Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Ólæsir kjánar sem axla ekki ábyrgð

Með aðild að EES skapaðist frelsi sem var misnotað og drifið áfram af græðgi. Við horfðum upp á þetta og margir dönsuðu með í kringum gullkálfinn í góðærinu. Eftirlitsstofnanir brugðust og spiluðu í liði með peningahyggju og sóunarstefnu. Það sáu allir að þetta gat ekki gengið svona til lengdar. Samt var haldið áfram að kynda undir þenslunni með nýjum stóriðjuframkvæmdum. En að lokum sprakk blaðran og íslenskt efnahagslíf féll saman eins og spilaborg og reyndist hin mesta svikamylla.

Þá kom fram yfirhetjan úr flokki íhaldsamra borgara og sagði í Kastljósi þann 7. október 2008 að við "ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna". Framlenging valds hans, forsætisráðherra, talaði á svipuðum nótum að það myndi stefna í þjóðargjaldþrot ef gengist væri í ábyrgð á erlendum innistæðum. Á sama tíma er ítrekað af yfirvöldum að sparifé Íslendinga verði varið og tryggt að fullu. Það voru settir 600 milljarðar úr ríkissjóði til að tryggja sparifé Íslendinga. Síðan mismunuðum við viðskiptavinum hins íslenska banka með því að bæta hinum íslensku tapið að fullu, en hafa áform um að gangast ekki einu sinni við lágmarkstryggingu eins og kveðið er á um samningum milli EES þjóðanna.

Í alþjóðasamfélaginu vorum við fyrst búin að fara offari í viðskiptum og spilamennsku, en komum í framhaldi með viðhorf sem bentu til að á eyjunni norður í höfum lifðu eingöngu sjálflægir og ólæsir kjánar. Það verður að teljast eðlilegt að það myndaðist fullkomin eining meðal allra aðildarþjóða að EES svæðinu, að Íslandi bæri að virða þá samninga sem það hefur undirritað. Í framhaldi sendir Davíð Oddsson og Árni Mathiesen bréf þess efnis að Ísland muni axla ábyrgð á skuldbindingum sínum. Það er augljóst að Evrópusambandið er hrunið ef að hver þjóð á að geta farið í lagaþrætur um atriði sem kveðið er skýrt á um í samningi. Það er ekki mikil skynsemi í orðum Sigurðar Líndal um að við séum "Sigruð þjóð" og að þetta sé ekki góð byrjun á því sem koma skuli í samskiptum við Evrópusambandið.

Ég held að það hafi verið algjörlega rétt að íslensk stjórnvöld lýsi því yfir að þau axli ábyrgð og leiti eftir samningum. Hinsvegar er alveg til athugunar í meðferð Alþingis að fara yfir málið. Það eru tvö atriði sem mér finnst að hefðu þurft betri skoðun. Það fyrsta er sú augljósa spurning að ef það er tilfellið að eignir Landsbanka í London fari hátt í að borga IceSave skuldbindingar, afhverju taka þeir bara ekki einfaldlega eignirnar upp í skuld? Í öðru lagi finnst mér að það eigi að vera svigrúm til að endurskoða 16 ákvæði samningsins sem lítur að fullveldinu. Við erum á réttri leið að vinna okkur út úr þeirri ímynd sem Davíð Oddsson sendi umheiminum að við værum illa læsir kjánar sem öxluðum ekki ábyrgð á alþjóðlegum skuldbindingum. Vonandi fáum við nægjanlegt svigrúm til að gulltryggja hagsmuni lands og þjóðar í meðferð Alþingis á þessu stóra máli.


mbl.is Vilja að forseti synji staðfestingu á ríkisábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farinn á fjöll

 Fjallasol

Í fyrramálið legg ég af stað með fyrsta gönguóp sumarsins um æskuslóðir að Stafafelli í Lóni. Það er 19 manna hópur á vegum Kennarasambands Íslands. Soðið í humarsúpuna fyrir fyrsta kvöldið er tilbúið og búið að kaupa allt til matar fyrir fjögur kvöld og keyra því í Eskifell.

Á þriðjudag fékk ég fulla skoðun á rútuna. Skoðunarmaðurinn sagði "jæja, þú ert kominn með kafbátinn" og vísaði þar til þess þegar hún fór í Lindá (Jökulsá um árið). En ég fór áðan yfir Skyndidalsá í nokkrum vexti á Únimognum og þegar búið er að splitta kemst hún allt.

Vegagerðin er nýbúin að hefla veginn inn Kjarrdalsheiði á Illakamb og ég standsetti í dag vatn og annað bæði tjaldstæði í Smiðjunesi og líka við skálann í Eskifelli. Þannig að fjöllin Stafalls og Lónið fagra eru tilbúin fyrir ferðamenn sumarsins.


Mikil óánægja með aðferðir við val í framhaldsskóla

Unglingar

Lykilorð síðustu ára var samkeppni. Framhaldskólarnir lögðu fjármagn í að byggja upp ímynd og orðspor. Metnaður að ná í sterkustu nemendurna eða þá sem að eru með hæstu einkunnir. En síðan er tekin sú ákvörðun að leggja af samræmd próf og þar með nákvæm viðmið í samanburði milli skóla. Nú erum við komin með þessa keppni skóla um "bestu" nemana á villigötur.

Nýútskrifaðir tíunda bekkingar sem verið hafa saman í sínu hverfi alla skólagönguna eru látnir taka þátt í rússneskri rúllettu. Fylla út umsókn á netinu og merkja við skóla í fyrsta val, annað val og þriðja val. Þannig tvístrast vinahópar og út frá tilviljunum geta nemendur sem eru með háar einkunnir, ef til vill með um átta í meðaleinkunn staðið uppi án skólavistar.

Engin trygging er að einkunnir úr Valhúsaskóla og Varmárskóla séu að mæla sömu hluti. Síðan er munur upp á 0,2 að ráða því hvort nemandi kemst inn. Þetta kerfi þarf að endurskoða. Sjálfræðisaldur er átján ár og gert ráð fyrir að framhaldsskóli verði þrjú ár með breytingum á lögum sem taka gildi árið 2011. Ef til vill þarf að hugsa framhaldsskóla aftur sem hverfisskóla.

Ganga út frá því sem meginviðmiði að þorri nemenda komi úr tilheyrandi bæjarhluta. Síðan verði samræmd framhaldsskólapróf sem meta það hvort viðkomandi nemendur séu nægjanlega sterkir fyrir áframhaldandi háskólanám. Með þessu væri tryggt að innan hvers hverfis þróuðust öflugar menntastofnanir.

Þannig verði til sterkar bóknámslínur í öllum bæjarhlutum, en skólunum verði gert mögulegt að þróa líka sínar séráherslur. Með því geta nemendur með mikinn áhuga á tónlist, dansi, margmiðlun eða tilteknum sérsviðum og faggreinum valið skóla sem hæfir áhugasviði. Það er ágætt að geta farið yfir lækinn ef vilji stendur til, en líka gott fyrir samfélagið að hafa öflugan skóla í heimahverfi.


mbl.is 143 stúdentar útskrifast frá MA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega þjóðhátíð

islenski-faninnSjálfstæðisbaráttan síðari felst í því að tryggja stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Íslandi allt með öflugu samstarfi norrænu þjóðanna sem finnur sér farveg inn í ákvarðanatöku og samstarf innan álfunnar.

Við erum ekki eyland heldur hluti af heild. Við getum ekki látið þannig að það sé lögmál að þjóðir Evrópu viðurkenni til eilífðar lögsögu okkar á meðan sundurleitur hópur talar fyrir því að við sýnum frænd- og vinaþjóðum löngutöng í samskiptum.

Það gæti verið eitt mikilvægasta og metnaðarfyllsta verkefni Íslandssögunnar að tryggja landhelgina og stöðu okkar í framtíðarskipan Evrópu. Það gerum við ekki með þjóðrembu eða útúrboruhætti heldur virkni og þátttöku.


Síðasta ofurmennið

Gunnarsmenn 

Það er svo merkilegt sálartetrið í mörgum Sjálfstæðismanninum. Takið eftir "Gunnar Birgisson fékk mikinn stuðning á fundinum". ! Getur verið að engin hafi sett spurningamerki við allan þennan slóða misnotkunar valds í þágu fjölskyldunnar? Skýrslan og upphæðin sem bæjarfélagið greiðir eru sláandi, en við það bætist LÍN og OR.

Þegar á móti blæs og ofurmennið sem flokksmenn hafa dáð og dýrkað birtist í nýju ljósi þá er aðalatriðið að flokkurinn komi sterkur út og að félagarnir sýni stuðning við foringjann. Árni Johnsen var kosinn á þing þó hann hefði verið dæmdur og Davíð Oddsson gat labbað inn á landsfund Sjálfstæðisflokksins í hrokafullum hlátrasköllum þó hann væri búin að setja landið á hausinn.

Ég vona svo sannarlega að þetta sé tegund í útrýmingarhættu.


mbl.is Falið að ræða við Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðir fiskar í næturkyrrð

Þau voru sérstök hughrifin á rölti meðfram Varmá í næturkyrrðinni um eitt leytið. Fuglasöngur upp í trjánum, gróður í fullum blóma en allur fiskur dauður í ánni. Fór vel upp fyrir dælustöð hitaveitunnar en engir fiskar sáust liggja dauðir þar fyrir ofan. Miðað við staðsetningu dauðu fiskana og vatnssýnum ætti að vera hægt að efnageina og staðsetja upphaf mengunarinnar.

Tók nokkrar myndir ....

Fiskur5Fiskur6

 

 

 

 

 

 

 

 

Fiskur1Fiskur2

Fiskur4Fiskur3


Verðmæti náttúru og mannlífs

 Varmársamtökin

Þessi frétt er stutt, óljós en þó í henni mikilvægur boðskapur. Í henni birtist sú afstaða að virðing fyrir lífinu og verndun umhverfis sé eitthvað sem er mikilvægt. Þetta er fréttnæmt og eftirlitsaðilar og lögregla kölluð til.

Varmársamtökin voru stofnuð til að standa vörð um lífæðina í gegnum bæjarfélagið Mosfellsbæ. Að íbúar eigi greiðan aðgang að verndarbelti sitthvoru megin árinnar sem fær að þróast á forsendum náttúrunnar.

Margir bentu á að síðustu áratugina hafi iðulega verið farið illa með Varmá, hleypt í hana litarefnum úr ullariðnaði, skólpi o.s.frv. En verður bölið betra við að benda á verri tilfelli. Það er einmitt mikilvægt fyrir fólk á malbiki þéttbýlisins að kunna að vernda og næra líf.

Með gjörbreyttu gildismati eftir hrun þá hefur sannast að Varmársamtökin stóðu vaktina fyrir lífið. Græðgin saxaði á lífæðar náttúrunnar og heilbrigðs mannlífs um víða veröld, en nú eru tímar uppgjörs og endurmats. Krafist er rannsókna á því hvers vegna okkur bar svo langt af leið. 

Varmársamtökin verða að gegna hlutverki sérstaks saksóknara eða Evu Joly hér í Mosfellsbæ við sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Vera leiðandi um opna og heiðarlega umræðu þar sem sitjandi stjórnvöld þurfa að verja gjörðir sínar.

Hvers vegna græðgin og verktakalýðræðið leiddi okkur svo langt af leið, að traðkað var á möguleikum íbúa til áhrifa, ásamt því að lífríki og umhverfi var sýnd lítilsvirðing. Nú sitjum við uppi með heilt hverfi þar sem verða bara götuljósin næsta áratug.

Hver ber ábyrgð? 


mbl.is Fiskar drápust í Varmá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggleti

BloggletiÉg er ekki búin að setja inn færslu í viku. Það er mikil bloggleti að ganga yfir. Það ríkir ákveðið millibilsástand. Skólinn búin og ég ekki komin í gírinn með gönguferðir.

Það er samt nóg að gera. Fór í miklar útreiðar tvær síðustu helgar. Mosfellsbær, Þingvellir, Sel í Grímsnesi, Vorsabær á Skeiðum og að Þjórsártúni. Segi frá því síðar ef ég nenni.

Er búin að vera með göngur á fellin umhverfis Mosó síðustu tvær vikur. Síðasta gangan var í gær á Úlfarsfell. Það mættu um 15 manns. Segi frá því seinna ef ég nenni.

Er búin að vera að standsetja fjallarútuna fyrir sumarið. Það þurfti að skipta um startkrans, kúplingsdisk og fleira. Síðan er verið að yfirfara lakkið næstu tvo daga. Nenni ekki að segja nánar frá því.

Verð að fara að sofa, því ég mæti í spjall til Steinunnar Harðardóttur í fyrramálið fyrir þáttinn hennar Út um græna grundu. Set tengil á viðtalið ef ég nenni, svo þið getið hlustað (ef þið nennið).


Sókn er besta vörnin

Ríkisstjórnin verður að leggja meiri áherslu á gjaldeyrisskapandi verkefni. Tryggja aukna framleiðslu á íslenskum vörum þannig að skapist vinna og tryggja jákvæðan viðskiptajöfnuð við útlönd.

Það gengur ekki til lengdar að ríkið borgi þúsundum laun fyrir að gera ekki neitt. Slíkt bíður einnig upp á umtalsverða misnotkun á kerfinu. Það þarf að búa til störf í matvælavinnslu, fiskeldi, skógrækt, fataiðnaði og öðru sem atvinnulausir geta sótt í til að tryggja sér bjargræði. Við glutruðum niður margs konar verkmenningu á stuttum tíma og vorum farin að trúa því að stór hluti þjóðarinnar gæti lifað á pappírsviðskiptum. Þessari þróun þarf að snúa við með skjótum hætti.

Því má heldur ekki gleyma að það er mikill fjöldi fólks sem á umtalsverða sparifjáreign. Höfða þarf til þessa hóps að taka þátt í nauðsynlegum aðgerðum.


mbl.is Forsætisráðherra: Erfiðleikarnir eru meiri en búist var við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband