Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Drossíur velferðarinnar

Það er ánægjulegt að Saab verksmiðjurnar munu halda lífi. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga tvisvar Saab bíla og tvisvar Volvo. Átti Saab 96 þar sem hægt var að skipta um gíra án þess að kúpla, átti líka Volvo Amason sem var svo sannarlega fasteign á hjólum.

Þessir tveir bílar eru þeir einu sem ég hef séð eftir að selja af hátt í tuttugu bílum sem ég hef átt um dagana. Sannir gæðingar með góða sál.

Saab_96

 

 

 

 

 

 

 

 

volvo-amazon


mbl.is Spyker kaupir Saab
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollur er heimafenginn baggi

film 

Það er hægt að taka heilshugar undir þá skoðun að það skjóti skökku við að draga svona úr kaupum á innlendu efni. Að þar með sé vegið að menningarlegu hlutverki Ríkisútvarpsins. Það er ömurlegt hlutskipti að auka sífellt hlut endurtekins efnis í dagskránni.

Við þurfum að losa okkur algjörlega út úr þessum ohf stjörnuleik og láta menningarvita og sérvitringa taka við stjórninni. Losum stofnunina úr embættismannafjötrum íhaldsins og látum hana vera framsækna og skapandi menningarstofnun.

Á öðru hverju heimili eru til upptökuvélar sem skila þokkalegum gæðum í sjónvarpi. Tilvalið er að snúa við blaðinu og stórauka hlut íslensks efnis. Hægt væri að koma upp klippiverkstæði fyrir almenning þar sem það gæti fengið aðstoð við úrvinnslu efnis.

Síðan má hugsa sér að þegar efni hefur verið fullunnið þá sé það sent inn til matsnefndar og það besta tekið til sýningar. Slíkt er í miklu meira samræmi við hið menningarlega hlutverk og grósku sem á að fylgja Ríkisútvarpinu.

Stofnunin þarf að vera bæði í virkum tengslum við fagfólk í kvikmyndagerð og almenning.


mbl.is Fordæmislaus niðurskurður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðkvæmni lýðræðisins

Forysta-SamvinnaÞað þarf vissulega hugrekki til að stíga fram og hafa meiningar. Jafnvel viðhorf sem að eru andstæð afstöðu og stefnu einhvers meirihluta. Þetta fékk fólk sem að vann að umhverfismálum sveitar sinnar undir merkjum Varmársamtakanna að reyna.

Umræðunni um mikilvægi þess að vernda menningarsögu og útivistarmöguleika var mætt af einstakri hörku. Þrátt fyrir að augljóst var að málefnið snerti hjörtu margra þá var því ekki veitt nein uppbyggjandi athygli af sitjandi bæjarstjórn.

Enginn fulltrúi bæjarstjórnar mætti á fjölmenna fundi um málið þar sem farið var fram á að skoða alla möguleika við lagningu tengibrautar. Í fjölmiðlum var reynt að etja hagsmunum saman og skapa sundrungu meðal bæjarbúa.

Sjálfstæðisflokkurinn mætti til leiks með þá fullvissu að hann væri rétt kjörinn valdhafi sem þyrfti ekki álit kóngs né prests. Þaðan af síður einhverra umhverfisssamtaka. Eini sem var verðugur var frmkvæmdaðilinn sem átti að koma með góðærið á vængjum yfir flóann.

Vinstri grænir eru í meirihlutasamstarfinu. Þeir tala eins og þeir séu fulltrúar steypukúltúrsins, heilir í gegn. Lofa yfirbyggðum fótboltaleikvangi, gerviliðasjúkrahúsi eða hverju sem er. Sáralítið rætt um umhverfismál nema að ákveða að áherslur sjálfbærrar þróunar eigi að vera á dagskrá næsta meirihluta.

Það er fátt sem að er til vinstri hjá núverandi meirihluta og enn færra sem að er grænt. Það eru því mikil tækifæri fyrir Samfylkinguna að slá í takt við hjarta bæjarbúa í þessum málaflokki. Það er gert með áherslum á lýðræði, umhverfi og mannlíf.

Lýðræðið er þó brothætt fjöregg og heilbrigð þáttaka eða væntingar fólks í þá veru að hafa áhrif á umhverfi sitt getur breyst í samanherptan kvíða og vonbrigði. Hroki í framgöngu Sjálfstæðisflokksins og undarleg sjálfseyðingarhvöt Vinstri grænna skapa ekki blóma í eggi.

Við eigum skilið betri jarðveg fyrir þátttöku fólks í mótun samfélagsins.


Stemming og málefni

Dansandi þrenna

Gömlu flokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga sér sögulegar rætur í Mosfellssveitinni okkar. Þaðan komu bændurnir í hreppsnefndinni. En tækifæri Samfylkingarinnar er einmitt núna á tímum endurnýjunar aðferða og gilda.

Við þurfum að skapa nærandi bæjarumhverfi. Meginástæða fyrir búsetu Mosfellinga er „sveit í borg“. Gefum því vægi með virkum tengslum milli neytenda og bænda um framleiðslu á ferskri matvöru. Þróum til fulls möguleika Varmársvæðisins sem lífæðar um bæinn, með áframhaldandi leiðum á fellin.

Nauðsynlegt er að móta mannlífsbelti frá miðbæ að Íþróttamiðstöðinni að Varmá og upp í Álafosskvos. Kjósa þarf um tvo valkosti í staðsetningu á kirkju. Annarsvegar kirkja og menningarhús samkvæmt fyrirliggjandi miðbæjarskipulagi eða að þjóðkirkjan fái úthlutað lóð þar sem bæjarleikhúsið stendur núna.  

Endurskoðum miðbæjarskipulag og færum framhaldsskóla inn á miðjuna og tengjum hann byggingu menningarhúss. Í komandi kosningum mun góð stemming meðal Samfylkingarfólks verða grunnur að þeim krafti og úthaldi sem þarf til að losna undan langri valdatíð Sjálfstæðisflokks. Við eigum betra skilið.


Dramb er falli næst

garfield-spiegel_gifÞað er fróðlegt að máta smá atferlisgreiningu á meirihlutann í Mosfellbæ þessa dagana. Það er verið að skúra, skrúbba og bóna. Verið að draga upp nýja mynd og semja heimatílbúinn sannleika. Allt er óskeikult, flott og frábært sem að meirihlutinn hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu. Hann vill vera "leiðandi", "í fararbroddi" og "framsækinn" á flestum sviðum. Nokkrum mánuðum fyrir kosningar er dustað rykið af tíu ára gamalli vinnu um sjálfbæra þróun sem að hefur legið alveg niðri og sveitarfélagið talar nú um að gegna forystuhlutverki á þessu sviði.

Sjálfstæðisflokkurinn sem þekktur er fyrir hagsmunagæslu sína fyrir verktaka og fjármagnseigendur, í þróun bæjarins, talar nú skömmu fyrir kosningar um lýðræðisvitund og íbúalýðræði. Flokkurinn innleiddi steypukúltúrinn og græðgivæðinguna í byggingarframkvæmdum sem spillti menningarverðmætum og hverfisvernd, en leggur nú þegar styttist í kosningar áherslu á skólastarf og möguleika bæjarins sem útivistarbæjar. Flest viðist því með nokkuð öfugsnúnum formerkjum.

Eitt er þó málið sem að meirihlutinn virðist ætla að hengja hatt sinn á umfram annað. Það er að hér muni rísa sjúkrahús og hótel vegna líðskiptaaðgerða á Tungumelum. Því ber að fagna einu og sér að náðst hafi að semja um fyrstu skref í þá veru að stórt atvinnuskapandi verkefni fari af stað í sveitarfélaginu. En ef við segjum að hindranirnar séu tuttugu sem að þarf að komast yfir til að tryggt sé að verkefnið verði að raunveruleika þá hefur enn sem sem komið er ekki verið komist yfir nema brot af þeirri vegferð.

Þess vegna er full ástæða til að fagna því sem komið er en jafnframt rétt að minna á að anda rólega svo við bætum ekki enn einum hálfkláruðum húsgrunni í bæjarfélagið. Sjálfumgleðin má ekki byrgja okkur sýn. Tilvera okkar í Mosfelssbæ byggir ekki á mikilfengleika Sjálfstæðisflokksins, þó sumir haldi að það sé raunin. Í bæjarblaðinu Mosfellingi skrifar "hópur sterkra og öflugra" frambjóðenda flokksins greinar þar sem enginn efast um sinn óskeikula flokk. Drambið og sýndarveruleikinn er þó minnstur hjá Elíasi Davíðssyni enda hafði hann tekið þátt í Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins.

Hún hafði farið fram með gagnrýnt uppgjör á því hvar flokkurinn rann út af sporinu. Þessi vinna var síðan þögguð niður af Davíð Oddssyni sem mætti óboðinn á landsfund og gaf tóninn um að ekkert skyldi lært af mistökunum og keyrt skuli á fullu dampi og láta hrokann gefa vind undir báða vængi. Í áðurnefndu bæjarblaði nær frambjóðandinn Eva Magnúsdóttir hæstu hæðum í þessu sjálfhóli öllu saman. Fyrirmynd hennar virðist vera Gunnar Birgisson. Hún vitnar til slagarans "Það er gott að búa í Kópavogi". Samkvæmt því sem hún skrifar þá vill hún toppa hetjuna sönnu úr Kópavogi og innleiða slagarann "Það er best að búa í Mosfellsbæ".

Persónulega vil ég búa í bæ þar sem ég upplifi margar ljúfar stundir, finn að innviðirnir eru traustir og stjórnsýslan lýðræðisleg. Þar sem ég finn að umhverfið fær að njóta sín og heilbrigður grundvöllur lagður að skapandi og fjölbreytilegu mannlífi. Tími slíkrar sjálfmiðaðrar upphafningar eins flokks voru fyrir miðja síðustu öld í Rússlandi og Þýskalandi.  Í hvorugu landinu gafst vel að hafa slíkt stjórnarfar.


Heimurinn horfir á fólk þjást og deyja

Haiti1Haiti2

 

 

 

 

 

 

Ef að hörmungarnar á Haíti hefðu orðið í New York eða París þá hefðu þúsundir björgunarmanna, lækna og björgunarfólks verið komið á vettvang nokkrum klukkustundum síðar.

Það er með ólíkindum að það sé enn verið að samþykkja það í ráðum og nefndum að stjórnvöld í stórríkjunum ætli að veita aðstoð. Á sama tíma og ópin berast frá deyjandi fólki í rústunum.

Það ætti ekki að vera stórt mál að fljúga yfir borgina og kasta niður nauðsynlegum skyndihjálparvöru, vatni og matvælum.

Stoltur yfir því að Íslendingar brugðust hratt við. Okkar óblíðu náttúruöfl hafa kennt okkur að það er ekki hægt að setja svona mál í nefnd.

Ótrúlegt að horfa á eyðilegginguna og þjáninguna á myndum og myndböndum.

Hér er frásögn á CNN af björgun íslenska hópsins á konu úr verslunarhúsnæði og viðtal við konuna.

 


mbl.is Reiði og örvænting í senn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LÝÐRÆÐI - UMHVERFI - MANNLÍF í Mosfellsbæ

 

112-1226_IMG_2

Prófkjör félagsmanna verður í Samfylkingunni Mosfellsbæ þann 30. janúar. Ég gef kost á mér til forystu, í 1-3. sæti. Á miðnætti laugardaginn 16. janúar er lokafrestur til að ganga í flokkinn til að geta tekið þátt. Það hefur verið mér mikið metnaðarmál að flokkurinn sé til fyrirmyndar öðrum í að leiða opna umræðu og vera vettvangur lýðræðis.

Viðfangsefni í Mosfellsbæ eru sérstök. Þar hefur ofríki, hroki og foringjaveldi Sjálfstæðisflokks ráðið ríkjum um langt skeið. Flokkurinn rann á rassinn í framkvæmdagleði sinni þar sem farið var út í algjörlega óraunsæja fasteignastefnu með því að byggja upp á sama tíma þrjú hverfi bæjarins. Þetta verktakalýðræði og græðgi stuðlaði að því að nú sitjum við uppi með tvö ný hverfi hálfbyggð eða óbyggð.

----> Mosfellsbær þarf LÝÐRÆÐI þar sem hagsmunir landeigenda og verktaka ráða ekki einir för við þróun samfélagsins. 

Bæjarfélagið er staðsett í fallegri hvilft umvafið fellum með Varmársvæðið sem lífæð í gegnum bæjarfélagið. Í aðalskipulagi hafa lengi verið kjörorðin "sveit í borg" en á sama tíma hefur margt í framkvæmdagleðinni bent til þess að steinsteypukúltúrinn sé að bera virðingu fyrir umhverfi og útivist ofurliði. Áform bæjarins og framkvæmdir hafa og munu spilla fyrir þróun reiðleiða og göngustíga sem tvinnaðir eru saman við söguleg verðmæti.

----> Mosfellsbær þarf virðingu fyrir UMHVERFINU þannig að ekki verði spillt þeim gæðum sem að eru grunnforsenda fólks fyrir búsetu hér í jaðri höfuðborgarsvæðisins. 

Í Mosfellsbæ er margskonar félagsstarf í kringum íþróttir, kórastarf, klúbba, hestamennsku og fleira. En okkur vantar miðbæ sem að hefur mannlíf með nokkru lífsmarki. Mosfellsbakarí gegnir einna helst þessu hlutverki í dag að fólk fari í miðbæinn til að njóta samveru við annað fólk. Nauðsynlegt er að tvinna saman þróun miðbæjar við skipulag á íþróttavæði að Varmá og þróun Álafosskvosar. Einnig að efla tengsl neytenda og bænda um framleiðslu og sölu á ferskri matvöru á mörkuðum.

----> Mosfellsbær þarf MANNLÍF þannig að hann verði ekki svefnbær heldur þróist í að vera besetusvæði fólks sem vill vera í samfélagi með gróskumikla og skapandi innviði.

Þessir þrír þættir eru allir samtengdir og mynda grundvöll þess að bærinn okkar þróist á heillavænlegan máta. Að heilsuefling og umhverfisvernd verði einkenni bæjarfélagsins þar sem maður er manns gaman. Nú er rétti tíminn til að snúa við blaðinu og færa áherslur stjórnsýslu bæjarins frá steinsteypu í átt að menningu og manneskjulegum gildum.

Á morgun föstudagskvöldið 15. janúar býð ég til opinnar umræðu um þessa þrjá þætti í áherslum mínum í prófkjöri Samfylkingar í Mosfellsbæ. Í framhaldi eru léttar veitingar og sveiflutónlist. Allir velkomnir.


Skyldi Guð nokkuð vera á móti því að fólkið velji staðsetningu á kirkju í Mosfellsbæ

Fyrirliggjandi hugmyndir í miðbæjarskipulagi gera ráð fyrir að sambyggð kirkja og menningarhús verði þar helsta stef. Mig langar líka að sjá útfærðar hugmyndir að kirkju þar sem Bæjarleikhúsið er núna og hafa síðan atkvæðagreiðslu meðal bæjarbúa um þessa tvo kosti.

Það eru nokkur atriði sem að er vert að hafa í huga í þessu samhengi;

1. Þeim fer fjölgandi sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Nýleg skoðanakönnun sýndi að það er afstaða 2/3 hluta landsmanna.

2. Óskynsamlegt er að blanda saman rekstri safnaðarheimilis og menningarhúss þar sem fulltrúar kirkjunnar verða húsbændur og ráða þar með dagskrá menningarhússins.

3. Það er hugsanlegt að betra sé að kirkjan rísi til hlés frá skarkala miðbæjarins á lóð Bæjarleikhússins. Staðsetningin væri steinsnar frá miðbænum og hægt að gera göngustíg yfir ísaldarklappirnar.

Þetta á ekki að vera nein betri borgara ákvörðun, heldur einmitt undir þeim formerkjum að mikilvægt sé að fólkið taki þátt í starfinu og ákvarði staðsetningu kirkjunnar. Ef miðbærinn er einungis þróaður af fulltrúum núverndi meirihluta þá óttast ég að hann skorti bæði sál og kærleika.

Kirkjur eru svo sem nægar í Mosfellsbæ, bæði á Mosfelli og Lágafelli, en á móti kemur sjónarmiðið að það vanti húsnæði fyrir stærri kirkjulegar athafnir. Mér finnst eðlilegt að hugað sé frekar að samnýtingu menningarhúss og fyrirhugaðs framhaldsskóla. Brýnt er að færa skólann á skipulagi nær miðbæjarkjarna. 

Nú ef að þetta er allt orðið meira og minna veraldlegt og byggt fyrir opinbert fé og milligöngu bæjarins, afhverju er þá ekki húsbóndavaldinu snúið við og kirkjan fær einfaldlega sal í menningarhúsinu lánaðan fyrir stærri athafnir á hennar vegum

Stórt hol í Borgarholtsskóla hefur síðustu ár verið notað af Grafarvogskirkju og engum orðið meint af.

 


Kosningar snúast um að fá kjötborð í kaupfélagið

Opið og lýðræðislegt flokksstarf snýst um hagsmuni fólks. Það gerist oft að fulltrúar flokka lokast af í fílabeinsturnum. Gleyma því að vera í virkum og skapandi tengslum við fólk. Hlusta á áhyggjur þess og beita áhrifum sínum á jákvæðan hátt.

Sú var tíðin að Júlli í Nóatúni stóð sprækur fyrir innan glerið með mikið af ferskum fiski og kjöti. Maður sagði "já, ætli maður fái ekki þennan, svona tæpt kíló". Síðan kom nútíminn, ekta 2007. Byggður var stór og mikill kumbaldi sem varð helsta verslunarmiðstöð bæjarins.

Öll ferskvara varð innpökkuð. Allt plastað. Hvergi þjónustufólk að sjá. Hver ákvað þetta? Ekki neytendur. Við þurfum að krefjast þess að fá ferska voru í kjöt og fiskborði. Það þarf líka að stórefla tengslin milli afurða landbúnaðar hér í sveitinni og neyslu bæjarbúa.

Það er t.d. ótækt að eingöngu sé selt útlent og plastað brokkóli í "kaupfélaginu" á meðan miklar birgðir eru til af nýuppteknu káli upp á Reykjum. Fólk vill geta keypt vöru úr nágrenninu með þekktan uppruna. Slík vakning er um allan heim.

Sveitarstjórn á að beita sér fyrir því að efla sölumarkaði fyrir afurðir bænda. Það er allt önnur tilfinning að kaupa kalkúninn af Jóni á Reykjum og grænmetið af Helga í Garðagróðri og rósirnar af Gísla í Dalsgarði. 

Kosningar snúast um val, að við fáum það sem við viljum.


Opin eða lokuð prófkjör

Á meðan að við höfum ekki persónukjör þá verðum við að sneiða helstu gallana af prófkjörum. Í aðdraganda prófkjörs í Mosfellsbæ þá var mikið rætt, að mér skilst, um kosti og galla þess að prófkjör væru opin eða lokuð. Við alþingiskosningar síðastliðið vor, þá var haldið opið prófkjör í þeim skilningi að það var nægjanlegt að skrá þig sem stuðningsmann Samfylkingarinnar. Nokkuð algengt var að einstaklingar væru að taka þátt í vali á lista nokkurra flokka, sem verður að teljast óeðlilegt. Það er lámarkskrafa að viðkomandi stefni að því að kjósa flokkinn í kosningunum. Einnig eru dæmi um að frambjóðendur hafi smalað fleiri hundruð manns í prófkjör án þess að neinar líkur væru á að þeir kysu flokkinn.

Samfylkingin í Mosfellsbæ hefur nú ákveðið að halda svokallað lokað prófkjör þann 30. janúar. Það merkir að einungis skráðir félagar í flokknum geta tekið þátt. Valfrelsi félagsmanna ber að fagna, en ég hef þó áhyggjur af því að prófkjörið verði óþarflega lokað. Hefði viljað sjá blað og sameiginlegan fund frambjóðenda áður en kemur að lokadegi til að skrá sig í flokkinn. Hann er settur með allnokkrum fyrirvara eða 16. janúar. En ef til vill verða bara frambjóðendur að taka sig saman og gefa út kynningarefni og boða til formlegs fundar þar sem hver og einn þátttakandi kynnir sínar áherslur. Þetta verður verkefni morgundagsins að kanna hug frambjóðenda og kjörstjórnar í þessu.

Það á að vera gróska og aðdráttarafl fyrir flokksstarfið að hafa prófkjör.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband