Jólagestir - Stórveisla

Bo HVann miða fyrir tvo á jólatónleika Björgvins Halldórssonar úr lukkupotti Kaupþings. Þegar ég tjáði gleði um þessa heppni í vinnunni þá voru tveir listnámskennarar í skólanum sem efuðust um að ég hafi verið heppinn. Jafnvel vildi annar undirstrika meiningu sína með því að segja að hann þyldi ekki listamanninn. Þá rifjaðist upp fyrir mér að sennilega hefði ég sjálfur haft einhverja menningarstíflu af svipuðum toga. Stundum þótt hann óþarflega sykraður og einhvern tíma vildi maður að tónlist hans hefði meiri boðskap og inntak.

En nú vorum við að koma úr Laugardagshöllinni og erum í sæluvímu. Ef að þetta var sykur þá var hann allavega bráðhollur og ósvikinn, sennilega ávaxtasykur frekar en unnin sykur. Þarna var bæði fjölskipuð hljómsveit, strengjasveit, gospelkór, barnakór og auk Björgvins var fjölbreytilegt úrval reyndra og öflugra söngvara. Það var sérlega gaman að heyra í Helga Björnssyni og Svölu Björgvins sem gáfu kröftug innslög. Seinastur í hópi fjölda gestasöngvara var Raggi Bjarna.

Svala BÞegar Raggi ætlaði að fara að syngja spjallaði hann á léttan hátt og hugðist svo kynna lagið en þá reyndist minnið vera að stríða honum. Eftir smá spurningu til Þóris Baldurssonar þá kom það, "Já, Er líða fer að jólum, Er líða fer að jólum, heitir lagið". Síðan söng goðsögnin  lagið með tilþrifum eins og honum er einum mögulegt.

Svala Björgvins var sérlega glæsileg, kraftmikil og söng með persónulegum stíl, sennilega gert útsetningarnar við þá gömlu slagara sem hún tók. Hún hefur verið alltof lítið áberandi hér á landi síðustu misserin. Þó að einhver tilraun til að láta hana meika það í Ameríku í þröngum stakk, ætluðum ljósku og dúkkúlísu, hafi ekki gengið upp, þá hef ég trú á að hennar tími sé nú kominn. Slík blanda af frumleika, glæsilegri framkomu og flottri rödd hlítur að gefa af sér eitthvað spennandi á komandi misserum.

Björgvin á mikið hrós skilið fyrir þessa tónleika og ég þakka Kaupþingi pent fyrir að bjóða mér á svona einstaklega vandaða og góða skemmtun.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æi.....

Briet (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 02:01

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Frábært!! Til hamingju með góða tónleika

Hrönn Sigurðardóttir, 9.12.2007 kl. 18:59

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Æi þesssar listasspírur ........komst nú ekki en frétti líka að Erna Hrönn hefði slegið í gegn....

Einar Bragi Bragason., 13.12.2007 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband