Er Guð íhald?

Fyrir nokkuð mörgum árum hringdi ég í Sigurð Sigurðarson vígslubiskup í Skálholti til að kvarta undan auglýsingu. Þá hafði endurtekið birst mynd af honum og Davíð Oddssyni undir fyrirsögninni "Flokksstarf". Þar sem tiltekið var að biskupinn myndi sjá um fræðslu og heimsókn hópsins í Skálholt. Ég sagði honum að þessi uppstilling þar sem að hann birtist sem virkur aðili í flokksstarfi væri óásættanlegt fyrir þá sem að tilheyrðu kirkjunni en ekki Flokknum.

Fyrstu árin mín hér í Mosfellsbæ skrifaði séra Jón Þorsteinsson ávallt hugvekju fyrir Jólin í blað sjálfstæðismanna. Þar kom einnig fram það helsta varðandi messur og hátíðahald kirkjunnar. Ég hringdi í klerk og lýsti þeirri skoðun minni að þessi dreifing á fagnaðarerindinu og fréttir af safnaðarstarfi ættu ekki að fara fram undir merkjum ránfuglsins. Það væri ekki viðeigandi og ekki í anda jafnræðis. Eðlilegra væri að söfnuðurinn gæfi út eigið fréttabréf sem varð svo raunin.

Nú var að koma inn um lúguna nýr Mosfellingur. Í honum er grein sem nefnist; "Búið um blómlegt starf í þágu menningar og samfélags". Höfundar greinarinnar eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Hilmar Sigurðsson formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar. Þar rökstyðja þeir að kirkjan, safnaðarheimili og menningarhús eigi að vera undir sama hatti, sem samtengd eining. Ég efast um að þetta sé æskilegt að rugla saman með slíkum hætti menningarstarfi og trúarlífi.

Kristín Pálsdóttir hefur skrifað góða greinum þetta mál. Hún lýsir þessu sambandi; "Annar, kirkjan, er íhaldsamur og valdamikill aðili sem hefur vel skilgreindar þarfir og öfluga málsvara. Hinn, menningin, er frjálslynd, djörf og ögrandi. Hún virðist ekki eiga málsvara í þessu máli og augljóst að hennar þarfir hafa ekki verið skilgreindar á við makann". Hér er sterk rödd sem á rétt á sér og þarf að fá fulla athygli.

Kristið trúarstarf verður að vera borið uppi af þeim sem það stunda. Það verður að vera af þörf og ástríðu. Ríkið skapar Þjóðkirkjunni nú sterkari stöðu en öðrum trúfélögum. Slíkt er umdeilanlegt og telja má víst að á næstu árum muni krafan um aðskilnað ríkis og kirkju koma fram af auknum þunga. Bæjarfélag getur ekki tekið á sig vanda kirkjunnar að fjármagna byggingu safnaðarheimilis með þessum hætti.

Það er sannfæring mín að kirkjan eigi að vera stakstæð bygging helst þar sem að Bæjarleikhúsið stendur núna. Þannig að hún fái frið frá helsta skarkala miðbæjarlífsins, en sé samt á fögrum stað í miðbænum. Það er nóg að byggja turninn fyrst eins og algengt er við kirkjubyggingar. Í framhaldi kæmi kirkjuskipið og hugsanlega safnaðarheimili. Menningarhúsið væri stakstætt hús sem væri hugsanlega í nánum tengslum við framhaldsskólann.

Guð er ekki íhald, hann er róttækur boðberi réttlætis, siðferðilegra gilda og kærleika. Jesú Kristur var á sínum tíma helsta ögrun við valdakerfi og embættismenn. Þeir þorðu ekki að horfast í augu við eigin breyskleika og hans ágengu spurningar. Gefum trúnni líf þannig að hún geti staðið á eigin forsendum. Það eru gömul sannindi og ný að sumir vilja að "kristilegu kærleiksblómin spretti í kringum hitt og þetta". Það er þó enginn meiri umboðsmaður Guðs en annar.

Nauðsynlegt er að kirkjan og bærinn opni þetta mál og leyfi fólkinu að velja því farveg. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnlaugur. Þú nefnir mig og mína þjónustu í Mosfellsbæ í pistli þínum. Ég man eftir spjalli okkar á sínum tíma og þær athugasemdir sem þú gerðir við skirf mín í blað sjálfstæðismanna.

Þú heldur því undan sem ég sagði þér þá að ég reyndi að svara kalli allra þeirra sem til mín leituðu um greinar í blöðin sín fyrir jól og oft í annan tíma.

Ég spurði þetta fólk aldrei um það hvar það stæði í pólitík enda kom það málinu ekkert við. Boðskapur kirkjunnar á erindi við alla , hver svo sem lífsýn þeirra er eða skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ef ég man rétt held ég að ég hafi komið við sögu á þennan hátt í öllum héraðsblöðum í einn eða annan tíma.

Varðandi safnaðarblaðið þá var það gefið út frá minni fyrstu tíð í Mosfellsbæ. Fyrst af nokkrum vanefnum líklega og unnið að mestu af mér og Jóhanni S. Börnssyni. Sett upp í tölvunni minni á skrifstofunni í safnaðarheimilinu og ljósritað þar og síðan brotið og heftað af okkur þremur, Jóa , Þuríði Hjaltadóttur, sem þá var húsmóðir í safnaðrheimilinu og mér. Pósturinn sá svo um dreifinguna.

Þegar að því kom að gera nokkra bragarbót á þessari útgáfu og fá fagfólk til að sjá um hana bæði hvað varðaði prentun og ritstjórn var ástæðan ekki okkar samtal. Áfram óskuðu byggðablöðin eftir hugvekjum okkar prestanna og vildu gjarnan fá að birta kynningu á helgihaldi hátíða.

Alla mína starfsævi í 34 ár hef ég helgað kirkjunni krafta mína óskipta og vel að merkja ég hef aldrei verið skráður í stjórnmálaflokk. Lofaðu mér að njóta sannmælis um þetta.

Mað vorkveðju. Jón Þorsteinsson, fv. sóknarprestur

Jón Þorsteinsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 18:53

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þakka þér kærlega fyrir svarið, Jón. Eftir stendur að ég upplifði þetta á þann veg að kirkjustarfið væri nátengdara Sjálfstæðisflokknum en öðrum og að ég fengi helst tíðindi í gegnum umrætt flokksblað. Það er fjarri mér að halda að slík tengsl séu af illum ásetningi, þetta er svona´einhver tegund af betri borgara kúltúr. Með góðri vinsemd og vorkveðju tilbaka, G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.3.2009 kl. 19:14

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Spurt er : Er Guð Íhald

Svar: Já

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 20.3.2009 kl. 22:11

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott svar þarna frá séra Jóni Þorsteinssyni, og ekki varstu alveg nógu fús að viðurkenna, að hann hefði á réttu að standa, Gunnlaugur. Ekki tók ég eftir því í grein þinni, að þú hefðir neitt minnzt á skrif prestsins í önnur héraðsblöð.

Svo áttu ekki einu sinni að leyfa þér að orða fyrirsögnina svona – og það segi ég ekki út frá neinni pólitískri afstöu.

Og að endingu: Menning og kirkjustarf hefur átt farsæla samleið hér í landi á 1000 ár. Farðu upp í Reykholt, og skoðaðu Reykholtsstofu og nýju kirkjuna samliggjandi, þá sérðu, hvað ég á við.

Jón Valur Jensson, 21.3.2009 kl. 00:37

5 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Furðulegt hvað Jón Valur er fljótur að hlaupa til og verja forréttindi ríkiskirkjunnar, sem ætti jú að vera argasta villutrúarbatterí í augum kaþólikka.

"Svo áttu ekki einu sinni að leyfa þér að orða fyrirsögnina svona"

Hví ekki? 

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 21.3.2009 kl. 01:30

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Jón Valur, minn punktur stendur varðandi upplifun á samhengi. Man ekki eftir kynningu á kirkjulegu starfi eða jólaboðskap nema einungis í blaði sjálfstæðismanna. Það getur verið að öðrum hafi staðið það til boða en ekki nýtt sér. Fljótlega í framhaldi af okkar samtali fór að koma vandaðra rit um sóknarstarfið. En eins og Jón segir þá hefur það sennilega bara verið tilviljun.

Gunnlaugur B Ólafsson, 21.3.2009 kl. 02:30

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi viðauki þinn er því miður ekki til að bæta ærlegheitin, Gunnlaugur, og nú á séra Jón örugglega eftir að svara þér á ný.

Jón Valur Jensson, 21.3.2009 kl. 03:17

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta gæti nú verið smekklegra hjá þér Jón að velja þetta plan um einhvern skort á ærlegheitum. Megininntakið í mínu máli er satt, fjalltraust og kallar á úrbætur. Sjálfstæðismenn eru að rugla sínum hagsmunum og kirkjunnar. Ætli ránfuglinn og krossinn verði ekki höfð saman á menningarhúsinu?

Gunnlaugur B Ólafsson, 21.3.2009 kl. 08:27

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sem kaþólikki hef ég aldrei skilið afstöðu Jóns Vals til Ríkiskirkjunnar og ekki síður afstöu hans til öfgasamtaka í Bandaríkjunum sem hann virðist dýrka, og þá fyrst og fremst vegna trúar þeirra á gyðingdóminn.Ég tel að bannfæra ætti Jón Val vegna villutrúar hans.

Sigurgeir Jónsson, 21.3.2009 kl. 16:20

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Góð og þörf grein hjá þér Gunnlaugur.  Það er merkilegt að ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins, Heimdallur, hefur um árabil stutt kröfuna um jafnræði lífsskoðunarfélaga, en þegar kemur að því að þeir ungu eru komnir til valda þá er sú hugsjón yfirgefin og gleymd. 

Þjóðkirkjan hefur mikil völd því í krafti aðstöðu og fjármuna getur hún teygt anga sína um allt þjóðfélagið.  Aðeins 8% landsmanna trúa á himnavist eftir dauðann eða upprisu Jesú Krists þannig að ekki er það hinn innsti guðfræðilegi kjarni kristninnar sem höfðar til fólks.  (Gallup feb-mars 2004) Mikill hluti af þeim 79.4% Íslendinga sem eru enn skráð í þjóðkirkjuna eru þar vegna þess að það er gott að geta leita til aðstöðu kirkjunnar og taka þátt í athöfnum sem leiða þrátt fyrir allt trúarbullið hafa félagslega merkingu og enda í veglegum veraldlegum veislum.  Fólk hefur ekki sjálfstæði til að gera þetta sjálft eða veit ekki af valmöguleikum sínum, t.d. athöfnum Siðmenntar sem eru opnar öllum.

Þrátt fyrir hið augljósa misrétti sem er á milli lífsskoðunarfélaga og hinn augljósa átroðning þjóðkirkjunnar inn í mál sveitastjórna og skóla, heyrast nær engar gagnrýnisraddir innan þjóðkirkjunnar sjálfrar og engar opinberar frá forystumönnum Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar.  Ein undantekning er þó að Ásta Möller (xD) kom með mjög gott frumvarp í samvinnu með Gunnari Svavarsyni (xS) um að öll trúfélög fái að njóta jöfnunarsjóðs, ekki bara þjóðkirkjan.  Að vísu gleymdu þau veraldlegum lífsskoðunarfélögum eins og svo margir.  Það er svo auðvelt að ganga framhjá Siðmennt því félagið er hvorki ríkt né fjölmennt (280 manns).  Önnur undantekning er að prestur aðkomufólks, Toshika Toma, lét í ljós það álit sitt á ráðstefnu MRSÍ um mismunun, að stofna þyrfti félag um jafnrétti lífsskoðunarfélaga og mátta ráða af máli hans að hann væri tilbúinn að gefa eftir forréttindi þjóðkirkjunnar.  Lítil byrjun en einhver þó!

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2009 kl. 16:59

11 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk fyrir innleggið Svanur. Þú átt hrós skilið fyrir að fylgja eftir skoðunum þínum. Vil vona að við höfum gert Samfylkingunni gagn með því að stuðla að meiri umræðu um hin ýmsu málefni sem verð eru til skoðunar.

Ég er þess fullviss að stór skref verða stigin í aðskilnaði ríkis og kirkju á næstu árum. Það er spurning hvernig næst sátt um það mál. Þá er ef til vill mikilvægt að tala ekki beint gegn þjóðkirkjunni, því þá kemur maður út eins og sendiboði djöfulsins fyrir þá sem að tengja sín gildi og viðhorf við kirkjuna.

Það er hinsvegar eðlilegt að krefjast jöfnunar á aðstöðu lífsskoðunarfélaga. Hugsanlegt er að semja við þjóðkirkjuna um aðlögunartíma í 5-10 ár að nýrri skipan trúmála í landinu. Ennig hugsanlegt að í dreifbýli þá sé samið um að kirkjan haldi einhverju samfélagslegu hlutverki. Þetta er ferli þar sem það er verðugt verkefni að vinna að umbótum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 21.3.2009 kl. 19:13

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svanur vitnar hér í skoðanakönnun sem kemur illa heim og saman við aðrar kannanir um trúarviðhorf fólks.

80-90% Íslendinga hafa til skamms tíma trúað á Guð og tilheyra kristnum kirkjum – jafnvel trúa 67%, að Jesús Kristur hafi risið upp frá dauðum samkvæmt skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu 28. marz 2004. Hærri tölur sjást í öðrum könnunum með öðrum spurningum. Í Gallupkönnun á Íslandi í desember 1996 töldu 87% sig mjög eða nokkuð trúaða (12% mjög, 75% nokkuð). Þar af játuðu eða aðhylltust rúmlega 94% lútherska trú, en tæplega 6% aðra trú, kristna eða ekki kristna. (Heimild: http://gallup.is/main/view.jsp?branch=683612&e342RecordID=235&e342DataStoreID=514738.) Þá voru rösklega 87% jákvæðir gagnvart kristni skv. Gallupkönnun í nóv. 2001, tæpl. 11% hvorki jákvæðir né neikvæðir og einungis rúmlega 1% neikvæðir gagnvart kristni.

Vel má vera, að einhver breyting hafi orðið á sumum þessara talna á næstu árum þar á eftir, þegar stór hluti þjóðarinnar missti sig nánast í peningasókn, mikilli vinnu og efnishyggju; en þess sjást hins vegar nú þegar merki, að margir eru aftur farnir að leita eftir andlegum gildum sem mölur og ryð fá ekki eytt – og engar bankakreppur!

PS. Ég skil ekkert í því, hvað hr. Sigurgeir Jónsson er að fara – hvaða "öfgasamtök í Bandaríkjunum" telur hann mig "dýrka [sic!!], og þá fyrst og fremst vegna trúar þeirra á gyðingdóminn" (sic!)??!!

Jón Valur Jensson, 21.3.2009 kl. 19:39

13 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Jón Valur. Ert þú á móti þeim boðskap sem trúarsöfnuðir í Bandaríkjunum flytja daglega á sjónvarpstöðinni Ómega.Ég hef sjálfur horft á þig á þeirri sömu stöð og hef ekki séð betur en málflutningur þinn væri sá sami og þeirra.Ég hef ekki getað skilið þig öðruvísi en þú sert sammála þeirra málflutningi þar á meðal að gyðingar séu Guðs útvalda þjóð.Ef þú hefðir þennan málflutning þinn uppi í sannkölluðu kristnu kaþólsku landi þá er ég ekki í vafa um að þú yrðir bannfærður fyrir villtrú.Eða afneitar þú Hvítasunnukirkjunni í Bandaríkjunum.Því miður er það svo að öfgamenn eyðileggja þann boðskap sem Jesú boðaði.Þar á meðal George W.Bush og Jón Valur nokkur JenssonÍ guðs friði.

Sigurgeir Jónsson, 21.3.2009 kl. 22:41

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bull er þetta, Sigurgeir. Eins og þú veizt, hef ég oft hringt í Útvarp Sögu, en hef ekki verið sammála ýmsum sem gera það sama og stundum ekki þáttastjórnendum sjálfum. Ég læt það ekki stöðva mig, eða á ég að gefa vinstrimönnum einum orðið og hægri efnishyggjumönnum? Nei, þá vel ég það frekar að flytja þar reglulega þætti, eins og ég geri kl. 12.40/45 til kl. 13 hvern föstudag, m.a. í vörn fyrir okkar heilögu sjálfstæðisréttindi.

Ég hef einnig verið í viðtölum á öðrum útvarpsstöðvum, t.d. Rúv og Bylgjunni, án þess að þér detti það í hug, að ég geti verið á sömu línu og allir þar, eða er til ein lína?

Á Omega er ekki heldur til ein lína. Tali ég við Friðrik Schram í hans þætti eða Guðstein Hauk, merkir það ekki, að við séum á nákvæmlega sömu línu guðfræðilega. En við erum okkur fullkomlega meðvitaðir um, að það er svo margt sem sameinar kristna, biblíutrúaða menn, að þetta er það sem efla ber einmitt nú og styrkja í vörn gegn ágengni heimshyggjunnar.

Gangi þér vel í þínum kristindómi.

Jón Valur Jensson, 21.3.2009 kl. 22:55

15 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Svo ég bæti við því sem JVJ greinilega gleymdi:

Gangi þér vel í þínum kristindómi [nema þú sért ósammála kaþólsku kirkjunni].

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 22.3.2009 kl. 03:56

16 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þú segir áð ég sé með bull, en sérð ekki bjálkan í þínu eigin auga, Jón Valur. Þú gefur í skyn að vinstri menn sem þú orðar svo séu á móti kristni.Guð fyrirgefi þér að láta annað eins bull út úr þér.Ég efa það að Jesú væri í Sjálfstæðisflokknum ef hann væri uppi í dag.Ég efa reyndar að hann væri í nokkrum flokki.Eins og þú átt að vita þá er það ekki á stefnuskrá kaþólsku kirkjunnar að troða kristinni trú upp á fólk.Guð fyrirgefi þér að þú skulir gera slíkt.Hvað þá að boða villutrú í nafni kaþólsku kirkjunnar.Fyrirgefning Guðs eru takmörk sett.Þessvegna átt þú bannfæringu yfir höfði þér.Þú átt að játa misgjörðir þínar frammi fyrir Guði.

Sigurgeir Jónsson, 22.3.2009 kl. 10:29

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er nú meira ruglið frá þér, Sigurgeir. Ég hef hvergi lagt það til "að troða kristinni trú upp á fólk," en tek hins vegar undir með kirkjunni, að halda ber uppi trúboði. Sértu kaþólskur, eins og mér hefur skilizt á þér, leggurðu væntanlega fram a.m.k. einu sinni á ári söfnunarfé til kristniboðs kirkjunnar í veröldinni.

Ég gef ekkert í skyn um að vinstrimenn almennt "séu á móti kristni," en mjög margir vinstrisinnaðir tala á Útvarpi Sögu, og ég var að segja, að ég væri ekki einn af þeim og geti vel talað á þeirri stöð, þótt ég sé ósammála þeim um margt, rétt eins og ég get talað á Omega án þess að leggja blessun mína yfir hvert og eitt orð sem talað er þar í allt öðrum þáttum (meiri hlutanum erlendum), enda hef ég hvergi hvikað frá minni kaþólsku trú, þótt ég geti auðveldlega hlustað á fólk í öðrum kirkjum og metið margt í mái þeirra.

Svo sést þér yfir, að um leið og ég nefndi vinstrimennina á Útvarpi Sögu (mörgum þeirra er mér þó ágætlega við) nefndi ég líka "hægri efnishyggjumenn," og þá hef ég – eins og lesendur mínir þekkja – gagnrýnt hispurslaust á vefsíðum mínum og engu síður þótt þeir tilheyri þeim flokki, sem ég ennþá telst til.

Vitaskuld væri Kristur ekki í neinum stjórnmálaflokki, væri hann uppi í dag.

Jón Valur Jensson, 22.3.2009 kl. 14:05

18 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þú talar um rugl Jón Valur.Ég sagði að þú ættir að vita að það væri ekki á stefnuskrá Kaþólsku kirkjunnar að troða kristinni trú upp á fólk.Það get ég endurtekið fyrir þig, en ef þú trúir mér ekki þá legg ég til að þú spyrjir næsta kaþólskan prest.En þú ert ekki á vegum kaþólsku kirkjunnar þegar þú ert með þitt einkatrúboð. Taktu fram spegil þinn og þá munt þú sjá bjálka í auga þínu.Pólitískur áróður þinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hægrimenn í Bandaríkjunum,áróður sem þú blandar saman við kristna trú er ekki trúboð nema það sé þá trúboð djöfullsins.

Sigurgeir Jónsson, 22.3.2009 kl. 16:17

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svona kjánaleg innlegg eru raunar ekki svaraverð, en ég hef þegar svarað þessu um "að troða kristinni trú upp á fólk." Sigurgeir á hins vegar eftir að svara orðum mínum um trúboð kirkjunnar. Og kaþólsku prestana tel ég mig þekkja miklu betur en hann.

Ýmsa leiðandi menn Sjálfstæðisflokksins hygg ég naumast álíta gagnrýni mína á stefnu þeirra og störf vera tilkomin af neinni flokksþægð.

Svo er það engan veginn til marks um kaþólskan bróðurhug af Sigurgeirs hálfu að tala svona um annan kaþólikka og það trúaðan og kirkjurækinn. Spurning hvort hann þurfi sjálfur að líta í eigin barm, áður en hann skrifar næst. En bezt er, að orðaskiptum þessum linni.

Jón Valur Jensson, 22.3.2009 kl. 16:41

20 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það er ekki nægjanlegt að sækja kirkju Jón Valur.Þú verður að sýna sannanlegt kristið kaþólkst hugarþel og lifa eftir því sem Guð og okkar Kaþólska kirkja boðar.Ég legg til að þú gangir til skrifta.Megi Guð fyrirgefa þér. Í Guðs friði.

Sigurgeir Jónsson, 22.3.2009 kl. 17:04

21 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þið gerið út um þetta, strákar. Pasið ykkur bara að gerast ekki kaþólskari en páfinn. Hann er víst á móti því að alnæmissmitaðir noti smokk í Afríku!

En aftur að umræðunni um menningarhús, safnaðarheimili og kirkju. Ragnheiður Jónsdóttir sóknarprestur Lágafellssókn skrifar mjög góða grein í Morgunblaðið í gær.

Hún talar fyrir því sem hefur verið mín orðræða í nokkur ár - kirkjan verður að rísa sem hús fyrir fólk og menningarhús verður að vera hús sem að er byggt fyrir fólk.

Þetta fólk, bæjarbúar, verða að ákveða hvort og hvernig samstarf menningarlífs og trúarlífs í bænum verður háttað. 

Gunnlaugur B Ólafsson, 23.3.2009 kl. 00:06

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég anza ekki Sigurgeiri úr þessu, hef sagt allt sem segja þarf, og það stendur.

Jón Valur Jensson, 23.3.2009 kl. 02:02

23 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Gunnlaugur.  Kíki á grein Ragnheiðar.

Jón Valur þú bendir á fleiri tölur úr skoðanakönnunum en 80-90% talan sem þú nefnir ekki úr neinni slíkri heldur trúfélagsskráningu.  Það vita allir sem kæra sig um að skoða málin að það er fullt af trúlausu fólki í þjóðkirkjunni.  Talan frá Gallup könnuninni 1996 um að 12% telji sig "mjög trúaða" fer nokkurn veginn heim og saman með þeim 8% sem sögðust trúa á himnavist í könnuninni 2004.  Það má spá í þessar tölur fram og aftur eftir mismunandi könnunum og tímum, en slíkt breytir ekki því sem farið er fram á.  Það er fram á jafna meðferð allra lífsskoðunarfélaga frá hendi ríkisins og skiptir þá engu hversu fjölmenn eða fámenn þau eru. 

Mannréttindi er það sem fólki þykir dýrmætast samkvæmt þessari könnun hér:

http://www.capacent.is/?PageID=762&NewsID=996

Trú fólks náði aðeins 12% vægi (9. sæti) varðandi það sem fólki fannst mikilvægast að verja en mannréttindi 69% vægi (1. sæti).  Hvað segir þetta okkur?

Svanur Sigurbjörnsson, 26.3.2009 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband