Rétti tíminn til að breyta

Fólk sem ætíð hefur merkt við íhaldið í kjörklefanum lýsir því nú yfir að á þessu vori muni verða breytingar á þeim ráðahag. Hitti í gær þekktan athafnamann á sjötugsaldri sem sagðist alltaf hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn en gæti ekki gert það í komandi kosningum.

Flokkurinn sem gengdi hlutverki sem kjölfesta fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hefur glatað hlutverki sínu og trúverðugleika. Nú þurfa allir að leggjast á árar til að gera Samfylkinguna sem best úr garði svo hún verði kjölfesta lýðræðis og félagslegs réttlætis.

Samfylkingin hefur sóknarfæri í að útfæra sem best tengslin við Evrópusambandið. Aðrir flokkar virðast að mestu hafa lokað þeim glugga, án þess að útskýra hvernig þeir sjá fyrir sér stöðu landsins í heimsþorpinu. Án þess að taka á vanda gjaldmiðils og innleiða framtíðarsýn.

Samfylkingin hefur sóknarfæri við endurskoðun kvótakerfa til lands og sjávar. Miðað við skuldsetningu sjávarútvegs er líklegt að stór hluti fiskveiðiheimilda verði orðin eign ríkisbankana á næstu misserum. Þær heimildir eiga að fara á markað og opna á nýliðun.

Samfylkingin hefur sóknarfæri í að innleiða matvælamenningu í landinu þar sem að komið er á virkara sambandi neytenda og framleiðenda. Losa bændur úr miðstýrðu kvótakerfi. Leggja áherslu á vöruþróun, vistvænar vörur og fleira sem stuðlar að því að við ræktum garðinn okkar. 

Samfylkingin hefur sóknarfæri í að losa okkur út úr tækni- og lyfjalausnum í heilbrigðismálum. Það þarf hugarfarsbreytingu til að stemma stigu við lífstílstengdum sjúkdómum sem herja nú sem faraldur á Vesturlöndum. Efla þarf þekkingu á virkustu leiðum til heilsueflingar.

Samfylkingin hefur sóknarfæri að tryggja farsælar útfærslur í menntamálum. Framhaldsskólinn og önnur skólastig eru að fara í gegnum miklar breytingar á næstu árum. Þar er mikilvægt að búa til nærandi umhverfi og sköpun sem veiti gott vegarnesti fyrir lífið, störf og framhaldsnám. 

Samfylkingin hefur sóknarfæri í að innleiða nýja hugsun í umhverfismálum. Setja metnaðarfulla stefnu um vistvænar samgöngur í þéttbýli. Í dreifðri borg verða einkabílar áfram í mikilvægu hlutverki en hægt er að fella niður aðflutningsjöld af rafknúnum ökutækjum.

Samfylkingin hefur sóknarfæri með áherslu á nýsköpun, sprotafyrirtæki, verkmenningu og auðlindir landsins til að treysta sem best efnahagslegar undirstöður þjóðarinnar og aukinn útflutning. Mikilvægt er að verja eignarhluta fólks í húsnæði og hag heimilanna.

Með öll tromp á hendi er mögulegt að ná enn meira fylgi

 


mbl.is Samfylking eykur forskot sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Góður pistill sem gefur mörg sóknarfæri, takk fyrir hann

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.4.2009 kl. 08:41

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll frændi.

Ég held þú þurfir að skyggnast svolítið á bak við tjöldin hjá Samfylkingunni áður en þú sendir okkur svona pistla á sjálfri páskahátíðinni.

Þar færi t.d. vel á því að rekja störf og stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum á síðasta kjörtímabili, allt frá því að fyrrverandi formaður Ingibjörg Sólrún tryggði Kárahnjúkavirkjun framgang með atkvæði sínu með ábyrgð borgarinnar sem þá var 45% eigandi að Landsvirkjun. Nú er þingflokkur Samfylkingarinnar í samvinnu við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk að þröngva fram milljarða ríkisstuðningi við Norðurál í Helguvík og afsala Íslandi skattlagningarvaldi yfir auðhringnum. Samfylkingarmenn á Austurlandi voru ásamt Framsókn forgöngumenn í að ryðja álbræðslu Alcoa á Reyðarfirði brautina og það sama er nú upp á teningnum á Húsavík og Norðurlandi með Kristján Möller í farabroddi og  Örlyg Hnefil varaþingmann. Þetta er stefna Samfylkingarinnar í reynd, þar sem boðskapnum um Fagra Ísland hefur verið snúið á haus.

Svo er það Evrópusambandið. Þú segir "Samfylkingin hefur sóknarfæri í því að útfæra sem best tengslin við Evrópusambandið." Þar er á ferðinni einhver ógeðfelldasta sölumennska sem sést hefur í íslenskum stjórnmálum og er þá langt til jafnað. Ég held það væri hollt fyrir formann og varaformann Samfylkingarinnar að gera alvöru úr Írlandsferðinni nú um páskana. Læt hér fylgja yfirlit fyrir þig af bloggsíðu minni um stöðuna á Eyjunni grænu eftir áratuga ESB-aðild og evru sem gjaldmiðil:

"Heyrst hefur að forsætisráðherra svo og varaformaður Samfylkingarinnar hafi bókað far til Írlands um páskahelgina til að kynna sér afrakstur ESB-aðildar og evruvæðingar Eyjarinnar grænu. Samfylkingin er "flokkurinn með planið" að sögn Dags varaformanns og allt byggir á að sækja um ESB-aðild strax eftir kosningar. Það er því eðlilegt að nýja forystuteymið bregði sér til Írlands til að koma heim með fréttir frá fyrstu hendi fyrir lokaslag kosningabaráttunnar um reynslu Íra af evru ofan á ESB-aðild.

Vonandi komast ekki margir landsmenn yfir tímaritið The Economist frá 21. mars nú vikurnar fyrir kosningar, því að það gæti varpað skugga á "planið". Fyrirsögn blaðsins um efnahagsstöðu Írlands er "The party is definitely over" (Veislunni er örugglega lokið). Meðal þess sem þar má lesa á bls. 33-34 er eftirfarandi:

"Írland upplifir nú dýpri kreppu en nokkurt annað ESB-ríki. Efnahagsstarfsemin sem mun hafa skroppið saman um 2.5% árið 2008 gæti til viðbótar dregist saman um 6.5% í ár. Atvinnuleysið hefur tekið stökk frá 5% í 10.4%, sem er jafnvel meira en í Bandaríkjunum. ... Og kreppan í opinberum fjármálum hefur knúið ríkisstjórnina til að leggja fram neyðarfjárög þann 7. apríl."

"Heilbrigður greiðsluafgangur á miðjum síðasta áratug hefur snúist upp í mikinn halla áratug síðar, merki um að Írland hefur orðið of dýrt land. ... Brothætt efnahagslíf og áframhald á versnandi samkeppnisstöðu hefur gert skuldabréfamarkaði óörugga um möguleika Írlands að vinna sig upp upp úr fjármáladýkinu. ... Aukafjárlögin í apríl verða fjórði fjármálapakkinn á einu ári. Í febrúar ... lagði ríkisstjórnin gjald á eftirlaunagreiðslur ríkisstarfsmanna sem rýrði greiðslur um 7.5%. Sársaukinn af niðurskurði mun vaxa í apríl. Tekjuskattur mun nær örugglega hækka, fjárveitingar til framkvæmda verða stöðvaðar sem og fleiri útgjöld."

"Sumir hagfræðingar vilja sjá samkomulag um að skera samhliða niður laun ríkisstarfsmanna og hjá einkafyrirtækjum.  Sem evru-meðlimur getur Írland ekki lækkað gengi til að verða samkeppnishæft á ný. Þess vegna verða launin að lækka. ... Írland leitar nú lausnar í lækkuðum launum, enda þótt heimilin séu skuldum vafin. Á sama tíma og mörg lönd hyggjast örva efnahagsstarfsemina með fjárútlátum, er Írland að skera niður á fjárlögum. ... Ef aðlögun innan evru-svæðisins þýðir launalækkanir, þá er það reikningur sem Írland virðist vera reiðubúið að borga." Þannig lýkur þessari áhugaverðu grein í Economist.

Það verður einkar fróðlegt fyrir fjölmiðla að sækja blaðamannafund formanns og varaformanns Samfylkingarinnar eftir væntanlega heimkomu þeirra frá Írlandi upp úr páskum. Sérstaklega verður forvitnilegt að heyra um blessun evrunnar fyrir Íra og hvernig sól fari loks að rísa yfir Íslandi eftir um 10 ár með þennan skínandi gjaldmiðil í höfn, - það er að segja ef "planið" um aðild gengur eftir að loknum kosningum."

Annars gleðilega páska og loftaðu svolítið út fyrir nýrri hugsun og sýn til vandamála samtímans - að ekki sé talað um langa framtíð. Hvernig væri að skella sér á kvikmyndina Draumalandið með alla fjölskylduna nú yfir hátíðina?

Hjörleifur Guttormsson, 10.4.2009 kl. 08:57

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Takk, takk, kæri Hjörleifur. Ég er nýkominn úr fjögurra daga ferð frá Akureyri og er ansi loftmikill eftir þann túr. Það eru um 20 ár síðan ég var síðast að sveifla mér á svigskíðum.

Það er ekkert í þessum tilvísunum sem færir vanda Íra yfir á þá staðreynd að þeir séu í Evrópusambandinu. Að þeir séu með evru skapar minna svigrúm til gengisaðlögunar. Margir halda því fram að vandi þeirra væri enn verri ef þeir hefðu ekki verið í nánum viðskiptatengslum við önnur lönd í álfunni og með evru sem gjaldmiðil.

Við vorum einmitt að ræða það að fara á myndina Draumalandið. Þannig að ég tek hvatningunni fagnandi. Mbk, G

Paskakveðja til þín Hólmfríður.

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.4.2009 kl. 09:21

4 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ef eitthvað mark er takandi á könnunum síðustu daga virðast nú sóknarfæri fyrir fleiri en SF. Ef fram fer sem horfir mun VG tvöfalda þingmannatölu sína. Og það sem er kannski áhugaverðast ,ef greining er gerð á könnunum er að u.þ.b. 40% ungu kjósendanna styðja VG.

Sigurður Sveinsson, 10.4.2009 kl. 10:39

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Gunnlaugur! Þú ættir að vera í forystu Samfylkingarinnar.  Hjörleifur, alls góðs maklegur, mætti átta sig á því að innan ESB neyddumst við til að vinna af viti í mannréttindamálum og umhverfismálum.  Hann er óvart að leggja íhaldinu lið sem vill hafa kontról á hlutunum eins og það hefur haft alla hans tíð sem stjórnmálamanns.

Baldur Kristjánsson, 10.4.2009 kl. 15:40

6 Smámynd: Gústaf Níelsson

Dagdraumar þínir fyrir hönd Samfylkingarinnar eru ágætir Gunnlaugur, en óþarft er að óska þjóðinni þess að hún vakni upp við martröð. En kannski er tími vinstristjórnarmartraðar kominn. Sagan þarf að endurtaka sig og þjóðin að læra upp á nýtt.

Gústaf Níelsson, 10.4.2009 kl. 16:56

7 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll aftur frændi.

Það leggst lítið fyrir skýringar þínar á skelfingarástandinu á Írlandi. Er ekki málflutningur Samfylkingarinnar sá að aðild að ESB og sérstaklega evru sé sú allra meina bót sem flokkurinn boðar, undirstaðan í "plani" Dags varaformanns? "Evrópusambandið undirstaða velferðar til framtíðar" var fyrirsögnin í kynningu þeirra Jóhönnu og Dags sl. miðvikudag. Hver heldurðu að trúi þessu sem á annað borð hefur kynnt sér stöðu og þróun mála í Evrópusambandinu?

Og Baldur blessaður vísar á mannréttindi og umhverfismál. Mannréttindi eru öðru fremur viðfangsefni Evrópuráðsins og Mannréttindadómstóls Evrópu og engra trygginga að leita í Evrópusambandinu. Þessu ruglar fólk iðulega saman.

Staðhæfing Baldurs um að við værum betur komin í ESB til að geta unnið af viti að umhverfismálum er að snúa hlutunum á haus, fyrir utan þá hugsun að Íslendingar sjálfir geti ekki séð fótum sínum forráð. Framganga ESB á umhverfissviði er mjög misjöfn.  Efnahagsstefna sambandsins vinnur gegn markmiðinu um sjálfsbæra þróun. Samkvæmt síðustu heildarúttekt Umhverfisstofnunar Evrópu kemur í ljós að svonefnd vistfræðileg fótspor (ecological footprints) Evrópusambandsins eru margföld umfram það sem sjálfbært geti talist. Bæði orkunotkun og losun gróðuhúsalofts fara vaxandi á ESB-svæðinu. Innri markaður Evrópusambandsins var aðferð evrópskra auðhringa til að reyna að ná frumkvæði í harðnandi samkeppni á alþjóðamörkuðum, jafnframt því sem innleiddar voru tilskipanirnar um frjálsar fjármagnshreyfingar, sem m.a. urðu bankakerfinu hér að falli gegnum EES. Með ESB-aðild eru sjálf aðildarrríkin svipt samningsumboði á umhverfissviði við þriðju aðila eins og í öðrum samningum. Allt myndi þetta þrengja að sjálfræði Íslendingar til að sækja fram í umhverfismálum. En til þess þarf vissulega pólitískan vilja og forystu en hér hefur skort á þessu sviði um áratugi. Þar dugar hvorki blekkinga- eða feluleikur sem einkennt hefur framgöngu Samfylkingarinnar, sbr. "Fagra Ísland" og birtist okkur enn og aftur með því að ríghalda í erlendu stóriðjuna. 

Hjörleifur Guttormsson, 10.4.2009 kl. 21:20

8 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ég hélt að það færi aldrei svo að ég yrði sammála Hjörleifi, fyrrverandi nágranna mínum... Hélt ég að flest annað væri eftir. En varðandi EU og Samfylkinguna erum við á sömu blaðsíðunni, tek ég orð annars í rit:

"Hræsnin ríður ekki við einteyming."

Sindri Karl Sigurðsson, 10.4.2009 kl. 22:07

9 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Ekki gefa í skyn að ég rugli þessu saman Hjörleifur.  Ég hef starfað innan Evrópuráðsins ECRI um 12 ára skeið og  tek undir það með þér að innan Evrópuráðsins er best unnið að mannréttindum og að mestri þekkingu.  Í gegnum ECRI (varaforseti um 3ja ára skeið) hef ég átt í samvinnu við Fundamental Rights Agency og forvera þess  kynnst því hvernig Evrópusambandið er að bæta sig á þessu sviði bæði í vinnumálarétti og í almennum mannréttindum.  Markmið þess er að taka mannréttindi mjög alvarlega og hvika hvergi frá Mannréttindasáttmálum Evrópuráðsins og Sameinuðu Þjóðanna.  Evrópusambandið t.d. styður það að viðauki nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu verði innleiddur í ríkjum sambandsins en það hefur ekki gerst á íslandi, veistu af hverju Hjörleifur?

Varðandi umhverfislöggjöf er óhætt að segja það að eins og á öðrum sviðum þá taka menn hlutina miklu fastari tökum heldur en hér uppi. Þú hefur kynnst því sjálfur hvernig Norðurlöndin taka markvissar á umhverfismálum en Íslendingar.  Leiðinlegt að segja það en með andstöðu þinni við ESB leggur þú lið þeim öflum sem vilja halda Íslendingum í fortíðinni.  Bestu kveðjur samt. Ég gleymi því aldrei þegar við sátum saman yfir Lónsöræfum og þú lýstir hinni dásamlegu fegurð íslenskra öræfa. Ég efast ekki um góðan tilgang þinn. En sú fegurð mun ekki hverfa okkur fyrr en við gefum upp öndina og alls ekki við inngöngu í ESB.  Kveðja. Baldur.

Baldur Kristjánsson, 10.4.2009 kl. 22:10

10 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það eru oft sitthvað orð og efndir í pólitík. Það þekkjum við best hér í Mosfellsbæ. Vinstri grænir tóku að sér það hlutverk að tryggja Sjálfstæðisflokknum áframhaldandi meirihluta. Þar að auki að láta hagsmuni verktaka ráða för og græðgivæðinguna. Nú er bærinn eitt opið svöðusár.

Lífið snýst ekki bara um Kárahnjúkavirkjun eða loftslagsbreytingar. Það snýst ekki bara um hvaða stofnun eða valdablokk sé með besta stefnu í umhverfismálum. Það snýst ekki bara um sáttmála og reglugerðir. Umhverfisvitund byrjar í nærumhverfinu og hjá einstaklingnum. Þannig hefði það verið þroskamerki ef ræktunarmold á Blikastöðum, Helgafelli og Leirvogstungu hefði verið friðlýst til notkunar í garðyrkju.

Það hefði tryggt matvælaöryggi höfuðborgarinnar, en einhvern vegin tókst VG í Mosó að vera utan og ofan við alla slíka hagsmuni nærumhverfisins. Einnig með því að spilla möguleikum til útivistar og grænum svæðum. Þessi framgangur verður flokknum til mikillar skammar um langt skeið.

Í heilt ár hefur ókláraður þriggja metra breiður göngustígur meðfram bökkum Varmár og örfáum metrum frá Álafossi verið tákn þessa mikla virðingarleysis við náttúruna, sem var skrifað upp á og varið af mikilli hörku af  Vinstri grænum í Mosfellsbæ.

Það er enginn heilagleiki yfir umhverfismálum í þessu bæjarfélagi sem er eitt af fáum þ.s. VG hefur komist til valda. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.4.2009 kl. 22:16

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Með Össur orkufursta og REI aðdáanda og Helga Hjörvar sem vill selja Kárahnjúkavirkjun þá munu þeir sem telja Illuga og Guðlaug Þór vera á réttri leið ekki taka eftir neinum mun. Spurningin er bara hvers vegna þeir sem eru þegar mjög ánægðir með virkjanasöluleið Illuga og Guðlaugs Þórs ættu að flytja sig yfir í Samfylkinguna... en það er ekki merkanlegur munur á viðhorfum til íslenskra auðlinda.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.4.2009 kl. 23:48

12 Smámynd: TARA

Fróðlegar umræður og góður pistill Gunnlaugur.

TARA, 11.4.2009 kl. 01:07

13 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Kannast ekki við Salvör einhverjar söluhugmyndir tengdar auðlindum séu sterk viðhorf innan Samfylkingar. Þvert á móti hefur verið mikill áhugi á að tryggja að þær séu í þjóðareign. Geri ráð fyrir að þú sést með það undirstef að Framsóknarflokkurinn hafi eitthvað að bjóða í umhverfis- og auðlindamálum. Við höfum fiskveiðistjórnunina sem dæmi um hvernig hann blandar saman auðhyggjunni og auðlindanýtingu.

Alþýðubandalagið var flokkur menntamanna en Alþýðuflokkurinn var flokkur verkamanna í einfaldaðri söguskýringu. Þó ég sé í grunninn sveitamaður alinn upp við andúð á "krötum" þá ber ég virðingu fyrir viðleitni þeirra að tryggja vinnu í landinu. Út frá þessari innstillingu flokksins að standa vörð um bókhald heimilanna hefur þetta afl átt mikið fylgi í Hafnarfirði. Á meðan var Alþýðubandalagið að stórum hluta undirlagt í hugmyndafræðilegar úttektir. Hvaða ismi væri nú bestur, hvort Sovét væri fyrirheitna landið og hvað Bandaríkin stæðu fyrir vondan kapítalisma.

Þessi arfleifð flyst að nokkru inn í Samfylkingu og Vinstri græna. Samfylkingin reynir að axla ábyrgð á því hvernig atvinna og efnahagur verði tryggður í landinu, en þar hafa Vinstri grænir látið eins og þeir séu stikkfrí eða að slík umræða sé utan og neðan við þeirra göfgaða vitsmunalega plan. Samfylkingin er fjöldahreyfing þar sem að er bæði pláss fyrir Ómar Ragnarsson og Össur Skarphéðinsson. Breytileiki í viðhorfum er styrkleiki en ekki veikleiki. Það er ekki ástæða til fyrir umhverfissinnað fólk í öðrum flokkum að sverta vinnu tengda Fagra Íslandi heldur einmitt að veita henni vægi og hvetja liðsmenn hennar til dáða innan Samfylkingarinnar.

Össur er öflugasti talsmaður atvinnusköpunar í landinu. Enginn fær því móti mælt að við þurfum fleiri krónur í kassann. Viðskeytin "orkufursti" eða "REI aðdáandi" eiga væntanlega að vera neikvæð en ég er ekki sammála því. Reyndar finnst mér að áform um álver í Helguvík séu glapræði, þá sérstaklega útfrá efnahagslegum ástæðum. Setjum ekki fleiri egg í álkörfuna. Hinsvegar finnst mér hann hafa staðið sig vel varðandi olíuleit á Drekasvæðinu og hugsanlega útrás okkar á sviði jarðvarmavirkjana. Einnig er ég mjög ánægður með skipan hans á orkumálastjóra.

Tvær einfaldar spurningar;

1. Ef Össur Skarphéðinsson tryggir með samningum við stjórn Barack Obama stóra samninga um aðkomu Íslendinga að uppbyggingu jarðvarmavirkjana í Bandaríkjunum munu Vinstri grænir ekki fagna því eða verður það túlkað sem birtingarmynd heimskapítalismans?

2. Ef Össur Skarphéðinsson tryggir möguleika til mikils efnahagslegs ávinnings tengt olíuvinnslu á Drekasvæðinu munu Vinstri grænir ekki fagna því eða væri barist gegn því út frá loftslagsmálum og andstöðu við olíuauðhringa?

Það er gott að vera staðfastur í trúnni á rétta ismann, en ....

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.4.2009 kl. 05:35

14 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll frændi.Þú segir að söluheimildir tengdar auðlindum séu ekki á kreiki innan Samfylkingarinnar. Þá hefurðu ekki áttað þig á eðli og grundvallareglum Evrópusambandsins en aðild að því er kjarninn í stefnu flokksins þíns. - Salvör minnir líka réttilega á hugmynd Helga Hjörvar tveimur dögum fyrir bankahrunið að selja Kárahnjúkavirkjun. Öfugmælin eru ofarlega á blaði hjá Samfylkingunni þegar kemur að ESB eins og lesa má í grein í Fréttablaðinu í dag:"Næsta ríkisstjórn verður að endurheimta fullveldi Íslands frá EES með því að ganga inn í ESB og gera okkur á ný að sjálfstæðri og fullvalda þjóð í samfélagi þjóðanna." (Guðlaugur Kr. Jörundsson) Þegar kemur að atvinnumálum og atvinnuþróun er Samfylkingin á hálum ís svo ekki sé meira sagt. Meginástæðan er sú að flokkurinn hefur ekki fótað sig í umhverfismálum, ekki áttað sig á grundvallahugsuninni um sjálfbæra þróun. Þetta birtist okkur m.a. í stóriðjustefnunni sem Samfylkingin er enn með í lestinni. Össur er ekki eini boðberi hennar heldur öll forysta flokksins. Angi af því sama er hugmyndin um olíuvinnslu á Drekasvæðinu, stór patentlausn sem gengur þvert á þá loftslagsstefnu sem við ættum að berjast fyrir. Kjarni hennar er að draga hratt úr notkun jarðefnaeldsneytis, og sem lið í því eigum við að leggjast gegn olíuvinnslu á Norðurheimsskautssvæðinu. Áframhaldandi hlýnun mun leysa úr læðingi methan úr freðmýrum og hafsbotni á norðurslóðum og þá fyrst er nú fjandinn laus.Jarðvarmavirkjanir geta verið góðar til síns brúks, en þar gildir hið sama og með vatnsaflið að listin er að fara sér hægt og vanda sig í nýtingu en einmitt varðandi nýtinguna eru menn á röngu spori. Þar á ég við byggingu jarðvarmavirkjana í stórum stíl til að knýja álbræðslur eða viðlíka stórnotendur orku, fyrst af öllu í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Að hvorutveggja er unnið með fullum stuðningi Samfylkingarinnar sem er hér stödd í  blindgötu. Það dugir skammt að Ómar Ragnarsson hengi sig á Samfylkinguna nú þegar vatnið er runnið undan Íslandshreyfingunni, enda hef ég ekki trú á að margir úr þeirri sveit fylgi honum þangað. Önnur spurning sem þú spyrð er hvort eitthvað sé á móti því að íslensk stjórnvöld semji við bandarísk um uppbyggingu jarðvarmavirkjana í stórum stíl. Ég hef ekki trú á að bandarísk yfirvöld leiti slíkra samninga, a.m.k. er jafngott að íslenska ríkið gangi ekki í ábyrgðir í því samhengi. Hvað bandarískir einkaaðilar gera í frjálsum samningum við hérlend fyrirtæki er þeirra mál.Staðreyndin er að Samfylkingin er ósköp hugmyndasnauður flokkur og umfram allt sundurleit hjörð sem virðist geta sameinast um fátt annað en benda á ESB-aðild og stórhættulegt afsal fullveldis sem allt eigi að leysa.

Hjörleifur Guttormsson, 11.4.2009 kl. 17:18

15 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

"Staðreyndin er að Samfylkingin er ósköp hugmyndasnauður flokkur og umfram allt sundurleit hjörð.." Stóri sannleikurinn er sá að fólk með félagslegar áherslur hafði verið sundurleit hjörð fram að stofnun Samfylkingar. Hópurinn er jafn sundureleitur og andríki hvers tíma. Á landsfundinum síðasta var mikill fjöldi og frábær stemming.

Finnst þitt innlegg Hjörleifur vera af einhverri biturð sem á sér sögulegar rætur, en á ef til vill ekki erindi við nútíð og framtíð. Finnst það gæti verið gott fyrir landið að það verði meginviðmið að það séu tveir "systurflokkar" á vinstri væng stjórnmálanna. Það verði regla að þeir myndi ríkisstjórn ef nokkur möguleiki er eftir kosningar.

Þannig sameinast félagslegar áherslur við landstjórnina þó teflt verði fram breytileika í tónum hjá þessum tveimur flokkum í kosningum.

                                  Með góðum óskum,   G

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.4.2009 kl. 20:40

16 Smámynd: Karl Tómasson

Gunnlaugur, þú ert of svekktur og bitur. Þú í raun opinberar það allt of auglóslega með skrifum þínum. Því þú vilt nefnilega láta í allt annað skína.

Andlegt jafnvægi er ekki síst fólgið í því að koma hreint fram.

Þú ert enn til að mynda að svekkja þig á því að Vinstri græn hafi komist til valda í Mosfellsbæ og það sem verra er, að reyna að halda því fram að sú atburðarrás öll snúi að Vg.

Á sama tíma reyndir þú óhikað að réttlæta ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Samfylkingar á sínum tíma.

Gunnlaugur minn. Ykkur var hafnað, öllu þínu fólki í Varmársamtökunum sem bauð sig fram til komandi alþingiskosninga og stjórnarsetu í Samfylkingunni var hafnað.

Þið genguð of langt, svo allt of langt, það vita allir í dag.

Með kærleik og kveðju Kalli Tomm.

Karl Tómasson, 11.4.2009 kl. 21:45

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

GLeðilega páska kæri Gunnlaugur - og njóttu hátíðanna sem best.

Baráttukveðjur

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.4.2009 kl. 11:50

18 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

 Göngustígur fyrir fatlaða

Karl, þessi trukkur sem að er á myndinni og er að eyðileggja umhverfi Álafoss var á þínum vegum. Íbúðahverfin sem áttu að réttlæta spillingu umhverfis og skerðingu útivistarmöguleika meðfram Varmá standa óbyggð eða ókláruð. Þú og Sjálfstæðisflokkurinn berið alla pólitíska ábyrgð á þessum framgangi. Græðgin var ráðandi afl og þið genguð alltof langt. Þú getur ekki skotið ábyrgðinni yfir á aðra, því þú hefur margoft kvittað upp á þetta mál með ýmsum hætti bæði tengt samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn um málið, skipulagsbreytingum og samningum við verktaka.

Hvernig ætlið þið að axla ábyrgð og loka öllum þeim sárum sem standa nú opin eftir níðingshátt gagnvart landinu og sögulegri arfleifð? Ef þú ert að ögra Varmársamtökunum að bjóða fram við næstu bæjarstjórnarkosningar þá gæti þér alveg orðið að ósk þinni, ef allt það góða fólk sem komið hefur að starfi samtakanna finnur ekki annan farveg fyrir þau sönnu gildi sem standa æðra heldur en græðgi, völd og hroka sem einkennt hafa verið einkennandi í framgöngu núverandi bæjarstjórnar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.4.2009 kl. 12:19

19 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Bestu páskakveðjur vestur Ólína og gangi þér vel í baráttunni framundan.

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.4.2009 kl. 12:24

20 identicon

Það er mjög sérkennilegt að hlusta á fólk sem kalla sig Vinstri Grænir. Eru þeir vinstri og, eða grænir? Margt í þeirra málflutningi hljómar vægt sagt mjög furðulegt þar sem hugmyndir um þjóðerniskenntum sósíalísmi koma klárlega fram. Sjálfstæði sýnist að vera skilgreind sem eignarhald og yfirráð yfir auðlindum (þjóðarkapítalismi?). Hnattræn sýn þeirra endurspeglar andúð við stórríki eða ríkjasambönd sem ógna þeirra smáborgarleg mýnd af sjálfstæði. Helst vilja þau rækta sambönd við frændþjóðir, lönd sem eru tengd Ísland blóðböndum. Einskonar “samnorrænt stóríki” sem andríki við ESB .

Íslenskir kapítalistar eru  fyrir löngu orðin hnattræn, “útrásavíkingar okkar”, en íslenskir þjóðernissósíalistar sitja enn í moldakofum og syngja “die Internationale”. Íslenskir auðmennirnir eru búinn að selja land og þjóð en Vinstri Grænir eins og Íhaldið benda á ESB sem ógnvaldur sjálfstæðisins en eru ekki að skynja að mesti ógnin kemur innanfrá. Eru VG virkilega sú einlæg hjörð sem hlyða orð foringans?

Afsakið en sem Evrópabúi má ég leyfa mér slíkt álit.

Gleðilega páskar

Bernd

Bernd (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband