati)

Njóttu helgarinnar, það gæti verið síðasta helgi þessarar stjórnar.

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 6.2.2009 kl. 15:04

8 identicon

Þar skjátlast þér Bjarni. það á eftir að vera vinstri stjórn lengi, lengi.... Þjóðin vill það. Sjálfstæðismenn eru ekki þjóðin þó þið haldið það.

ólöf Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 15:49

9 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Virkilega góð grein Gunnlaugur!  Gaman að sjá gamla góða Hornfirðinginn Kára Sölmundarson kommentera.  Hann viðurkennir, og má eiga það, að þjóðin hafi verið í fjötrum.  Minnkum fjötrana, afleggjum flokksveldið einkum og sér í lagi er mikilvægt að hvila aðalhákarlinn. kv. B

Baldur Kristjánsson, 6.2.2009 kl. 20:20

10 Smámynd: Smjerjarmur

Ég get ekki verið alveg sammála þér um þetta með Davíð Gunnlaugur. Ég tel að Davíð sé einn af þeim mönnum sem voru í stjórnmálum af því þeir höfðu stjórnmálalega sýn og mikinn forystuvilja. Við vitum líka að DO þurfti ekki á Seðlabankanum að halda, a.m.k. ekki peningalega séð. Það má kannski segja með sanni að hann hafi ekki áttað sig á því þegar tíma hans var liðinn, þ.e.a.s hvenær hann átti að hverfa frá opinberri þjónustu. Mér finnst þú gera hann óþarflega tortryggilegan, þ.e.a.s. ásetning hans. Ég tel að hann hafi litið svo á að það væri öllum fyrir bestu að hann réði áfram. Ómerkilegt eiginhagsmunapot finnst mér ekki líkleg skýring.

Sú ömurlega staðreynd að við skattborgar stöndum uppi með að borga fyrir vitleysuna finnst mér heldur ekki vera í anda frjálshyggjunnar, þvert á móti. Reyndar eru stjórnmál ekki trúarbrögð fyrir mér (eins og mörgum löndum vorum þessa dagana), en mestu frjálshyggjupostularnir gera í sinni hugmyndafræði ráð fyrir ábyrgð einstaklinga á gjörðum sínum og að þær séu innan þess ramma að ekki sé gengið á rétt annarra. Í mínum huga er sú vitleysa sem við erum í m.a. sú að áhættan sem fólst í útrásinni var ekki þeim megin sem gróðinn var. Hinir einkavinavæddu bankar fóru áfram í algeru ábygðarleysi, kannski mest af því að það var ekki svo mikil áhætta í því fyrir kallana sem fengu allar bónusgreiðslurnar inn á reikninga í útlöndum. Ég minni líka á að DO mótmælti ofurlaununum og margir hæddust að honum fyrir.

Smjerjarmur, 7.2.2009 kl. 02:21

11 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég sé að Kári er kominn í prófkjörsgírinn. Okkur Suðursveitungum og öðrum Hornfirðingum veitir ekki af sterkum, öflugum stuðningi á komandi tíð. 

Gaman að sjá gamla taglhnýtara fyrirverða sig fyrir fjötrana sem þjóðin var lögð í og liggur í.

Takk takk Kári og Baldur.

Þórbergur Torfason, 7.2.2009 kl. 03:45

12 Smámynd: Smjerjarmur

Bloggsíða Halldór Halldórssonar segir manni meira en maður vill vita um innræti mannsins.  Ég las nokkrar færslur og fékk nóg fyrir lífstíð. 

Smjerjarmur, 7.2.2009 kl. 11:58

13 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Mér finnst þú nokkuð djarfur, Gunnlaugur, að segja fjórmenningana hafa nýtt sér "einkavinavæðingu, þar sem flokksskírteini voru notuð til að raða fólki á jötun". Í fyrsta lagi hefur enginn þessara manna, utan DO, verið í opinberri valdastöðu. Í öðru lagi erum við að sjá einkavinavæðingu á ofurhraða eiga sér stað af hálfu nýrrar ríkisstjórnar. Og í þriðja lagi þá einkenndu þessi vinnubrögð allan feril R-listans, þ.e. fólksins sem nú telur sig vera að koma á "lýðræðislegum" umbótum, með vinnubrögðum sem kennd eru við hið stalíníska tímabil Sóvétríkjanna.

Þau verða ófá fordæmin sem Gleðistjórn Jóhönnu skilur eftir sig.

Ragnhildur Kolka, 7.2.2009 kl. 15:44

14 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sverrir tróð Hannesi í HÍ í trássi við dómnefnd, var það ekki BB sem tróð Jóni Steinari í Hæstarétt og gott ef Davíð setti ekki sjálfan sig í Seðlabankann. Aumingja Kjartan Gunnarsson virðist vera sá eini sem treysti á einkavæðinguna en er nú búin að missa bankaráðsvinnuna, eftir að góðu kapitalistirnir Björgólfsfeðgar reyndust allra verstir.

Þú verður að nefna sambærileg dæmi, annars eru það einfaldlega dylgjur.

Gunnlaugur B Ólafsson, 7.2.2009 kl. 16:31

15 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Mér þykir leitt að þurfa að nefna aumingja Kristínu Árnadóttur eina ferðina enn, því segja má að hún sé nú orðin nokkurs konar fórnarlamb vináttu sinnar við Ingibjörgu Sólrúnu eftir allar þær vendingar sem hennar ferill hefur tekið. Svo má minnast á Bryndísi Hlöðversdóttir sem af vinsemd vék sæti á þingi svo ISG gæti látið að sér kveða þar, þrátt fyrir að kjósendur teldu ekki þörf á kröftum hennar. Bryndís hlaut reyndar stöðu á Bifröst í þakkargjöf, stöðu sem hún þurfti ekki að keppa um við aðra, því óþarfi þótti að auglýsa stöðuna þegar svo vel kynntur umsækjandi var tilbúin að þiggja hana. Eitthvað minnir mig að ráðningar Össurar í Orkustofnun og Ferðamálaráð hafi þótt bera keim af einkavinavæðingu og pólitík. Og gleymum ekki Varnarmálastofnun, þar sem eini umsækjandinn með enga reynslu af varnarmálum var ráðinn.

Sighvatur Björgvinsson var settur í Þróunarstofnun af Halldóri Ásgrímssyni og síðan hefur hún verið móttökustöð fyrir þreytta Samfylkingarmenn.

Listinn er langur, sérstaklega þegar R-listatímabilið er tekið saman og ekki síður þegar litið er til 100 daga stjórnarinnar. Þessa dagana er kommaklíkan í kringum Steingrímur J. að konsoliderast, en stutt er liðið síðan aftökusveitin hrifsaði til sín völdin, en h+un virðist ætli að stunda stöðuveitingar beint af aftökupallinum.

Ragnhildur Kolka, 7.2.2009 kl. 18:08

16 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta er alls ekki sambærilegt. Störf í utanríkisþjónustu eru yfirleitt ekki auglýst og pólitíkusar hafa verið skipaðir þvers og kruss á flokkslínur. Langt er seilst með umræðu um Bryndísi Hlöðversdóttur og ef það er spilling að láta af þingstörfum og hefja störf hjá sjálfstæðri stofnun út á landi.

Nýi orkumálastjórinn var með prófessorsstöðu á sviði orkumála og alþjóðlega viðurkrnndur fagmaður. Ferðamálastjóri er vel menntuð og hæf kona sem að mig minnir fékk á sig einhver flokkstengs af því að hún var í Röskvu. -

Ef þú kemur ekki með betri dæmi en þetta að þá fer ég að halda að þér finnist að íhaldið eigi að fá allar stöður.

Gunnlaugur B Ólafsson, 7.2.2009 kl. 21:27

17 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Gunnlaugur, sem "mannræktandi" átt þú að vita að það er ekki mjög frjótt að metast um hver sé verstur. Minni þitt getur orðið ansi gloppótt þegar kemur að aðgerðum sem Samfylkingin stendur að, en ferill þíns flokks og þeirra flokka sem hann hefur helst lagt lag sitt við mun seint falla undir siðbót. Það sem ég sagði um Bryndísi Hlöðversdóttur stendur. Hún var kosin á þing en yfirgaf alþingi til að hleypa formanni sínum, sem fólk hafði hafnað í kosningum, að. Staða Bryndísar á Bifröst stóð ekki öðrum til boða. Hún var ekki auglýst. Kaupin voru gerð milli ISG og samflokksmanns sem þá gegndi rektorsstöðu. Er þetta ekki það sem þú kallar einkavinavæðing?

Ferill Kristínar í hirð ISG er langur og sorglegur og hófst löngu áður en utanríkisráðherra sá aumur á henni, enn einu sinn,i og gerði að sendiherra. Það eru dapurleg örlög að verð um eilífð þekkt sem hirðmey, en þessum örlögum deilir Kristrún Heimisdóttir með henni.

Það varst þú, Gunnlaugur, sem vaktir máls á ráðningu Jóns Steinars í Hæstarétt. Enginn efast um hæfni Jóns Steinars (nema bridgeklúbburinn sem fyrir var í réttinum) til að gegna dómarastarfinu. Það sem þú ert að halda fram, er að óeðlileg tengsl hafi verið milli BB og JS. Það eru nálkvæmlega sömu rök og eiga við um orkumálastjóraráðningu Össurar. Gömul vinasambönd. Samt metur þú tengsl ÖS og GJ léttvæg meðan þú álítur ráðningu JS siðlausa. Á sanngirni engan sess í  mannræktarfræðum?

Þú sleppir að minnast á varnarmálastjórann, enda erfitt að réttlæta þá ráðningu nema sem einkavinavæðingu. En getur þú nefnt mér einhver dæmi þar sem Samfylkingin á sínum valdaferli (R-listi, 100 dagarnir og í síðustu ríkisstjórn) réði sjálfstæðismann í bitastæða stöðu?

Ég get nefnilega nefnt þér nokkur dæmi þar sem sjálfstæðismenn veittu stöður útfyri flokk og stjórn. Jafnvel til Samfylkingar og Vinstri Grænna.

Ragnhildur Kolka, 8.2.2009 kl. 10:57

18 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ragnhildur vonandi erum við öll mannræktendur og ástæðulaust að setja það sem slíkt innan gæsalappa. Nema að þú viljir beina alþekktum þöggunaraðferðum þíns flokks að vega að gagnrýnendum persónulega, eins og flokksfélagi þinn gerir hér í fyrstu athugasemd.

Þú bætir í með smjörklípur og telur að skipan aðstoðarmanns (Kristrúnar Heimisdóttur). Það er áratugahefð fyrir því að yngri og efnilegir stjórnmálamenn séu aðstoðarmenn ráðherra.

Jón Steinar var ekki talin besti kandídat í Hæstarétt á faglegum forsendum en Guðni var ef eitthvað er með "overqualifications" sem orkumálastjóri. Hvaða "gömlu vinabönd" ertu að tala um? Þetta eru dylgjur.

Gunnlaugur B Ólafsson, 8.2.2009 kl. 12:38

19 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Alveg rétt, kallaðu það dylgjur. Þú endar alltaf þar.

Auðvitað datt orkumálastjóri ofan af himni. Þannig er það með allar óspjölluðu meyjarnar sem Samfylkingin hefur komið fyrir í feitum embættum.

En ég spurði beinnar spurningar síðast. Áttu í einhverjum erfiðleikum með að svara henni? Ef svo er þá látum við þetta spjall bara niður falla.

Ragnhildur Kolka, 8.2.2009 kl. 14:21

20 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er ekki erra en vant er, fólk komið í skotgrafirnar til að leiða umræðuna frá upphaflegu efni. Það eru stórkostlegir hlutir að gerast undir styrkri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttir. Umræðan um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland er komin á fulla ferð. Það má líka því við að klakastýfla hefði verið tekin úr stórfljóti þegar Njörður P Njarðvík reyfaði sínar hugmyndir um Nýtt lýðveldi 11. jan. s.l. í Silfrinu hjá Agli Helgasyni. Þó Kjartan Gunnarsson sé ekki tilbúinn að kyngja málinu, þá er undirbúningurinn hafinn og hann verður ekki stöðvaður. Við þurfum svo sannarlega aðendurskoða stjórnarskrána og kosningalögin.

Bendi á www.nyttlydveldi.is

Er stolt af því að hafa komið að því hér á blogginu, ásamt fjölmörgum öðrum, að hvetja til þess að síðan yrði sett upp.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.2.2009 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband