Að vera krati

Í roki og rigningu á krepputímum eru kjöraðstæður fyrir naflaskoðun, uppgjör og endurmat. Bjarni Harðarson þingmaður og Laugvetningur, vinur og félagi, skrifaði í sumar að ég væri "krati af guðs náð". Þó við fyrstu sýn gæti þetta verið hrós og ekki síst að benda á að slíkir séu guðlegir. En í uppsveitum Árnessýslu og Skaftafellssýslum austanverðum var það ekki hrós að teljast af því sauðahúsi. Því hef ég hann grunaðan um að hafa með húmor og öfugmælum verið að segja að skaparinn hafi þarna verið nískur á pólitískar innréttingar.

"Að vera í sambandi við annað fólk, það er lífsnauðsyn. Ég er félagshyggjumaður eins og hann afi minn." segir í Stuðmannabrag. Á mínu æskuheimili var öll fjölskyldan samstíga í trú á sauðkindina og Framsóknarflokkinn. "Nei, hún er frjálslyndur félagshyggjuflokkur eins og Framsóknarflokkurinn var" sagði Steingrímur Hermannsson spurður um Samfylkingu sonar hans og hvort uppeldið hafi mislukkast. Sennilega var Framsóknarflokkurinn á vissan hátt hið skynsamlega stef á síðustu öld, milli stefnu kommúnista um einn allsherjar ríkisbúskap og íhaldsins um að láta taumana í hendur kaupmanna og heildsala.

Vanskaplingar eða rýrir hrútar voru nefndir Gylfi (Gíslason) eða Jón Baldvin í sveitum lands. Bændur hossuðu sér af kátínu yfir gríninu. Jón sagði mér að hann hafi þó farið keikur á bændafundi og predikað um nauðsynlegar umbætur á landbúnaðarkerfinu. Blómlegri byggð gæti nú verið í sveitunum ef að stuðningur ríkisins hefði verið í formi búsetustyrkja frekar en framleiðslustyrkir á kjöti eða mjólk, sem að iðulega seldist ekki. Jón sagðist eitt sinn hafa verið á fundi í Skagafirðinum og eftir ræðu hans, þá komu bændahöfðingjarnir ævareiðir í pontu og formæltu "krataforingjanum", en þó var þar reiðust kona sem kom á eftir körlunum og talaði til bænda og sagði; "Hvurslags liðleskjur eruð þið, afhverju drekkið þið ekki manninum!".

Meðal frændþjóða okkar á Norðurlöndum og víðar um Evrópu hafa þróast þjóðfélög með hvað mestum lífsgæðum í veröldinni. Góð blanda af félagslegu öryggi og frelsi einstaklings til athafna. Hinn lýðræðislegi farvegur hefur skapað hina sósíaldemókratísku áherslur sem þriðju leiðina. Mótleik við kommúnisma og kapítalisma. Eftir hrun kommúnismans og Sovétríkjanna elfdist trú á frjálshyggju, markaðshyggu og efnishyggju. Þar gengu Íslendingar lengra og ákafar fram en aðrar þjóðir. Afleiðingar þess ójafnvægis, pólitískrar stefnu Hannesar Hólmsteins og Davíðs Oddssonar, munum við glíma við næstu áratugina.

ObamaÞað er ef til vill bara allt í lagi að vera krati, ef það merkir að vilja opnar og lýðræðislegar áherslur í pólitík. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum þá varð ég demókrati og mikill aðdáandi Bill Clinton forseta. Man að hann var svefnlaus í fimm daga við að vinna að samningum um frið á Norður - Írlandi, en svo kom George Bush með vanhugsaðan byssu- og bófaleik sem stórskaðað hefur ímynd Bandaríkjanna. Því binda margir vonir við kjör Barack Obama nú í dag. Það væri mikill sigur fyrir manngildi og nýjar áherslur í veröldinni.

 

Kröftugt krataknús þegar Obama hefur sigrað!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband