Aldingarður

Fór á hlöðuball í Laxnesi í gærkvöldi. Feikifjör og mikið dansað. Ingólfur Kristjánsson læknir á Reykjalundi hefur skipulagt þetta í nokkur ár. Hann er þar með eigin hljómsveit sem spilar undir balli eftir að mannskapurinn hefur fengið sér súpu. Riðið var fram og til baka á skemmtunina. Það var engu líkt að fara á þeysireið í myrkri undir stjörnubjörtum himni í nótt. Bætti svo um betur og reið í dag á móti Fáksmönnum sem komu í kaffihlaðborð í Mosfellsbæ. Ljómi minn stóð sig vel.

Á fögrum vordegi eins og í dag þá vaknar löngunin að hefjast handa í garðinum. Hér á Reykjaveginum er mikið verk að vinna. Verðlaunagarður bæjarins frá 1989. Mikið af tegundum sem gaman er að læra meira um. Það er gefandi að hafa slíkan garð í góðri umhirðu, en honum hafði ekki verið nægjanlega sinnt um árabil. Þessir tugir tegunda minna á hverjum degi á fjölbreytileika lífsins. Líffræðilegur breytileiki er stærsta gjöf skaparans og ábyrgð mannsins er mikil að ganga ekki þannig fram að honum sé ógnað.

Þessi garður hefur vakið hjá mér áhuga á berjarækt. Við fluttum inn síðsumars fyrir tveimur árum og þá var mikið af stikilsberjum. Mér fannst þá strax yndisauki að fá mér nokkur ber þegar á leið í vinnu að morgni dags eða að koma heim að kvöldi. Berjategundirnar eru nokkrar í garðinum og langar mig að fjölga þeim. Spennandi að eiga mismunandi sultutegundir og jafnvel vín þegar hausta tekur. Kirsuberjatréð í garðinum blómstrar alltaf, en það gefur ekki af sér ber. Veit ekki hvort það er algilt hér á landi.

Síðan erum við með garðhús þar sem að eru rósir, eplatré og vínberjaplanta. Áætlað er að lagfæra það hús, þannig að það verði í senn gróðurhús og vinnustofa leirkerasmiðsins og málarans á heimilinu.

EpliXberStikilsberBrómberRifsberSólber

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Já mann klæjar í fingurna að fara að byrja

Hólmdís Hjartardóttir, 2.5.2008 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband