Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Felldu hann!

 Hindrun eða áskorun

Spurði kærustu eins stráks sem að er búin að vera kærulaus þassa önnina hvað ég ætti að gera við svona dreng. Hún hefur staðið sig vel og horfði glettin á svip til hans og sagði ákveðin; "Felldu hann!". Ég og kærastinn urðum hissa á þessari skeleggu afstöðu, en þá sagði hún enn ákveðnari; "Í alvöru!". Þessi piltur tilheyrir of háu hlutfalli nemenda með væntingar um að ná 4,5 og verða hækkaður upp í 5. En fyrir nokkrum dögum var í sjónvarpi viðtal við stúlku frá Kína sem býr hér ásamt fjölskyldu sinni og er í fremstu röð sem píanóleikari og er á öðru ári í læknisfræði. Hún lýsti aganum í Kína, að ætlast væri til að allir væru með tíu, en ef þú værir komin niður í átta þá væri það ekki nógu gott.

Á kennarafundi á föstudag var rætt um nauðsyn þess að koma upp meiri stoðþjónustu í skólanum. Stundum finnst manni að skólakerfið ætli sér að draga alla yfir lækinn, því fleiri hvítar húfur sem það framleiðir, þeim mun meira af ánægðum nemendum, kennurum og aðstandendum. En stundum eru mestu heilindin fólgin í því að segja nemendum að fara og gera eitthvað annað. Koma síðan aftur þegar þau eru tilbúin til að leggja það á sig sem þarf til að ná viðunandi árangri. Hindranirnar eru ekki settar upp til að fella einhvern heldur eru það kröfur eða viðmið til að opna á enn meiri menntun og tækifæri.

Þannig var kærastan að ýta við sínum gaur. Að gerast svolítið alvarlegri og stefnufastari í að undirbúa sig undir lífið.  Kæruleysið er hjá honum og hann á að axla ábyrgðina. Frelsið er fínt fyrir kínversku stúlkuna sem nýtur þess að vera laus undan líkamlegum refsingum í skólagöngu en jafnframt nægilega öguð til að nýta tækifæri menntunar. Sumir og því miður of margir íslenskir framhaldsskólanemar misnota frelsið út í agaleysi og virðingarleysi gagnvart þeim miklu fjármunum sem settir eru í að búa þeim tækifæri til menntunar.


Móskarðshnjúkar

Í skarðinuGengum langleiðina á Móskarðshnjúka í dag en það er í seríu af fjöllum sem er verið að ganga á sem undirbúning fyrir Hvannadalshnjúk. Góð færð var í byrjun og upp undir miðhnjúk. Þar tók við harðfenni utan í bogalaga götunni upp í skarðið.

Ég ætlaði að reyna að sperrast á toppinn upp úr skarðinu og ná ferðafélögunum á niðurleiðinni, en kviðurnar og skafrenningur voru það snarpar þar að ég ákvað að reyna málið ekki frekar. Rokkviðurnar voru á bilinu 15-30 m/s. Skarðið er í um 700 m hæð og það var léttskýjað og mikið útsýni.

Leið Móskarðshnjúkar

Farið verður næsta sunnudag á Þríhyrning á Suðurlandi, þar næst á Heiðarhorn á Vesturlandi, síðan þvert yfir Esjuna upp Þverfellshorn og niður Móskarðshnjúka. Það eru allir velkomnir að slást í hópinn að kostnaðarlausu, fyrir utan eigin bílkostnað.

GPS punkta af leiðinni tók Kristinn Arnar Guðjónsson jarð- og landafræðikennari, en ég tók vídeó sem gæti verið sett hér inn síðar til gamans.

 


Tími sáttagjörða

Ein helsta ástæða þess að "andstæðingarnir" í litrófi íslenskra stjórnmála mynduðu ríkisstjórn var sterkur meirihluti. En stjórnarmyndun var fylgt úr hlaði undir því fyrirheiti að leita sátta um farsælar leiðir við stjórn landsmála. Nú er ljóst að gengið hefur verið glæfralega fram í fjármálum síðustu ár, einstaklingar, heimili og fyrirtæki. Skuldir Íslendinga eru svimandi háar, þó ríkissjóður sé að mestu skuldlaus, enda búin að selja margar af bestu mjólkurkúnum, bankana og símann.

Stjórnvöld síðustu áratuga geta þó ekki annað en borið ábyrgð á græðgisvæðingunni í landinnu. Því stingur það mjög í stúf að heyra Davíð Oddsson tala til landsmanna með þeim hætti að honum komi þetta á óvart og eigi ekki hlut að máli. Neyslan, þenslan, eyðslan og græðgin er skilgetið afkvæmi frjálshyggjustefnu fyrrverandi forsætisráðherra. Nú kemur síðan fram að þessi mikla velmegun sem hann státaði af að innleiða hér á landi var meira og minna loftbóla byggð á hömlulausum erlendum lántökum og viðskiptahalla.

BND1Stjórnarandstaðan talar um "slappa" og "ónýta" ríkisstjórn. En trúlega skynja flestir að það er ekki rétti tíminn fyrir sundrungu pólitískra víga og við verðum sameiginlega að benda á leiðir út úr vanda. Hver og einn verður að draga úr sóun og þess vegna er eðli vandans ekki austur á Kárahnjúkum eins og formaður Vinstri grænna hélt fram í kvöldfréttum. Við höfum eytt um efni fram. Stefnum á að kaupa örlítið færri jólaseríur fyrir næstu jól.

Ágætt og upplýsandi viðtal er við Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í 24 stundum í dag. Hann bendir á að verkfæri Seðlabankans hafa engu skilað. Vextir eru komnir upp í 15% til að reyna að láta þá hafa áhrif, en einmitt með þeim hætti erum við að skipa okkur í flokk með löndum með mjög óþróað fjármálaumhverfi og undirstrika þann ótta sem erlendar lánastofnanir hafa haft um stefnuna hér á landi í peningamálum.

Í Evrópumálum er þessi fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins á svipuðu róli og forveri hans hjá VSÍ og fyrrum forsætisráðherra Þorsteinn Pálsson. Þessir menn þekkja betur en margir hið alþjóðlega fjármálaumhverfi. Talsmaður atvinnulífsins telur að peningastefnan hafi dregið úr tiltrú á gjaldmiðlinum og segir að eftir "því sem núverandi ástand varir lengur verður evran sífellt meira aðlaðandi kostur í huga almennings og fyrirtækja".

Vilhjálmur hefur mjög jákvæða afstöðu gagnvart ESB sem slíku, en efast um fjárhagslegan ávinning fyrir utan það er lítur að myntbandalaginu. Hann virðist því ekki reikna dæmið út á sama hátt og Eiríkur Bergmann og félagi hans gerðu í nýlegu riti og komust að þeirri niðurstöðu að efnahagslegur ávinningur af aðild væri mjög mikill. Hef ekki séð neinn draga í efa útreikninga þeirra. Ljóst er þó að engin getur reiknað slíkt fyrr en samningsdrög liggja fyrir í framhaldi af aðildarviðræðum.

Ríkisstjórnin verður á næstu misserum að koma inn sem sterkari kórstjóri og stilla af hina mismunandi tóna og hagsmuni. Hlusta og taka afstöðu, örva umræður og framkvæmdir. Hjálpum ríkisstjórninni, enda berum við mikla ábyrgð á ástandinu. Það eru ekki aðrir klárar sterkari til að bera trússið heldur en núverandi stjórnarflokkar. 


Helgarlagið Shall We Dance?

Bíómyndin Shall We Dance með Richard Gere og Jennifer Lopez í aðalhlutverkum var sýnd í Sjónvarpinu á mánudag. Í lok myndar kom fram í texta að hún var tekin að stórum hluta í Winnipeg, Manitoba. Á þessum Íslendingaslóðum tók ég háskólapróf fyrir nok löngu. Þá sveif nú ekki suður-amerísk dansstemming yfir vötnum. Einhverjir útnefndu hana borg þungarokksins í Ameríku, enda slíkur frumkraftur meira við hæfi í frosthörkum miðhluta Kanada heldur en sólarsamba eða ástríðufullur tangó.

Í myndinni laumast lögfræðingurinn sem Richard Gere leikur á námskeið í suðrænum dönsum. Á meðfylgjandi myndbandi er hann búin að láta undan þrýstingi og æfir sig fyrir þátttöku í danssýningu skólans. Danskennarinn Jennifer Lopez nær að kynda upp kröftuga sveiflu í gamla silfurrefnum undir lagi með Gotan Project. Ég hef haft það mér til dundurs og ánægju að safna að mér suðrænni tónlist síðustu ár og Gotan er í sérstöku uppáhaldi. Þeir spila flotta og nútímalega tangótónlist, óræð og afgerandi í senn.

 


Blóm vikunnar Meyjarauga

null

Meyjarauga eða Flagahnoðri finnst um mest allt land og vex upp í allt að þúsund metra hæð. Hann finnst í rökum jarðvegi. Er lítið blóm en líkt og Dýragras er fegurðin þeim mun meiri þegar maður fer að skoða það betur. Þessi planta var í blóma þann þrettánda ágúst 2005 á mel upp af Leiðartungum, ofan við Hinrik á leiðinni í Víðidal, Stafafelli í Lóni.


Jón Klisja

 Jón Klisja

Mikið er ég orðin leiður á að horfa upp á fýlusvipinn á honum John Cleese út um allt. Hver eru skilaboðin? Maður rekst á Jón sem andlit á hliðarborðum netsíðna, sér hann í sjónvarpinu hvern dag með látbragð sem á að vera fyndið, út í banka er Jón í mannsstærð út á gólfi og á plakötum upp um alla veggi. Eru skilaboðin þau að Kaupþing sé alþjóðlegur banki sem hefur efni á að kaupa dýra erlenda leikara?

Fyrsti viðskiptareikningurinn minn var í KASK á Hornafirði og gengdi því hlutverki að þar voru færðar til bókar greiðslur fyrir þau fáu lömb sem ég átti sem barn og unglingur. Stofnaði svo bók í Búnaðarbankanum þegar leiðin lá í Menntaskólann á Laugarvatni í lok áttunda tugar síðustu aldar. Síðan hefur maður meira og minna fylgt með í gegnum nafnabreytingar og sameiningar.

Man eftir því að einhverntíma upp úr tvítugu var ég á stórdansleik í Sindrabæ á Höfn. Þá var nýlega byrjað að selja áfengi á bar í félagsheimilinu, en ekki lengur þörf á að pukrast með slíkt undir borðum og hugsanlega rennbleyta sig í klofinu við að blanda. Nauðsynlegt að fá sér örlítið í tána til að hafa hugrekki í samskipti við göfugra kynið. Ég fer því á barinn með þykkt veski, sem var þó lítið annað en ávísanahefti, greiðslumáti þess tíma.

Falleg stelpa, með sumarvinnu í Landsbankanum stóð við hliðina á mér. Þegar hún sér mig skrifa á grænt blaðið með sáðmanninum, tákni Búnaðarbankans, segir hún snöggt, um leið og hún sveiflar hárinu; "Ój, ertu í beljubankanum?". Það þótti nefninlega dálítið fínt að vera að vinna í Landsbankanum á Höfn. Afgreiðsludömurnar þar voru þær einu, fyrir utan lögguna, sem gengu um í einkennisbúningum.

Þannig að ég skil af biturri reynslu að ímynd banka skiptir máli, en sagt er að allt fari í hring og er ímynd ræktunarmannsins nokkuð verri en þetta bruðl og heilaþvottur með John Cleese?


Fyrirfram gefin niðurstaða

TryggviGÁrni Mathiesen gagnrýnir spurningar Umboðsmanns Alþingis og finnst þær benda til að hann hafi fyrirfram gefið sér niðurstöðu. En umsækjendurnir sem metnir voru hæfastir og eru búnir að vísa máli sínu til umboðsmannsins voru einmitt ósáttir við að reynsla þeirra og menntun fengju ekki vigt af því að stjórnmálatengsl gáfu fyrirfram gefna niðurstöðu.

Þegar farið er yfir rök ráðherra er eðlilegt að kryfja þann þátt sem lítur að mati á hvernig reynsla af því að vera aðstoðarmaður ráðherra gefur sambærilega reynslu og af dómarastörfum, en ráðherra hefur sett það fram til að verja ákvörðunina. Það er ekki sterkur leikur hjá Árna að ætla umboðsmanni annað en heilindi.


Hálfspillt eða alspillt

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar er gagnrýnt í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir "óheppileg" tengsl manna báðum megin borðs, seljenda og kaupenda við ráðstöfun eigna. Ekki verður fram hjá því litið að flokksskírteini virðast hafa verið í meira vægi en margt annað í þessu ferli.

Komist er að þeirri niðurstöðu að félaginu hafi verið heimilt að selja eignir enda stofnað til þess. Einnig er því haldið fram að hagsmuna ríkisins hafi verið gætt. Eftir stendur sú áleitna spurning að þó að ekki hafi verið nauðsynlegt að selja í gegnum Ríkiskaup að þá sé fylgt meginviðmiðum um opin útboð og þannig gera slík kaup öllum aðgengileg.

Styð félaga Bjarna Harðarson heilshugar að vekja athygli á þessu máli og held að hans nef fyrir réttlæti sé næmt í þessum efnum. Hann bendir á að það sé spurning hvort að Ríkisendurskoðun sé rétti aðilinn til slíkrar úttektar. Ef til vill hefði Umboðsmaður Alþingis getað metið siðferðileg álitaefni, eins og það að allri þessari framkvæmd er haldið innan lokaðrar klíku.


mbl.is Ekki skylda að bjóða eignir út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minkasíur

MinkasíurÞað var ánægjulegt að sjá viðtal við Reynir Bergsveinsson föðurbróður minn frá Gufudal áðan í Kastljósinu. Hann hefur þróað svokallaðar "minkasíur" sem er afkastamikil aðferð til að hreinsa ár og vötn af hinum grimma skaðvaldi sem slapp á sínum tíma út í íslenskt vistkerfi.

Reynir er mikið náttúrubarn og búin að vera við veiðar í meira en hálfa öld. Hann hefur safnað mikilli reynslu og þekkingu á þessu sviði sem að er gott að hann nái nú að nýta og miðla með þessum hætti. Þó hann sé ekki eins léttur í spori og þegar hann var tvítugur þá fer hugurinn hratt yfir.

Myndin er af vef BB á Ísafirði. Hér eru tenglar inn á fréttir af síunum og veiðiaðferðum Reynis.

http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=51666

http://www.bbl.is/index.aspx?groupid=38&TabId=46&ModulesTabsId=191&NewsItemID=1661


Lífrænn áburður

 Lífrænn áburður

Góður búmaður hagræðir og leitar tækifæra. Talað er um það sem eitthvað lögmál að matvælaverð hækki um tugi prósenta á næstu vikum. Þar er talin gengisfelling upp á 30% frá áramótum og fyrirsjáanleg hækkun um hátt í 100% á innfluttum áburði. En eðlilegt er að innflytjendur og framleiðendur sýni aðhald, þannig að slíkar verðbreytingar velti ekki af fullum þunga á heimilin í landinu.

Mikið er af ónotuðum túnum í sveitum, þar sem búskapur hefur dregist saman og bæir farið í eyði. Yfirleitt er auðsótt að fá þessi tún til notkunar því eigendur vilja ekki að þau fari í órækt. Notkun tilbúins áburðar beinist einkum að því að hámarka grassprettu. Ná miklu magni af hverjum hektara. Lífrænn áburður hefur þann ókost að næringarefnin eru lengur að síast úr honum í jarðveginn. 

Mikið magn fellur til af lífrænum úrgangi í landinu bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Á bæjum eru víða til rúllur af heyi sem að er orðið of gamalt til að nýta og að sjálfsögðu húsdýraáburður. Mikið fellur til af lífrænum efnum í sláturhúsum og frystihúsum. Hugsanlegt er að einhverju af þessu megi breyta í form sem að hentar til dreifingar á tún.

Lífrænn áburðar er hægvirkari þar sem næringarefnin losna í réttu hlutfalli við virkni örvera sem eru að brjóta niður hin lífrænu efni. En lífrænn áburður hefur ýmsa kosti umfram tilbúin. Lífrænn áburður bætir jarðvæginn og geri hann ríkari af næringarefnum, sem að skilar sér í aukinni þéttni næringarefna í grasinu og afurðunum.

Vatn binst betur í jarðvegi ef notaður er lífrænn áburður og er því aðgengilegt plöntunni lengur (minni líkur á ofþornun) og minna af næringarefnum skolast burt með rigningarvatni. Lífræn efni bæta virkni rótarsveppa sem stuðlar að betri upptöku næringarefna. Einnig er meiri virkni bakterí og maðka sem bæta jarðveginn.

Nóg er til af túnum og þó sprettan á hektara væri ekki jafn mikil, þá fást næg hey til og hollari vara. Sennilega gæti aukin notkun lífræns áburðar einkum átt við í sauðfjárbúskap og kjötframleiðslu, þar sem að mjólkurframleiðsla byggir trúlega á kraftmiklu heyi. En þegar horft er til bættrar næringar, þá gæti aukin notkun lífræns áburðar einnig átt við um mjólkina.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband