Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

ATORKA - Vinyasa Yoga af lífi og sál

jógalif2             Það er ánægjulegt að segja frá því að kennarar á námskeiðum ATORKU er einstaklega hæfileikaríkt fólk sem að skarar fram úr á sínu sviði. Þar er hin kanadíska Líf engin undantekning. Hún hefur stundað jóga í rúman áratug og kennt í rúm fimm ár. Hún kennir vinyasa flæði jóga sem að gengur út á að hreyfa sig í takt við öndunina í gegnum jógastöður, sem myndar orku, liðleika og léttleika í líkamanum. Líf notar tónlist til að efla andann í æfingunum og leiðbeinir þannig að allir upplifi rými og frelsi. Einstakt tækifæri til að efla lífsorkuna jafnt til sálar og líkama.

http://youtube.com/watch?v=1yZo8-9ZPAI

 


ATORKA - Hip hop og break fyrir hinn Mosfellska ungdóm

breakhip hop               Nú er stundatafla ATORKU að verða fullmótuð og það eru nýjir hlutir að koma inn á síðustu metrunum. Natasha Monay Royal hefur haldið uppi merkjum þessarar dansíþróttar hér á landi. Nú geta mosfellsk ungmenni á öllum aldri látið drauminn rætast. Hún verður með kennslu fram til jóla á mánudögum, klukkan 15:30 er hip hop og klukkan 16:30 er break dans. Með þessu er tryggt að fólk á öllum aldri á að geta fundið eitthvað form dansnamskeidmenntar við sitt hæfi á þessu hausti. Íþróttir eru ekki bara bolti og ef þú ert hip og cool þá er þetta eitthvað fyrir þig.

http://www.natasha.is

 


ATORKA - Línudans með Óla Geir í Mosó

Oli&aparnir

Line dance

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nú verður hægt að hefja snemma undirbúning undir árshátíð hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ. Ljóst er að við getum fengið samkvæmisdansakennarann og aðalkennara landsins í línudansi til að koma á mánudagskvöldum og halda uppi góðum anda og hópstemmingu. Óli Geir kenndi lengi samkvæmisdansa, en hefur að mestu helgað sig því að kenna og semja línudansa síðustu misserin. Hann hefur farið víða um heim að kenna línudans og líka í reisur með íslenska línudansara. Kennt verður í Íþróttamiðstöðinni að Varmá.

http://www.youtube.com/watch?v=Jd3PkInmVQw


ATORKA - Tangó í Mosfellsbæ með Hany og Bryndísi

bry&ha1Síðustu ár hafa margir fengið að njóta sýninga og kennslu Hany Hadaya og Bryndísar Halldórsdóttur. Þau hafa verið frumkvöðlar og forystufólk í að innleiða áhuga á tangó á Íslandi. Nú munu Mosfellingar geta notið hæfileika þeirra, tvær helgar í september, helgarnar 15-16. og 22-23. september í Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Kennsalan er í tvo klukkutíma hvern dag. Í framhaldi er boðið upp á reglulega vikulegan tangódans með leiðsögn í vetur. Það er áhugavert tækifæri að innstilla sig á Argentínska ástríðu í gegnum íslenskan vetrargadd.

 

http://www.youtube.com/watch?v=mFMt0gJUwes


ATORKA - Formlegt ballettnám hefst í Mosfellsbæ í haust

Ballett4Það sem komst á hreint í dag varðandi vetrarstarfið er að boðið verður upp á kennslu í ballett fyrir yngstu hópana í Íþróttahúsinu að Varmá. Ekki er vitað til að það hafi áður verið í boði. Kennt verður í tveimur aldurshópum og fleiri hópum ef það næst fjöldi. Kennsla verður á þriðjudögum og fimmtudögum. Hópur á aldri 6-8 ára verður klukkan þrjú og hópur á aldrinum 4-6 ára verður klukkan fjögur.

Aðalkennari verður hin rússneska Kataryna Pavlova sem byrjaði kornung í ballettnámi og var farin að taka þátt í formlegum sýningum og danshópum 12 ára. Utan Úkraínu og Rússlands, hefur hún dansað í fleiri löndum, meðal annars um árabil í Þýskalandi. Frá því árið 2000 hefur hún verið að kenna hér á landi, á Ísafirði, Akranesi og við listdansskóla í Reykjavík.

Aðstoðarkennari verður iðnaðar- og vélaverkfræðineminn María Lovísa Ámundadóttir sem hefur stundað ballett til fjölda ára og lokið prófi frá Listdansskóla Íslands í klassískum ballett. Hún hefur einnig kennt jassballett og dansar nú mað Stúdentadansflokknum.

Kenndur verður grunnur í klassískum dansi en jafnframt kynntur nútímadans. Einstakt tækifæri að taka þátt í að byggja upp ballettnám í okkar ört vaxandi bæjarfélagi, sem ætlar að vera iðandi af menningu. 

http://www.youtube.com/watch?v=tTFZoSuCm-o


ATORKA - Meistari magadansins í Mosfellsbæ

3-josy-limeG

Sífellt fleiri liðir eru að verða ljósir í vetrarstarfi ATORKU -Mannræktar og útivistar". Ákveðið er að magadans verði í Íþróttamiðstöðinni að Varmá á fimmtudagskvöldum klukkan átta. Það er okkur heiður að fá Josy Zareen sem kennara en hún hefur rekið Magadanshúsið undanfarin ár. Tilvalið að setja þetta inn í stundatöflu vetrarins. Orkugefandi æfingar sem gefa mikla ánægju og styrkja miðju líkamans, ásamt því að fara í sund og potta í leiðinni.

http://www.youtube.com/watch?v=npRi4FCudGI

 


ATORKA - Zumba þolfimi í íþróttamiðstöðinni að Varmá

ATORKA; Mannrækt & útivist eflist með hverju misseri. Nú eru línur að skýrast með hitt og þetta í námskeiðum vetrarins. Mig langar að kynna sérstaklega nýjung í líkamsrækt sem að hefur farið sigurför um heimin síðustu ár, en það er Zumba. Um er að ræða brennsluleikfimi undi suður-amerískum takti. Gefur kraft og gleði, ásamt því að vera hjartastyrkjandi og bætandi fyrir efnaskipti og þyngdarstjórnun. Zumba tímar verða á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 17:30 í Íþróttamiðstöðinni að Varmá, Mosfellsbæ. Edna Mastache frá Mexíkó er nýkomin úr suðrænni sól og mun kenna landanum að styrkja sig á sál og líkama. Hún hefur verið vinsæll þolfimi og salsa kennari hér á landi í níu ár. Hægt er að kaupa þriggja mánaða kort, einn mánuð eða staka tíma. Innifalið í verði er aðgangur að sundlaug og pottum eftir hvern tíma. Frábært tækifæri.

ZUMBA

http://www.youtube.com/v/KlMtpC_K5Ow


"Lagnavegur" - Lesið Reykjavíkurbréf Moggans í dag

Það er ánægjulegt að skynja þann sterka samhljóm sem að er með áherslum Varmársamtakanna og viðhorfum ritstjórnar Morgunblaðsins eins og þau birtast í reykjavíkurbréfinu í dag. Áherslur okkar á umhverfi sem að bíður upp á öflug tengsl við náttúruna og að þróa byggð í sátt við íbúana er framtíðin. Efna til kosninga um valkosti ef ekki næst málamiðlun. Þannig hefði verið skynsamlegasta leið Mosfellsbæjar að láta kjósa um staðsetningu fyrirhugaðra tengibrauta.

BorgMorgunblaðið fjallar um hvernig nýjum hugmyndum er mætt af hörku eða af sveigjanleika. Þar er gerður samanburður milli þess hvernig bæjaryfirvöld hafa tekið á sambærilegum málum. "Deilur um skipulagsmál munu halda áfram að blossa upp á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórarnir í Kópavogi og Hafnarfirði og áður á Seltjarnarnesi hafa brugðizt við þeim á skynsamlegri hátt en bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ" segir í Reykjavíkurbréfi dagsins.

Áfram heldur Mogginn; "Hinn almenni borgari á kröfu á því, að umræður um þessi mál fari fram á málefnalegan hátt og að rétt orð séu notuð um það, sem verið er að gera. Þess vegna er skynsamlegra fyrir þá, sem ráða ferðinni hjá Mosfellsbæ að segja að þeir hafi lagt vinnuveg til þess að greiða fyrir umferð til og frá byggingarsvæði en að vegur sem blasir við allra augum sé "lagnaframkvæmd"!. Það er ágætt að vera fyndinn en gamanið getur stundum orðið grátt".

Samkvæmt þessum samhljóm og úttekt virðist nú ekki vera ástæða til að gefa út neitt dánarvottorð á Varmársamtökin, áherslur þeirra eða stjórn. Þessi skrif blaðsins eru ekki vegna þess að ritstjórinn sé genginn í Samfylkinguna eða að honum sé illa við Vinstri græna. Á þannig plani hafa sumir viljað halda umræðunni á, hér í okkar ágæta bæ. Þetta er einfaldlega kall samtímans og áherslur framtíðar. Kjörnir fulltrúar þurfa að hafa getu, hæfileika og vilja til að vinna með fólki og íbúum í skipulagsmálum, en ekki að standa í þeirri trú að þeir séu kjörnir til að vinna fyrir sjálfa sig eða hagsmuni fjármagnsins.


"Um Varmársamtökin" - Ritverk Bjarka Bjarnasonar

Í Mosfellingi sem borin var í hús hér í bænum síðdegis er grein eftir sagnaritarann Bjarka Bjarnason að Hvirfli í Mosfellsdal. Hann byrjar greinina á að setja sig í stöðu sagnfræðings og fræðimanns sem ætli að gera úttekt á því sem liðið er af sögu Varmársamtakanna. Strax í fyrstu setningu er villa, þar sem að hann segir að Varmársamtökin séu senn að ljúka sínu "fyrsta starfsári". Hið rétta er að samtökin eru á sínu öðru starfsári. Greinin í heild stingur í stúf við þann vandaða tón úttektar sem gefin er í byrjun og helstu boðorð vandaðrar fræðimennsku, eins og hlutlausa meðhöndlun og úrvinnslu fyrirliggjandi heimilda. Að lokum sér maður hið einfalda samhengi flokks- og þrætupólitíkur.

bjarkiBjarki Bjarnason virðist tilheyra þeim hópi vinstri grænna sem ekki treystir sér í opna umræðu um skipulagsmál, en kýs frekar að eyða púðri í mína persónu, dóma og dylgjur um menn og málefni. Markmiðið er að dreifa athyglinni frá lykilatriðum máls, eins og til dæmis þeirri staðreynd að það er búið að leggja tengibraut um Álafosskvos að Helgafellshverfi, án deiliskipulags. Honum og fleirum sem hafa farið fram með slíkum skrifum er vorkunn. Því að í raun er þetta ekki annað en sjálfseyðingarhvöt. Að ráðast að samtökum og fólki sem stendur vaktina í umhverfis- og skipulagsmálum, þar sem vinstri grænir álíta sig í orði kveðnu vera hinu einu réttu fulltrúa. En í reynd hafa þeir málefnalega verið fastir í feni, umvafðir bulli og bloggdólgum.

Ekki átti ég von á þessu útspili frá Bjarka og er satt að segja fyrir vonbrigðum, þar sem að hann margendurtekur mitt nafn, tekur tilvitnanir og lýsingar úr samhengi. Það er auðvelt að sitja til hlés í umræðunni og koma svo fram sem dómari undir neikvæðum formerkjum. Vissulega hafa Varmársamtökin og einstaklingar í stjórn þeirra gert einhver mistök, en í heildina höfum við líka náð miklum árangri og komið mörgu í verk. Meginmarkmið samtakanna eru tvö, að vinna að verndun annarsvegar til að tryggja menningarminjum og útivist verðugan sess. Hinsvegar að tryggja aðkomu almennings að skipulagsmálum og efla veg íbúalýðræðis. Nú, skora ég á Bjarka og aðra af sama sauðahúsi að skrifa um sína framtíðarsýn og hugsjónir í þessum málaflokkum í stað þess að næra sál sína á því sem að þeir segja að aðrir séu að gera vitlaust.  

Tek undir þær óskir Bjarka að það finnist hið hæfasta fólk í stjórn samtakanna, sem getur í framtíðinni unnið á enn markvissari hátt að verndun og íbúalýðræði. Þarft er að leita að slíku fólki. En ég tel að nú sitji í stjórn hæft og skapandi fólk, sem lag t hefur góðan grunn að öflugum samtökum íbúa. Síðan treysti ég á að allir bæjarbúar geti verið í góðum gír á bæjarhátíðinni um næstu helgi. Þar munu Varmársamtökin vera með útimarkað í kvosinni, sem tókst sérlega vel á síðasta ári. Það er engin ástæða til annars en leggja samtökunum og stjórninni til góðar óskir í starfi sínu.  Ég hitti á Ragnheiði bæjarstjóra nýlega á opnuninni upp í listasal og þar spöruðum við ekkert streymi á kossum og kærleika. Það þarf að vera mögulegt að ganga ósár frá velli þar sem tekist er á um málefni en ekki menn.


Suðurlandsvegur, here we come!

Þá er Verslunarmannahelgin liðin og styttist í að flestir skipti um gír. Sumarfríin að verða búin, leikskólar aftur byrjaðir og aðrir skólar að byrja innan skamms. Líkt og álftirnar sem í þúsundavís koma við í Lóninu á vorin, þá mæti ég austur snemmsumars og fer í átt til höfuðborgarinnar þegar fer að halla að hausti. Það voru færri en oft áður sem fylgdu mér um fjöll Stafafells þetta sumarið. En það miðaði eitthvað áfram skálabyggingu í Eskifelli og mun ég fara um helgar fram eftir haustinu til að ljúka sem mestu fyrir veturinn.

Það eru spennandi dagar fram undan að setja upp fjölbreytilegt dans- og jógaprógram í Mosfellsbæ fyrir veturinn. Síðan ætla ég um miðjan september að taka þátt í VestNorden ferðakaupstefnunni sem haldin er í Færeyjum að þessu sinni. Þar ætla ég að kynna STAFAFELL; Útivistar- og verndarsvæði (Park of recreation and conservation). Nú er komið að því að sigra lönd og sannfæra erlenda gönguhópa jafnt og íslenska að fara um þetta undraland.

VegtunglKeyrði úr austrinu á sunnudeginum um Verslunarmannahelgi, með þrjá 14 ára gaura í bílnum, son frænda hans og vin. Lagt var af stað að austan upp úr klukkan átta að kvöldi inn í 500 km túr inn í nóttina. Hafði smá áhyggjur af því að ég yrði framlár við stýrið yfir svarta sanda, með endalausar gular stikur, malbik og hvítar línur fyrir augum. Það var ástæðulaus ótti, þökk sé Rás 2, Stuðmönnum og Árna Johnsen. Sérlega vel heppnað kvöld hjá okkur þó vangadansar og tjaldævintýri verði að bíða unglingana til næsta eða þar næsta árs.

Það var vel tekið undir í Taktu til við að tvista og öðrum klassískum númerum, Laddi og Shadi Owens voru líka frábær. Púkinn í Húsdýragarðinum hélt manni svo sannarlega ferskum. Eftir fréttir, veður og einhverja slíka róandi fasta liði í kvölddagskránni var svissað út til Vestmanneyja. Þar tók Árni Johnsen við í brekkusöngnum. Þvílíkur snillingur. Söng þarna einhver hátt í sextíu lög þindarlaust án þess að stoppa.

Við mættum í Mosfellsbæ um klukkan tvö um nóttina, búnir að vera undir bláum himni, algjörri stillu og tunglskini. En þessi líka kraftur og fjör í útvarpinu, sem smitaði út frá sér. Við vorum milli Víkur og Hvolsvallar þegar brekkusöngnum lauk nákvæmlega á miðnætti og sáum tilsýndar flugeldana skjótast á loft yfir Vestmannaeyjum. Síðan kom ró í smástund með fréttum og veðri í boði Ríkisútvarpsins. En svona til að tryggja að ferðin væri tekin með trukki alla leið, þá gaf sig aðalkúturinn í pústinu á Selfossi. Ekið var inn Reykjaveg frá Hafravatni eins og verið væri á einhverju kraftmeira en tólum frá Harley og Kawasaki samanlögðum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband