Mannaval og málefni

Samfylkingin var stofnuð af flokkum frekar en fólki. Það er galli, því hættan er á að andagift og innblástur sem verður til í hjörtum einstaklinga lendi utangarðs. Til að fullkomna sköpunarverkið þarf því að efla grasrótarstarf. Efla virkni í hinum ýmsu sellum þar sem allt er til skoðunar, lífsins gildi, æskilegar umbætur og nauðsynlegar breytingar. Í fremstu sveit veljist fólk með meiningar, ástríðu og köllun, sem kann að hlusta og taka tillit.

Formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi hringdi í mig "með þann kaleik" í gærkvöldi að tilkynna mér að ég yrði ekki á lista flokksins fyrir næstu kosningar. Eftir á að hyggja var þetta örlítið eins og það væri verið að hafna mér og mínu. En ég veit að ég stóðst vel samanburð á fundum í prófkjörinu, var málefnalegur og prúðmannlegur í framgöngu. Ég veit líka að ég hef verið virkari en margur í varðstöðu og málefnalegri umræðu fyrir flokkinn á síðustu árum.

Auðvitað er ánægjulegt að þegar valið er í liðsveit að þá sé mikið mannaval. En samt finnst mér það óþægilegt að vita ekki hvaða viðmið eru notuð þegar einstaklingar eru valdir. Veit að í boltaíþróttum er það færni með knöttinn, í söngvakeppni velja dómarar þann sem að sýnir mesta hæfileikana. En í pólitík ætti það að vera hæfileikinn til að vera hugmyndaríkur og skapandi, ásamt því að hafa breidd í karakter, reynslu og menntun.

Persónulega finnst mér ekki slæmt að vera á varamannabekknum með Benedikt Sigurðssyni á Akureyri og Jóni Baldvin Hannibalssyni. Það er lífleg og frjó umræða í því partýi. Þegar ég hugsa til þeirra þá hvarflar að manni sú hugsun að þeim sé refsað sem að ekki fylgja flokkslínu, tengslaneti og staðalmynd. Það má aldrei gleymast að breytileiki viðhorfa er styrkur lýðræðislegs flokks en ekki veikleiki. Ég ætla að hafa áfram trú á minni rödd í slíkum kór.

Hlakka til að fara á landsfund og ég treysti á að Dagur B. Eggertsson komi með vel kryddaða sýn til framtíðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Ósköp eru að heyra þetta frændi.

Ekki verður um þig sagt að þú hafir staðið þögull hjá garði eða rýrt hlut Samfylkingarinnar á bloggvettvangi. Fyrir minn smekk vissulega gengið ansi langt í að réttlæta stefnu forystunnar, m.a. í Évrópusambandsmálum.

Annars er forvalsformið afar tvíbent aðferð við að velja fólk í framboð, sérstaklega þegar framkvæmdin er eins og víða gerist. Um það get ég verið sammála Svan Kristjánssyni prófessor sem tjáði sig um þetta í morgunútvarpi RÚV fyrr í þessum mánuði.

Góðar óskir fylgja þér, en reyndu að stuðla að því að leysa Samfylkinguna úr þessum ESB-viðjum sem flokkurinn hefur illu heilli reyrt sig í.

Hjörleifur Guttormsson, 26.3.2009 kl. 17:26

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Já, Hjörleifur, það er greinilega farið að þynnast í mér okkar sameiginlega presta- og þingmannablóð úr austrinu að ég sé ekki einu sinni nothæfur til skrauts

Takk fyrir góðar óskir. - Varðandi Evrópu þá sagði félagi Bjarni Harðarson í útvarpsviðtali um síðustu helgi að hann útilokaði ekki aðild að ESB ef það væri bara verslunar- og tollabandalag, en ekki pólitísk samvinna.

Ég held að allir vilji eitthvað form evrópskrar samvinnu, en svo er það spurning um útfærslur. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 26.3.2009 kl. 23:01

3 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Sæll Gunnlaugur, ég hefði gjarnan viljað sjá þig á listanum sem kynntur var í kvöld og Svan líka - bæði vegna málefna og svo væruð þið flott "skraut"  Hlakka til að hitta þig á morgun.

Valgerður Halldórsdóttir, 26.3.2009 kl. 23:43

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Hæ Valgerður - eins og ég hef áður sagt að þá er ekki minn áhugi á pólitík ekki bundinn við a komast að ræðupúlti í miðborginni, heldur að vera virkur og skapandi þegn í samfélagi. Því vil ég sjá Samfylkinguna verða í senn með málefnalegan styrk og bestu lýðræðishefðirnar.

Það gerðist nýlega í Symfylkingarfélaginu í Mosfellsbæ að Sigrún Pálsdóttir formaður Varmársamtakanna og Þórður B Sigurðsson formaður Hagsmunasamtaka heimilana buðu sig fram til stjórnarsetu og náðu ekki kosningu. Ekki einu sinni í varastjórn. Skil ekki afhverju svona fólki er ekki tekið opnum örmum.

Sjáumst spræk á morgun, mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.3.2009 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband