Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
10.1.2010 | 10:34
Endurnýjun & tækifæri í Mosfellsbæ
Framboð Samfylkingarinnar er helsti möguleiki kjósenda í Mosfellsbæ til að eiga trúverðugan valkost í kosningum til sveitarstjórnar á komandi vori. Stundum segjum við að það sé sami rassinn undir öllum þessum pólitíkusum eða að við séum orðin leið á flokkapólitík og að við viljum geta valið fólk en ekki flokka. En líkt og það er mikilvægt fyrir okkur, hvert og eitt, að hafa gildi og inntak í lífi okkar þá þurfa framboð að hafa slíkt hið sama. Jafnaðarstefnan er alþjóðleg. Á ensku er vísað til hennar undir kjörorðunum social og democratic. Kjörorðin eru frelsi, jafnrétti og kærleikur (bræðralag). Okkar ágæti Mosfellsbær þarf ekkert fremur en að á næsta kjörtímabili verði bæjarstjórn með samfélagslegar og lýðræðislegar áherslur.
Sveitarstjórnarkosningar 2010 ganga út á að hafa hugrekki í víðtæka endurnýjun og að nýta tækifærið til nauðsynlegra breytinga. Í Mosfellsbæ hefur Sjálfstæðisflokkurinn ríghaldið um stjórnartaumana um langt skeið. Það hefur verið margt líkt með langri setu flokksins í ríkisstjórn og pólitískri útfærslu flokksins hér í sveitastjórn. Áherslan á flokkinn og foringjann hefur spillt fyrir lýðræðinu. Hindrað að fólkið hafi eðlilega aðkomu að ákvarðanatöku og sé mótandi um eigið umhverfi. Dæmi meira en helmingur bæjarbúa undirritaði óskir um að helsta sundlaug bæjarins yrði að Varmá í góðum tengslum við önnur íþróttamannvirki, náttúru og útivistarsvæði. Ekki hlustað.
Stór hluti bæjarbúa vildi standa vörð um kjörorðin sveit í borg og að viðhalda góðum tengslum við náttúruna, vernda Álafosskvos, þrengja ekki að hesthúsahverfi og skólasamfélagi. Ekki hlustað. Nú ætlar sitjandi meirihluti að láta kirkju og menningarhús vera helsta stef í miðbæjarskipulagi. Eftir að hafa hugsað þetta mál ítarlega þá vil ég ekki ganga svona langt í að rugla saman trúfélagi og veraldlegu valdi. Niðurstaða mín er að falleg kirkja sómi sér ein og sér á svæðinu þar sem að Bæjarleikhúsið er nú staðsett. Það er mín áhersla að bæjarbúar fái að kjósa um þessa möguleika í opinni kosningu.
Löng stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins slævir og deyfir innviði mannlífsins. Verktakalýðræðið og græðgivæðingin voru áberandi einkenni síðasta kjörtímabils. Mikið var stærilætið yfir uppganginum í bæjarfélaginu. Trukkarnir sem voru að keyra moldinni burt af ræktunarlandi sveitarinnar áttu að vera því til sönnunar. Mölin, malbikið og steypan urðu tákn framfara á kostnað menningarverðmæta, sögu og útivistar. Eitt helsta tákn Mosfellsbæjar Álafoss er nú umvafin malarhrúgum sem áttu að verða malbikaður göngustígur. Enginn ber ábyrgð. Við þurfum að gera það upp hvort að sú leið sem að Sjálfstæðisflokkurinn fór í skipulagsmálum að úthluta ábyrgð á þróun stórra byggingarsvæða til verktaka var skynsamleg leið. Þessi leið varð hornsteinn núverandi meirihlutasamstarfs.
Það er ekki tilviljun að samstarf Vinstri grænna og samningar við verktaka um uppbyggingu í Helgafellslandi eru undirritaðir á sama tíma. Með þeim gjörningi var í reynd ákveðið að færa skipulagsvald til verktaka út í bæ og lögvarinn réttur almennings tengdur stefnumótun og þróun eigin umhverfis varð algjör sýndarmennska. Í Krikahverfinu er fylgt þeirri stefnu að úthluta lóðum í eigu bæjarfélagsins og það er mín skoðun að slíkt hafi reynst mun heppilegra fyrirkomulag. Það er til íhugunar að á þeim tíma sem að okkur var sagt að "góðæri" væri í landinu fór stærstur hluti hins mikla peningaflæðis í steinsteypu. Það er líka athyglivert að einmitt á þessu tímaskeiði reis hátt hlutfall af ljótustu húsum borgarinnar. Ferkantaðir og karakterlausir kassar urðu helstu afurðir græðgi og hroka.
Bræður og systur! Grípið geirann í hönd og tökum þátt. Gangið í Samfylkinguna í Mosfellsbæ fyrir 16. Janúar til þátttöku í lokuðu prófkjöri flokksins í Mosfellsbæ þann 30. janúar. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í forystusæti (1-3). Ákvörðun um þetta prófkjör er fyrsta skrefið í þá átt að jafnaðarstefnan verði aflvaki mannlífs og farvegur lýðræðis í bænum. Látum þetta verkefni heppnast og leggjum áherslu á að opna félagið og fjölgun félaga. Það eru einungis nokkrir dagar sem bæjarbúar hafa til þess að skrá sig til leiks. Vertu til, er vorið kallar á þig, vertu til að leggja hönd á plóg. Komdu út, því að sólskinið vill sjá þig, sveifla haka, og rækta nýjan skóg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2010 | 19:18
Lýðskrumarar og málþófsmenn munu þagna
Þjóðaratkvæði í þessu máli mun leiða til að við losnum við lýðskrumarana og málþófsmennina sem eru til í að gera hvað sem er til að spilla fyrir árangri fyrstu tveggja flokka vinstri stjórnarinnar. Meira að segja talsmaður InDefence segir að það þurfi að standa við skuldbindingar og endurgreiða lágmarkstryggingu vegna Icesave reikningana.
Ef við neitum gildistöku laga þá taka formlega við fyrri lögin. En þau eru ekki samþykkt af Bretum og Hollendingum. Munurinn milli þessara laga liggur í því að þeir féllust ekki á tvo fyrirvara í fyrri samningi. Fyrirvara um að greiðslur miðuðust við hagvöxt og fyrirvara um að éftirstöðvar láns muni afskrifast að vissum tíma liðnum.
Nú verður hver og einn að gera upp við sig hvort að munurinn á fyrirvörunum á greiðslutilhögun sé nægjanleg ástæða til að halda hagsmunum þjóðarinnar í áframhaldandi óvissu.
Gríðarlega sterk viðbrögð erlendis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.1.2010 | 09:27
Í minningu Lhasa de Sela
Við skötuhjúin vorum lukkuleg með að fá miða á seinni tónleikana söngkonunnar Lhasa de Sela á listahátíð, síðastliðið vor. Hún hélt tvenna tónleika og við fengum miða á seinni tónleikana. Hún hafði dásamlega rödd og spilaði á marga strengi í litrófi tilfinningalífsins. Við stóðum á miðju gólfinu á Nasa og vorum djúpt snortin af hæfileikum hennar og tjáningu.
Það hvarflaði ekki að okkur að hún stæði í erfiðri baráttu við brjóstakrabba og að með þessum tónleikum væri hún að syngja sitt síðasta vers opinberlega. Það var mikil innlifun í klappinu eftir síðasta lagið og aukalög. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft tækifæri til að fara á þessa tónleika. Hún hafði allt sem prýða má listamann í tónlist. Frumleg, óvænt, skapandi og hæfileikarík.
Hún dó í upphafi ársins - http://www.lhasadesela.com/lhasa_de_sela/menu.php?lang=en
Vel hér þrjú angurvær lög af nýjustu plötu hennar sem kom út á síðasta ári. Hin ljúfsára stemming sem þar birtist fær nú aðra og dýpri merkingu.
2.1.2010 | 01:44
Óskir um áramót
Í Peningagjá á Þingvöllum var vatnið spegilslétt í dag. Daginn fer smátt og smátt að lengja. Sólin fer hækkandi og áður en varir verður komið vor. Nýtt ár og hækkandi sól beina athyglinni að framtíðinni. Eftir argaþras og leiðindi leitar hin taugaveiklaða íslenska þjóðarsál að friði. Eftir skemmtilega útivist og göngu færði kvöldsólin roða yfir hinn mikla helgidóm sögu og náttúru sem við eigum hér rétt utan við borgarmörkin.
Fátt er mér kærara en virðingin fyrir lýðræði. Fátt er mikilvægara en að þróa leiðir til að tryggja það að fólkið í landinu geti verið mótandi um eigið samfélag og umhverfi. Að geta verið þátttakendur í mikilvægum ákvörðunum. En mál þurfa að vera lögð fram í þjóðaratkvæði með þeim hætti að við vitum hvert við erum að fara. Hver er hinn valkosturinn ef að við segjum okkur frá þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem við höfum gengist undir. Erum við tilbúin í áframhaldandi óvissu um þetta mál.
Veit Sturla Jónsson, sem kotroskin birtist á skjánum í gær undir merkjum ICESLAVE með blóðið lekandi af stöfunum, hver er annar og betri kostur í stöðunni? Erum við bara sjálfstæð og engum háð um nokkurn hlut? Hann er maðurinn sem barðist gegn því að íslenskir atvinnubílstjórar þyrftu að virða lögbundin hvíldartíma, samkvæmt EES samningnum. Við áttum að vera eina þjóðin í álfunni þar sem að ekki var þörf á að huga að sameiginlegum stöðlum er settir höfðu verið til að tryggja öryggi í umferðinni.
Margt bendir til þess að sama hvatvísin, skammsýnin og sjálflæga hagsmunamatið sé ráðandi nú hjá þeim sem að leggja hart að forsetanum um að hafna undirskrift laga um að ríkið beri ábyrgð á greiðslu til Hollendinga og Breta vegna útgjalda þeirra vegna tryggingasjóðs innistæðueigenda við fall íslensks banka. Við erum víst sjálfstæð og engum háð. Þurfum ekki að virða umferðarreglur eða öryggisviðmið. Þessi íslenski banki var ekki á okkar vegum.
Verið er að undirbúa löggjöf um þjóðaratkvæði. Það er brýnt og þarft verkefni. Það er ánægjulegt að höfundar hrunsins og flokkarnir sem kokgleyptu það að einn eða tveir menn gætu vélað þjóðina í það hlutskipti að teljast aðilar að stríði, hafi skyndilega fengið áhuga á beinu lýðræði. Vonandi nýtist þessi áhugi þeirra til að löggjöfin fái verðskuldaða athygli allra flokka. Enginn formaður flokkana taldi í Kryddsíld á Stöð 2 að æskilegt væri að senda fjárlög ríkisins í þjóðaratkvæði.
Þannig er það ljóst að sum mál henta ekki til meðferðar og leitar að niðurstöðu með þjóðaratkvæði. Þar er rétt að horfa til reynslu annarra þjóða sem að hafa betri lýðræðisvitund en hefur ríkt á Íslandi. Í raun er ég viss um að 100% þjóðarinnar eru á móti því að borga ICESAVE skuldbindingarnar.Gjarnan vildi ég fá slembiúrtak úr símaskránni til að ákvarða hvort mér beri að borga reikningana mína eða ekki. En enginn stjórnmálaflokkur neitar því að það þurfi að ná sátt við alþjóðasamfélagið í þessu máli. InDefence viðurkennir skuldbindinguna en ekki fyrirliggjandi lagasetningu.
Frá miðjum nóvember í fyrra, með undirskriftum Árna, Geirs og Davíðs, hafa íslensk stjórnvöld gengist við því að þau ætli að endurgreiða Hollendingum og Bretum tilbaka lágmarkstryggingu innistæðna vegna hins fallna íslenska banka. Í tæpt ár höfum við eytt ómældri orku, samningaumleitan og gagnavinnslu í að fá niðurstöðu varðandi greiðslutilhögun lánsins. Þar hafa náðst miklar umbætur frá fyrstu samningsdrögum. Á einhverjum tímapunkti þarf að kveða upp úr um niðurstöðuna og hún liggur fyrir. Það er síðan alltaf auðvelt að gerast bestur riddara og segjast geta náð betri samningi.
Sonur sæll bað um krónu við Peningagjánna á Þingvöllum í dag. Hann óskaði sér um leið og hann kastaði henni ofan á spegilsléttan vatnsflötinn. Peningurinn tók snúninga, sveiflur og dívur. þar til hann lenti á botninum. Ég veit að óskin hans var jákvæð og uppbyggjandi. Veit að hann á það skilið að sú kyrrð og fegurð sem ríktu í þjóðgarðinum í dag verði sterkari einkenni íslensks mannlífis á komandi misserum. Að við látum ekki sundurlyndi og sjálfseyðingarhvöt gefa af sér óþarfa áframhald á óvissu í málefni sem búið er að ná samningum um á alþjóðlegum vettvangi og búið er að samþykkja með lagasetningu frá Alþingi.
ÓSKA ÖLLUM GÆFU, FRIÐAR OG ÁNÆGJU Á NÝJU ÁRI
Tvíklikkið á myndirnar til að stækka þær
Áskorun afhent í fyrramálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2010 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)