En hvað með Evrópu?

Þetta er skynsamleg nálgun hjá VG að lýsa yfir vilja til áframhaldandi stjórnarsamstarfs undir félagslegum merkjum og þar með útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk. Eftir stendur að VG þarf að lýsa yfir vilja til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Augljóst er að eftir kosningar verður meirihluti á þingi úr röðum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fyrir því að leita eftir samningi sem borinn verður undir þjóðaratkvæði. Þetta mál má ekki leiða til mögulegs samstarfs Samfylkingar við íhaldið líkt og spilin lögðust árið 1991.


mbl.is VG bundin - á móti Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Eftir að hafa farið að skoða aðrar fréttir sá ég að þeir hafa sett eitthvert útspil um Evrópumálin. Er ekki viss hvort að þeir halda sér við þá stefnu að vilja þjóðaratkvæði um hvort hefja beri aðildarviðræður. Mörgum þykir nægjanlegt að bera afrakstur viðræðna undir þjóðina.

Gunnlaugur B Ólafsson, 23.3.2009 kl. 00:27

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll Gulli. Það er alveg ljóst að til að við krefjumst þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræður. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þarna er verið að henda fúlgum fjár út um gluggann. okkur hefur blöskrað kostnaður við t.d. bröltið í kringum öryggisráðið og viðþolslaus þensla utanríkismálanna svo sem eins og tilgangslaus fjölgun sendiherra jafnvel án sendiráða. Alveg óskiljanleg ráðstöfun.

Við höfum semsagt engu spilað út um Evrópumál nema eingöngu það að við erum á móti því að koma nálægt aflóga apparati sem er að hruni komið vegna slæms innanmeins.

Þórbergur Torfason, 23.3.2009 kl. 20:25

3 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll frændi.

Ég sé að þú ert orðinn hræddur um að missa Samfylkinguna yfir í íhaldssængina á ný. Jóhanna félagsmálaráðherra undir forsæti Bjarna Ben. Það hljómar ekki ósennilega miðað við ákefðina að komast í sældina í Brussel. Örugglega munum við í VG ekki trufla það endurnýjaða hjónaband fyrr en eftir þarnæstu kosningar.

VG er ekki á Brussel-spori og ef Samfylkingin endurnýjar stjórnarsamstarf með okkur eftir kosningar þá fer engin lest af stað í þá áttina. Þessi Evrópubandalags/Evrópusambands-hugsjón krata er nú næstum hálfrar aldar gömul. Gylfi Þ byrjaði að prédika um aðild 1961 og valdi Þjóðminjasafnið til messunnar. Það var fræg ræða á þeirri tíð: Besta leið til að tryggja fullveldið væri að farga því.

Hjörleifur Guttormsson, 23.3.2009 kl. 21:31

4 identicon

Auðvitað á að fara í viðræður og síðan að kjósa um aðild að ESB.

En ég er nokkurn veigin viss um að umsókn um aðild verður kolfeld og ástæða þess er að Íslendingar munu aldrei sætta sig við að vera smá hérað í Evrópu,og enda svo sem fátækir leiguliðar hjá stóreignamönnum sem verða búnir að sölsa alt undir sig sem einhverju máli skiptir.

Við áttum einu sinni heima í Noregi en þoldum ekki við og fórum til Íslands og höfum bara haft það gott fyrir utan nokkrar aldir þegar Danir og norðmenn voru að ráðskast með okkur og búa til peninga.

Þá var 'Island eftir sótt af auðmönnum og við stóðum undir auðsöfnun og eyðslu yfirstétta þess tíma.

Af hverju ættum við að afsala okkur sjálfstæði bara til að fá nýjan gjaldmiðil?

 Af hverju komum við til með að bera meiri virðingu fyrir evru?

ER ekki krónan ágæt fyrir okkur sem litla en mjög ríka þjóð?

Vilja menn endilega verða feitir þjónar stórþjóða sem munu sölsa allt undir sig þegar fram líða stundi?

ESB er þegar farið að fúna innanfrá og alt að fara til helvítis og á eftir að verða miklu verra en hjá okkur.

Kannski verða það Íslendingar sem eiga eftir að hjálpa Evrópu þjóðum í vandræðum við höfum gert það áður.

Við  megum ekki gefast upp núna þegar á móti blæs,við höfum áður lent í vandræðum og verri en þessum lífið er ekki bara peningar.

Byrjum á að breyta stjórnarskránni eins fljótt og við getum og byrjum uppá nítt með okkar gömlu krónu,breytum um hugsanahátt.reinum að breyta gildismati okkar og fara að meta lífið án auðæfa og auðsafnara,án útrásavíkinga, við þurfum enga útrás,

Við verðum forðabúr með vatn, orku ,matvæli bæði á sjó og landi.

Ekki glata þessu öllu í einhverjum aumingjaskap,þeir sem vilja ESB geta bara flutt til Evrópu.

H.Pétur Jónsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 22:00

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er eitt og sér í lagi að hafa mismunandi stefnu, en hitt finnst mér verra að hafa enga stefnu. Þannig finnst mér ástatt með VG um framtíðarsýn fyrir Ísland í gjaldeyris og utanríkismálum.

Steingrímur J talaði fyrir nokkrum mánuðum um að lítið mál yrði að taka upp gjalmiðilssamstarf við Noreg. Síðan var það blásið út af borðinu. Enda er það spurning hvort við værum bættari með að taka gengissveiflur eftir olíuverði í stað þess að sveiflast eftir fiskverði.

Ég heyrði að Álfheiður Ingadóttir talaði í gær um að það væri nauðhyggja að nefna eingöngu evru, það væru margir fleiri kostir í stöðunni varðandi myntsamstarf. En síðan gat hún ekki útskýrt hverjir þessir góðu kostir væru. Valið finnst mér í raun standa milli dollars og evru. Þar er evran eðlilegri kostur.

Spurningin er um að virkja ávinninginn af því að tilheyra ákveðnum heimshluta, frændþjóðum Norðurlanda og öðrum lýðræðisríkjum í Evrópu. Viljum við lifa í opnu samfélagi, þjóð meðal þjóða eða á að matreiða áfram þann rétt að hér sé ofurþjóð sem þurfi ekki á neinni samvinnu að halda?

Með fiskveiðilögsöguna skráða sem sameign þjóðarinnar í stjórnarskrá er það veruleiki sem ESB tekur tillit til í samningum. Hugsanlega liggur eitt stærsta tækifærið einmitt í því að sækja fram og vera leiðandi þjóð um nýtingu og verndun fiskistofna innan Evrópusambandsins.

Ekki mun reyna á slíkt tækifæri eða önnur ef við viljum bara sitja heima í okkar mikla "ríkidæmi".

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.3.2009 kl. 08:02

6 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll aftur frændi.

Hvað ósköp líður þér illa með krónuna sem gjaldmiðil. Úr þeirri vanlíðan verður ekki bætt næstu árin þótt við værum nú þegar orðin aðili að ESB. Þar fyrir utan væru fjölmörg vandamál tengd upptöku evru og að búa við þann gjaldmiðil. Þú ættir að renna yfir grein Kára Arnórs Kárasonar hagfræðings í Morgunblaðinu í gær, en hún birtist þar á miðopnu undir fyrirsögninni Á að kasta krónunni? Þar er talað af þekkingu og viti.

Einnig sakaði ekki að þú læsir grein Jóns Hannibalssonar sem birtist í Fréttablaðinu 21. mars sl. og er svar við mjög fróðlegri grein Helga Áss Grétarssonar lögfræðings í sama blaði 13. mars 2009. Eins og fram kemur hjá Jóni er hann langt frá því að vera viss um að ESB myndi viðurkenna "íslenska sérlausn" í fiskveiðimálum. Undir lok greinar segir Jón: "Þjóðareignarákvæði í stjórnarskrá um auðlindir Íslands skilgreinir því samningsstöðu þjóðarinnar með afdráttarlaunum hætti. Þar með er ekki sagt að aðild sé útilokuð." Hann áttar sig sem sagt á óvissunni, hvað sem allri óskhyggju líður.

Við eigum hins vegar ekki að láta á aðild að ESB reyna. Fyrir þeirri skoðun okkar í VG eru fjölmörg rök önnur en sjávarauðlindin.

Þið í Samfylkingunni verðið að átta ykkur á að með þetta óskamál ykkar komist þið ekki lönd eða strönd, a.m.k. ekki í rauðgrænni vinstristjórn. Þið eigið engan kröfurétt á VG um að hverfa frá sinni stefnu. Flokkarnir eru einfaldlega á öndverðri skoðun og aðildarumsókn ekki á dagskrá á næsta kjörtímabili ef þessir flokkar eiga að standa saman að landstjórninni.

Hjörleifur Guttormsson, 24.3.2009 kl. 17:32

7 Smámynd: Þórbergur Torfason

Gulli. Stefna VG í gjaldmiðils og utanríkismálum getur ekki orðið skýrari en hún er eins og ástandið er. Það hlýtur að vera lykilatriði að komast á lappirnar aftur áður en farið verður að leita fyrir sér með myntsamstarf allavega. Ég held það hafi komið skýrt fram í svari þessa eina Norðmanns sem hefur tjáð sig að ástandið á Íslandi gæfi ekki tilefni til samstarfs við þá.

Þú verður endilega að kynna þér betur stöðuna niður í Evrópu. Þar ólgar allt í óeiningu milli stétta, þjóða í mörgum aðildarríkjunum, þjóðarbrota og einnig norður og suður hluta Evrópu.

ÞAð er mjög margt sem bendir til að ESB liðist í sundur innan fárra ára.

Að lokum Gulli. Hvar endaðir þú í prófkjörinu í kraganum?

Þórbergur Torfason, 24.3.2009 kl. 23:06

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Kæri Hjörleifur - Var að horfa á Steingrím J áðan og hans útspil í Evrópumálum er á mildari nótum en þitt. Þú segir "Við eigum hins vegar ekki að láta á aðild að ESB reyna". Þar trúi ég að þú sérst að tala um VG frekar en þjóðina. Steingrímur segir að meginkrafa fólks sé lýðræði og það eigi líka við um aðild að ESB. Þjóðin ákveði niðurstöðu í því máli. Á sömu nótum talaði Guðfríður Lilja á landsfundi ykkar. Þú ert á svipuðu róli og skólafélagi og vinur Bjarni Harðarson að vilja hafa vit fyrir þjóðinni og treysta henni ekki í vali sínu og völdum.

Þórbergur það er ekki margt sem bendir til að ESB liðist í sundur. Lykilþjóðir hafa tvinnað svo margt saman sem að er ávinningur af, þannig að forsendur til sundrunar eru ekki til staðar. -Varðandi prófkjörið að þá fékk ég eitthvað um 770 atkvæði af um 2300 í sæti 1-8 sem mér finnst viðunandi miðað við allt og allt.

Að vera ekki Hafnfirðingur, að vera ekki Kópavogsbúi, að taka einungis þátt á málefnalegan hátt í kynningarfundum í bæjarfélögum, að einu pólitísku afskiptin hafa verið hér á síðunni minni, að ég hringdi ekki í nokkurn mann til að hafa áhrif á kosningu hans, að ég safnaði ekki stuðningsmönnum eða hafði aðstoðarmenn í fullri vinnu sem kosningastjóra eins og þingmenn og bæjarstjóri.

Þátttaka mín var fyrst og fremst tilraun í lýðræði. Ég vissi að það væru alvarlegir gallar við prófkjör. Málefnaleg umræða var ekki í forgrunni, póstnúmer og persónur höfðu meira vægi en pólitík. Stærsti gallinn á þessu fyrirkomulagi er að stuðningsmenn, sem eru ekkert endilega að kjósa Samfylkinguna eða hafa skráð sig í marga flokka til að hafa áhrif geti verið að raða á lista. Ég er ekkert ósáttur við að vera á hliðarbekknum með jafn öflugum mönnum og Jóni Baldvin og Benedikt Sigurðssyni á Akureyri. Hjá þeim eru málefni og þekking vel krydduð. Satt best að segja með ólíkindum að þeir séu ekki settir í örugg sæti. 

Gunnlaugur B Ólafsson, 25.3.2009 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband