Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Kjósum ríkisstjórn

Mikilvægt er fyrir kjósendur að vita hvaða ríkisstjórnarsamstarf er verið að velja þegar krossað er við listabókstaf í kjörklefanum. Telja má víst að um 70% kjósenda vilji sjá ríkisstjórn með félagslegar og lýðræðislegar áherslur leiða endurreisnarstarfið.

Það væri mikil gæfa fyrir Ísland að sú hefð næðist að ef Samfylking og Vinstri grænir ná góðri kosningu að þá myndi þeir ríkisstjórn. Það er staðreynd að ekki tókst að sameina allt félagshyggjufólk undir einu merki en staðan bíður upp á spennandi tækifæri.

Systurflokkarnir tveir myndu stilla upp mismunandi málefnum. Kjósandinn ætti því val um tvo flokka, sem væru ákveðnir að vinna saman í ríkisstjórn. Til að auka vald kjósandans enn meira myndu listarnir báðir bjóða upp á persónukjör.

Þetta gæti gefið af sér vissa festu og jafnframt fjölbreytileika. Það er mikilvægt að mynda sterka félagshyggjustjórn tveggja flokka eftir kosningar, þar sem ríkir andi gróskumikillar endurnýjunar í áhöfninni.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæði og einhliða upptaka evru

Það hugtak sem að er á mestum villigötum í íslenskri stjórnmálaumræðu í dag er sjálfstæði. Í fyrsta lagi er það ekki boðlegt að halda því fram að lönd eins og Frakkland, Þýskaland og Ítalía séu ekki sjálfstæð, þó þau hafi valið sér samstarf innan Evrópusambandsins. Í öðru lagi er það óljóst hvað það er í samningi um aðild að Evrópusambandinu sem gerir okkur meira ósjálfstæð heldur en aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

Þeir sem að eru hreinir fullveldissinnar hljóta að vilja segja okkur frá ýmsum öðrum alþjóðlegum skuldbindingum. Sjálfstæðið sé algjört og þjóðin eigi ekki að lúta neinu erlendu valdi. Í þeim pakka væru Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, EES samningurinn og margskonar samningar um norræna samvinnu. Samkvæmt þessu væri hægt að halda því fram að Ísland hafi bara verið sjálfstætt í tvö ár. Frá árinu 1944 þegar lýst var fullu sjálfstæði til 1946 þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar.

Í reynd eru fullveldissinnar að tala fyrir því að taka frelsi og sjálfstæði af einstaklingum í nafni frelsis og sjálfstæðis landsins. Sameiginlegt er með flestum þessum samningum að þeir tryggja okkur ýmiskonar réttindi. Takmörkun á frelsi eða skuldbindingin sjálf er grunnurinn að tækifærum og réttindum einstaklinga. Þannig mun sjálfstæði Íslands ekki skerðast meira en nemur ábyrgðinni að gangast undir sömu leikreglur og tíðkast meðal annarra ríkja í álfunni.

Samkvæmt kvöldfréttum Ríkisútvarpsins er það til skoðunar innan Evrópusambandsins að heimila einhliða upptöku evru, vegna gjaldeyrishruns í Austur-Evrópu. Það er mín skoðun að eftir að við erum búin að styrkja gengi krónunnar, þá eigum við að skoða það að taka upp evru einhliða. Með þeim hætti næðist meiri stöðugleiki á myntkörfulán til lengri tíma, verðbólga yrði sú sama og á myntsvæðinu, vextir yrðu lágir, við losnuðum undan verðtryggingu. Sú ákvörðun myndi stuðla að auknu frelsi og sjálfstæði Íslendinga til athafna og meiri tækifærum fyrir komandi kynslóðir.


Ráðherraræði, flokksræði, þingræði

Nú reynir á að ríkisstjórn, flokkar og þingmenn bretti upp ermarnar fram að þinglokum. Krafan í landinu er að þingmenn fylgi sannfæringu sinni og nýjum tímum fylgi aukin lýðræðisvitund. Hluti þess er að efla sjálfstæði þingsins og að sjá markvissan árangur af störfum þess. 

Framsóknarflokkurinn kemur fram þessa dagana eins og sá aðili sem hefur alla þræði í hendi sér. Þeirra hlutur og loforð gengur eingöngu út á að verja stjórnina vantrausti. Við erum óvön þeim vinnubrögðum sem ríkja þurfa þegar minnihlutastjórn er við völd. Þar getum við lært af norrænum frændum okkar. 

Ríkisstjórnin á ekkert frekar að leita til þingmanna Framsóknarflokks heldur en annarra þingmanna til að tryggja meirihluta fyrir góðum málum. Þingmenn eiga að geta lagt til mál sem að fá stuðning ríkisstjórnar. Þingið má ekki vera afgreiðslustofnun fyrir lög úr ráðuneytum, sem að hafa fengið blessun í flokkum þar sem formenn lofa hlýðni sinna þingmanna


mbl.is „Þetta var góður fundur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út með verðtryggingu af íbúðalánum

Var að koma úr Kópavogi af fyrsta opna fundi vegna prófkjörs Samfylkingarinnar. Það jaðraði við að það væri sviðskrekkur í mér. Óttaðist hanaslag þar sem hver ætti að selja sig og sitt á úthlutuðum þremur mínútum. Hamraborgin með sínum ferköntuðu útlínum er heldur ekki mjög ljóðræn og slökunarhvetjandi. Þá kom lagið "Undir regnbogann" inn á rásina í Pöndunni minni og bræddi upp klakaböndin í sálartetrinu. 

Mikið var talað um nauðsyn þess að leysa úr vanda heimilanna í landinu. Aðferð Framsóknarmanna um að gefa nammi á línuna með loforðinu um niðurfellingu 20% af skuldum var gagnrýnd sem ódýr kosningabrella. Hinsvegar finnst mér persónulega að Samfylkingin þurfi að vera þarna meira afgerandi. Það er ekki nóg að bjóða upp á greiðsluaðlögun og vaxtabætur á meðan verðtryggingin er alltaf að hækka heildartöluna.

Menn hafa orðið fyrir misjafnlega miklu tjóni af völdum bankahrunsins. Hornsteinn jafnaðarstefnu er ævinlega leitin að hinum hreina tóni réttlætis. Eigendur hlutafjár töpuðu miklu. Þeir vissu að þeir væru að taka áhættu. Þeir sem tóku myntkörfulán vissu af gengisáhættunni. Þó ég vilji sjá okkur vera hluta af stóru myntsvæði til lengri tíma litið þá mun krónan styrkjast og gefa okkur olnbogarými. Á meðan króna styrkist, þá er jen og franki að sogast inn í vandamál.

Sparifjáreign var tryggð, en verðtryggingin á þessum verðbólgutímum er að éta upp eignarhluta okkar í fasteignum. Við þessu þarf að bregðast og finna einhverjar leiðir til að miða við vísitölu á einhverri dagsetningu fyrir hrun og afskrifa það sem bæst hefur við. Það er grátlegt að horfa á eftir þeim fjármunum sem voru okkur mikilvægastir og útheimtu dýrmætustu svitadropana við að eignast húsnæði eyðast á báli, ásamt öðrum vanda.

Til að fá fleiri spil á hendi þarf að stórauka framleiðslu í landinu, innleiða að nýju verkmenningu, efla nýsköpun og sprotafyrirtæki. Mikilvægt er að þeim sem hafa fjárhagslegt svigrúm verði gert mögulegt að borga fyrir opinbera þjónustu. Hluti þess hóps sem að á óskertan sparnað vill hugsanlega leggja sitt af mörkum í endurreisnarstarfinu með því að afþakka stuðning ríkisins vegna tryggingagreiðslna, námskostnaðar barna og annarrar samfélagsþjónustu.


Jón Baldvin í öruggt sæti

Fyrir fimm dögum setti ég inn færslu þar sem að ég varaði við því að Jóhanna og Ingibjörg færu tvær að hanna einhverja atburðarás. Annaðhvort treysti Ingibjörg sér að gegna starfinu eða ekki. Ef svarið yrði neitandi að þá yrði að opna á lýðræðislegt uppgjör með formannskjöri. Síðan gekk þetta eftir og þá var ég enn nokkuð efins um þetta fyrirkomulag forsætisráðherraefni og formaður væri það besta og nægjanlega hreint yfir þeirri ráðstöfun.

Útspil Dags að gefa kost á sér í varaformannsstöðuna bætir verulega úr áhyggjum mínum varðandi skort á uppstokkun í forustunni. Athuga ber að veikindi Ingibjargar og kosningar bar bæði brátt að og held ég að skipan forustumála verði til mikils sóma og tekur tillit til veikinda formannsins. Eftir stendur að Jón Baldvin þarf að draga formannsframboð sitt til baka svo að honum verði ekki hegnt fyrir með litlu fylgi í prófkjörsframboði í Reykjavík. Þar á hann skilið að vera í öruggu sæti. Hann ásamt öðrum tryggir að Samfylkingin sé farvegur hugmyndalegs uppgjörs og heilbrigðasti vettvangur lýðræðis.

Ótrúlegt að lesa sum skrif sem að dæma hann úr leik vegna aldurs. Hann er einn öflugasti ræðumaður landsins og flottur penni. Hann hefur viljann og heilsuna. Líkt og því er hampað að jafnræði eigi að ríkja milli kynja að þá held ég að ef að breidd í aldri skiptir einhverju máli þá geti það ekki verið nema til góðs. Ef til vill ættum við að innleiða fléttulista að í sæti væri raðað þannig að sitt á hvað væru einstaklingar undir eða yfir fimmtugu. Er það nokkuð vitlausara heldur en að raðað sé sitt á hvað eftir kyni?


mbl.is 20 bjóða sig fram fyrir Samfylkingu í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formið ákveðið

Það eru fimmtán manns sem gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Hópurinn var boðaður í myndatöku á Grand Hótel. Það var ánægjulegt að sjá þennan myndarlega hóp. Okkur voru í framhaldi kynntar leikreglurnar af kjördæmisstjórn. Auglýsingar eru takmarkaðar og svo er fléttulisti. Það er mjög gott að vera laus undan einhverju peningakapphlaupi og á fundinum kom fram að enginn hefur áform um að setja upp kosningaskrifstofu vegna prófkjörsins.

Ég tel að ákvörðun lista með uppstillingarnefnd sé versti kostur,  síðan er til eitthvað sem nefnist forval og skilst mér að það sé ekki mikill munur á slíku hjá VG og því sem kallast prófkjör hjá Samfylkingu. Félagsmenn kjósa milli nafna sem gefa kost á sér. Ég hef enn væntingar um að persónukjör verði tekið upp í komandi kosningum. Þá er verið að færa aukin völd inn í kjörklefann. Milliliðalaust umboð sem að kjósandi gefur frambjóðanda.

Eftir þennan fyrsta dag í prófkjörsundirbúningi, sem ég ætla reyndar að hafa mjög lágstemmdan, velti ég nokkrum hlutum fyrir mér. Ég held að það sé í fyrsta lagi útilokað að sigra slíkt prófkjör ef maður býr í Mosfellsbæ, sama hversu vel kynntur einstaklingurinn er eða vinnusamur í baráttunni. Félagsmenn í Kópavogi og Hafnarfirði kjósa sína fulltrúa og eru hlutfallslega það sterkir að þeir eru ráðandi.

Hættan við prófkjör er líka sú að það ýti einstaklingum í sundur og því myndist ekki nógu góð hópstemming. Persónukjör myndi að nokkru draga úr þessu þar sem að frambjóðandi þarf að huga að tvennu, að efla umræðu í flokknum og leita eftir umboði hins almenna kjósenda. Það eru meiri líkur á að menn geti hafið sig upp fyrir sitt "ego" og hrepparíg. Að málefnin væru í forgrunni. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband