Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hvenær sem er, hvar sem er ... tímamótaverk!

Ein leið til að draga úr áhrifum af falli krónunnar og taugaspennu sem fer um landann þessa dagana er að gera eitthvað gjörsamlega tilgangslaust í rigningunni eins og að horfa á skopstælingu af lagi hinnar þokkafullu Kólumbísku Shakira, Whwnever, whereever.

Shakira Whenever, whereever


Nú árið er liðið

AfmæliFyrir ári síðan setti ég inn fyrstu bloggfærsluna "Stafafell á Víðidal allan". Upphaf þessarar iðju má rekja til blaðamanns á Mogga sem benti mér á að þessi "fjölmiðill" væri ein leið til að tjá sig um þjóðlendumál. En eins og gengur að þá hafa þær 200 færslur sem komnar eru fjallað um margvíslega hluti enda liggur áhugi minn á ýmsum sviðum. Þetta er búið að vera fjölbreytilegt og skemmtilegt ár. Merkileg reynsla að fylgjast með því hvernig þessi vettvangur hefur tekið þroska. Rúnnast af honum ókostir eins og ókurteisi eða ónot.

Áhugi á stjórnmálum er oft skammt undan, en langt frá því að ég sé fastur í slíku. Það er hinsvegar til íhugunar afhverju maður hefur áhuga á stjórnmálum. Nærtækasta skýringin er að ég vil lifa lífinu á virkan hátt og vera þátttakandi. Á mínu æskuheimili að Stafafelli í Lóni var mikið rætt um pólitík. Fram að fermingu var ég öfgasinnaður Framsóknarmaður. Minnist  þess að til steypuvinnu komu margir karlar úr sveitinni og reyndi ég allnokkuð á mig kornungur til að kristna Sjálfstæðismennina í hópnum. Alþýðubandalag og þó sérstaklega Alþýðuflokkur voru varla til í sveitum austanlands.

BjarniMikill stjórnmálaáhugi hefur verið hjá mörgum í móðurætt. En ættmenni afa og ömmu hafa verið áberandi á sitthvorum væng stjórnmálanna. Þannig er mamma þremenningur við Bjarna Benediktsson fyrrum forsætisráðherra öðrum megin og þremenningur við Hjörleif Guttormsson fyrrum iðnaðarráðherra hinum megin. Amma mín Ragnhildur var frá Lundum í Stafholtstungum bróðurdóttir Ragnhildar ættmóður Engeyjarættar. Afi var frá Stafafelli, en móðir hans frá Hallormsstað, en afkomendur systur hennar margir verið virkir á vinstri væng stjórnmálanna. Ólíkir menn en þó með áherslur á menntun og með rætur meðal embættismanna þjóðarinnar.

Hjörleifur og Bjarni tilheyrðu sitthvorum pól kaldastríðsátaka. Annar flokkaður af andstæðingum sínum sem austantjalds kommúnisti og hallur undir sovéska heimsmynd, en hinn verið flokkaður af andstæðingum sínum sem sá sem vélaði þjóðina án lýðræðislegrar ákvörðunar undir bandarískt herveldi. Einhver myndi kalla þá fulltrúa átakastjórnmála. Hjörleifur spurði mig eitt sinn um ætt ömmu minnar sem ég rakti og þá svarar hann sposkur og snaggaralegur; "Jááá, lítið þykir mér um þennan skyldleika!".

HjörleifurÁn þess að ég sé að líkja mér við þessa menn þá má það teljast skiljanlegt að staðsetja sig í stjórnmálaflokki með áherslur á svigrúm fyrir ólík sjónarmið, umræðustjórnmál og lýðræðislegar áherslur. Meðal annars að styðja samvinnu þjóða í Evrópu. En það er merkilegt að hugsa til þess að fulltrúar hinna hörðu kaldastríðsátaka standa nú sameinaðir í andstöðu gegn ESB undir merkjum Heimssýnar. Ég met og virði þennan fjölbreytileika í lífsviðhorfum og dugnað við að afla hinum ólíku skoðunum fylgis. Hjarta mitt hefur þó ætíð verið og slegið vinstra megin.


Vandinn úr vestri og leikur með krónu

EvraDollarEuroDollar1

Hagspekingar túlka niðursveiflu dagsins á gengi íslensku krónunnar sem afleiðingu af hræringum í bankamálum í Bandaríkjunum. Gengi bandaríkjadollars sígur enn gagnvart evru og í dag varð munurinn meiri en nokkru sinni fyrr en það kostar nú tæpan 1.6 dollar að kaupa 1 evru. Heimssýnarmenn spáðu hraklega fyrir framtíð og styrk evrunnar á sínum tíma, en hafa aldrei varað við dollaranum. Enn eitt dæmið um að andstæðingar evru og samvinnu við ESB eru ekki spámannlega vaxnir og sýna skekkta mynd af heiminum.

Margt bendir til að Íraksstríðið sé að hafa áhrif vestanhafs og svo virðist sem það sé okkur líka dýrkeypt. En hverjar eru ástæður jafn mikillar gengislækkunar og varð í dag? Morgunblaðið er með leiðara á laugardag undir fyrirsögninni "Hverjir hagnast?". Þar segir; "Gengislækkun undanfarinna daga sópar gífurlegum fjármunum frá almennum  borgurum til einhverra annarra - en til hverra?" Í sama streng tók Gylfi Arnbjörnsson í kvöld. Er sjö prósent gengisfelling krónu á einum degi að sýna okkur betur en allt annað hversu veikur gjaldmiðill hún er?

Íslensk fyrirtæki með umsvif erlendis velta margföldum fjárlögum íslenska ríkisins. Ef það er hagur einstakra aðila sem eru hlutfallslega stórir að selja mikið af krónum þá getur fylgt því það mikill öldugangur að óásættanlegt sé fyrir heimilin og fyrirtæki að búa við slík skilyrði. Bent hefur verið á að tvær meginstoðir íslensks efnahagslífs útflutningur á fiski og áli gefi af sér óvenju háar tekjur vegna hárra verða á mörkuðum. Því er hér að mestu leyti ójafnvægi í gjaldmiðli sem einungis þjónar 300 þúsund manns og er auðvelt að spila með í hringiðu alþjóðlegra viðskipta.


Mörk Vatnajökuls

258743ARíkið hefur reynt að festa niður mörk Vatnajökuls, bæði vegna stofnunar þjóðgarðs og út af þjóðlendumálum. Merkilegustu landamerki sem innleidd hafa verið hér á landi og órökrænustu voru ákvörðuð af Óbyggðanefnd og ganga út á að miðað sé við "jökuljaðar eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1998".

Helgi Björnsson jöklafræðingur hefur spáð því að jöklar upp af Lóni verði að mestu horfnir á Stafafellnæstu þrjátíu árum. Það verður því skondið að sjá á kortum hlykkjóttar línur sem afmarka ríkislendur. Fólk spyr hvernig ríkið eignaðist þetta land. Svarið væri á þeim nótum að árið 1998 hafi verið frekar snjóþungt! Skynsamlegri landamerki væru að miða við vatnaskil eða snjólínu jökuls eins og hún er hverju sinni.

Snjólög 1998 ásamt skorti á þúsund ára sögusögnum um ferðir með kvígur dugar til að eigna ríkinu land, en þinglýsingar og fjögur hundruð ára skjalfest eignarsaga dugar ekki til að jarðir haldi rétti sínum. Einhverjir kunna að halda að störf Óbyggðanefndar skýri og einfaldi mál tengd eignarhaldi á landi. En það er þveröfugt. Ný hugtök og viðmið gera þau flóknari og kalla á ný málaferli.


mbl.is Jöklar hopa hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagsaðgerðir

 Aðgerðir

Margir kalla á aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. Vandinn er þó ekki afleiðing af þeirra stefnu. Hann er að hluta vegna niðursveiflu sem er að ganga yfir Evrópu og Ameríku. Niððursveiflan er beint framhald af þenslu og uppsveiflu. Það var alltaf vitað að hinar og þessar stærðir efnahagsins voru of háar. Krónan var alltof há, við tókum of mikil lán og eyddum of miklu í allrs kyns óþarfa. Það sem fer upp hlítur að koma niður segir einhver röksemdafærsla sem gæti verið hundalógík.

Það virðist vera séríslenskt fyrirbæri í þenslu að binda allt meira og minna í steinsteypu. Byggja og byggja húsnæði. Án þess að hugsa það til enda hvaðan við eigum að fá fólk í öll þessi hús. Ástandið er hrikalegt á fasteignamarkaði. Það er útilokað að fá húsnæði fyrir ungt fólk nema fyrir nokkra tugi milljóna og með lánum á okurvöxtum. En ég efast um að stjórnvöld eigi að grípa inn í þetta ferli. Verð á húsnæði hlítur að lækka. Þó það sé erfitt fyrir marga byggingaraðila og húsnæðiseigendur að taka á sig verðlækkun á húsnæði þá verður það að ganga í gegn afskiptalaust eins og að hinar gífurlegu hækkanir á húsnæðisverði áttu sér stað án afskipta ríkisins.

Ég eins og aðrir lántakendur verð að finna leiðir til að standa við skuldbindingar mínar. Við tókum myntkörfulán á síðasta ári og mikil gengislækkun hækkar það lán. En ég tók lánið þegar krónan var mjög veik fyrir einu og hálfu ári. Síðan varð krónan mjög sterk og það kom sér illa fyrir suma en nú veikist hún verulega og það kemur sér illa fyrir aðra. Veit ekki hvort ástæða er fyrir stjórnvöld að gera eitthvað nú  þegar gengið lækkar frekar en þegar gengið hækkaði. Gengislækkun mun koma sér vel fyrir ýmsar atvinnugreinar. Þannig finnur þetta sitt jafnvægi, þó að uppsveiflur og niðursveiflur verði ef til vill óvenju milar og hraðar hér á landi.

Á heimavelli verða stjórnvöld þó að huga að nokkrum atriðum. Í slíkri niðursveiflu er nauðsynlegt að forsendur velferðarkerfisins haldi. Að fjölskyldur og börn eigi aðgang að heilbrgðisþjónustu og menntun óháð efnahag. Skattkerfið gegni hlutverki sínu sem tæki til jöfnunar. Einnig gæti þurft að athuga með aðgerðir til að vega á móti fyrirsjáanlegum og orðnum hækkunum eins og á matvælum og eldsneyti. Skattlagning á eldsneyti er einstaklega há hér á landi og því er nauðsynlegt að bregðast við mikilli hækkun erlendis frá með minnkaðri skattlagningu.

Morgunblaðið og fleiri hafa haldið því fram að gagnrýni á krónuna sem gjaldmiðil komi til með að veikja hana enn meira. Aðrir hafa bent á að það eitt að lýsa yfir því að stefnt sé að upptöku evru og aðild að ESB muni styrkja stöðu okkar á erlendum fjármálamörkuðum og draga úr efasemdum um eðli og undirstöður íslensks fjármálalífs. Það eitt og sér að ætla sér að hafa einhver alþjóðleg umsvif, eins og hefur orðið raunin, með gjaldmiðli sem einungis er notaður af 300 þúsund manns er geggjun fyrir alla nema nokkra þá sem halda að tryggð við krónuna sé sama og þjóðhollusta.


Opinber laun og fríðindi

PállSérkennileg málaferli eru í uppsiglingu þar sem Páll Magnússon hefur vísað niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál til dómstóla. Hann sættir sig ekki við þá niðurstöðu að honum beri að gefa upp laun dagskrárstjóra sinna. En áður hafði Umboðsmaður Alþingis í tengslum við laun útvarpsstjóra sjálfs úrskurðað að upplýsingar um föst laun opinberra starfsmanna eigi að vera aðgengilegar.

ÁrniÞetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag, en litlu aftar í blaðinu er sagt frá öðru máli sem að er svipaðs eðlis um upplýsingar um notkun ráðherra á kortum ráðuneyta. Aðstoðarmaður Umboðsmanns telur að þessar upplýsingar eigi að vera aðgengilegar, en fjármálaráðherra Árni Math svarar; "Þetta er bara ómerkilegt, subbulegt mál þar sem verið er að reyna að gera heiðarlegt fólk að skúrkum algjörlega að ástæðulausu".

Mona Sahlin þurfti að segja af sér í Svíþjóð vegna þess að hún hafði greitt hluti til einkanota með greiðslukorti ráðuneytis. Mikilvægt er að hér ríki aðhald líkt og annars staðar. Opinber laun og fríðindi eiga að vera opinber.


Allt er þegar þrennt er

Ósk

Síðastliðin fimmtán ár hef ég búið í Mosfellsbæ og hefur það að flestu leyti verið ánægjulegt. Gaman að vinna á Reykjalundi á sínum tíma og sjá mikla umhyggju með rætur í viðleitni allra að efla heilsu vistmanna til sálar og líkama. Gaman að vera óbeinn þátttakandi með listakonunni minni í þeirri miklu grósku sem ríkti á Álafossi í listsköpun þar fyrir um tíu árum. Gaman að kynnast vönduðu skólastarfi, bæði á Reykjakoti og í Varmárskóla, þar sem synirnir hafa verið. Gaman að taka þátt í hestamennsku´á Harðarsvæðinu og útivist á fellin umhverfis bæinn. Gaman að kynnast öllu fólkinu í Reykjahverfinu sem að voru með börn á svipuðum aldri, þegar við vorum nýflutt. Allir þessir litlu karlar sem voru í öðru hverju húsi og urðu leikfélagar eldri stráksins urðu einnig vinir mínir.

Við lærðum snemma að meta stígana meðfram Varmá og útivistarmöguleikana á beltinu upp úr og niður úr meðfram ánni. Það var fagnaðarefni þegar ákveðið var af bæjarstjórn fyrir um áratug að byggja vandaða sundaðstöðu við Íþróttamiðstöðina að Varmá. En þá komst Sjálfstæðisflokkurinn til valda og hann breytti um áherslur í þessu máli og féll frá fyrirliggjandi hugmyndum og teikningum. Ákveðið var að hún yrði við Lágafellsskóla. Þrátt fyrir að helmingur bæjarbúa skrifaði undir áskorun um að byggja upp bæjarlaugina að Varmá þá fékkst málið ekki rætt eða endurskoðað. Þar er komin fín sundlaug í dag, en ég er enn sannfærður um að áherslurnar hefðu átt að vera á hinn vegin að lítil laug væri við Lágafellsskóla og vegleg bæjarlaug að Varmá.

Ég fékk í annað skipti nokkrum árum síðar að reyna lítinn sveigjanleika bæjaryfirvalda tengdan tengibraut í Helgafellshverfi. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn enn við völd með aðstoð VG sem gekk áreynslulítið inn í sömu stjórnarhætti að hlusta lítið og vinna gegn umræðu um skipulagsmál. Ég er enn sannfærður um að tengibraut í jaðri byggðar hefði verið betri lausn heldur en allt það rask og skemmdir sem unnar hafa verið á Álafosskvos og Varmársvæði með Helgafellsvegi. Það hefur verið mjög mikil reynsla að taka þátt í stjórn Varmársamtakanna og öðlast þá reynslu að bæjaryfirvöld gerðu íbúasamtökum á flestan hátt erfitt fyrir í starfi. Nú er kona úr Mosfellsbæ sem er að gera mastersritgerð í stjórnmálafræði að skoða samskipti Varmársamtakanna og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Að fá utanaðkomandi aðila til að velta upp sjónarmiðum og áherslum er mikið fagnaðarefni, ef það má vera til þess að efla íbúalýðræði.

En þriðja og stærsta prófið á íbúalýðræði í bænum er framundan og tengist vinnu við miðbæjarskipulag. Það fór vel af stað með því að kalla til rýnihópa sem samsettir voru af íbúum. Út úr því var gerð samantekt um væntingar fólks. Í framhaldi hefði verið æskilegt að fara í opna hugmyndavinnu þar sem tvær til þrjár tillögur væru kynntar, en samt möguleiki að sameina góða hluti úr mismunandi áttum. Vilja Mosfellingar halda áfram með hugmyndina um verslunargötuna "Kardimommubæinn" í Þverholtinu eða er það bara staðreynd sem við eigum að viðurkenna að íslensk veðrátta bíður ekki upp á verslunargötur og skynsamlegra að stefna að einhvers konar útfærslu á verslunarmiðstöð sem að hugsanlega væri tengd almenningsgarði. Mikilvægt er fyrir kirkjuna að starfa á opinn hátt svo að fólk uplifi á sterkan hátt að fyrirhuguð kirkjubygging sé þeirra. "Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla". Ættu kirkja og framhaldsskóli ekki að samnýta fyrirhugaðan menningarsal?

Eftir tímabil mikils umróts í Mosfellsbæ þar sem áherslurnar hafa verið á mikla uppbyggingu hverfa undir forystu verktaka og landeigenda er komið að því að við horfum inn á við, fólkið í bænum. Metum hvaða skref séu best til að efla miðbæ og mannlíf. Tryggja að Mosfellsbær hafi áhugaverðan og skapandi karakter en hljóti ekki það hlutskipti að vera bara svefnbær. Það er mín ósk, en ekkert gefið að hún rætist. 


Kirsuberjaspáin liggur fyrir

Washington_Tidal_Basin_KirsuberjatréÁ jafn fögrum dögum og í dag með birtuna fram undir klukkan átta að kvöldi sýnir að vorið er handan við hornið. Í Washington og hjá mörgum Bandaríkjamanni er innreið sumarsins tengd við þann dag sem að kirsuberjatrén blómstra í miðborginni.

Sérfræðinganefnd skrúðgarðyrkjumanna og veðurspámanna ákveða hvenær líklegt er að hámarksblómgun verði. Spáin fyrir 2008 segir að það verði dagana 27. mars til 3. apríl. Einnig er spáð þegar nær dregur fyrir um þann dag sem mesta blómgunin er að eiga sér stað en það var 4. apríl í fyrra. Mikill fjöldi ferðamanna fer til Washington til að vera viðstaddur "blooming season".

kirsuÉg er með kirsuberjatré í garðinum og það blómstraði í fyrra rúmum mánuði síðar en í Washington eða þann 12. maí. Sérfræðingarnir vestra eru búnir að setja blómgun trjánna þar örlítið fyrr en í fyrra, en þá er það spurning hvort ég eigi að spá því að vor og sumar komi fyrr eða síðar hér á okkar ísakalda.


Siðblinda

Economist_no-regretsÞað er ástæða til að óska fjölskyldu Halldórs Laxness til hamingju með niðurstöðu Hæstaréttar. Framganga Hannesar í þessu máli hefur öll verið honum til minnkunar. Að fara fram af slíku kappi við ævisagnaritun í óþökk ættingja og bæta síðan um betur og gera frásagnir skáldsins að sínum er mikið tillitsleysi.

Í þokkabót virðist hann ekki kunna að skammast sín og iðrast einskis, samkvæmt viðbrögðum lögmannsins. Málið er sagt snúast um lagatæknileg atriði, en ekki um hvað var gert rangt. Engin sjálfsgagnrýni. Hannes á möguleika á að toppa siðblindu þingmanns úr sama flokki sem fékk á sig fangelsisdóm, en virtist aldrei sjá að hann hefði gert neitt rangt.

Sumir eru of stoltir til að viðurkenna veikleika eða mistök, en einmitt sú tilhneiging opinberar að þeim er ekki treystandi.


mbl.is Höfundarréttur tekinn alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóm vikunnar Jöklasóley

Jöklasóley2Blóm vikunnar er Jöklasóley sem vex einkum í grýttum jarðvegi. Hún er algeng á austanverðu landinu, Skagafirði og nágrenni og Vestfjörðum.  Hún vex yfirleitt hátt í fjöllum og finnst ekki undir sex hundruð metra hæð. Í gönguferðum Stafafelli í Lóni þá er gaman að sjá hana á leiðinni upp á Sauðhamarstind (1319 m). Blómin eru hvít snemmsumars en verða síðan rauðbleik síðsumars. Jafnframt er meira af rauðleitum blómum neðar og síðan fjölgar hvítum blómum nær toppnum, þar sem sumarið kemur seinna. Þessar plöntur voru þann 19. ágúst 2004. Sú rauðleitari á Víðibrekkuskeri, en sú ljósari í hlíðum Sauðhamarstinds.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband