Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Bókstafurinn

Það er merkilegt að lesa skrif íhaldsmanna sem leitast við að túlka stjórnasáttmálann á þann veg að hann hindri undirbúning að aðildarviðræðum við ESB. Nú ef það er einhver glufa í þeim sáttmála, þá er bara vísað í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Fátt er nú þeim bókstaf æðra og sannara!

BókstaflegaÆtli það standi ekki stjórnarsáttmálanum að það verði áframhaldandi góðæri en síðan koma þrengingar. Má nokkuð bregðast við niðursveiflu í efnahagslífinu af þeirri einföldu ástæðu að uppskriftina er ekki að finna  í stjórnarsáttmálanum eða stefnu Sjálfstæðisflokksins?

Framsóknarflokkurinn hefur víðsýni til að taka Evrópumálin út úr því ferli að vera ýmist með aðild undir forystu Halldórs eða á móti aðild undir forystu Guðna. Við verðum að fara að marka vinnuferlið undir slíkum lýðræðislegum formerkjum en ekki bókstafstrú eða flokksræði.

Hugmyndir Framsóknarflokksins ganga út á að fara út í póstkosningu líkt og Samfylkingin gerði og láta niðurstöðu hennar verða hina opinberu stefnu flokksins. Þetta liðkar fyrir lýðræðinu. Sjálfstæðisflokkurinn þarf líka að ná sér út úr bókstafstrúnni og virða vilja meirihluta flokksfélaga.


Tik, tak, tik, tak

Nú styttist í að ríkisstjórnin þurfi að greina frá viðbrögðum sínum við úrskurði mannréttindanefndar SÞ vegna löggjafar um stjórn fiskveiða. Einungis um mánuður er til stefnu. Sjálfstæðisflokkurinn er í vanda með þetta mál og gæti á kurteislegum nótum gert lítið úr inntaki þess í heild. Þar reynir á að Samfylkingin selji ekki málefnastöðu sína fyrir ráðherrastólana.

TímasprengjaÞað að Guðni Ágústsson geri sér grein fyrir því að það er ekki hægt að standa gegn vilja 70% þjóðarinnar um aðildarviðræður að ESB sýnir að hann hefur skynbragð á það hvernig klukkan slær. Á sama tíma kemur Geir Haarde endurtekið fram eins og sendiboði yfirsiðameistara á Svörtu loftum og segir að málið sé ekki á dagskrá. Þar reynir á að Samfylkingin selji ekki málefnastöðu sína fyrir ráðherrastólana.

Á nokkrum mánuðum breyttist íslenskur efnahagur úr ævintýri í þrengingar. Vaxtaokur og lánsfjárskortur gera fyrirtækjum og fjölskyldum erfitt fyrir. Davíð segir að fólk hafi farið óvarlega í fjármálum og Geir segir að fólk eigi að keyra minna. Margt bendir til að þróun verði áfram á verri veg næstu misseri. Jafnvel þó ráðamenn geri fátt, þurfa þeir að eiga samræður við fólk um vanda heimilanna í landinu. Þar reynir á að Samfylkingin selji ekki málefnastöðu sína fyrir ráðherrastólana.

Ingibjörg Sólrún verður sem formaður Samfylkingarinnar, á þessum tímapunkti, að gera hlé á ferðum sínum til landa nær og fjær og huga að innviðum flokks og samfélags. Okkur vantar forystumenn sem tala inn í vitund þjóðarinnar og gefa okkur tilfinningu um að þeir viti hvað þeir gjöra.


Möppudýr

Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið í burðarliðnum um allnokkurt skeið. Margt bendir til að fæðingin geti orðið erfiðari en gert var ráð fyrir. Því það gleymdist að hugsa það til enda hverjir ættu að vera hagsmunir landeigenda í þessu samhengi. Komið hefur verið á flókinni stjórnsýslu, þar sem hver silkihúfan er sett yfir aðra. En landeigendur eru hvergi með í ráðum eða að það sé gert ráð fyrir því að þeir séu mótandi og gerandi aðilar. Ef að þessi hugsun um að kaupa ekki eignarlönd en vilja ná þeim undir þjóðgarðinn á að ganga upp, þá verður að gera samninga um náttúruvernd við landeigendur í líkingu við þá sem gerðir hafa verið við bændur varðandi skógrækt.

Ég hef verið tvístígandi hvort það séu fleiri kostir en gallar við að taka þátt í þessu verkefni. Stafafell í Lóni hefur verið skipulagt af landeigendum sem útivistar- og verndarsvæði. Það vantar fjármagn til uppbyggingar. En er framsal sjálfstæðis og ákvarðanatöku of mikið. Er þetta endanlegt afsal eða er hægt að gera samning til 20-30 ára og segja honum upp ef reynslan er slæm. Æskilegast væri að hafa samvinnu við ríkið en hafa svigrúm til að vera gerendur og ráðandi. Þannig er þetta að nokkru hliðstætt vangaveltum um kosti og galla við þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi.

Hitti áðan á reynslubolta í náttúruverndarmálum og prófessor í líffræði. Farið var að ræða um Hornstrandir og friðlýst svæði í framhaldi. Þá skelti ég á hann þeirri spurningu hvort að hin landmikla jörð Stafafell í Lóni og þar með það svæði sem síðustu árin hefur kallast Lónsöræfi, ætti að verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Lýsti áhyggjum landeigenda þess efnis að sjá sig áhrifalausa í þessu ferli. Þá var hann snöggur til svars og sagði; "Það er verið að hlaða undir möppudýr". Hér talar maður með áratugareynslu af þessum málaflokki.


Byggingarmat

Fékk í morgun Kristinn Hugason fyrrverandi hrossaræktarráðunaut til að koma og vera með forskoðun á byggingu kynbótahrossa. Þó hann sé ekki allra í hrossaræktinni þá er hann mjög góður í þessu, skemmtilegur og gefur raunsætt mat. Ég mætti með tvö trippi merina Sælu frá Stafafelli og stóðhestsefnið Topp frá Stafafelli. Þau tilheyra bæði vindóttu ræktinni minni. Merin móálótt og hesturinn bleikálóttur. Hafa bæði "sebra" þverrákir á fótum.

Merin fékk 8 fyrir höfuð, 8 fyrir háls, 7,5 fyrir bak, 8 fyrir samræmi, 8 fyrir fótagerð, 7,5 fyrir réttleika, 8,5 fyrir hófa og 7 fyrir prúðleika. Þetta gerir um 8 í heildareinkunn. Margt er enn óljóst með hestinn enda er hann bara þriggja vetra. Hann mætti vera stærri og bolléttari. En hver veit nema að hann taki vaxtarkipp núna þegar græna grasið er komið í haga. Hann var hjá 12 merum að Svínhóli í Dalasýslu síðastliðið sumar.

Íslenskir hestalitir eru einstakir að fjölbreytileika og er rétt að minnast starfs Friðþjófs Þorkelssonar í að taka myndir fyrir plaköt með hestalitum og skrifa um litaafbrigði. Hann lést nýlega. Mig langar að gera eina Mendelska tilraun síðsumars. Hún væri fólgin í því að fá nokkrar brúnar merar í hólf til Lokks. En brúnt er í raun að tjá engan lit nema grunnlitinn. Ef stóðhesturinn er arfhreinn þá ættu öll folöldin að vera vindótt undan brúnum merum. Ef ég skil erfðirnar rétt.  

ToppurV08SælaV08


Aldingarður

Fór á hlöðuball í Laxnesi í gærkvöldi. Feikifjör og mikið dansað. Ingólfur Kristjánsson læknir á Reykjalundi hefur skipulagt þetta í nokkur ár. Hann er þar með eigin hljómsveit sem spilar undir balli eftir að mannskapurinn hefur fengið sér súpu. Riðið var fram og til baka á skemmtunina. Það var engu líkt að fara á þeysireið í myrkri undir stjörnubjörtum himni í nótt. Bætti svo um betur og reið í dag á móti Fáksmönnum sem komu í kaffihlaðborð í Mosfellsbæ. Ljómi minn stóð sig vel.

Á fögrum vordegi eins og í dag þá vaknar löngunin að hefjast handa í garðinum. Hér á Reykjaveginum er mikið verk að vinna. Verðlaunagarður bæjarins frá 1989. Mikið af tegundum sem gaman er að læra meira um. Það er gefandi að hafa slíkan garð í góðri umhirðu, en honum hafði ekki verið nægjanlega sinnt um árabil. Þessir tugir tegunda minna á hverjum degi á fjölbreytileika lífsins. Líffræðilegur breytileiki er stærsta gjöf skaparans og ábyrgð mannsins er mikil að ganga ekki þannig fram að honum sé ógnað.

Þessi garður hefur vakið hjá mér áhuga á berjarækt. Við fluttum inn síðsumars fyrir tveimur árum og þá var mikið af stikilsberjum. Mér fannst þá strax yndisauki að fá mér nokkur ber þegar á leið í vinnu að morgni dags eða að koma heim að kvöldi. Berjategundirnar eru nokkrar í garðinum og langar mig að fjölga þeim. Spennandi að eiga mismunandi sultutegundir og jafnvel vín þegar hausta tekur. Kirsuberjatréð í garðinum blómstrar alltaf, en það gefur ekki af sér ber. Veit ekki hvort það er algilt hér á landi.

Síðan erum við með garðhús þar sem að eru rósir, eplatré og vínberjaplanta. Áætlað er að lagfæra það hús, þannig að það verði í senn gróðurhús og vinnustofa leirkerasmiðsins og málarans á heimilinu.

EpliXberStikilsberBrómberRifsberSólber

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband