Ólæsir kjánar sem axla ekki ábyrgð

Með aðild að EES skapaðist frelsi sem var misnotað og drifið áfram af græðgi. Við horfðum upp á þetta og margir dönsuðu með í kringum gullkálfinn í góðærinu. Eftirlitsstofnanir brugðust og spiluðu í liði með peningahyggju og sóunarstefnu. Það sáu allir að þetta gat ekki gengið svona til lengdar. Samt var haldið áfram að kynda undir þenslunni með nýjum stóriðjuframkvæmdum. En að lokum sprakk blaðran og íslenskt efnahagslíf féll saman eins og spilaborg og reyndist hin mesta svikamylla.

Þá kom fram yfirhetjan úr flokki íhaldsamra borgara og sagði í Kastljósi þann 7. október 2008 að við "ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna". Framlenging valds hans, forsætisráðherra, talaði á svipuðum nótum að það myndi stefna í þjóðargjaldþrot ef gengist væri í ábyrgð á erlendum innistæðum. Á sama tíma er ítrekað af yfirvöldum að sparifé Íslendinga verði varið og tryggt að fullu. Það voru settir 600 milljarðar úr ríkissjóði til að tryggja sparifé Íslendinga. Síðan mismunuðum við viðskiptavinum hins íslenska banka með því að bæta hinum íslensku tapið að fullu, en hafa áform um að gangast ekki einu sinni við lágmarkstryggingu eins og kveðið er á um samningum milli EES þjóðanna.

Í alþjóðasamfélaginu vorum við fyrst búin að fara offari í viðskiptum og spilamennsku, en komum í framhaldi með viðhorf sem bentu til að á eyjunni norður í höfum lifðu eingöngu sjálflægir og ólæsir kjánar. Það verður að teljast eðlilegt að það myndaðist fullkomin eining meðal allra aðildarþjóða að EES svæðinu, að Íslandi bæri að virða þá samninga sem það hefur undirritað. Í framhaldi sendir Davíð Oddsson og Árni Mathiesen bréf þess efnis að Ísland muni axla ábyrgð á skuldbindingum sínum. Það er augljóst að Evrópusambandið er hrunið ef að hver þjóð á að geta farið í lagaþrætur um atriði sem kveðið er skýrt á um í samningi. Það er ekki mikil skynsemi í orðum Sigurðar Líndal um að við séum "Sigruð þjóð" og að þetta sé ekki góð byrjun á því sem koma skuli í samskiptum við Evrópusambandið.

Ég held að það hafi verið algjörlega rétt að íslensk stjórnvöld lýsi því yfir að þau axli ábyrgð og leiti eftir samningum. Hinsvegar er alveg til athugunar í meðferð Alþingis að fara yfir málið. Það eru tvö atriði sem mér finnst að hefðu þurft betri skoðun. Það fyrsta er sú augljósa spurning að ef það er tilfellið að eignir Landsbanka í London fari hátt í að borga IceSave skuldbindingar, afhverju taka þeir bara ekki einfaldlega eignirnar upp í skuld? Í öðru lagi finnst mér að það eigi að vera svigrúm til að endurskoða 16 ákvæði samningsins sem lítur að fullveldinu. Við erum á réttri leið að vinna okkur út úr þeirri ímynd sem Davíð Oddsson sendi umheiminum að við værum illa læsir kjánar sem öxluðum ekki ábyrgð á alþjóðlegum skuldbindingum. Vonandi fáum við nægjanlegt svigrúm til að gulltryggja hagsmuni lands og þjóðar í meðferð Alþingis á þessu stóra máli.


mbl.is Vilja að forseti synji staðfestingu á ríkisábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hrynji bara Evrópubandalagið! – farið hefur fé betra. Ekki eigum við að bjarga því, sízt af öllu með því móti, að íslenzkir alþingismenn brjóti á réttindum íslenzkrar þjóðar.

Það hefur aldrei verið skylda ríkisins og þjóðarinnar að hlaupa undir bagga með einkabönkum og Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta (sem er sjálfseignarstofnun og haldið uppi með framlögum bankanna, jafnvel svo, að ríkið mátti ekki leggja hinum til fé). Það kemur m.a. berum orðum fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2007, þar sem segir orðrétt á bls. 9 (leturbr. jvj):

"Fella ætti Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta úr D-hluta ríkissjóðs. Sjóðurinn getur með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans."

Og á bls. 57 í sama riti stendur:

"Ríkisendurskoðun hefur áður lagt til að ríkisreikningsnefnd taki til skoðunar hvort fella beri Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta úr D-hluta ríkisreiknings. Að mati stofnunarinnar eru ekki lagalegar forsendur fyrir birtingu sjóðsins í ríkisreikningi enda getur hann með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans."

"Leiðrétti" nokkur maður þessi opinberu ummæli, þegar þau voru birt? Nei. Og hvers vegna ekki? Vegna þess að þau eru sönn, en hitt lygi, sem nú er haldið að okkur sem "sannindum" og sem "skuldbindingum okkar"! Það sýnir sig líka, að helztu rök Icesave-sinna eru þau, að við séum "neydd" til að borga, verðum að "lúta þvingun annarra". Aldrei hefði Jón Sigurðsson beygt sig fyrir slíkri kúgun (hvað þá réttlætt hana) og aldrei tekið þátt í því að leggja ranglætis-álögur á borð við þessar á þjóð sína.

Jón Valur Jensson, 30.6.2009 kl. 07:59

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og talandi um "ólæsa kjána" : Eygló Harðardóttir afhjúpaði nú nokkra þeirra í ræðu á fundinum í Iðnó í gærkvöldi – þ. á m. samninganefndarformanninn Svavar og ráðherra hans Steingrím!!! Kynntu þér það, Gunnlaugur!

Jón Valur Jensson, 30.6.2009 kl. 08:02

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Þú segir: "Síðan mismunuðum við viðskiptavinum hins íslenska banka með því að bæta hinum íslensku tapið að fullu..." - Rangt, flestir Íslendingar töpuðu um 30% af sparifé sínu sem geymt var í peningamarkaðssjóðum.

Og þú segir:"Í alþjóðasamfélaginu vorum við fyrst búin að fara offari í viðskiptum og spilamennsku..." Þú fellur í sömu gildru og erlendir ráðamenn (ekki almenningur erlendis) og í sömu gildru og flestir íslenskir ráðamenn að bera saman að jöfnu okkur, þ.e. Íslendinga sem þjóð og stjórnendur banka og þessa svokölluðu "útrásarvíkinga". Svo mikið er víst að ég fór ekki neinu offari í viðskiptum og spilamennsku og enginn mér tengdur né nokkur sem ég þekki persónulega og, trúðu mér, það er allstór hópur.

Og síðan segir þú:" Það er ekki mikil skynsemi í orðum Sigurðar Líndal um að við séum "Sigruð þjóð" Hárrétt, Líndal er merkur maður og skynsamur. Þú verður, hins vegar, að lesa milli línanna hjá lagaprófessornum - hann er að gefa í skyn að við höfum tapað stríði - hvaða stríði heldur þú?

Að lokum spyrð þú:" af hverju taka þeir bara ekki einfaldlega eignirnar upp í skuld?" Nákvæmlega, og þetta er tengt því, hver ber ábyrgð. Er það íslenska þjóðin, eða Landsbanki Íslands hf.?

Ég, fyrir mitt leiti, er ekki í nokkrum vafa.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 30.6.2009 kl. 10:22

4 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Rétt hjá þér Gunnlaugur. Viðskiptamönnum bankans má ekki mismuna. Ekki var um áhættufjárfestingar / peningamarkaðssjóði að ræða heldur bankreikninga engin áhætta heldur fastir vextir. Auðvitað verðum við að standa við skuldbindingar sem við, þjóðin, fulltrúar okkar lögðu blessun sína yfir.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 30.6.2009 kl. 11:21

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Veist þú Gunnlaugur hvað erlendar innistæður í íslensku bönkunum voru miklar þegar yfirhetjan úr flokki íhaldsamra borgara sagði í Kastljósi "við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna." ................

Þær voru 3500 miljarðar á núvirði.

Og veist þú Gunnlaugur að ísenska ríkið er ekki enn farið að greiða eina einustu krónu vegna þessara erlendu innistæðutrygginga, enda kannski eins gott því ef svo væri ríkisjóður í greiðsluþroti.

Ég kannski illa læs og óskrifandi en ég er minni kjáni en læs bloggari með gengistryggð lán ábakinu.

Guðmundur Jónsson, 1.7.2009 kl. 00:08

6 identicon

Gunnlaugur B. "Með aðild að EES skapaðist frelsi.."

Með aðild að EES skapaðist reyndar ein stór vitleysa sem þeir hjá EES/ ESB ættu hreinlega að viðurkenna (eða þetta réttaróöryggi) í öllu þessu ófullkomna reglugerðarverki, en hvað áróður er þetta hérna hjá þér Gunnlaugur, að tala um frelsi- EES/ESB með bæði stóra galla, ófullkomið reglugerðarverk og það allt saman án ábyrgðar, Halló?

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 00:34

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Íslendingar eru með svo mikið hömluleysi í sinni þjóðarsál. Sama daginn svo til skora þeir sem hamingjusamasta þjóð í heimi og sú sem neytir mest af þunglyndislyfjum. Þorri þjóðarinnar var sannfærður um að við værum að kaupa upp Danmörku og fleiri lönd, en svo fellur spilaborgin sem byggð var á innistæðulausum krosseignatengslum.

Við erum svo sjálfselsk að okkur finnst það réttlætanlegt að ríkið borgi 600 milljarða til að bæta Íslendingum að fullu sparífé. Þá má greiða fyrir skuldir óreiðumanna til að tryggja íslenska hagsmuni en getuna skortir til að sjá ábyrgð okkar á tryggingasjóðnum í gegnum alþjóðlegar skuldbindingar. Eldri kona á Stokkseyri fær ríkisábyrgð þannig að henni er bætt að fullu vegna taps á sparífé við að íslenskur banki fór á hauswinn.

Eldri kona í Southampton tapar öllu sínu sparífé og það þarf gríðarlegan alþjóðlegan þrýsting til að fáÍslendinga til að bera ábyrgða á lágmarks tryggingargreiðslum innistæðueigenda. Þessar tvær konur eiga að hafa jafna stöðu innan EES um þessi atriði. Svo getum við nagað handarbökin að Landsbankinn hafi ekki verið skikkaður til að stofna dótturfélög í þessum löndum. Við erum búin að samþykkja kvaðir sem opna um leið á frelsi. Það gengur ekki að misnota bara frelsið og afneita kvöðunum.

Það er svo sannarlega þakkarvert ef að ríki ESB og Noregur eru einhuga í að kenna Íslendingum að frelsinu fylgir ábyrgð. Hinsvegar eru atriði í þessu sem ég skil ekki, eins og afhverju Bretar eru ekki til í að taka eignir Landsbanka upp í skuldir. Það myndi einfalda málið verulega. Ásamt því að draga úr áhyggjum almennings á að þessum birgðum verði velt yfir á skattgreiðendur. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 1.7.2009 kl. 01:16

8 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Af hverju taka bretar ekki eignir upp í skuld ?

það er vegna þess að þetta snýst ekki um kostnað heldur völd.

Bretar eru fyrir löngu búnir að greiða út eða tryggja allar innistæður í GBP og evrum og þeir áttu fyrir því með því að reka ríkisjóð sinn með halla (lesist prenta peninga).Og já þeir fengur evrur gefins frá sambandunu til að greiða út evru innistæður. Þeir lofa að greiða en greiða í raun ekki neitt, þeir bara fella gengið.

Á sama hátt eru íslendingar fyrir löngu búnir að greiða eða tryggja allar innistæður í krónum.

Eftirleikurinn snýst svo um völd, skuldir ríkisjóða yfir landamæri er stjórntæki nýlenduherra nútímans.

Guðmundur Jónsson, 1.7.2009 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband