Hugmyndaleysi og nauðhyggja

Magamál

Telja má víst að ákveðinn skortur á ferskum hugmyndum í pólitík sé fylgifiskur neysluhyggju sem ríkt hefur í landinu síðustu árin. Kjósendur leggja meira upp úr því að tryggja mettan maga, betri bíl og gott húsnæði, en umræðum og átökum um pólitík. Eðlilegt er þó að gera ráð fyrir að innan stjórnmálaflokkanna eigi sér stað umræða um stefnur og hugmyndir. Framtíðarsýn.

Leiðari Morgunblaðsins um helgina fjallaði um skort á nýjum hugmyndum í íslenskri pólitík um þessar mundir. Þar segir meðal annars undir yfirskriftinni "Hvar eru hugmyndirnar?"; "Þessi skortur á nýjum hugmyndum stendur öllum íslenzku stjórnmálaflokkunum fyrir þrifum. Þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og þess vegna er ekkert merkilegt að gerast á vettvangi stjórnmálanna". Þetta er ágæt brýning til flokkanna.

Félagi og vinur Bjarni Harðarson gagnrýnir Samfylkinguna fyrir nauðhyggju í peningastefnu og efnahagsstjórn. Bent sé á aðild að EB sem lausn á öllum vanda á þessu sviði. Það er trúlega málað nokkuð sterkum litum eins og gengur í hanaslag stjórnmálana. En hefur aðildin að EES ekki einmitt verið að skapa svigrúm til atvinnu og mennta um mest alla Evrópu? Útrásin gert það að verkum að hin mikla skerðing í sjávarútvegi hefur ekki teljandi áhrif á efnahag ríkisins þó hún komi niður á sjavarbyggðum.

Hin íslenska nauðhyggja dreifbýlis hefur falist í því að fólkið hefur um of treyst á að Búnaðarfélagið og Framsóknarflokkurinn tryggðu mettan maga og góð lífskjör til lands og sjávar. Ólíkt farsælla hefði verið fyrir sveitirnar ef greiddir hefðu verið búsetustyrkir frekar en framleiðslustyrkir. Þá byggi dreifbýlið við fjölbreytt atvinnulíf, þar sem t.d. steinslípun hefði átt jafna möguleika að þróast og sauðfjárrækt. Það hefði gefið af sér mun meiri gerjun í hugmyndum heldur en að borga fyrir vöru sem að iðulega seldist ekki. En Framsóknarflokkurinn ákvað að vera áskrifandi að atkvæðum með þessu fyrirkomulagi. Síðan fluttu atkvæðin á mölina.

Íslensk stjórnvöld hafa síðustu öldina valið sér það hlutskipti að vera þiggjendur í utanríkismálum. Fylgja stefnu Nató og Bandaríkjanna, en reynt að selja þann stuðning og aðstöðu fyrir her háu gjaldi. Þetta hafa rannsóknir Vals Ingimundarsonar sýnt. Margt bendir til að hagsæld Íslands næstu áratugina muni tengjast aukinni samvinnu við Norðurlöndin og Evrópu, en vægi sambands við Ameríku minnka, þó það verði áfram mikilvægt.

Telja má víst að fólk og fyrirtæki muni vera gengið í EB áður en stjórnmálamenn komast að niðurstöðu í sínu karpi um stefnu í þessum málum. Betri vaxtakjör, lægra vöruverð, ásamt útrásinni hafa sett þessa þróun af stað og hún á eftir að ganga smátt og smátt lengra. Fyrirtækin munu gera upp í evrum, fólk mun geta valið um að fá laun greidd í evrum, búðir munu smátt og smátt birta verð í evrum og bankar munu bjóða upp á greiðslukort í evrum.

Þannig mun áherslan á mettan maga stuðla að áfram verður haldið á þessari braut. Einstaklingurinn hefur fengið aukið svigrum og athafnafrelsi með EES samningnum. Löggjöf og reglur sem þurft hefur að taka upp afa oftar en ekki aukið réttindi einstaklinga, til dæmis gagnvart stjórnvöldum. Almenningur sér ekki hvernig evrópusamstarfið þrengir að þjóðerni okkar eða sjálfstæði landsins. Þó mikill fjöldi erlendra verkamanna hafi sett svip sinn á mannlíf, þá má ekki gleyma því að við völdum að ráða það til vinnu.

Það er auðvitað ákvörðun stjórnmálamanna hvort þeir afgreiða Evrópumálin með einu pennastriki. Verðum við áfram óvirkir viðtakendur í stefnumótun eins og ríkti hér um varnarmál og efnahagstengsl við Bandaríkin? Skoðum bara hvað við getum grætt en ekki neinar meiningar í stefnumótun? Er það ekki versta form nauðhyggju að vera í EES, taka við reglum og lögum án nokkurrar aðkomu að hugmyndavinnu og stefnumótun?
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband