Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Steingrímur lætur villtustu drauma Björns rætast

Svo lengi sem Vinstri grænir fordæma ekki skemmdarverk og ofbeldishegðun þessara mótmælenda er Steingrímur J að láta drauma Björns Bjarnasonar um íslenskan her- og víkingasveitir rætast. Þessir mótmælendur eru ekki þeir sem að voru að missa vinnuna eða þurftu að leita til hjálparstofnana fyrir hátíðirnar. Hér eru einstaklingar sem aldrei hafa þurft að líða skort en ganga fram af hrottaskap gegn okkar lýðræðisskipan, ásamt því að hindra að við getum haldið í venjur okkar og siði. Þeir endurspegla svo sannarlega ekki þjóðina.
mbl.is Kryddsíld lokið vegna skemmdarverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinumst um að sameinast

Gamansaman

"Political parties are such a strong dividing force in our society" sagði bandarískur prófessor í stærðfræði sem var með mér í gönguferð fyrir tveim árum. Hann var vottur jehóva. Þessi setning hefur verið mér minnisstæð. Við flokkum hvert annað með tilliti til þess hvort að viðkomandi sé með okkur í liði. Fólk í þessum flokki er svona og öðruvísi í hinum. Að vissu leyti hafa slíkar fullyrðingar sitt gildi. En skila átök flokka árangri? Er æskilegt að hafa sem flesta flokka? Átök milli þeirra eiga að skila nýjum hugmyndum, lýðræðislegum afrakstri sem skilar góðu samfélagi. Síðan skili kosningar okkur besta fólkinu að landstjórninni.

Háværar raddir eru um þörf á nýjum flokkum. Hinir gömlu hafi reynst ónothæfir og sofandi á verðinum. Sjálfstæðir sjálfstæðismenn, evrópusinnaðir sjálfstæðismenn, framsóknarmenn af gamla skólanum og af nýja skólanum, hægri og vinstri kratar, frjálslyndir og þunglyndir, nýtt afl og gamalt afl, lýðræðishreyfing og landshreyfing, borgaralegir og vinstrisinnaðir flokkar. Öllu þessu verður síðan att í hanaslag kosningabaráttu, en kjósendur fá engu ráðið um þá ríkisstjórn sem kæmi upp úr kössunum. Ekki einu sinni möguleika á að raða frambjóðendum á lista í kjörklefanum.

Framagjarnir vilja nýja flokka, en fólkið vill einfaldlega öflugra lýðræði og upplýstari umræðu. Ef til vill er nóg að hafa einn flokk eða engan flokk ef við göngum út frá því að sérhver þingmaður fylgi sannfæringu sinni en láti ekki teyma sig áfram út frá ríkjandi skoðun í flokksbásnum. Þannig er það sérstakt að stærsti flokkurinn geti skipt um skoðun í grundvallarmáli á einum landsfundi. Allir þögðu áður eða melduðu sig á móti Evrópusambandinu, en munu trúlega eftir landsfund annað hvort þegja eða tjá sig hlynnta fullri þátttöku í samvinnu innan Evrópu.

Þó er enn furðulegra að fulltrúar flokks sem krefjast lýðræðis á torgum ástundar það ekki á heimavelli. Gerir kröfu um tvöfalt þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu en bíður ekki félagsmönnum sínum upp á almenna atkvæðagreiðslu um stefnu flokksins. Slíkur flokkur er ekki lýðræðislegur vettvangur umræðu og ákvarðana. Þar er sami andi og var hjá sósíalistum og kommúnistum síðustu aldar. Valdhafarnir mynda feðraveldið sem að miðlar réttu frösunum og einu réttu útgáfu sannleikans. Opnun í átt að almennum áhrifum flokksfélaga og lýðræði eru spor sem vekja óþægilegar minningar. Margrét hlaut kosningu en ekki Steingrímur. 

Samfylkingin er mynduð úr nokkrum flokkum. Fyrst tilheyrði fólk einhverjum armi, en nú hefur hinn almenni kjósandi ekki lengur áhuga á slíkri sorteringu. Satt best að segja ríkir þar sú stemming að fjölbreytileiki í skoðunum sé styrkur fyrir umræðuna og lýðræðið. Vandamál flokksins nú er að þingflokkurinn virðist haldinn ákveðinni meinloku; "we are the chosen ones and you are the frozen ones". Þegar flokkurinn var myndaður möndluðu forystumenn flokkana sem mynduðu Samfylkinguna með alla þætti í því ferli. Svo virðist sem Samfylkingin sé að nokkru leyti ennþá brennd þessu marki þingflokksræðis

Engu að síður er auðveldasta leiðin til að tryggja áhrif almennings fólgin í að ljúka sköpunarferlinu sem fór af stað með myndun Samfylkingar. Það hefur tekist að mörgu leyti mjög vel, en látum ekki flokksforystuna ofdekrast á fílabeini. Nú er kominn tími til að grasrótin taki yfir stefnumótun og krefjist þess að vera virkir þátttakendur. Ráðherrarnir ástunda ekki samræðustjórnmálin, heldur vanvirða þing og þjóð með upplýsingaskorti og baktjaldamakki. Það er enn sannleikur í þeirri visku að átakastjórnmál flokka skila litlum árangri, en fjölbreytileiki í viðhorfum innan lýðræðislegs flokks er efniviður til góðra verka. Það er fátt dýrmætara fyrir flokk, land og þjóð.


Tengslin við fólkið

Það er ánægjulegt að farið sé af stað með átak í merkingu gönguleiða í Mosfellsbæ. En allt sem gert er til eflingar mannlífs þarf að vera unnið í sem mestu samstarfi við áhugasamt fólk. Annars er hætta á að verkefnið verði sálarlaust. Útimarkaðir, göngustígar og uppbygging miðbæjar eru allt gullin tækifæri til góðra verka. En ef því er óþarflega miðstýrt frá flokksstýrðum kontórum að þá er hætta á að verkefnin tapi neistanum.

Þannig hefur útimarkaður Varmársamtakanna í Álafosskvos haft aðdráttarafl og sjarma sem dregið hefur að þúsundir, en einhverra hluta vegna náði jólamarkaður á miðbæjartorgi í Mosfellsbæ ekki neinu flugi og þar komu einungis nokkur hundruð manns alla aðventuna. Miðbær í Hafnarfirði er hlýlegur og þar streymir fólk á veitingahús um helgar. Miðbær Mosfellsbæjar er ekki líklegur til eflingar mannlífs, einkennist af sjoppu og tveimur lítið sóttum knæpum.

Göngustígarnir í þéttbýlinu sjálfu í Mosfellsbæ hafa hinsvegar vakið athygli og verið verðlaunaðir af samtökum sveitarfélaga. Þar ber að þakka grasrótar- og frumkvöðlastarfi umhverfissamtakana Mosa á sínum tíma. Þar var Andrés Arnalds forystumaður og á vegum Mosa var unnið mikið sjálfboðaliðastarf við stígagerð. Oddgeir garðyrkjustjóri fylgdi eftir og útvíkkaði það starf. Nú eru tilteknir einhverjir sjötíu kílómetrar sem eigi að merkja.

Veit ekki hvernig þessar áætlanir sem nú á að fara af stað með hafa verið unnar. Hvort metnaður var lagður í að stilla strengi með þeim sem áður höfðu unnið að verkefnum í þessum málaflokki eða þeim fjölmörgu bæjarbúum sem að eru öflugt útivistarfólk? Ég hefði verið til í samvinnu við sem flesta um þetta verkefni.


mbl.is Skátar stika gönguleiðir í Mosó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tajabone Helgarlagið

Ismael Lo hefur verið kallaður "Bob Dylan Senegals". Auk söngsins leikur hann á gítar og munnhörpu og textarnir hafa mikla tilvísun í hans samfélag. Þekktasta lag hans er Tajabone sem varð frægt í myndinni All about my mother með hinum spænska Almadovar.

Það er sérstök blanda af þjáningu, hreinleika og bjartsýni sem maður upplifir við að hlusta á þetta lag. Mikilvægi mannlegrar samkenndar. Slíkar tilfinningar eru viðeigandi á jólum.

 


Orðið guðdómlegt - Gleðileg jól

 

Jól 2008 

Í upphafi var orðið

og orðið var hjá Guði

og orðið var Guð

Upphaf á Jóhannesarguðspjalli

    Við erum fædd til að staðfesta

 dýrð Guðs, sem býr innra með

okkur öllum

Nelson Mandela

Ég valdi ástina því hatrið

var of þung birgði

að bera

Martin Luther King

Jolatre

Gleðileg Jól


Fegurðin er skuldlaus

Nú er ég kominn í jólafrí frá skólanum. Lokið törn í yfirferð á prófum. Sameiginlegt jólahlaðborð með vinnufélögum í gærkvöldi og tónleikar með Bubba Morthens í Hlégarði í framhaldi. Fór svo í steypuvinnu með félaga mínum, sem stendur í endurbyggingu á hesthúsi og vorum við að til klukkan þrjú í nótt. Það voru því lúin bein og útkeyrt stjórnkerfi sem læddust undir sæng.

Í morgun var svo þessi fallega stilla og heiðskýr himinn. Einn af þessum dögum sem að fá mann til að njóta heiðríkjunnar. Staldra við. Góð tilfinning. Allt svo jólalegt. Stutt þangað til dag fer að lengja. Nokkur öflug vetrarveður í janúar og febrúar. Svo fer að losna um klakabönd til fjalla. Hver dagur hluti af hringrás og um leið nýtt upphaf.

Fyrir tæpri viku hitti ég á ungan mann fyrir utan leikskólann. Mamma hans var inni að ná í stóra bróður. Ég sagði hæ við hann. Hann var svo íhugull á svipinn, en sagði svo af mikilli innlifun og undrun; "Sjáðu tunglið". Það var þessi hreini tónn í röddinni. Fölskvalaus aðdáun, ásamt hæfileikanum til að geta tekið eftir og dáðst að hinu smáa, sem verður oft hversdagslegt.

Ég ákvað í framhaldi að taka mynd af þessu fallega og fulla tungli sem að strákur hafði bent mér á. Það var þarna í mestu makindum yfir Helgafelli og sést á milli trjánna úr garðinum. Núna þegar ég vaknaði í morgun þá smellti ég tveimur myndum af fegurðinni hér í garðinum.

Hjá húsinu sem að við eigum ekkert í lengur ef reiknað er eftir krónu, en við eigum ennþá helminginn í ef reiknað er eftir evrum. Tunglið sem var fullt yfir Helgafelli fyrir viku er i dag hálft yfir Úlfarsfelli. Fegurðin er samt óbreytt og skuldlaus. Reiknast ekki í krónum. 

 

     Fullt tungl                Ulfatungl

 

Listaskáli

 


"Moggalýgi"

Morgunblaðið hefur alla sína tíð verið sakað um að ganga erinda íhaldsins. Matthías Jóhannessen fyrrum ritstjóri hefur lýst því hversu ósáttur Davíð Oddsson varð þegar hann ákvað að setja skrif frá honum inn sem aðsenda grein en ekki grein á innopnu. Ritstjórn blaðsins hefur ávallt hrokkið í flokksgírinn fyrir kosningar. Svo rammt kvað að þessu fyrir síðustu kosningar að svo virtist sem hún leggði ávallt stefnumál og gjörðir Samfylkingarinnar út á versta veg. Mál Árna Johnsen var skýrasta dæmið um flokkslega hagsmunagæslu Morgunblaðsins. Þar flutti blaðið litlar fréttir og seint.

Einhvern tímann hefðum við Bjarni Harðarson verið sammála um að peningaöflin töluðu máli Sjálfstæðisflokks í gegnum Morgunblaðið. Nú minnist hann ekki á slíkt sem vandamál, heldur fær hann það út án þess að nefna dæmi að Samfylking fái einhverja silkimeðferð hjá fjölmiðlum og auðmönnum. Það hefur verið lenska að tala illa um Fréttablaðið. En mér finnst persónulega glæsilegt að fá svo vandað fríblað, sem að hefur tryggt að Morgunblaðið er ekki eina blaðið á markaðnum. Vilja menn það?

Það er líka nokkuð langsótt að Samfylkingin eigi einhverja silkimeðferð vísa hjá Þorsteini Pálssyni ritstjóra Fréttablaðsins. Ef til vill er það sem eftir stendur pirringur hjá þjóðernissinnuðum stjórnmálamönnum að ritstjórnarstefna beggja blaðana hefur litið jákvæðum augum til fullrar þátttöku Íslands í pólitískri samvinnu í Evrópu. Það tónar vissulega við stefnu Samfylkingarinnar. Þar eru ekki ástæðurnar óeðlileg tengsl við auðmenn, heldur er hér samhljómur flokksins við framsækið og vel menntað fólk t.d. í blaðamannastétt.


mbl.is Stjórna í gegnum fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lýðræði! - Ekkert kjaftæði!"

Ítrekað hefur komið fram í könnunum að meirihluti stuðningsmanna Vinstri grænna vill hefja aðildarviðræður að Evrópusambandinu og er hlynnt pólitískri, menningarlegri og efnahagslegri samvinnu í álfunni. Það sem vekur athygli er að þeir eru eini flokkurinn sem ekki ætlar að leyfa flokksmönnum að kjósa um hvort þeir eru með eða á móti. Feðraveldið gefur út meldingu um að flokkurinn sé meira á móti aðild en nokkru sinni fyrr. Móttakið hina einu réttu afstöðu og þegiði svo!

Drífa Snædal framkvæmdastjóri VG sem sást á hliðarlínunni hjá hettugenginu sem gerði aðför að Alþingi og ríkisstjórn, ber að íhuga hvort lýðræðisástin gæti ekki byrjað á heimavelli. Það þýðir ekki að ganga hrópandi um stræti og torg ef ekki er svo fylgt eigin boðorðum. Bar þennan skort á lýðræði undir samkennara í flokknum í dag og tók hann heilshugar undir að stefnumótun VG í Evrópumálum sé óeðlileg. Hún sé "þunglamaleg og gamaldags".


Zorba Helgarlagið

Alexis Zorba er sögupersóna í bók sem að myndin Zorba the Greek er byggð á. Aðalhlutverk myndarinnar ar leikið af Anthony Quinn. Mekis Theodorakis gerði hinsvegar hljómlistina í myndinni og lokalagið gerði gríska þjóðlagahefð þekkta um allann heim. Theodorakis hefur blandað saman stjórnmálum og tónlist á lífsferlinum. Hann hefur barist gegn kúgun og misbeitingu valds eins og hún birtist í margvíslegum myndum.

Grískir þjóðdansar eru ekki bara stignir á sagnakvöldum heldur eru þeir lifandi þáttur í þjóðlífinu. Dansinn sem varð til 1964 með myndinni Zorba the Greek kallast syrtaki og er blanda frá hægum og hröðum þjóðdönsum. Það er ekki bara þjóðdansahefðin sem gerir lagið Zorba svo grískt og þjóðlegt. Þar er einnig spilað á hið gríska fjögurra strengja hljóðfæri bouzouki, sem á reyndar uppruna sinn að rekja til Tyrklands.

 


Aumingi, nauðgari og illmenni

Veröldin er uppfull af illsku, óhæfuverkum og spillingu. Eitt versta dæmið um þessa þróun birtist mér í gær. Þá varð ég vitni af því að Samfylkingarmaður misnotaði illa útleikna þjóðarsál á hrottafenginn hátt.

Hann skrifaði færslu á síðu sinni sem nefndist; FULLKOMINN, HEILNÆMUR og AUÐMJÚKUR. Um langt skeið höfðu heimsóknir á síðuna ekki farið jafn neðarlega. Enginn gerði athugasemd. Ákvað að sjá muninn ef ég setti eitthvað nógu geðveikt, rosalegt og svakalegt í titilinn.

Það vex og dafnar sem við beinum athyglinni að hér í bloggheimum, sem og annars staðar. Þakka þér fyrir þátttöku í tilrauninni. Smile  Angry  Heart  Devil  Halo  Crying


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband