Sjálfstæði og einhliða upptaka evru

Það hugtak sem að er á mestum villigötum í íslenskri stjórnmálaumræðu í dag er sjálfstæði. Í fyrsta lagi er það ekki boðlegt að halda því fram að lönd eins og Frakkland, Þýskaland og Ítalía séu ekki sjálfstæð, þó þau hafi valið sér samstarf innan Evrópusambandsins. Í öðru lagi er það óljóst hvað það er í samningi um aðild að Evrópusambandinu sem gerir okkur meira ósjálfstæð heldur en aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

Þeir sem að eru hreinir fullveldissinnar hljóta að vilja segja okkur frá ýmsum öðrum alþjóðlegum skuldbindingum. Sjálfstæðið sé algjört og þjóðin eigi ekki að lúta neinu erlendu valdi. Í þeim pakka væru Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, EES samningurinn og margskonar samningar um norræna samvinnu. Samkvæmt þessu væri hægt að halda því fram að Ísland hafi bara verið sjálfstætt í tvö ár. Frá árinu 1944 þegar lýst var fullu sjálfstæði til 1946 þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar.

Í reynd eru fullveldissinnar að tala fyrir því að taka frelsi og sjálfstæði af einstaklingum í nafni frelsis og sjálfstæðis landsins. Sameiginlegt er með flestum þessum samningum að þeir tryggja okkur ýmiskonar réttindi. Takmörkun á frelsi eða skuldbindingin sjálf er grunnurinn að tækifærum og réttindum einstaklinga. Þannig mun sjálfstæði Íslands ekki skerðast meira en nemur ábyrgðinni að gangast undir sömu leikreglur og tíðkast meðal annarra ríkja í álfunni.

Samkvæmt kvöldfréttum Ríkisútvarpsins er það til skoðunar innan Evrópusambandsins að heimila einhliða upptöku evru, vegna gjaldeyrishruns í Austur-Evrópu. Það er mín skoðun að eftir að við erum búin að styrkja gengi krónunnar, þá eigum við að skoða það að taka upp evru einhliða. Með þeim hætti næðist meiri stöðugleiki á myntkörfulán til lengri tíma, verðbólga yrði sú sama og á myntsvæðinu, vextir yrðu lágir, við losnuðum undan verðtryggingu. Sú ákvörðun myndi stuðla að auknu frelsi og sjálfstæði Íslendinga til athafna og meiri tækifærum fyrir komandi kynslóðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

"... óljóst hvað það er í samningi um aðild að Evrópusambandinu sem gerir okkur meira ósjálfstæð heldur en aðrar alþjóðlegar skuldbindingar."

Nei Gunnlaugur, það er alls ekki óljóst.

Ef þú trúir því í alvörunni að það hægt að leggja það að jöfnu við inngöngu í SÞ, þá áttu greinilega mikla heimavinnu eftir. Nema þú talir gegn betri vitund. Þó í flestum samskiptum felist skuldbindingar er himinn og haf á milli þess að vera í NATO eða SÞ og inngöngu í ríkjasamband þar sem löggjafarvald og framkvæmdavald er framselt til yfirþjóðlegrar stjórnar.   

Ég er ekki sammála þér í Evrópumálum og ætla ekki einu sinni að reyna að fá þig til að skipta um skoðun. Vil bara óska þér góðs gengis í prófkjörinu og legg eindregið til að þú klárir heimavinnuna sem fyrst í þessum málum. Þó það sé mikil lesning og tyrfin er hún nauðsynleg fyrir þá sem bjóða fram krafta sína til starfa á löggjafarsamkomunni. Vertu viðbúinn því að skipta um skoðun við lesturinn.

Haraldur Hansson, 4.3.2009 kl. 09:38

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég tel það ekki neitt innlegg að setja sig á einhvern stall um að vera í hlutverki hins víðlesna. Við göngumst undir margskonar kvaðir með alþjóðlegu samstarfi og samningum. Þannig að sem betur fer er landið ekki sjálfstætt, heldur leitar sameiginlegra tóna með öðrum löndum. Þar er mikilvægast að stilla strengi með norrænum frændþjóðum og lýðræðisríkjum í Evrópu.

Það opnar á tækifæri fyrir okkur sem einstaklinga og skapar þannig sjálfstæði og frelsi. Flest af þeirri löggjöf sem hefur verið tekin upp hefur aukið lýðréttindi einstaklinga. Líka reglur um hvíldartíma atvinnubílstjóra sem að auka jafnmikið öryggi á íslenskum og ítölskum vegum.

Varðandi upptöku evru þá er ég ekki rétti aðilinn til að útfæra það nákvæmlega hvernig tilfærslan ætti sér stað.  Ég skora á ykkur að hlusta á Ágúst Valfells í Speglinum í gær. Vanalega hefur verið rætt um að krónan þurfi að vera skráð á viðunandi gengi þegar tilfærslan ætti sér stað.

Guðjón þú endar þína færslu á nokkru drambi og færi betur að þú legðir eitthvað málefnalegt til umræðunnar.                 

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.3.2009 kl. 11:17

3 Smámynd: Þórbergur Torfason

Gulli, það er rangt að innganga í ESB skapi okkur eitthvað sjálfstæði og frelsi. Þú veist betur. Þetta er annaðhvort sjálfsblekking eða vonlítið plott. Stærsti hluti þeirra reglugerða sem við höfum tekið upp frá Evrópusambandinu virka einmitt þveröfugt og það veist þú jafnvel og ég. Bara sem dæmi um atvinnubílstjóra. Þær vegalengdir sem þeir leggja að baki niðri í Evrópu, samsvara ríflega hringveginum hér og eðlilegt að sett séu takmörk á það en hér er þessu öðruvísi farið enda búið að létta á kröfunni sem var ekki vanþörf á.

Að bera saman þjóðir sem telja tugmilljón íbúa og okkur er náttúrlega algerlega út í hött. Við sem örþjóð, tiltölulega nýbúin að öðlast sjálfstæði og höfum alla burði til að vera það áfram, eigum náttúrlega að hafa örlítið háleitari markmið en að afsala okkur sjálfstæðinu og gerast nýlenda á ný. Þessi hugsunarháttur hjá ykkur Jóni Baldvin er bara ekki að gera sig. Ég skil ekkert í honum kallinum kominn á eftirlaun. Ekki hlýst honum nein sposla við inngöngu í Evrópusambandið. Það er kannske annað með þig. Við verðum að hugsa um þjóðarheildina Gulli, ekki bara um flokkinn og svo mig. 

Þórbergur Torfason, 4.3.2009 kl. 11:48

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þórbergur við erum orðin hluti af stórri heild, þar sem við þurfum að vera virk. Við þurfum einmitt að hætta að hugsa bara um hagsmuni flokks eða þjóðar, heldur tækifæri afkomenda okkar í alþjóðlegu umhverfi.

Guðjón hlustaðu á kvöldfréttirnar í gær og spegilinn um stefnubreytingu ESB varðandi einliða upptöku evru og kosti þess. Komdu svo með rök gegn þeim jákvæðu áhrifum sem þetta er talið hafa á stöðugleika og efnahag.

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.3.2009 kl. 12:27

5 Smámynd: Fannar frá Rifi

hlustaður nú á fréttirnar. Prófesór frá Harvard kemur með sterk rök gegn evru. að upptaka evru í dag í kreppunni sem hagstjórnarlegt sjálfsmorð.

annars er alveg ótrúlegt að þú reynir að halda því fram að þjóðir sem afsala sér löggjafarvaldinu, framkvæmdar og dómsvaldi ásamt því að samþykkja að það verði ein utanríkistefna fyrir ESB og einn sameiginlegur forseti, sé ennþá sjálfstætt ríki. 

miðað við þetta, þá ætti samkvæmt þinni skilgreiningu, öll ríki Bandaríkjanna að verja sjálfstæð ríki. 

Fannar frá Rifi, 4.3.2009 kl. 12:48

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Gunnlaugur!

Prófessor frá Harvard segir það efnahagslegt sjálfsmorð, að taka upp Eru nú í miðri kreppu ATH!! HEIMSKREPPU!!!

Miðbæjaríhaldið

heldur í það sem hald er í en hendir hinu (svosem Kratisma nýfrjálshyggju og annarskonar Drasli)

Bjarni Kjartansson, 4.3.2009 kl. 13:27

7 Smámynd: Smjerjarmur

Á meðan við erum með jákvæðan vöruskiptajöfnuð skiptir okkar gjaldmiðill ekki öllu máli.  Þegar við eyðum eins og kjánar komum við okkur í vonlausa aðstöðu hvort heldur við erum með Evru eða U$.  Mér líst illa á að vera í Evrópubandalagi og verr eftir því sem ég hugsa meira um það.  Þó kann að vera að við séu búin að spila rassinn úr buxunum svo myndarlega að það sé ekki til önnur lausn á okkar vanda.  Er þéttbýlasti hluti heimsins endilega sá sem á bestu framtíðina efnahagslega?  Ég spyr líka af því að stóru Evrópuþjóðirnar hafa sótt hluta af sínum "auði" til fátækari landa.  Heldur það endalaust áfram? 

Smjerjarmur, 4.3.2009 kl. 14:38

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég missti af umfjöllun áðan í útvarpi, held það hafi verið spegillinn þ.s. einhver spekúlant tók hugmyndir þessa Harvard prófessors voru teknar í bakaríið.

Hin blinda trú á sterka krónu og hávaxtastefnu sem skapaði möguleika þenslu og skuldasöfnunar skapaði aðstæður hins "efnahagslega sjálfsmorðs".

Minn kæri, Bjarni Kjartansson talar iðulega sem að hann þekki til í þeim kúbbi sem innleiddi þau kröppu kjör.

Gunnlaugur B Ólafsson, 4.3.2009 kl. 22:19

9 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Jú jú , nokkuð þekki ég til í EES klúbbnum.  Það var nefnilega hann með sínu heilaga Fjórfrelsi sem skóp aðstæður fyrir okkar fíkla (gróðapunga) til að ná takmarki óska sinna.

Við íhaldsmenn, það er alvöru íhaldsmenn, viljum ekkert með nýfrjálshyggju, frekar en þann leiða Kratisma, sem gegnið hefur nærri af okkur dauðum.  Vertrygging, Kvótalögin og EES klúbbur Jon hins baldna.

Alvöru íhöld vöruðu við EES og vildu tvíhliða verslunarsamning við ESB.

Miðbæjaríhaldið

fast fyrir og þvermóðskufullt ef með þarf.

Bjarni Kjartansson, 5.3.2009 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband