Tímans fljót

Picture 222Stundum geta litlir hlutir sagt mikla sögu. Rakst fyrir nokkrum árum á þennan vírbút sem að er úr kláf yfir Víðidalsá, Stafafelli í Lóni. Þykktin á vírnum er tæp tomma og hafið yfir ánna er nítján metrar. Vírarnir voru tveir og þurftu að festast í land hvoru megin. Þannig að gera má ráð fyrir tveimur tuttugu og fimm metra vírum.

Það sem gerir þetta merkilegt er að Víðidalur er um 30 kólómetra inn til landsins umlukin af miklum torfærum á alla kanta. Kláfurinn er byggður um 1890. Sennilega hafa hestar verið nýttir til að draga vírana yfir fjöll og jökulvötn upp í Víðidal, frá Papósi sem þá var verslunarstaður í Lóni.

Picture 214Hann liggur þarna í grjótinu sem hógvært vitni um dugnað fólksins í Víðidal sem byggði kláfinn, kom upp miklum húsakosti og bjó þarna um árabil við erfiði og einangrun. Í sumar kom eldri maður frá Ísafirði með í gönguferð. Mikill höfðingi, Guðni Ásmundsson að nafni. Hann átti sérstakt erindi í Víðidal.

Hann hafði heitið sjálfum sér því að fara í Víðidal og þennan ásetning mátti rekja til uppvaxtarára hans á Djúpavogi. Faðir hans og aðrir höfðu oft vísað til þess, þegar erfið verkefni biðu og dugnaðar var þörf, að þetta eða hitt hefði nú ekki orðið vandamál fyrir fólkinu í Víðidal. Guðni varð sæll og glaður að sjá dalinn með eigin augum og upplifa þessa einangrun í hinum stórskorna fjallasal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnlaugur.

Las um vírinn svera í Tímans fljót. Það rifjast upp fyrir mér að þegar ég var að viða að mér fróðleik og lesefni fyrir fyrstu ferðir mínar inn í fjöll að ég las grein eða viðtali við afa þinn í Heima er best. Þar segir hann frá því, ef ég man rétt, að vírinn sem notaður var í kláf yfir Jökulsá hafi fengist úr skipinu Hilnes, sem starndaði á Melrakkanessfjöru nokkru fyrir aldamótin 1900. Datt í hug hvort þetta sé sami vírinn og þá hafa þeir væntanlega flutt hann að austan.

Kveðja

Albert Eymundsson  

Albert Eymundsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 08:28

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Albert

Takk fyrir þessa ábendingu. Það væri gaman að viða að sér sögulegum punktum og koma upp fræðsluskilti um minjar í dalnum. Mbk,  G.

Gunnlaugur B Ólafsson, 5.12.2007 kl. 12:34

3 identicon

hvenær á að fjarlægja draslið sem er inn í Víðidal, eftir brúarsmíðina?

snorri (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 22:23

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Snorri, hvers son ertu? Það væri gott að vita af þér og öðrum áhugasömum til að miða áfram málum í átt að endurbyggingu Víðidalsbrúar. Eins og þú sennilega veist þá tók hana af eitt vorið og stálbitarnir liggja í ánni. Það var mér mikið áfall að fá þær fréttir, því ég hafði lagt mikið á mig með þremur þyrluleiðöngrum, mörgum vinnuferðum og persónulegum útgjöldum.

Stöplarnir standa sitthvoru megin og vel virðist hafa tekist til með byggingu þeirra. Hinsvegar tel ég að það hafi verið mistök að byggja brú með slíkum þungum I-bitum, eins og vinir mínir hjá Vegagerðinni teiknuðu. Betra hefði verið að hafa léttbyggða hengibrú í sama stíl og er við Kollumúla og Eskifell.

Hluti af I bitunum í ánni eru enn óbognir og hefur Tryggvi frændi minn á Djúpavogi stungið upp á því að nýta þá í vírturna sitthvoru megin. En innanmál (breidd) á bitunum er 40 sm, sem er sama breidd og á stöplunum. Því gæti það passað að setja um það bil 6m bita utan á hvorn stöpul sitthvoru megin.

Allt efni til að endurbyggja þetta í formi hengibrúar fyrir utan víra er á staðnum og það væri gaman að sjá slíkt verða að veruleika. Til þess að klára slíkt þarf um 500 þús. í peningum og áhugasama karla sem eru til í launalaus ævintýri "rétt hinum megin við hæðina"

Ferðafélag Austur-Skaftafellssýslu í stjórnartíð Vésteins Benediktssonar lýsti yfir vilja til að vinna að verkinu. Jafnframt hefur málið velvild Þórhalls Þorsteinssonar hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs sem að studdi lítillega við það sem búið var. Ferðafélag Djúpavogs undir forystu Ragnars á Bragðavöllum merkti í hittifyrra gönguleið úr Geithellnadal sem gerir ráð fyrir þessari brú. Nauðsynlegt að virkja þessa krafta og aðra til að ljúka málinu. Persónulega get ég ekki farið af stað einn með það verkefni.            

  Takk fyrir að vekja athygli á þessu máli og vona að það sé gert af góðum hug

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.12.2007 kl. 23:21

5 identicon

  Svona horfir þetta við mér, það er hálfleiðinlegt að koma þarna að og það fyrsta sem blasir við er hrúga af járnarusli. Þetta er sagt með góðum hug og það þarf vissulega að ýta við e-h í sambandi við hvað eigi að gera þarna innfrá, brú er af hinu góða en er það alveg nauðsynlegt?

Snorri Garðarsson (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 18:03

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Snorri. Tek undir það með þér að það er nauðsynlegt að finna flöt á því að klára þetta og já það er nauðsynlegt að fá göngubrú þarna ef gert er ráð fyrir umferð hópa um Víðidal.Fyrir um tuttugu árum var ég með hestahóp sem lagði af stað úr Lóni, yfir Lónsheiði, inn Múladal og yfir í Víðidal. Þar var tjaldað og gist. Planið gerði ráð fyrir að fara áfram í Kollumúla og síðan út Kjarrdalsheiði til byggða. Ég var hálfgerður ungliði í þessu samhengi því reynsluboltarnir Gunnar Sighvatsson frá Brekku og Ásgeir Júlíusson frá Svínhólum voru aðal fararstjórar. Hiti í Víðidal fór þessa daga í 26 gráður og áin var straumhörð og vatnsmikil sem hafsjór. Það var því mat þeirra að hún væri ófær fyrir hesta. Eftir að hafa gist í Víðidal tvær nætur og vatnið minnkaði ekkert þá var ákveðið að snúa við til baka yfir í Múladal.Ég hef vaðið með miklum fjölda af hópum yfir Víðidalsá. Stundum hefur þurft að snúa frá. Oft er það einungis hluti af hópnum sem treystir sér til að vaða. Það er ástæða fyrir því að kláfur var settur einmitt á þessum stað á sínum tíma. Hún er enn til staðar. Nú er hægt að keyra inn að Sauðárvatni og þar er hægt að komast á gömlu þjóðleiðina um Marköldu niður í Víðidal. Hún er vörðuð. Sama gildir um það ef áhugi er á að efla gönguleiðir yfir í inndali Álftafjarðar, þá er brú nauðsynleg. Eðlilegt er að tjaldstæði séu í Víðidal. Þannig væri Egilssel og Víðidalur samtengt skála- og tjaldstæði.Þeir sem telja það hluta af ævintýrinu að vaða geta vaðið áfram, þó það væri komin göngubrú sem að tryggir öryggi og aðgengi að dalnum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 13.12.2007 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband