Að stokka upp spilin

Næstu sveitarstjórnarkosningar væru tilvaldar sem vettvangur fyrir fyrstu útfærslu persónukjörs hér á landi. Miklar útstrikanir af listum sýna áhuga kjósenda á að velja einstaklinga af framboðslistum flokkana. Persónukjörið myndi innleiða þessa hefð með jákvæðum formerkjum. Að velja þá sem taldir eru líklegir til góðra verka frekar en að strika út þá sem að fólk vill ekki að nái árangri.

Ég hef lengi verið áhugamaður um þróun lýðræðis. Þar hafa verið ýmis tækifæri með íhaldið við taumana í landsmálum og sveitarstjórn. Við höfum búið við tvö meingölluð form við val á frambjóðendum. Annarsvegar uppstillinganefndir þar sem fámennar klíkur raða sjálfum sér og velunnurum á lista eða hinsvegar prófkjör þar sem fjármagnið og smalamennska hafa ráðið úrslitum. Persónukjör stuðlar að virkum samskiptum og auðmýkt gagnvart umbjóðendunum, kjósendum.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var ég þátttakandi í umræðu innan Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ um að framboðið yrði að láta félagsmenn raða upp listanum með einhverjum hætti. Þeir sem að voru í forsvari bæjarmálana töldu að lítil þátttaka yrði í slíkri kosningu og sáu henni allt til foráttu. Ákveðið var að setja málið í hendur uppstillinganefndar og ég var ósáttur. Mér fannst þetta ekki nógu opið og lýðræðislegt fyrirkomulag.

Samfylkingin verður að vera samfélagsafl með þræði sína virka út um allt bæjarfélagið, en varast að vera fámennur eða einsleitur hópur. Á síðasta aðalfundi flokksins hér í Mosfellsbæ voru það mér vonbrigði að félagsmálatröll í sveitarfélaginu sem buðu sig fram til stjórnar náðu ekki kosningu. Fólk sem staðið hefur vaktina um brýn og verðug hagsmunamál. Það má aldrei verða svo að það eitt að kveða sér hljóðs og vera þátttakandi verði talið til ókosta í flokki samræðunnar. 

Lýsi því hér með yfir að ég gef kost á mér á þann lista sem stillir upp persónukjöri og setur áherslur á umhverfismál, íbúalýðræði og eflingu mannlífs í Mosfellsbæ. Hlýt að eiga góða möguleika ef þetta gengur út á sjarma og málefni Heart W00t. Amma mín, Ragnhildur, notaði oftast einn mælikvarða á ókunnugar persónur. Það var hvort viðkomandi væri "þægilegur". Þannig sagði hún stundum; "Þetta var sérlega þægilegur maður .... ég gæti alveg trúað að hann væri framsóknarmaður".


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Sæll Gunnlaugur, langt um liðið frá því við unnum að rannsóknum á V-Íslendingum frá Manitoba.  Gaman að hitta þig hér!

Þetta er flókið mál og ákveðnar efasemdir hafa verið settar fram um að þetta sé í raun framför.  Ég hef áhyggjur af því að kosningamálin verði of persónubundin við þetta og stefnur flokka (sem er mikilvægast fyrir kjósendur) víki.  Hvernig verður þetta t.d. útfært í sambandi við uppbótarþingmenn?  Þetta er ekki sá vandi sem við eigum við að etja og þeir sem það boða eru í raun að stinga höfðinu í sandinn og vilja ekki horfast í augu við vandamál sem þeir eiga enga lausn á.  Vilja frekar eyða tíma okkar í að ræða einhver mál sem beina athyglinni frá raunverulegum vanda okkar og mögulegum lausnum.

Sama á við um stjórnlagaþing.  Það hefur enginn fært sannfærandi rök fyrir því að íslensku stjórnarskránni sé um að kenna hvernig efnahagsmál hafa þróast á Íslandi og í heiminum öllum!

Við skulum ekki láta rugla okkur í ríminu og höldum einbeitingunni í úrlausn vanda lands og þjóðar.

Helgi Kr. Sigmundsson, 13.5.2009 kl. 01:01

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Helgi

Gaman að heyra frá þér sömuleiðis. Það er alveg rétt að við eigum að vera einbeitt í úrlausn mála, en hinsvegar eigum við að huga að endurskoðun okkar lýðræðisskipulags. Þannig að valdagírugir pólitíkusar í bland við fjármálamenn geti ekki leitt þjóðina í hliðstæðar ógöngur og gerðist á liðnu hausti.

Sumir hafa rætt að mögulegt eigi að velja persónur þvert á lista. En ég vil ekki ganga svo langt. Eftir að hafa kosið flokk þá hefur kjósandi möguleika á að raða frambjóðendum.

                                Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 13.5.2009 kl. 11:44

3 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Sæll Gunnlaugur er ekki líka tækifæri til að hugsa öðruvísi á þann veg að mynda ekki meirihluta heldur að kjósa í embætti miðað við kjörfylgi og svo ræða men sig í gegnum málin.

Hörð pólitík á ekki heima í sveitarstjórnarmálum það hljóta allir að ver að gera sitt besta og það er eðlilegt að menn hafi ekki allir sömu skoðun á málum og þá myndast meirihluti um mál þvert á flokka allt eftir málefnum það er hið rétta lýðræði og þannig nýtum við alla fulltrúa sem best án pólitískra kenninga.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 13.5.2009 kl. 22:38

4 Smámynd: Karl Tómasson

Nú er bara að gera aðra eða þriðju tilraun minn kæri, eða er það fjórða?

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 13.5.2009 kl. 23:58

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég er nú á því Jón að það verði að vera tvær meginstoðir sem eru að verki í sveitastjórnarmálum, það er hin félagslega og hin lýðræðislega (social democratic). Hinsvegar er það alveg rétt hjá þér að æskilegast er að fylgja ekki hart fram einhverju meirihlutahugsun í sveitastjórnarmálum. Það er gæfa forystumanna ef þeim tekst að laða fólk til lýðræðislegrar og opinnar stjórnsýslu. Leita sátta í ágreiningsmálum, finna málamiðlanir, bjóða upp á valkosti fyrir íbúakosningu.

Veit ekki hvaða tilraunir þú ert að tala um Karl. Ég er gjörningamaður í eðli mínu, vil vera í skapandi og skemmtilegu andrými. Hef reyndar unnið um nokkurra ára skeið á lífeðlisfræðistofnun við tilraunir. Auk þess eru líka alloft tilraunir við kennslu í raungreinum. Það sem að er mikilvægast við tilraunir er að vera með tilgátuna á hreinu og skilja samhengið, þá verður niðurstaðan oftast í samræmi við forsendurnar. Á það er ég mjög bjartsýnn. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.5.2009 kl. 00:19

6 Smámynd: Karl Tómasson

Það er svo skrítið Gunnlaugur. Einhvernvegin hef ég alltaf haft það á tilfinningunni að þú sért býsna skemmtilegur og góður gaur, þrátt fyrir nettan norðan vindgang sem virðist fylgja þér.

Ég held nú samt að Varmársamtakagjörningur þinn, talandi um gjörninga sé hvirfilbylur. Þeir geta verið slæmir.

Með bestu kveðju frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 14.5.2009 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband