Hinn slyngi sláttumaður

Hvítar rósir 

Hið óvænta getur gert mann orðlausan. Svo hefur gilt um mig hér á síðunni síðustu dagana. Tveir samferðamenn dóu óvænt með sólarhrings millibili.

Samkennari við Borgarholtsskóla til margra ára lést af slysförum vegna gassprengingar við þrýstingsprófun á fimmtudag. Hann var góður vinur, traustur og kankvís. Hafði hringt í hann á miðvikudagsmorgun en þá var hann staddur í Varmahlíð. Þar var hann að stússa við flutninga á ræktunarmeri. Hitti hann í hádeginu á fimmtudag og við heilsuðumst með bros á vor. Hann sagði að ferðalagið hefði gengið vel. Nokkrum klukkustundum síðar var hans vegferð lokið og ekki fleiri hrókeringar með góðgæðinga.

Frá því um áramót hef ég haft stóðhest hjá sómamanni í Gusti, Kópavogi. Hef sest niður með honum á kaffistofunni og við höfum rætt um framtíð sveitanna, enda báðir utan af landi. Hvort börn okkar hefðu áhuga á hestum. Hann var stoltur af því að eiga ungan afleggjara sem var líklegur til að koma með honum í hestamennskuna á næstu árum. Á föstudagskvöldið varð hann bráðkvaddur við gegningar í hesthúsinu.

Hugur minn er hjá fjölskyldum þeirra, fullur þakklætis fyrir góð kynni. Slíkir atburðir snúa við hugsanagangi hversdagsleikans. Hann verður grárri. En sólin fer ört hækkandi á himni aftur og það þýðir ekki annað en grípa í tauminn, sækja sér orku, stefna á að fara í vor aukareiðtúr inn í sólarlagið þeim til heiðurs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Votta þér og fjölskyldum vina þinna, mína dýpstu samúð.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.2.2009 kl. 00:08

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir kveðjur, Hólmfríður. Tengsl mín eru svo sem ekki meiri en margra annarra félaga þeirra. Það sem var sérstakt fyrir mig var að upplifa slíkt skyndilegt fráfall með sólarhrings millibili. Samúðin er með þeirra nánustu fjölskyldu.

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.2.2009 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband