Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Útimarkaður Varmársamtakanna slær í gegn

Fleiri hundruð manns létu ekki rigningaveður gærdagsins aftra sér og mættu á útimarkað Varmársamtakanna. Þar ríkti sérlega góð stemming í veitingasölu, grænmetismarkaði og sölubásum. Þær stöllur Sigrún P og Sigrún G prýða baksíðu Morgunblaðsins í dag, en margt í undirbúningi hefur mætt á þeim síðustu dagana.

Í raun er það kraftaverk að fámennur hópur´fólks úr félagasamtökum nái að skipuleggja svona viðburð. Leigð voru þrjú stór tjöld fra skátunum. Tvö þeirra voru sett upp á föstudagskvöldinu í myrkri, rigningu og nokkrum vindi. Það þriðja í gærmorgun.

Nú er lognið og sólin á eftir "storminum". Ákveðið hefur verið að hafa áfram veitingasölu í kvosinni og grænmetissölu. Vanalega hefur laugardagurinn verið markaðsdagurinn og ekkert á sunnudeginum. En vegna veðursins, óþæginda rigningar og dásemda sólarinnar, verður áfram eitthvað fjör í kvosinni í dag.


Rabbabarasulta - Sulta ársins 2008

Tæplega 300 manns hafa nú kosið um bestu sultuna. Lengi vel var tvísýnt um úrslit, því rabbabarasulta og bláberjasulta nutu álíka vinsælda. Síðan hefur rabbabarasultan sigið nokkuð afgerandi fram úr og sigrar með 21,9%, næst kemur bláberja með 16,8% og síðan rifsberja með 16,5%.

Nokkrir fagurkerar voru hér í kvöld að taka út mínar sjö sultugerðir þetta haustið. Samdóma álit var að sólberjasulta væri best, ein og sér. Það að sólberjasultan næði ekki í eitt af þremur efstu sætunum voru mér vonbrigði. Og í aðdáun á þeirri sultu fylgir kona mín mér heilshugar.

Nú er það spurning hvort almenningur á Íslandi sé fákunnandi um sultugerðir eða að aðgengi þeirra og reynsla af rabbabarasultu hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Að með því að kanna hug þrjú hundruð manns sem að fær að smakka allar tegundir að þá hefði komið önnur niðurstða.

En rabbabarasultan er vissulega ágæt og klassísk.


Rauður, gulur, grænn og blár

Regnbogalitir 

Regnbogahlaupið hefst á hinu nýja miðbæjartorgi Mosfellsbæ klukkan tíu á laugardag. Þetta er blanda af hlaupi og kraftgöngu á fellin fjögur umhverfis Mosfellsbæ. Helgafell er rautt, Reykjafell gult, Reykjaborg græn og Úlfarsfell blátt. Allir eru velkomnir.

Upphitun undir suðrænni sveiflutónlist verður á undan. Gert er ráð fyrir að þeir sem hafa þokkalegt þrek séu rúma þrjá tíma að hlaupa hringinn. Einnig er möguleiki að fara hálfan hring. Afgreiða fyrstu tvo fellin og hlaupa síðan til baka eftir stígnum niður með Varmá.

Frekari upplýsingar í síma 699 6684.


Konunglegt, rósrautt, milt og ljúft

Útimarkaður Varmársamtakanna verður nú á laugardag. Auk veitinga og grænmetis verður allt iðandi af fjölbreytilegum og frumlegum mannlífsstraumum. Elísabet Brekkan verður með uppboð á prinsessukjólum og hinn eini sanni eilífðarsjarmör Jón Baldvin hefur umsjón með rósasölunni.

Elísabet    jonbaldvin

Sjá nánar á http://www.varmarsamtokin.blog.is/blog/varmarsamtokin/entry/626202/

Gert er ráð fyrir mildu og góðu veðri

http://www.vedur.is/vedur/spar/stadaspar/faxafloi/#group=11&station=1

Útlitið er sem sagt hagstætt - konunglegt, rósrautt, milt og ljúft


Besta sultan 2008 - Úrslit á laugardag

Fyrir tæpri viku setti ég upp könnun á uppáhaldssultu bloggara. Nú hafa um 140 manns kosið og er kosningin mjög tvísýn. Rabbabarasulta og bláberjasulta skora mest og eru jafnar með um 21% en þar skammt á eftir koma sólberjasulta og rifsberjasulta.

StikilsberFrétti fyrir nokkrum dögum að á útimarkaði í Mosfellsdal mæti menn með krukkurnar og fari í keppni um bestu sultuna eða hverjum hefur tekist best upp í sultugerð. Þannig að líkt og Andri Snær bendir á í Draumalandinu þá geta svipaðar hugmyndir komið fram við svipaðar aðstæður á svipuðum tíma.

 

RabbabariÞví er við hæfi að við tilkynnum úrslit úr þessum sultusamanburði á útimarkaði Varmársamtakanna í Álafosskvos um næstu helgi. Bæði ætti að vera hvatning til dáða á þessu sviði. Enn er nokkuð svigrúm til að fara í berjatínslu og sulta.

 

 

BláberÉg er búin að gera sex sultutegundir og er að verða birgur fyrir veturinn. Fyrst gerði ég krækiberja-, sólberja- og rifsberjasultu, en síðustu dagana hef ég bætt við rabbabara-, stikilsberja-, og bláberjasultu. 

Eftir nokkuð mikla leit að réttu sultukrukkunum, þá fann ég þær með rauðköflótta lokinu í mismunandi stærðum hjá Þorsteini Bergmann - Búsáhaldaverslun í Hraunbæ. Deilið með öðrum reynslu af vinnslu úr berjum (sultur, söft, vín). Og að sjálfsögðu að velja uppáhaldssultuna.


Þjóðaríþróttin

Það er ekkert sem slær út handboltann í skemmtanagildi, spennu og samkennd. Man eftir því að hlusta með ömmu á handboltalýsingar á gufunni sem patti. Hún sat alltaf föst við tækið þegar Ísland var að spila. Hetjan okkar ömmu Ragnhildar var Geir Hallsteinsson. Hann stökk yfir allar varnir. 

Strákarnir eru einfaldlega búnir nú þegar að koma, sjá og sigra þarna í Peking. Nú er bara að hafa gaman af að ljúka þessu með glæsibrag.

             ---- ÁFRAM ÍSLAND ----


mbl.is „Ísland tekur Frakkar á bólið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdablæti og látalæti

Geir H

Það varðar þjóðarhag að skilja sálarlíf Sjálfstæðismanna eins mikið og þeir hafa verið til vandræða með stólahrókeringum í borginni síðustu misserin. Svo virðist sem Hanna Birna borgarstjóri ætli að prófa nýja og mýkri ímynd fyrir flokkinn. Hún segir; "Þessi átakamiðuðu stjórnmál, sem allt of lengi hafa einkennt íslenska pólitík, ættu að vera tækifæri fyrir okkur að endurskoða þá menningu sem oft einkennir stjórnmálin".

Á öðrum stað talar hún um framtíð flugvallarins og lýsir þeirri skoðun sinni að flugvöllurinn þurfi að víkja af þessu verðmæta byggingarlandi fyrir borgina. Þetta er konan sem lét það ganga yfir sig síðustu rúma tvö hundruð dagana að þora ekki að viðra þessa skoðun opinberlega og allt að því gangast undir stefnu Ólafs F um áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýrinni.

Vandamál Sjálfstæðisflokksins er skortur á lýðræðisvitund. Að leita eftir og hlusta eftir viðhorfum fólks. Láta hagsmuni er lúta að mikilleika og völdum flokksins víkja fyrir heilbrigðri skynsemi og heilindum. Við sáum þetta birtast með sjúklegum hætti í skipulagningu hátíðahalda vegna Hannesar Hafstein. Þar sem flokkurinn reyndi að eigna sér hann með öllu og jafnvel að boða til funda um hátíðahöldin meðan forseti landsins var erlendis.

Dagbókarfærslur Matthíasar Jóhannesen hafa fengið mikla athygli síðustu dagana og flestir túlka þær þannig að þeim sé ætlað að koma höggi á tiltekna vinstri menn, meðal annars Ólaf Ragnar Grímsson forseta. Mun áhugaverðara finnst mér að sjá hvernig forystumenn Sjálfstæðisflokksins og miskunnarlaus fjármálaöfl áttu greiðan aðgang að ritstjórum og ritstjórn Morgunblaðsins. Í dagbókunum er persóna og samviska Matthíasar að birtast af fullum heilindum, þó auðvitað hafi hann sína pólitísku sýn sem staðsetur hann í litrófi stjórnmálanna.

Matthías skrifar um viðleitni blaðsins til að rjúfa tengslin við Sjálfstæðisflokkinn; "Það er líka rétt að fyrir sveitastjórnarkosningar 1994 birti Morgunblaðið ávarp frá Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins, meðal aðsendra greina, en ekki á sérstökum stað á útsíðum eins og áður, þótt blaðið hafi lýst yfir stuðningi við stjórnmálastefnu Sjálfstæðisflokksins í forystugreinum. Ég held Davíð hafi aldrei fyrirgefið þessa ákvörðun. Eftir langt samtal okkar í Stjórnarráðinu rétti hann mér greinina og ætlaðist áreiðanlega til að hún yrði birt að venju á útsíðu, en ég tók þá ákvörðun að setja hana inní blað sem aðsenda grein og ber mesta ábyrgð á því".

Matthías og Styrmir eru hættir sem ritstjórar og ljóðskáldið virðist telja að blaðið standi undir nafni sem blað allra landsmanna fremur en flokksmálgagn. Augu og eyru hafa því verið opin fyrir því hvernig ný ristjórn fjallar um borgarmálin, sem verið hafa samfelldur harmleikur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ritstjórnargreinarnar hafa haldið sér við fulla flokkshollystu. Í forystugrein í dag um Hönnu Birnu hrekkur Mogginn í gamla hlutverkið að mæra og upphefja mikilfengleika forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Hrósar sérstaklega áformaðri viðleitni hennar að hafa nánara samstarf  og samráð við minnihlutann í borgarmálum.

Í forystugreininni segir; "Svona hafa ekki margir forystumenn í stjórnmálum talað". Þessi hugtök og áherslur hafa þó verið áherslur Ingibjargar Sólrúnar. Um nauðsyn breytingar á þeim kúltúr sem ríkir í íslenskum stjórnmálum. Þetta var inntak Borgarnesræðunnar, ásamt lýsingu á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áranna rás umgengist valdið. Það er lofsvert hjá Hönnu Birnu að leita eftir samstarfi og opinni umræðu. En afhverju gerir hún það fyrst núna, en ekki strax fyrsta eða annað skiptið þegar flokkurinn myndaði meirihluta? Mogginn, sem flokkslega óháð dagblað hefði átt að benda á þá stöðu í stjórnmálum að Samfylkingin er í mestum takt við væntingar borgarbúa og hefur þá lýðræðisvitund sem einkenna þarf nútímalegt stjórnmálaafl.

Nú hefur flokkurinn uppgötvað að hann þarf að efla tengslin við kjósendur. Hanna Birna ætlar að innleiða "metnaðarfulla fjölskyldustefnu". Í þeim anda er nýji borgarstjórinn ekki sýndur á mynd með guðfeðrum sínum Guðna og Geir, heldur í faðmi eigin fjölskyldu. Vonandi eru þetta ekki látalæti eftir að vera komin í þrönga stöðu. Vonandi á að hlusta eftir þeim málum sem brenna á fólki. Rækta sitt hlutverk sem fulltrúar fólks, en ganga ekki fram af yfirlæti og rembingi sem hinir útvöldu. Þar fannst mér Geir H. Haarde flaska inn á gamaldags flokks og fálkaímynd í viðtali í Markaði Fréttablaðsins, þar sem honum er stillt upp við hlið málverks af föllnum foringja.

Að vitna í Bjarna Ben eða Ólaf Thors þykir flott í Valhöll en ekki meðal almennings, að formaðurinn sé á mynd með málverk af Bjarna Ben eða Ólafi Thors í baksýn þykir flott í Valhöll en ekki meðal almennings. Ein helsta málpípa íhaldsmanna í bloggheimum var búin að stilla Jóni Sigurðssyni, Hannesi Hafstein, Jóni Þorlákssyni, Ólafi Thors, Bjarna Benediktssyni og Davíð Oddssyni öllum í eina röð í hausmynd á síðu sinni. Reyndar hrundi heimsóknartíðni í framhaldi og hann er nú búin að fjarlægja alla karllurkana úr toppstykkinu. Geir Haarde og aðrir Sjálfstæðismenn verða að láta af þessu valdablæti sínu. Að vinna verk sín út frá öðru en mikilfengleika flokksins. Vera auðmjúkir og kumpánlegir fulltrúar fólks. Vonandi sjáum við næst mynd af formanninum í barnahópi á leiksóla. Það væri miklu flottara.


Útimarkaður og regnbogahlaup

markadur 

Varmársamtökin halda árlegan útimarkað sinn laugardaginn 30. ágúst kl. 12-16 í Álafosskvos. Hann er hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar Í túninu heima í Mosfellsbæ. Í fyrra komu fleiri þúsund manns við í Kvosinni og einstök stemming. Hægt er að leigja sölupláss og Varmársamtökin verða með grænmetismarkað og veitingasölu.

Um morguninn kl. 10 stendur hið vaxandi fyrirtæki ATORKA - mannrækt & útivist fyrir svonefndu Regnbogahlaupi  eftir fellunum umhverfis Mosfellsbæ. Þetta er í annað skipti sem þetta hlaup er hluti af dagskránni. Ljóst er að ég mun ekki verða í vetur með jafnmikið af heilsutengdum dans- og jóganámskeiðum og ég hef verið með síðustu ár. Verð í samstarfi við World Class með kennslu á Rope Yoga og Zumba þrekdansi.


Besta sultan 2008

SólberNú er uppskerutími ársins. Töðugjöld og kjötkveðjuhátíðir. Margir fara í berjamó og mæta búralegir með feng sinn og setja afraksturinn í pottana. Sumir eru heimakærir og klassískir og láta duga að gera rabbabarasultu. Aðrir leggja örlítið meira á sig og tína rifsberin af runnunum áður en fuglarnir eru búnir að éta þau. Sólberjarunnar eru líka að verða algengir í görðum. Nú, svo eru þeir sem leggja á sig helgarferðir og fylla skottið af bláberjum og krækiberjum.

RifsberTil að fá umræður um sultugerð set ég inn þessa færslu. Það er áhugavert að heyra af tilþrifum og afbrigðum í þessari iðju sem að er í hámarki um þessar mundir. Ráðleggingar um bestu berjasvæðin, góðar uppskriftir og notkunarmöguleika. Til dæmis finnst mér persónulega að sólber passi best með hreindýrakjöti. En rabbabarasulta er auðvitað best með lambalærinu, brúnuðu kartöflunum og ORA baununum.

KrækiberHér til hliðar hef ég sett upp skoðanakönnun um uppáhaldssultuna. Sú sem nær flestum stigum verður valin besta sultan árið 2008. Það er um að gera að hafa gaman af þessu. Líka hefði mátt segja hér "vinsælasta" sultan en það er bara miklu svalara að tala um þá "bestu".

Set hér myndir af pottunum hjá mér í fyrrakvöld þar sem ég var að sjóða niður sólber, rifsber og krækiber. 


Samfylking næði meirihluta

Miðað við þessa könnun hafa Geir og Guðni misreiknað sig þegar þeir töldu að uppvakningurinn dyggði til að snúa við slöku gengi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borginni.

Samfylkingin næði meirihluta í borgarstjórn ef kosið væri núna og ekki munar miklu á fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.

Einhver gæti sagt af sanngirni að nýr meirihluti væri varla byrjaður að sýna spilin sín. Helsta tromp á hendi er Bitruvirkjun. Að fara í framkvæmdir á útivistarsvæði við Hengil, sem Skipulagsstofnun mælir gegn vegna verulegs mikils rasks á náttúrunni.


mbl.is 26,2% segjast styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband