Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Áfram morgunleikfimi á Gufunni!

ValdimarÞað er ótrúklegt að Rás 1 ætli að skera niður nokkura mínútna morgunleikfimi í sparnaðarskyni. Það er ekki ráðdeild á krepputímum að leggja af eitt elsta tákn þess að ríkisvaldið hafi skilning á mikilvægi lýðheilsu í landinu.

Amma mín varð 106 ára og var um skeið elsti Íslendingurinn. Ég ólst upp við að hún væri með bros á vör, full af stolti yfir því hvað hún væri flínk í að gera teygjur, beygjur og sveigjur eftir hressilegri leiðsögn Valdimars Örnólfssonar við undirleik Magnúsar Péturssonar.

Þetta eru ekki góðar kveðjur til þeirra sem ekki komast út í líkamsþjálfun. Eldri borgarar sem hafa vanist þættinum áratugum saman eiga ekki að þurfa að missa af þessum dagskrárlið á miðjum vetri í rótleysi efnahagsþrenginga.

Nær væri að skera niður í síbiljunni sem er eins á öllum stöðvum, frekar en tapa niður sérkennum Ríkisútvarpsins og þá einkum Gufunnar. Ef allir poppfræðingarnir halda sínum skerf, en morgunleikfimin þarf að fara út, þá eru áherslur stofnunarinnar taktlausar.


Steingrímur Obama

Var orðinn velviljaður hugmyndinni um kosningar í vor. Það væri einmitt leið fólksins til að endurmeta hverjum væri best treystandi til að sjá um endurreisnarstarfið. Eftir framgöngu VG í þinginu í dag þá er ég algjörlega orðinn mótfallinn því að kjósa í bili.

Steingrímur talar um að "nýta reiðina". Þeir notuðu hana þó einkum til að fá útrás á húsmunum. Steingrímur lýsti þörfinni á að gefa þjóðinni von líkt og gerðist með kjöri Obama í Bandaríkjunum. En stef hins verðandi forseta var að vekja mannúð og tiltrú á breytingum.

Forystumenn VG virðast gera út á óttann og reiðina án vonar og bjartsýni. Eigum við bara val milli bölmóðs og þess að hardera veturinn af? Þarna er svigrúm Samfylkingarinnar og hún verður að vera virk í hinni hugmyndafræðilegu grósku sem liggur í loftinu. Miðla, hlusta og taka tillit.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg og Evrópa

GB&MMFormaður Samfylkingar ætlar ekki að nýta gott fylgi flokksins í skoðanakönunum með því að rjúfa stjórn og boða til kosninga. Eitt af stærri málunum sem að hún vill sjá að ríkisstjórninni auðnist að ljúka er að koma af stað aðildarviðræðum við ESB. Miklar líkur eru á að Þorgerði Katrínu hafi tekist í janúar að ná fram stefnubreytingu í Sjálfstæðisflokknum varðandi afstöðu til fullrar þátttöku í samvinnu Evrópuþjóða. Þar er VG eini flokkurinn sem þumbast gegn vilja flokksfélaga.

Mjög mikilvægt er að eiga samvinnu við aðrar norðurlandaþjóðir um þennan málaflokk. Ísland, Noregur, Danmörk og Svíþjóð eiga hiklaust að sigla upp að hlið Finnlands með því að vera öll fullgildir aðilar að sambandinu og með evru sem gjaldmiðil. Sameinuð geta Norðurlöndin verið álíka sterk eining og fjölmennari þjóðirnar sunnar í álfunni. Það verður ef til vill sjálfstæðisbarátta framtíðarinnar að tryggja þessum þjóðum hagstætt vægi í sameinaðri Evrópu.

Við feðgar tókum upp evruna á Austurvelli á laugardaginn.


mbl.is Ræði aðild Noregs að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Foreldravakt við Alþingishúsið!

ForeldriBarnAllar aðgerðir lögreglu geta magnað mótmælin. Lögreglan þarf því að vinna af yfirvegun og hafa fullgildar lagaheimildir. Jafnframt þarf að vera ljóst að um skemmdir eða afbrot hafi verið að ræða. Veit ekki hvort að það er ólöglegt að hengja Bónusfána á Alþingishúsið.

Var á fundinum á Austurvelli í dag. Mikill mannfjöldi saman kominn. Rölti í áttina að Alþingishúsinu þar sem ég hafði séð rúllur af klósettpappír fljúga. Það var furðuleg sýn sem blasti við. Börn á aldrinum 8-12 ára að grýta Alþingishúsið með ávöxtum og blöðrum með málningu.

Enginn gerði neitt til að stöðva þessa krakka. Um níu ára strákur kastaði stórum steini í aðaldyrnar. Ljósmyndarar voru allt í kring. Farið var með skilti að húsinu og einn ljósmyndari setti eitt þeirra undir hurðarhúninn til að búa til áhrifaríkt móment. Við þurfum að hafa kröfurnar um breytingar skýrar en virkja ekki krafta sjálfseyðingar.

Jón Geir Þórisson stóð ásamt öðrum lögreglumanni fyrir utan Dómkirkjuna og ég spurði hann afhverju þeir reyndu ekki að fá krakkana til að hætta þessu. Hann sagði; "þá yrði nú allt vitlaust, foreldrar verða að bera ábyrgðina á þeim".

Ég vona að það sé ekki til foreldri í landinu sem að verður stolt yfir því að sjá mynd af barninu sínu að henda málningarblöðru í Alþingishúsið.


mbl.is Mótmæli við lögreglustöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgarlagið Lambada

Ég man að árið 1989 kom sveifluslagarinn Lambada og þá var maður með tilraunir að ná hinni suðrænu sveiflu. Eitthvað vorum við sveitapiltarnir í vandræðum með þetta allt saman. Man að sumir festust í þeirri vitneskju að þeir ættu að hafa hægra hné á milli fóta dömunnar. Þjálfun í þúfnagöngulagi skilaði sér ekki alltaf nægjanlega vel sem fínstilltar og þokkafullar hreyfingar.

Lambada er dans sem kemur frá Brasilíu og er skyldur merengue með marserandi tvítakti, en þróast síðar í fjórtakt. Dansað er til sitt hvorrar hliðar með sveiflum og snúningum, en ekki fram og til baka. Það var franskur athafnamaður Oliver Lamotte sem markaðsetti hið fræga lag Lambada og stofnaði hljómsveitina Kaoma.

Dansinn naut gífurlegra vinsælda og breiddist út um allan heim og sló algjörlega í gegn í Japan. Tíska og dans fylgdust að, stutt pilsi og víðar buxur. Glæsilegir höfuðsnúningar dömunnar ásamt öðru skrauti. Tengsl hans við kynþokka og kyntjáningu hafa verið dregin fram bæði í kvikmyndunum Lambada og Forbidden dance.


Endurnýjun umboðs

Meiri ólga er í þjóðfélaginu en gerst hefur frá upphafi lýðveldistímans. Fátt bendir til annars en að fjöldagjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja muni ganga í gegn á næstu tveimur árum. Í raun er ekki hægt að kenna neinum um orsakir vandans frekar en öðrum. Þó er hlutur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stærstur í því að innleiða kvótakerfi og allskyns einkavæðingu sem að urðu helstu stoðir græðgisvæðingarinnar.

Þessu þríeyki sem fer fram með tillögu um vantraust er ekki frekar treystandi en öðrum. Þau þurfa líkt og aðrir að gangast undir dóm kjósenda. Fá endurnýjað umboð. Mikilvægt er að ríkisstjórnin ljúki helstu þáttum í aðgerðum gegn efnahagsvandanum, en stefna að kosningum um mitt næsta ár. Það er mikilvægt að fá pólitískt mat á það hvaða áherslur þjóðin vill hafa í því uppbyggingarstarfi sem framundan er næstu árin.


mbl.is Vantrauststillaga komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði átt að hlusta á Davíð

Mikið er rætt um "ábyrgðarleysi" Davíðs Oddssonar í fjölmiðlum. Skondin er sú tilvitnun sem að er höfð eftir Kjartani Gunnarssyni í dag þ.s. hann segir að hann "hefði betur hlustað á Davíð" en þó að bankaráðsmaðurinn fyrrverandi sé innvígður og innmúraður fylgdarsveinn forsætisráðherrans fyrrverandi þá vill hann ekki gangast við því að vera kallaður "óreiðumaður".

Viðhorf eins annars álitsgjafa, Steingríms J Sigfússonar voru einnig brosleg. Hann segir óhikað "ábyrgðin liggur hjá Björgvin G", að þetta hafi verið "athyglisverð" og "málefnaleg" ræða. Hann virðist vera eini aðilinn fyrir utan Kjartan Gunnarsson sem gerir ekki athugasemdir við aðgerðaleysi Seðlabanka eða að pólitískur vígamaður sé þar í forystu.

Megintónn í viðbrögðum flestra er að engar tillögur að aðgerðum eða raunverulegar aðgerðir komu frá Seðlabankanum. Hann gerði ekkert til að tryggja bindiskyldu innlánsstofnana, setja reglur um lausafjárstöðu, tryggja gjaldeyrisjöfnuð eða að nýta heimildir sem dugað hefðu til að koma IceSave í dótturfélag.

Undarlegt er af Steingími að setjast á bekk með Kjartani Gunnarssyni og Hannesi Hólmsteini í blindri varðstöðu um Foringjann. En allt getur gerst í pólitík hjá þeim sem vilja fiska í gruggugu vatni. Held að það sé gott markmið að fá sem fyrst erlenda aðila til að gera úttekt á því hvað brást og láta síðan réttu aðilana bera ábyrgð.

Á meðan getur Steingrímur unnið að afnámi eftirlaunafrumvarpsins og kvótakerfisins, sem að eru tvö alvarlegustu tákn spillingar í landinu og hann veitti sinn stuðning.


Er möguleiki á frystingu?

FrystigeymslaLausnarorð síðustu viku var að fá að frysta lán í t.d. eitt ár. Þetta hljómaði allt saman vel. Nú koma vitringar fram og segja að þetta sé ekki algott því að maður þurfi að borga síðar og jafnvel þá enn hærri upphæð með vöxtum og vaxtavöxtum.

Þetta er allt orðið svo margslungið og langdregið að ég er farin að spá í hvort við þurfum ekki bara að fara til USA í frystingu. Þar eru víst fyrirtæki sem sérhæfa sig í slíkri þjónustu. Síðan er hægt að biðja um uppvakningu þegar það er komin betri tíð með blóm í haga.


Hörður var ekki arfhreinn

Sagan væri góð að Bjarni hafi farið fram í Suðurkjördæmi ásamt tveimur systrum sínum. Hörður faðir þeirra hafi verið arfhreinn um framsóknarmennskuna, en þar sem að um víkjandi gen sé að ræða komi það sjaldan fram.

Kratismi eins og vinur minn bóksalinn nefnir það, virðist þegar á reyndi hafa verið ríkjandi eiginleiki í Framsóknarflokknum. En 70% flokksmanna vill hefja aðildarviðræður að ESB. Samkvæmt öllu virðist ekki hafa verið nokkur vinnufriður til að afla Íslandi allt stefnunni fylgis.


mbl.is Bjarni og Eygló ekki systkini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur vill leysa vandann með því að ... ?

emotions


mbl.is „Eftir öðru að þjóðin fái upplýsingar með þessum hætti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband