Færsluflokkur: Menntun og skóli

Felldu hann!

 Hindrun eða áskorun

Spurði kærustu eins stráks sem að er búin að vera kærulaus þassa önnina hvað ég ætti að gera við svona dreng. Hún hefur staðið sig vel og horfði glettin á svip til hans og sagði ákveðin; "Felldu hann!". Ég og kærastinn urðum hissa á þessari skeleggu afstöðu, en þá sagði hún enn ákveðnari; "Í alvöru!". Þessi piltur tilheyrir of háu hlutfalli nemenda með væntingar um að ná 4,5 og verða hækkaður upp í 5. En fyrir nokkrum dögum var í sjónvarpi viðtal við stúlku frá Kína sem býr hér ásamt fjölskyldu sinni og er í fremstu röð sem píanóleikari og er á öðru ári í læknisfræði. Hún lýsti aganum í Kína, að ætlast væri til að allir væru með tíu, en ef þú værir komin niður í átta þá væri það ekki nógu gott.

Á kennarafundi á föstudag var rætt um nauðsyn þess að koma upp meiri stoðþjónustu í skólanum. Stundum finnst manni að skólakerfið ætli sér að draga alla yfir lækinn, því fleiri hvítar húfur sem það framleiðir, þeim mun meira af ánægðum nemendum, kennurum og aðstandendum. En stundum eru mestu heilindin fólgin í því að segja nemendum að fara og gera eitthvað annað. Koma síðan aftur þegar þau eru tilbúin til að leggja það á sig sem þarf til að ná viðunandi árangri. Hindranirnar eru ekki settar upp til að fella einhvern heldur eru það kröfur eða viðmið til að opna á enn meiri menntun og tækifæri.

Þannig var kærastan að ýta við sínum gaur. Að gerast svolítið alvarlegri og stefnufastari í að undirbúa sig undir lífið.  Kæruleysið er hjá honum og hann á að axla ábyrgðina. Frelsið er fínt fyrir kínversku stúlkuna sem nýtur þess að vera laus undan líkamlegum refsingum í skólagöngu en jafnframt nægilega öguð til að nýta tækifæri menntunar. Sumir og því miður of margir íslenskir framhaldsskólanemar misnota frelsið út í agaleysi og virðingarleysi gagnvart þeim miklu fjármunum sem settir eru í að búa þeim tækifæri til menntunar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband