Helgarlagið - Au coeur de septembre

Tilviljanirnar réðu að í fjallarútunni minni var í sumar safndiskur með Nana Mouskouri. Þar voru líka einhverjir salsa diskar og Tómas R Einarsson. Einhverjum hefði þótt meira viðeigandi að spila hetjulega söngva skagfirskra söngsveita þegar ekið var yfir Skyndidalsá, farið um kræklótta vegi upp Kjarrdalsheiði eða ekið niður að Illakambi. En persónulega fannst mér hún tóna vel við litadýrð fjallanna og stórkostlegt sköpunarverkið.

Samruni innan Evrópu snýst ekki bara um aura og evrur. Þar liggur líka menningararfur og óendanlegur fjölbreytileiki í sköpun. Konan mín er nýkomin úr vikureisu til Prag. Þar dvaldi hún að kynna sér byggingarlist þeirrar merku borgar. Þetta var hluti af Sókrates prógrammi Evrópusambandsins. Ætlað til þess að víkka sjóndeildarhring og örva hugarflug listgreinakennara.

Nana er grísk, fædd á eyjunni Krít árið 1934 og ólst upp frá þriggja ára í Aþenu. Verk hennar (plötur/diskar) hafa selst í meira en 300 milljón eintökum og er hún í fimmta sæti yfir mest seldu tónlistarmenn(Elvis Presley og Michael Jackson eru einu einstaklingarnir sem hafa selt meira, en Bítlarnir og Abba hafa líka selt meira). Hún hefur sungið á fjölda tungumála (einkum frönsku) og unnið með fjölda annarra tónlistarmanna.

Hún hefur verið fulltrúi UNICEF og var kosin á Evrópuþingið sem fulltúi Grikklands. Hægt er að fullyrða að fáir hafa unnið betur að samruna Evrópu með framlagi sínu heldur en þessi einstaka söngkona, sem hefur jafnframt lagt áherslu á hinn evrópska breytileika. En hún býr nú í Sviss með seinni eiginmanni sínum. Á síðasta ári fór hún kveðjutónleikaferð um heiminn. Lokatónleikarnir voru í Aþenu. Þar sem mættu forsætisráðherra Grikklands, borgarstjórar Berlínar, París og Lúxemborgar. En þar batt hún enda á feril sem spannar fimm áratugi.

Lagið sem ég vel með Nana Mouskouri nefnist Au coeur de septembre. Það passar við síðsummarstemminguna. Rólegt og hugljúft. Þetta lag söng hún einnig með Harry Belafonte. Sagan segir að hann hafi farið þess á leit við Nana að hún tæki niður svörtu gleraugun sem einkenndu hana, en hún hafi tekið því illa og íhugað að binda enda á samstarfið ef hann setti slík skilyrði. Hún þorði að vera karakter og það hefur án efa verið hennar styrkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband