Plágur samræðunnar

Eyjaskeggjum á ísaköldu landi norður við heimskautsbaug hefur iðulega verið lýst sem lokuðum persónum. Við erum víst afkomendur víkinga, sem voru í senn hetjur og sagnamenn. Allskyns sögur af snarræði og mannraunum komu fólki í gegnum myrkur og kuldatrekk aldanna.  

Nú í dag gæti orðræðan verið breytt, orðin persónuleg og hlýleg. Að fólk skiptist á skoðunum, viðruðu hvert við annað sína drauma og þrár. Tjáningin væri opin og einlæg, óvænt og litrík. Þroskandi fyrir mannleg samskipti, lofsöngur til sköpunarverks og tilvistar.

Margir hafa flóttaleið út úr núinu inn í samræðu um fótbolta og bókmenntir. Án þess að hika er ætlast til þess að maður viti eitthvað um knattleiki eða skáldsögur. Yfirleitt er ekki ætlast til að sami maðurinn sé fjölvitur nema um annaðhvort boltann eða sagnamálin.

Venjulega er auðvelt að átta sig á því hvorum hópnum fólk tilheyrir. Bókaormar eru ekki í trimmgöllum og boltamenn eru ekki með kringlótt gleraugu. Þannig gengur þessi félagslega sortering upp og það er sjaldan að annar hópurinn sé áreittur af hinum.

Síðan eru það menn eins og ég sem að eru í senn vörpulegir og gáfulegir, klæðumst lopapeysu og erum í strigaskóm, hláturmildir og alvarlegir. Það er útilokað að átta sig á því hvorum hópnum slík manngerð tilheyrir. Áreitið verður tvöfalt og við erum alltaf reknir á gat.

Er satt að segja alveg uppgefinn á að reyna að skálda í eyðurnar við slíkar aðstæður. Ef einhver spyr mig um hvernig leikurinn hafi farið hjá Liverpool í gær eða hvort ég hafi lesið tiltekna bók eftir Kafka þá langar mig mest að knúsa þá og spyrja hvernig þeim líði, innra með sér, núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta er pistill sem ég skildi :) Takk fyrir það.

Annars er eitt sem er ljóður á flestum íslendingum.. þeir leyfa sjaldan viðmælandanum að tala út að punkti... 

Óskar Þorkelsson, 19.2.2009 kl. 00:05

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta er góður puntur Óskar og margir sem þurfa að læra betur að hlusta. Ein vinsamleg setning eða bros getur skipt svo miklu

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.2.2009 kl. 00:16

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

hahahah Gulli. "Síðan eru það menn eins og ég......" Góður þarna!

Hrönn Sigurðardóttir, 19.2.2009 kl. 09:23

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Já, Hrönn það er ekki skaftfellsk hógværð þarna á ferðinni

Gunnlaugur B Ólafsson, 19.2.2009 kl. 09:55

5 identicon

Ég veit allavega að dóttur minni sem leikur með Aftureldingu í fótbolta og syni mínum sem horfir frekar á fótbolta, að þeim líður ótrúlega vel innra með sér þegar Liverpool sigrar

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 21:08

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Punkturinn minn er að áherslan liggur ekki á að ræða fótbolta sem íþrótt, hvaða þættir þurfi að einkenna góðan leikmann, hvaða styrkleika þessi markmaður hafi eða hvernig eigi að sparka í bolta ef maður vill koma honum endilangt yfir völlinn. Það er bara verið að tala um einhverjar persónur út í heimi, að þessi eða hinn sé góður, hvort maður hafi horft á þennan eða hinn leikinn. Þetta er sem sagt umræða um ekki neitt.

Sama er með bókmenntaumræðuna, það er sjaldan verið að tala um hugmyndir eða sköpun. Við erum í skólakerfinu skikkuð til að lesa urmul af bókum en erum ekkert nær því að geta samið okkar eigin sögu eða ljóð eftir það. Það er verið að segja að þessi bók eða hin sé góð og þessi eða hinn sé frábær rithöfundur. Það á ekki að þurfa að vera að tala um alla þessa titla og nöfn, nóg að taka upp og tileinka sér hugmyndir þeirra. Koma með þær inn í umræðuna.

Verum ekki að tala endalaust um umbúðir. Þetta er séríslensk meinsemd. Flótti frá núinu og að taka fyrir raunveruleg gildi og verðmæti.

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.2.2009 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband