Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Um 70% hlynnt persónukjöri

Það er ótækt að láta Sjálfstæðisflokk stöðva möguleika á persónukjöri við komandi kosningar. Þörf er að halda hinum flokkunum við efnið. Nú er stór hluti þingmanna sannfærður um að prófkjörin séu búin að skila þeim í örugg skjól. Það er því lítill hvati fyrir þá að tryggja kröfunni um persónukjör framgang inn á Alþingi. Því er nauðsynlegt að kjósendur sýni áfram vilja sinn í þessu máli. 

Hér til hliðar er búin að vera skoðanakönnun í tvær vikur og sýnir hún að 70% prósent þátttakenda eru hlynntir persónukjöri við þingkosningar 2009.


Ein 16" pizza á 6000 kr

Pizza_hutFór með frænku minni eftir landsfund á Pizza Hut í Smáralindinni. Verð að viðurkenna að það jaðraði við að ég þyrfti áfallahjálp þegar ég sá reikninginn. Hafði búist við að ein flatbaka með kóladrykk fengist fyrir um þrjú þúsund krónur en þá var heildarverðið rúmar sex þúsund.

Þegar ég spurði piltinn á kassanum hvort að þetta væri rétt þá sagði hann brosmildur að þeir væru dýrastir á markaðnum, ef það er borðað á staðnum, en til að vera samkeppnishæfir þá væri álíka verð og hjá öðrum pizzastöðum eða um tvö þúsund krónur þegar að hún er send eða tekin.

Samkvæmt þessu hefði ég getað fengið sömu pizzuna fjögur þúsund krónum ódýrari ef ég hefði borðað hana við bekk eða borð á opna svæðinu í Smáralind utan veitingastaðarins. Ma... ma.. maður áttar sig ekki alveg á þessu ...!!


Til lukku með kjörið Dagur!

Það var sérlega góður andi á landsfundi þegar úrslit höfðu ráðist í varaformannskjöri og forsætisráðherra hafði tekið við formennsku. Jóhanna var kröftug og sýndi skemmtilega takta þar sem hún blés á væntingar andstæðinga um að hún væri puntudúkka í formannsstóli.

Það var auðvelt að vera Þjóðvakamaður með stolti og síðan hafði ég lýst yfir stuðningi við Dag í varaformannsslagnum. Held að hann eigi eftir að vera öflugur fyrir innra starf flokksins. Ásamt því að tengja saman landsmálin og sveitarstjórnarstigið.


mbl.is Tengir ríki og sveitastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræddir íhaldsmenn

Eftir hrun frjálshyggju, peningahyggju og óheftrar markaðshyggju er Sjálfstæðisflokkurinn í alvarlegri tilvistarkreppu. Þó að hann viti ekki hvert hann stefnir að þá er það jákvætt að sífellt fleiri innanbúðar viðurkenna mistökin. En fráfarandi formaður taldi einungis þörf á að biðja flokkinn afsökunar. Eina sem eftir stendur er íhaldsstefna eða andstaða við breytingar.

Endurreisnarskýrslan er harðorð í garð flokksstarfsins. Ein leið, eins og framkvæmdastjórinn kynnir, er að láta svo að flokkurinn sé opinn og lýðræðislegur. Allir geti haft áhrif á störf og stefnu. Andstaða við persónukjör og stjórnlagaþing bendir þó einmitt til að helsta innanmein hans sé einmitt óttinn við lýðræðið.

Frá því fyrir áramót var blásið í herlúðra um mikla vinnu í Evrópumálum. Nú hefur komið í ljós að út úr allri þeirri vinnu kom minna en ekki neitt. Óbreytt stefna. Tek undir með Ragnhildi Helgadóttur fyrrum ráðherra og frænku minni af Lundaætt að ótti flokksins við aðildarviðræður er óskiljanlegur. Það er ónothæfur flokkur sem ekki getur tekið afstöðu í jafn mikilvægu máli.


mbl.is „Þurfum að opna flokkinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróðurinn byggir allt sitt á dagsbirtunni


Mannaval og málefni

Samfylkingin var stofnuð af flokkum frekar en fólki. Það er galli, því hættan er á að andagift og innblástur sem verður til í hjörtum einstaklinga lendi utangarðs. Til að fullkomna sköpunarverkið þarf því að efla grasrótarstarf. Efla virkni í hinum ýmsu sellum þar sem allt er til skoðunar, lífsins gildi, æskilegar umbætur og nauðsynlegar breytingar. Í fremstu sveit veljist fólk með meiningar, ástríðu og köllun, sem kann að hlusta og taka tillit.

Formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi hringdi í mig "með þann kaleik" í gærkvöldi að tilkynna mér að ég yrði ekki á lista flokksins fyrir næstu kosningar. Eftir á að hyggja var þetta örlítið eins og það væri verið að hafna mér og mínu. En ég veit að ég stóðst vel samanburð á fundum í prófkjörinu, var málefnalegur og prúðmannlegur í framgöngu. Ég veit líka að ég hef verið virkari en margur í varðstöðu og málefnalegri umræðu fyrir flokkinn á síðustu árum.

Auðvitað er ánægjulegt að þegar valið er í liðsveit að þá sé mikið mannaval. En samt finnst mér það óþægilegt að vita ekki hvaða viðmið eru notuð þegar einstaklingar eru valdir. Veit að í boltaíþróttum er það færni með knöttinn, í söngvakeppni velja dómarar þann sem að sýnir mesta hæfileikana. En í pólitík ætti það að vera hæfileikinn til að vera hugmyndaríkur og skapandi, ásamt því að hafa breidd í karakter, reynslu og menntun.

Persónulega finnst mér ekki slæmt að vera á varamannabekknum með Benedikt Sigurðssyni á Akureyri og Jóni Baldvin Hannibalssyni. Það er lífleg og frjó umræða í því partýi. Þegar ég hugsa til þeirra þá hvarflar að manni sú hugsun að þeim sé refsað sem að ekki fylgja flokkslínu, tengslaneti og staðalmynd. Það má aldrei gleymast að breytileiki viðhorfa er styrkur lýðræðislegs flokks en ekki veikleiki. Ég ætla að hafa áfram trú á minni rödd í slíkum kór.

Hlakka til að fara á landsfund og ég treysti á að Dagur B. Eggertsson komi með vel kryddaða sýn til framtíðar. 


Mismunun eigna - ........focking fock

Trygging íslenska ríkisins á sparifjáreign gekk út á 3 milljónir á hvern reikning í bönkunum sem rúlluðu. Síðan var það ákvörðun ríkisins að verja 600 milljörðum í að bæta íslenskum sparifjáreigendum allt tapið. Þannig að í raun leggjast þessar bætur ríkisins á almenning sem skattur. Af sparifé hefur fólk líka fjármagnstekjur en þær eru bara skattlagðar um 10% á meðan að tekjuskattur er fjórfalt hærri eða rúm 38%. Því verð ég sem vinnuhestur án sparifjár að borga fjórfalt meira í þessa endurheimt sparifjár heldur en sá sem fær tekjur af því að eiga það.

Miðað við breytingar á neysluvísitölu frá 1. apríl í fyrra þá hefur verðbólga verið síðasta árið um 18%. Því þarf sá sem að tók verðtryggt lán upp á 14 milljónir nú að borga af láni sem að er 2,5 milljónum hærra. Vinnuhestur eins og ég hefði þurft að bæta við aukalega vegna verðtryggingar um 208 þúsund á mánuði til að eignahlutinn héldi sér. Mér sem að hefur alltaf verið sagt að peningi sem að væri eytt í húsnæði væri vel varið. Síðan er slík eign ekki betur tryggð en svo að hækkun á kaffi í Brasilíu getur ásamt öðru étið hana upp á stuttum tíma.

Það sem að mér finnst þó allra merkilegast að ríkisstjórn sem kennir sig við félagslegt réttlæti sé ónæm á vandamálið, eignaupptöku verðtryggingar.


En hvað með Evrópu?

Þetta er skynsamleg nálgun hjá VG að lýsa yfir vilja til áframhaldandi stjórnarsamstarfs undir félagslegum merkjum og þar með útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk. Eftir stendur að VG þarf að lýsa yfir vilja til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Augljóst er að eftir kosningar verður meirihluti á þingi úr röðum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fyrir því að leita eftir samningi sem borinn verður undir þjóðaratkvæði. Þetta mál má ekki leiða til mögulegs samstarfs Samfylkingar við íhaldið líkt og spilin lögðust árið 1991.


mbl.is VG bundin - á móti Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum mest og best?

Ákvörðun Einars K Guðfinnssonar um hvalveiðar verður vonandi sú síðasta sem stjórnvöld taka út á þjóðrembinginn einan. Það er með ólíkindum að ógna hagsmunum okkar í fiskútflutningi og ferðaþjónustu á þessum forsendum. Þar að auki eru miklar blikur á lofti um sölu á halaafurðum, vegna uppsöfnunar þrávirkra efna í lífríkinu.

Við getum ekki látið eins og að við viljum spila einleik í veröldinni. Fyrst töpum við tiltrú á alþjóðavettvangi vegna græðgivæðingar í boði Sjálfstæðisflokksins og nú töpum við mörkuðum vegna þjóðrembings í boði Sjálfstæðisflokksins. Í sumum málum þarf að stilla strengi með alþjóðlegum viðhorfum. Við getum reynt að hafa áhrif á þau, en við getum ekki keyrt yfir þau með einföldum pennastrikum ráðherra.


mbl.is Hætta að kynna íslenskar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Guð íhald?

Fyrir nokkuð mörgum árum hringdi ég í Sigurð Sigurðarson vígslubiskup í Skálholti til að kvarta undan auglýsingu. Þá hafði endurtekið birst mynd af honum og Davíð Oddssyni undir fyrirsögninni "Flokksstarf". Þar sem tiltekið var að biskupinn myndi sjá um fræðslu og heimsókn hópsins í Skálholt. Ég sagði honum að þessi uppstilling þar sem að hann birtist sem virkur aðili í flokksstarfi væri óásættanlegt fyrir þá sem að tilheyrðu kirkjunni en ekki Flokknum.

Fyrstu árin mín hér í Mosfellsbæ skrifaði séra Jón Þorsteinsson ávallt hugvekju fyrir Jólin í blað sjálfstæðismanna. Þar kom einnig fram það helsta varðandi messur og hátíðahald kirkjunnar. Ég hringdi í klerk og lýsti þeirri skoðun minni að þessi dreifing á fagnaðarerindinu og fréttir af safnaðarstarfi ættu ekki að fara fram undir merkjum ránfuglsins. Það væri ekki viðeigandi og ekki í anda jafnræðis. Eðlilegra væri að söfnuðurinn gæfi út eigið fréttabréf sem varð svo raunin.

Nú var að koma inn um lúguna nýr Mosfellingur. Í honum er grein sem nefnist; "Búið um blómlegt starf í þágu menningar og samfélags". Höfundar greinarinnar eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Hilmar Sigurðsson formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar. Þar rökstyðja þeir að kirkjan, safnaðarheimili og menningarhús eigi að vera undir sama hatti, sem samtengd eining. Ég efast um að þetta sé æskilegt að rugla saman með slíkum hætti menningarstarfi og trúarlífi.

Kristín Pálsdóttir hefur skrifað góða greinum þetta mál. Hún lýsir þessu sambandi; "Annar, kirkjan, er íhaldsamur og valdamikill aðili sem hefur vel skilgreindar þarfir og öfluga málsvara. Hinn, menningin, er frjálslynd, djörf og ögrandi. Hún virðist ekki eiga málsvara í þessu máli og augljóst að hennar þarfir hafa ekki verið skilgreindar á við makann". Hér er sterk rödd sem á rétt á sér og þarf að fá fulla athygli.

Kristið trúarstarf verður að vera borið uppi af þeim sem það stunda. Það verður að vera af þörf og ástríðu. Ríkið skapar Þjóðkirkjunni nú sterkari stöðu en öðrum trúfélögum. Slíkt er umdeilanlegt og telja má víst að á næstu árum muni krafan um aðskilnað ríkis og kirkju koma fram af auknum þunga. Bæjarfélag getur ekki tekið á sig vanda kirkjunnar að fjármagna byggingu safnaðarheimilis með þessum hætti.

Það er sannfæring mín að kirkjan eigi að vera stakstæð bygging helst þar sem að Bæjarleikhúsið stendur núna. Þannig að hún fái frið frá helsta skarkala miðbæjarlífsins, en sé samt á fögrum stað í miðbænum. Það er nóg að byggja turninn fyrst eins og algengt er við kirkjubyggingar. Í framhaldi kæmi kirkjuskipið og hugsanlega safnaðarheimili. Menningarhúsið væri stakstætt hús sem væri hugsanlega í nánum tengslum við framhaldsskólann.

Guð er ekki íhald, hann er róttækur boðberi réttlætis, siðferðilegra gilda og kærleika. Jesú Kristur var á sínum tíma helsta ögrun við valdakerfi og embættismenn. Þeir þorðu ekki að horfast í augu við eigin breyskleika og hans ágengu spurningar. Gefum trúnni líf þannig að hún geti staðið á eigin forsendum. Það eru gömul sannindi og ný að sumir vilja að "kristilegu kærleiksblómin spretti í kringum hitt og þetta". Það er þó enginn meiri umboðsmaður Guðs en annar.

Nauðsynlegt er að kirkjan og bærinn opni þetta mál og leyfi fólkinu að velja því farveg. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband