Kaffi og karlmennska

Karlmennska

Í samskiptum er oft gert ráð fyrir að allir séu eins. "Má bjóða þér kaffi". "Ja, júúuu eeen áttu nokkuð te". Þannig hefur maður æði oft þurft að beygja sig og bugta gagnvart hinni miklu hefð að kaffið sé tákn gestrisninnar. Það er því ekki góð byrjun, þegar gestgjafi ætlar að veita höfðinglega að vera þá með sérvisku og sérþarfir. Satt best að segja hef ég oft pínt í mig þetta eiturlyf af tómri kurteisi. Annað sem maður hefur lengi látið yfir sig ganga er þetta endalausa tal um fótbolta. Það virðist vera hornsteinn karlakúltúrsins. Man eftir því einn laugardag er Bjarni Fel var með getraunaþátt að þá var einhver "tippari" vestan af fjörðum sem hringdi inn og hann var harður og mikill aðdáandi Arsenal. Þá hafði nýlega hætt einn besti leikmaður liðsins. Bjarni spyr hann snöggt og alvöruþrunginn hvernig honum  hafi orðið við að heyra þessi tíðindi. Vestfirðingurinn svaraði að bragði; "Þetta var auðvitað mikið áfall!". Hann var svo djúpt hrærður og var ekki samur eftir þessi ósköp. Þetta var trúlega stærsta raketta tilfinningalífsins það árið. 

Hef æði oft þurft að sitja með mitt te og hlusta á karlana ræða boltann. Finnst gaman að spila fótbolta og hef gert töluvert af því í gegnum árin. En mér finnst fótboltaleikur lélegt sjónvarpsefni, sem endar iðulega með jafntefli og ekkert hefur gerst. En þó er fótbolti enn síðra umræðuefni.  Vinnufélagarnir eru núna á leiðinni til London á fótboltaleik í næsta mánuði. Þeirra ástaratlot þessa dagana eru því einkum að vera sem spertastir og æsa hvern annan í ferðagírinn. Hvar séu nú góðir pöbbar og svo framvegis. Ég var í London fyrir rúmum mánuði og fann þá tvo góða salsa staði. Salsa Fusion og Salsa Club. Ég stakk upp á því við hina ferðaglöðu karla hvort að ég ætti ekki bara að koma með og þessu yrði breytt í svona latin stemmingu og æfðir salsataktar. Engar undirtektir. Engar!!!  

Það kemur fyrir að ég reyni að taka þátt líkt og var áður með kaffið. Ég pantaði sem barn fótboltabúning frá sportvöruverslun Ingólfs Óskarssonar. Þeir sendu Stoke búning. Síðan sagði ég alltaf að ég héldi með Stoke. Saman fór ég með þessu liði niður í dal volæðis og tára. Uppskar litla aðdáun út á þessa hollustu.   En svo eignuðust Íslendingar liðið og þá gat ég sagt eins og spertur hani; "Ég held með Stoke!" Síðan veit ég ekki hvort það er ennþá í lagi að halda með Stoke? Þetta virðist ekki lengur vera eitt af óskabörnum þjóðarinnar eða ein af stjörnum í útrásinni. Þegar rætt er um íslenskan bolta eins og oft gerist á sumrin, þá sit ég og hlusta. En spyr e.t.v. svona bara til að taka þátt; "Vitið þið hvernig Sindra gengur". Ég man nefnilega að liðið heitir það á mínum slóðum í Austrinu. En slíkt opnar sjaldan á frjóar umræður.

Af þessu má sjá að það er ekki alltaf auðvelt að passa inn í hópinn. Satt best að segja óttast ég að vera einhvern tíma staddur í spjallþætti og þurfa að tjá mig um fótbolta. Hvaða lið ég telji að verði Íslandsmeistari og síðan er ætlast til að ég rökstyðji þann spádóm í löngu máli. Það virðist vera mikil samstaða fjölmiðlamanna um að allir eigi að hafa skoðanir og meiningar um einstök lið og leikmenn. En líkt og ákveðniþjálfunin mín hefur gert mér kleift að segja nei við kaffi, þá held ég haldi bara áfram að lifa samkvæmt mínu áhugasviði. Alltaf til í að ræða málin, en ef til vill í stað fótbolta kæmi rope yoga, zumba þolfimi, öndun og fleiri leiðir til að efla vellíðan og gott flæði. Það á líka erindi í karlakúltúrinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Fótbolti er dapurt sjónvarpsefni og golf líka. En gott kaffi það er sko gott.

Hólmdís Hjartardóttir, 15.1.2008 kl. 01:24

2 identicon

hm, do you want coffie, tea or me :)

þekkir mig ekki (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 09:42

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þú átt alla mína samúð. Þoli ekki staðalímyndir. Mér finnst t.d. ekki í mínum verkahring að ryksuga pirruð þegar eiginmaðurinn (ef hann væri til) horfir á fótboltann ... en þannig er myndin sett upp af laugardagssamskiptum hjóna. Mér finnst leiðinlegt að tala um barnauppeldri og mataruppskriftir, horfa á Opruh og dr. Phil, eins og konum á að finnast svo skemmtilegt. Stend 100% með þér ... þótt þér þyki fótbolti leiðinlegur ertu ekkert minni karlmaður fyrir vikið.

Guðríður Haraldsdóttir, 15.1.2008 kl. 12:54

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Go Gulli! Bara harður í að tala um salsa, zumba og öndun.

Mér líst vel á þig

Hrönn Sigurðardóttir, 15.1.2008 kl. 14:03

5 Smámynd: Óskar

Ég er sportfýkill og tek þá alla línuna, ég drekk kaffi og te, jafnvel grænt te, horfi á fótbolta, handbolta og Dr Phil. Ég hef gaman að því að sitja á pöbbnum og horfa á boltann með kaffi, ja eða bjór í hönd. Staðalímynd er orðið notað til að fordæma áhugamál manna. Hef aldrei lent í því að konan mín reyni að standa í vegi fyrir mínum áhugamálum, né fordæma þau, frekar en ég hennar.

Ef að þörf þín fyrir að falla inn í hópinn er svona sterk þá er það að sjálfsögðu ekki gott. Ef að þú hefur ekki bein í nefinu til að segja að þú drekkir ekki kaffi þá er það ekki af því að boðið um kaffi sé svona slæmt heldur er það hreinlega þitt vandamál að það fari í taugarnar á þér.

Ég bara skil ekki af hverju fótboltaáhugi manna pirrar svona marga. Ekki dytti mér í hug að fara að agnúast út í áhugamál þín né annara.

Ef að menn vilja ekki að konan sé að ryksuga á meðan boltinn er þá er væntanlega gott ráð að gera það bara sjálfur áður en leikurinn byrjar  enda tel ég það ekki algengt að þrif séu eingöngu í verkahring kvenna í dag. Að minnsta kosti er það ekki þannig á mínu heimili.

ps. Gengi Sindra hefur ekki verið neitt sérstakt undanfarin ár. 

Óskar, 15.1.2008 kl. 14:23

6 identicon

Jæja Gunnlaugur, það er svona að vera öðruvísi.
Þú fylgist kanski með krullu-liði Akureyringa? Eða íshokkí-deildinni?
Og hvort ertu meira fyrir svart te eða grænt te, með eða án aukalegs bragðs etc.?
Með bestu kveðjum, Gyða.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 14:37

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Óskar, hljómaði ég pirraður? Finnst bara til of mikils mælst að allir eigi alltaf að vita allt um fótbolta. Þetta er svona einhæf umræða, sem mér finnst frekt að ætlast til af fólki að það sé þáttakendur í hér og þar og alls staðar. Það er svo margt spennandi í henni veröld - livet er ikke det verste mand har - því er mitt innlegg ætlað til þess að benda á gildi fjölbreytileikans. Að við hlustum eftir tón hvers og eins en gerum ekki ráð fyrir að alir séu á sömu bókina eð knöttinn gerðir. Fólk er mismunandi og með mismunandi áhugamál. En það er leitt að heyra þetta með Sindra, hef taugar til þeirra ... Góðar kveðjur á alla, konur og karla.

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.1.2008 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband